Ferill 815. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1528  —  815. mál.
Beiðni um skýrslu


frá ríkisendurskoðanda um úttekt á starfsemi Úrvinnslusjóðs.

Frá Jóni Gunnarssyni, Brynjari Níelssyni, Óla Birni Kárasyni, Ásmundi Friðrikssyni, Bryndísi Haraldsdóttur, Vilhjálmi Árnasyni, Haraldi Benediktssyni, Sigríði Á. Andersen og Njáli Trausta Friðbertssyni.


    Með vísan til 17. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016, er þess óskað að ríkisendurskoðandi geri úttekt á Úrvinnslusjóði í samræmi við ákvæði 5. gr., 6. gr. og 6. gr. a laganna.
    Í skýrslunni verði m.a. fjallað um:
          ársskýrslur sjóðsins síðustu fimm ár, hvar megi nálgast þær og hvers vegna þær hafi ekki verið gerðir opinberar, hvaða reglur gildi um greiðslur úr sjóðnum og hvaða annað mat fari fram við ákvörðun um hvert greiða skuli úr sjóðnum,
          greiðslur úr sjóðnum síðustu fimm ár og hvaða fyrirtæki hafi fengið hæstar greiðslur á tímabilinu,
          hvort Úrvinnslusjóður gangi úr skugga um það hjá viðtakendum greiðslna hvert efnin fari sem greiddur er kostnaður fyrir og hvort við taki vottuð endurvinnsluferli, raunveruleg endurvinnsla eða önnur viðurkennd ferli áður en greitt er úr sjóðnum,
          hvort Úrvinnslusjóður fylgi því eftir með öðrum hætti að allar greiðslur úr sjóðnum hafi verið í samræmi við ráðstöfun og þau lögmætu markmið sem að er stefnt, með það að markmiði að koma í veg fyrir ofgreiðslur úr sjóðnum.

Greinargerð.

    Úrvinnslusjóður er sérstök ríkisstofnun og heyrir undir yfirstjórn umhverfisráðherra. Hlutverk Úrvinnslusjóðs, eins og það er skilgreint í lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, er að sjá um umsýslu úrvinnslugjalds og ráðstöfun þess. Úrvinnslusjóði er ætlað að koma upp skilvirku fyrirkomulagi með hagrænum hvötum á úrvinnslu úrgangs sem er tilkominn vegna vara sem falla undir lögin. Sjóðurinn skal leitast við að skapa sem hagkvæmust skilyrði til úrvinnslu úrgangs og semja við aðila um úrvinnslu úrgangs á grundvelli útboða eða verksamninga. Ef gjaldskyld vara eða úrgangur af henni er sannanlega flutt úr landi og komi ekki til úrvinnslu hér á landi skal Úrvinnslusjóður hlutast til um að endurgreiða útflytjanda úrvinnslugjaldið samkvæmt nánari ákvörðun í reglugerð. Samkvæmt lögunum skal Úrvinnslusjóður gera skýrslu um innheimtu og ráðstöfun úrvinnslugjalds eftir uppgjörsflokkum, svo og um magn og skilahlutfall gjaldskyldrar vöru og úrvinnslu hennar.
    Mikilvægi endurvinnslu er mikið rætt í nútímasamfélagi og umhverfismál verða sífellt fyrirferðarmeiri í umræðunni. Síðustu misseri hefur verið talsvert fjallað um endurvinnslu á íslensku sorpi, ekki síst plasti. Stór hluti þess plasts sem fellur til hér á landi er sendur úr landi til endurvinnslu, sem sætir furðu margra. Bent hefur verið á að núgildandi lagaumhverfi og kerfi sem þessum málum eru búin hér á landi hvetji ekki til endurvinnslu innan lands heldur til þess að plast sé flutt til útlanda með tilheyrandi kolefnisspori. Plastið á langan veg fyrir höndum þar sem það hefur viðkomu hjá plastmiðlurum í Hollandi, en er svo sent áfram til Malasíu þar sem alls óvíst er um vottaðar umhverfisvænar endurvinnsluaðferðir eða viðurkennda ferla. Jafnframt eru dæmi þess að stór vigtaður hluti þess plasts sem fluttur er úr landi, og þar með greiddur kostnaður fyrir af Úrvinnslusjóði, séu óhreinindi. Þar með eru opinberar tölur rangar og gefa ekki rétta mynd af raunverulegu magni plasts, þrátt fyrir að fyrir það sé greitt fullt verð með opinberu fé. Einnig hafa verið nefnd dæmi þess í umræðum um þessi mál að töluvert magn þess plasts sem ætlað er til útflutnings, og fyrirtæki fá greitt fyrir sem slíkt, sé í raun urðað á Íslandi. Torvelt er að nálgast opinberar tölur yfir ráðstöfun fjármagns sjóðsins, þar sem ekki hafa verið birtar ársskýrslur Úrvinnslusjóðs frá árinu 2016.
    Ríkisendurskoðandi starfar á vegum Alþingis og er ábyrgur gagnvart því við endurskoðun og eftirlit með rekstri og fjármálum ríkisins. Í úttektinni sem hér er lögð til er lagt mat á frammistöðu stofnunar sem fellur undir eftirlit ríkisendurskoðanda, sbr. 5. gr., 6. gr. og 6. gr. a laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, þar sem kveðið er á um fjárhagsendurskoðun og stjórnsýsluendurskoðun sem og eftirlit ríkisendurskoðanda með tekjum ríkisins.
    Í 1. mgr. 6. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga er kveðið á um stjórnsýsluendurskoðun en hún felur í sér mat á frammistöðu í tengslum við:
     a.      meðferð og nýtingu ríkisfjár,
     b.      hvort hagkvæmni og skilvirkni sé gætt í rekstri stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins,
     c.      hvort framlög ríkisins skili þeim árangri sem að er stefnt.
    Flutningsmenn telja að nauðsynlegt sé að fela ríkisendurskoðanda, sem hefur það hlutverk að hafa eftirlit með og stuðla að umbótum á fjármálastjórn ríkisins og nýtingu almannafjár, að taka saman skýrslu um málið með hliðsjón af 6. gr. a laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. Flutningsmenn binda vonir við að skýrsla ríkisendurskoðanda muni varpa ljósi á hvað veldur þeim brestum sem virðast vera á starfsemi Úrvinnslusjóðs og hvað megi gera til þess að bæta núgildandi kerfi svo opinberum fjármunum sjóðsins sé varið í þá umhverfisvænu ferla og endurvinnslu sem að er stefnt.