Ferill 524. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1529  —  524. mál.




Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um tekjur og skerðingar ellilífeyrisþega.


     1.      Hversu margir ellilífeyrisþegar fengu skertan ellilífeyri og/eða skerta heimilisuppbót á árinu 2020 vegna tekna sem þeir nutu á sama tíma úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, sbr. 16. og 23. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, og 8. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð?
    Svör við fyrirspurn þessari byggjast á upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins. Rétt er að taka fram að þar sem margir ellilífeyrisþegar fá ekki lífeyrisgreiðslur allt árið hefðu upplýsingar um greiðslur á árinu 2020 ekki gefið rétta mynd af stöðunni. Því var ákveðið, að höfðu samráði við fyrirspyrjanda, að byggja upplýsingarnar annars vegar á gögnum fyrir nóvembermánuð 2019 og hins vegar nóvembermánuð 2020. Með því að margfalda mánaðarniðurstöðu með 12 má fá nokkuð góða mynd af ársupphæðum. Einnig er rétt að taka fram að tölur fyrir árið 2020 geta enn tekið breytingum þar sem uppgjör fyrir árið liggur ekki endanlega fyrir auk þess sem ekki hafa allir þeir sem geta átt rétt á ellilífeyri fyrir árið 2020 sótt um eða hlotið fengið afgreiðslu. Þá er ýmsar skattskyldar tekjur, svo sem fjármagnstekjur einstaklinga, ekki að finna í staðgreiðsluskrá og því ekki hægt að leggja mat á raunverulegar endanlegar tekjur þeirra.
    Ellilífeyrisþegar teljast þeir sem hafa sótt um og fengið samþykkt réttindi til ellilífeyris, óháð því hvort þeir fái í raun nokkuð greitt frá TR, á grundvelli hárra tekna. Í nóvember 2019 var fjöldi þeirra sem nutu greiðslna úr lífeyrissjóðum og fengu því ekki fullan ellilífeyri almannatrygginga 34.944. Heildarfjöldi ellilífeyrisþega var 37.583. Í nóvember 2020 var fjöldi þeirra sem nutu greiðslna úr lífeyrissjóðum og fengu því ekki fullan ellilífeyri almannatrygginga 36.154 og heildarfjöldi ellilífeyrisþega 38.939.

     2.      Hver var heildarfjárhæð skerðingarinnar í krónum talin á árinu 2020?
    Kostnaður ríkissjóðs vegna ellilífeyris á árinu 2019 hefði verið rúmlega 38 milljörðum króna hærri en raunin varð ef ekki hefðu komið til greiðslur frá lífeyrissjóðum sem hafa áhrif á greiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar. Samkvæmt áætlun Tryggingastofnunar vegna lokauppgjörs ársins 2020 stefnir í að samsvarandi fjárhæð verði 41–42 milljarðar fyrir það ár.

     3.      Hverjar voru meðalheildartekjur ellilífeyrisþega á árinu 2020 samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum um staðgreiðslu skatts á árinu? Átt er við raunverulegar meðalheildartekjur að teknu tilliti til þeirra skerðinga sem kveðið er á um í 23. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, og 8. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð. Einnig er óskað eftir að tilgreint verði miðgildi tekna.
    Meðalheildartekjur ellilífeyrisþega í nóvember 2019 voru 434.838 kr. Meðalheildartekjur ellilífeyrisþega í nóvember 2020 voru 424.417 kr. Miðgildi heildartekna ellilífeyrisþega í nóvember 2019 var 384.318 kr. og 395.070 kr. í nóvember 2020.
     4.      Hverjar hefðu verið meðalheildartekjur þessara einstaklinga árið 2020 án skerðingar ellilífeyris og heimilisuppbótar vegna tekna úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum? Einnig er óskað eftir að tilgreint verði miðgildi tekna.
    Í nóvember 2019 hefðu meðalheildartekjur ellilífeyrisþega verið 519.047 kr. ef greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum hefðu ekki haft áhrif á greiðslur ellilífeyris almannatrygginga og aðrar bætur. Meðalheildartekjur þessara einstaklinga í nóvember 2020 hefðu verið 513.047 kr. miðað við sömu forsendur og miðgildi heildartekna ef greiðslur úr lífeyrissjóðum hefðu ekki haft á greiðslur almannatrygginga hjá þessum hópi í nóvember 2019 hefði verið 451.353 kr. en 463.471 kr. í nóvember 2020.
    Þessar upplýsingar koma einnig fram í eftirfarandi töflu.

                              Tekjur ellilífeyrisþega nóvember 2019 Tekjur ellilífeyrisþega nóvember 2020
Meðaltal heildartekna 434.838 424.417
Miðgildi heildartekna 384.918 395.070
Meðalheildartekjur ef ekki hefði verið tekið tillit til greiðslna úr lífeyrissjóðum 519.047 513.047
Miðgildi heildartekna ef ekki hefði verið frádráttur vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum 451.353 463.471

    Rétt er að ítreka að þær tölur sem hér eru birtar endurspegla ekki meðaltal allra þeirra sem hafa náð lífeyrisaldri þar sem þeir eldri borgarar sem hafa háar tekjur, hvort heldur sem er atvinnu-, lífeyris- eða fjármagnstekjur, sækja ekki alltaf um ellilífeyri til Tryggingastofnunar.