Ferill 550. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1541  —  550. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (mansal).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Rögnu Bjarnadóttur og Hildi Sunnu Pálmadóttur frá dómsmálaráðuneyti, Svölu Ísfeld Ólafsdóttur, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík, Margréti Steinarsdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Önnu Láru Steindal og Bryndísi Snæbjörnsdóttur frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Þorstein Gunnarsson og Kristínu Öldu Jónsdóttur frá Útlendingastofnun, Önnu Lúðvíksdóttur og Birnu Guðmundsdóttur frá Íslandsdeild Amnesty International, Þóru Jónsdóttur frá Barnaheillum, Björn Þór Rögnvaldsson og Söndru Heimisdóttur frá Vinnueftirlitinu, Halldór Oddsson frá Alþýðusambandi Íslands, Kristjönu Fenger frá Rauða krossinum á Íslandi og Sigríði Friðjónsdóttur og Margréti Unni Rögnvaldsdóttur frá ríkissaksóknara.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Barnaheillum, Íslandsdeild Amnesty International, Landssamtökunum Þroskahjálp, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Rauða krossinum á Íslandi, Útlendingastofnun og Vinnueftirlitinu.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 1. mgr. 227. gr. a almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, er lúta að refsinæmi mansals í þeim tilgangi að bæta enn frekar vernd þolenda og auðvelda málsókn á hendur þeim sem eru brotlegir.

Umfjöllun nefndarinnar.
Almennt.
    Samhljómur var á meðal gesta um mikilvægi þess að auka réttarvernd þeirra sem verða fyrir mansali ásamt því að unnið verði markvisst gegn mansali. Þá var bent á mikilvægi þess að þær aðgerðir sem komi fram í áherslum stjórnvalda í aðgerðum gegn mansali og annars konar hagnýtingu frá árinu 2019 verði framkvæmdar en auk þess kom ákall um nýja stefnu og aðgerðaáætlun gegn mansali.
    Meiri hlutinn tekur fram að með framangreindum áherslum frá árinu 2019 var sett stefna stjórnvalda í mansalsmálum. Í ljósi þess að baráttan gegn mansali er viðvarandi verkefni hverrar þjóðar var stefnuskjalinu ekki afmarkaður tiltekinn tímarammi, heldur gildir þar til annað verður lagt fram. Þannig eru aðgerðir almennt ekki tímasettar en þó séu tilteknar aðgerðir tímasettar. Meiri hlutinn leggur áherslu á það sem kemur fram í stefnuskjalinu að ætlast sé til að unnið verði að öllum aðgerðunum á skilvirkan hátt og þær sæti reglubundinni endurskoðun í umbótaskyni.

Þolandi mansals.
    Á fundum nefndarinnar var nokkuð rætt um stöðu þolenda mansals. Einkum var áréttað mikilvægi þess að þolendur fái viðeigandi stuðning og meðhöndlun á öllum stigum máls, m.a. að teknu tilliti til stöðu þolenda, eins og fötlunar. Þá var áréttað mikilvægi þess að ríki tryggi að þeir einstaklingar séu ekki settir í varðhald við komu til landsins sem grunur sé um að gætu verið fórnarlömb mansals. Auk þess væri mikilvægt að við 1. gr. frumvarpsins verði bætt þeim fyrirvara að samþykki þolanda mansals hafi engin áhrif á refsiábyrgð.
    Í þessu samhengi bendir meiri hlutinn á að þingsályktun nr. 35/149 um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess sem og áherslur stjórnvalda í aðgerðum gegn mansali og annars konar hagnýtingu frá árinu 2019 hafa mikilvægu hlutverki að gegna í þessum efnum. Þá bendir meiri hlutinn á að lagt hefur verið fram frumvarp þar sem m.a. er leitast við að bæta réttarstöðu brotaþola við meðferð tiltekinna sakamála hjá lögreglu og fyrir dómstólum og að bæta réttarstöðu fatlaðs fólks við meðferð mála hjá lögreglu og fyrir dómstólum (718. mál á yfirstandandi löggjafarþingi).
    Þá er í greinargerð með frumvarpinu fjallað um refsiábyrgð þolenda mansalsbrota og vísar meiri hlutinn til þeirrar umfjöllunar þar sem rakið er að bæði í lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, og almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, er að finna ákvæði sem kveða á um aðstæður þolenda í þessari stöðu. Í ljósi þess telur meiri hlutinn ekki þörf á að bæta þeim fyrirvara við 1. gr. frumvarpsins að samþykki brotaþola hefði engin áhrif á refsiábyrgð, enda um afar alvarleg brot að ræða þar sem þolandi er í mjög viðkvæmri stöðu.

Vinnumansal.
    Við meðferð málsins var bent á að ósamræmi virtist gæta milli skilgreiningar á vinnumansali samkvæmt texta a-liðar 1. gr. frumvarpsins og efni greinargerðarinnar. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að vinnumansal nái yfir nauðungarvinnu, þrælkun, þrældóm eða aðra misnotkun á vinnuafli. Í ákvæðinu er ekki að finna orðalagið „önnur misnotkun á vinnuafli“ og þá væri einnig vert að taka til skoðunar hvort til vinnumansals eigi einnig að teljast vinna við bersýnilega óásættanlegar vinnuaðstæður sem m.a. ógna heilsu og öryggi þolanda.
    Með frumvarpinu er ákvæðið rýmkað, annars vegar er bætt við hagnýtingartegundum í samræmi við þekktar birtingarmyndir mansals og hins vegar eru gerðar breytingar á 1. tölul. 1. mgr. 227. gr. almennra hegningarlaga, þar á meðal er fleiri verknaðaraðferðum bætt við upptalninguna. Meiri hlutinn telur að svo stöddu, m.a. með hliðsjón af skýrleika refsiheimilda, ekki tilefni til að rýmka ákvæðið með frekari hætti en nú er gert en telur mikilvægt að fylgst verði með framkvæmd og þróun á sviði mansals svo að ákvæðið þjóni tilgangi sínum.

Hugtakanotkun.
    Í umsögn Útlendingastofnunar er vakin athygli á að æskilegt væri að samræma hugtakanotkun frumvarpsins við gildandi lög eða þýðingu þeirra við enska orðnotkun en einnig væru sum hugtökin ekki skilgreind. Meiri hlutinn telur ekki ástæðu til að bregðast við framangreindum ábendingum en áréttar framangreint sjónarmið um eftirfylgni með framkvæmd og þróun í þessum málaflokki. Eins og áður hefur komið fram sæta aðgerðir íslenskra stjórnvalda gegn mansali reglubundinni endurskoðun, þar á meðal sú aðgerð er lýtur að endurskoðun laga, reglna og stjórnvaldsfyrirmæla á sviði mansals.

    Að öllu framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 27. maí 2021.

Páll Magnússon,
form.
Birgir Ármannsson,
frsm.
Guðmundur Andri Thorsson.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Silja Dögg Gunnarsdóttir. Steinunn Þóra Árnadóttir.
Þorsteinn Sæmundsson.