Ferill 775. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1543  —  775. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, og lögum um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs, nr. 155/2020 (framlenging úrræða o.fl.).

Frá minni hluta velferðarnefndar.


    Minni hluti velferðarnefndar styður frumvarpið en telur það mikil vonbrigði að stjórnvöld ætli enn og aftur að skilja námsmenn eftir þegar kemur að nauðsynlegum úrræðum vegna atvinnuleysis. Minni hlutinn leggur því til breytingar á frumvarpinu þess efnis að brugðist verði við fyrirsjáanlegum atvinnuvanda námsmanna á komandi sumri. Það er deginum ljósara að fjöldamargir námsmenn verða án atvinnu yfir sumartímann og verða þar með af tekjum sem þeir hefðu ella reitt sig á. Af þessum sökum er lagt til að námsmönnum verði tryggður réttur til atvinnuleysisbóta í sumar.
    Allt að 70% námsmanna framfleyta sér með hlutastörfum samkvæmt könnun EUROSTUDENT en fjöldi slíkra starfa hvarf í faraldrinum án þess að stjórnvöld tækju tillit til þess og kæmu námsmönnum til aðstoðar. Vakin er athygli stjórnvalda á því að námsmönnum sem taka námslán hefur fækkað um helming á undanförnum 10 árum, oftar en ekki vegna ónógrar framfærslufjárhæðar námslána. Námsmenn greiða sinn hluta inn í atvinnuleysistryggingakerfið þegar þeir eru úti á vinnumarkaði án þess að njóta nokkurra réttinda í kerfinu. Það skapar misrétti sem ekki er hægt að gera námsmönnum og fjölskyldum þeirra að búa við.
    Að framangreindu virtu leggur minni hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Á eftir 3. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 52. gr. er heimilt að greiða atvinnuleysisbætur frá 1.júní 2021 til 31. ágúst 2021 til þeirra sem stunda nám, sbr. c-lið 3. gr.

Alþingi, 28. maí 2021.

Helga Vala Helgadóttir,
form., frsm.
Guðmundur Ingi Kristinsson. Halldóra Mogensen.