Ferill 775. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1531  —  775. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, og lögum um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs, nr. 155/2020 (framlenging úrræða o.fl.).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gissur Pétursson, Svanhvíti Yrsu Árnadóttur, Jón Þór Þorvaldsson og Bjarnheiði Gautadóttur frá félagsmálaráðuneytinu, Þóri Gunnarsson frá Alþýðusambandi Íslands, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttir frá BSRB, Isabel Alejandra Diaz frá Stúdentaráði Háskóla Íslands og Jóhönnu Ásgeirsdóttur og Derek Allen frá Landssamtökum íslenskra stúdenta. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, BSRB, KFUM og KFUK, Knattspyrnusambandi Íslands, Landssamtökum íslenskra stúdenta, Stúdentaráði Háskóla Íslands og Ungmennafélagi Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að framlengdar verði tekjutengdar atvinnuleysisbætur og eingreiðsla til þeirra sem voru án atvinnu í upphafi kórónuveirufaraldurs að tilteknum skilyrðum fullnægðum. Jafnframt er lögð til orðalagsbreyting til skýringar á því að þeim sem eru tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins og hafa stundað nám samhliða þátttöku á vinnumarkaði skuli ávallt heimilt að ljúka þeirri önn sem er yfirstandandi óháð því hvenær sótt er um atvinnuleysistryggingar. Loks er lagt til að framlengt verði það tímabil sem íþróttafélög geta sótt um greiðslur til Vinnumálastofnunar á grundvelli laga um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.
    Í umsögnum um málið komu fram ábendingar um að úrræðin sem frumvarpið hefur að geyma ættu að taka til fleiri aðila, annars vegar þyrfti að tryggja námsmönnum rétt til atvinnuleysisbóta og hins vegar að fella æskulýðsstarf undir lög um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.
    Meiri hlutinn telur að svo stöddu ekki unnt að leggjast í svo umfangsmiklar breytingar á frumvarpinu. Hann bendir á að stjórnvöld hafi um þessar mundir aftur komið með úrræði til að tryggja atvinnutækifæri fyrir námsmenn um sumar. Þá sé framlenging á úrræðinu fyrir íþróttafélög lögð til verði þeim aftur gert að fella tímabundið niður starfsemi að hluta eða öllu leyti vegna opinberra sóttvarnaráðstafana.
    Fram kom í umsögn að framlengja þyrfti gildistíma bráðabirgðaákvæðis XV í lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, en það renni út um næstu áramót. Umrætt ákvæði fjallar um rétt einstaklings, sem hefur framfærsluskyldu gagnvart börnum yngri en 18 ára, til 6% af óskertum grunnatvinnuleysisbótum með hverju barni að tilteknum skilyrðum fullnægðum.
    Meiri hlutinn beinir því til ráðuneytisins að kanna hvort framlengja þurfi gildistíma umrædds bráðabirgðaákvæðis.
    Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að sett verði ákvæði til bráðabirgða þess efnis að einstaklingar sem hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur samfellt í 14 mánuði eða lengur hinn 1. maí 2021 skuli fá greiddan 100.000 kr. styrk að tilteknum skilyrðum uppfylltum.
    Meiri hlutinn telur jákvætt að komið sé til móts við þá einstaklinga sem voru án atvinnu í upphafi faraldursins og fengu enn greiddar atvinnuleysisbætur 1. maí 2021. Fyrri úrræði hafa ekki nýst þessum einstaklingum og því mikilvægt að kjör þeirra verði jafnframt bætt í efnahagsaðgerðum stjórnvalda.
    Þá fagnar meiri hlutinn þeim framlengingum sem eru lagðar til skv. 2. gr. um tekjutengdar atvinnuleysisbætur og 4. og 5. gr. um greiðslur vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna íþróttafélaga enda er enn verið að glíma við efnahagslegar afleiðingar kórónuveirufaraldursins.
    Meiri hlutinn leggur til eina tæknilega lagfæringu á frumvarpinu sem varðar dagsetningu í ákvæði til bráðabirgða XVIII í lögum um atvinnuleysistryggingar.
    Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 2. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi: Í stað dagsetningarinnar „30. september 2021“ í 2. mgr. kemur: 31. janúar 2022.

Alþingi, 26. maí 2021.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
frsm.
Ólafur Þór Gunnarsson. Ásmundur Friðriksson.
Anna Kolbrún Árnadóttir,
með fyrirvara.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Vilhjálmur Árnason.