Ferill 569. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 1540  —  569. mál.
Undirskriftir.

2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fullnustu refsinga, nr. 15/2016 (samfélagsþjónusta og reynslulausn).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hönnu Rún Sverrisdóttur og Rögnu Bjarnadóttur frá dómsmálaráðuneyti, Guðmund Inga Þóroddsson frá Afstöðu, félagi fanga á Íslandi, og Steinunni Bergmann frá Félagsráðgjafafélagi Íslands.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Afstöðu, félagi fanga á Íslandi, og Félagsráðgjafafélagi Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til tímabundnar breytingar á lögum um fullnustu refsinga, nr. 15/2016, sem lúta að reynslulausn og heimild til fullnustu með samfélagsþjónustu.
    Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um að tilefni væri til að gera ákvæðin varanleg. Meiri hlutinn áréttar að markmið frumvarpsins sé að stytta boðunarlista til afplánunar refsinga. Æskilegt er að fylgst verði með hvort frumvarpið hafi tilætluð áhrif áður en ákvæðin verða fest varanlega í sessi. Þá telur meiri hlutinn mikilvægt að á gildistíma laganna verði tekið til skoðunar hvort ákvörðun um samfélagsþjónustu skuli vera stjórnvaldsákvörðun eða hvort fela eigi dómstólum þá ákvörðun.
    Meiri hlutinn bendir á að í greinargerð kemur fram að heimildunum í 1. gr. frumvarpsins er ætlað að ná til allra þeirra dóma sem kveðnir hafa verið upp fyrir gildistöku laganna og þegar eru komnir til fullnustu Fangelsismálastofnunar sem og allra dóma sem stofnuninni berast fyrir 1. júlí 2024. Meiri hlutinn telur æskilegt að slík lagaskil komi fram í bráðabirgðaákvæðunum sem um ræðir og leggur til breytingar þess efnis.
    Að auki leggur meiri hlutinn til orðalagsbreytingar á 1. mgr. b-liðar 1. gr. frumvarpsins sem er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 1. gr.
     a.      Á eftir 3. mgr. a-liðar komi ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Ákvæði þetta nær til allra þeirra dóma sem kveðnir hafa verið upp fyrir gildistöku laga þessara og þegar eru komnir til fullnustu til Fangelsismálastofnunar sem og allra dóma sem stofnuninni berast fyrir 1. júlí 2024.
     b.      1. mgr. b-liðar orðist svo:
                      Ef refsing fanga er allt að 90 daga óskilorðsbundið fangelsi er heimilt að veita fanga reynslulausn fimm dögum áður en reynslulausn væri annars veitt. Ef refsing fanga er yfir 90 daga óskilorðsbundið fangelsi er heimilt að veita fanga reynslulausn tíu dögum áður en reynslulausn væri annars veitt.
     c.      Á eftir 1. mgr. b-liðar komi ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Ákvæði þetta nær til allra þeirra dóma sem kveðnir hafa verið upp fyrir gildistöku laga þessara og þegar eru komnir til fullnustu til Fangelsismálastofnunar sem og allra dóma sem stofnuninni berast fyrir 1. júlí 2024.

Alþingi, 27. maí 2021.

Páll Magnússon,
form.
Birgir Ármannsson,
frsm.
Guðmundur Andri Thorsson.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Silja Dögg Gunnarsdóttir. Steinunn Þóra Árnadóttir.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.