Ferill 755. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1545  —  755. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, um breytingu á lögum um aukatekjur ríkissjóðs og um breytingu á lögum um leigu skráningarskyldra ökutækja (ökutækjaleigur, tækifærisleyfi og rekstrarleyfi).

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigrúnu Brynju Einarsdóttur og Þórarin Örn Þrándarson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Elsu Maríu Rögnvaldsdóttur frá Matvís, Jón Viðar Matthíasson frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, Jóhann Gunnar Þórarinsson og Sigríði Kristinsdóttur frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, Óskar Ísfeld Sigurðsson og Rósu Magnúsdóttur frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Höllu Bergþóru Björnsdóttur, Jóhann Karl Þórisson og Björn Stein Sveinsson frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Skarphéðin Berg Steinarsson frá Ferðamálastofu, Valgerði Rún Benediktsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Sigrúnu Henríettu Kristjánsdóttur og Guðrúnu Huld Birgisdóttur frá Samgöngustofu.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Ferðamálastofu, Félagi atvinnurekenda, Félagi fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, Matvís – Matvæla- og veitingafélagi Íslands og Samkeppniseftirlitinu.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem fela í sér rýmkun aldursskilyrða rekstrarleyfishafa vegna veitinga- og gististaða, styttingu málsmeðferðartíma vegna útgáfu tækifærisleyfa, lækkun á gjaldi vegna rekstrarleyfa veitinga- og gististaða sem heimila sölu áfengis og afnám þess skilyrðis að starfsstöð ökutækjaleigu skuli vera opin almenningi. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að það byggist m.a. á tillögum OECD sem birtar voru í skýrslu stofnunarinnar um samkeppnismat íslenskrar ferðaþjónustu og byggingariðnaðar, dags. 10. nóvember 2020.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Nefndin ræddi sérstaklega lagaumhverfi ferðaþjónustu en við meðferð málsins kom fram það sjónarmið að bæði löggjöfin og stjórnsýslan þyrftu að vera kvikari og bregðast skjótar við breyttu rekstrarumhverfi fyrirtækja í ferðaþjónustu. Vísað var til þess að ekki aðeins hafi fjöldi ferðamanna til landsins nær fjórfaldast frá árinu 2007 heldur hafi orðið miklar breytingar í t.d. sölu gistiþjónustu og hafi löggjafinn ekki náð að halda nægilega í við þá þróun. Nú séu mun fjölbreyttari gistimöguleikar í boði auk þess sem sala gistingar hafi færst að stórum hluta yfir í bókunarþjónustur að ógleymdu deilihagkerfinu. Þá hafi miklar breytingar orðið í veitingamennsku. Mikilvægt sé að löggjöfin taki skýrara mið af þessu og þar skipti sjónarmið um gæðamál og neytendavernd miklu.
    Nefndin ræddi einnig tölfræði tengda ferðaþjónustu og mikilvægi þess að greina og birta tölfræðilegar upplýsingar um ferðahegðun hér á landi sem nýtist m.a. við uppbyggingu, mat á árangri og stefnumótun í ferðaþjónustu. Fyrir nefndinni kom fram að svigrúm væri til umbóta og tímabært að endurskoða kerfisbundna gagnasöfnun, m.a. með hliðsjón af þeim tölfræðilegu upplýsingum sem henni er ætlað að veita.
    Með vísan til þess að frumvarpið er einungis liður í þeirri vinnu að bæta rekstrarskilyrði í ferðaþjónustu, líkt og segir í greinargerð, beinir nefndin því til ráðuneytisins að taka framangreint sérstaklega til skoðunar.

Frestur til að sækja um tækifærisleyfi (2. gr.).
    Með 2. gr. frumvarpsins er lögð til sú breyting á 4. mgr. 17. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, að lögbundinn frestur til að sækja um tækifærisleyfi með þriggja vikna fyrirvara fyrir viðburð verði felldur brott. Breytingunni er ætlað að stytta málsmeðferðartíma eins og frekast er unnt með því að í reglugerð verði kveðið á um umsóknarfrest og málsmeðferðartíma þar sem tekið er mið af eðli og umfangi viðkomandi viðburðar sem geti verið mjög mismunandi.
    Fyrir nefndinni kom fram gagnrýni á að umsóknarfresturinn væri felldur brott úr lögunum. Fresturinn hafi áður verið ein vika en var lengdur í þrjár vikur árið 2016, þá með vísan til þess að þegar umsókn um tækifærisleyfi er til meðferðar getur umsagnarferlið verið tímafrekt og tekið lengri tíma en sjö daga. Fram kom sjónarmið um að í stað þess að afnema lögbundinn frest með öllu væri farsælast að kveðið væri á um lágmarksfrest í lögunum í stað reglugerðar, m.a. vegna skipulags löggæslu og brunavarna, enda þeir viðburðir sem sótt er um tækifærisleyfi fyrir almennt þess eðlis að þeir þurfi skoðunar við áður en tekin er ákvörðun um að veita leyfið.
    Nefndin fellst á þetta sjónarmið og leggur til í ljósi framangreinds að áfram verði kveðið á um umsóknarfrest í lögunum. Í stað þriggja vikna verði fresturinn hins vegar styttur niður í tvær vikur.
    Breytingartillaga nefndarinnar er að öðru leyti tæknilegs eðlis.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      2. gr. orðist svo:
                      Í stað orðanna „þriggja vikna“ í 1. málsl. 4. mgr. 17. gr. laganna kemur: tveggja vikna.
     2.      Fyrirsögn frumvarpsins verði: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, lögum um aukatekjur ríkissjóðs og lögum um leigu skráningarskyldra ökutækja (leyfisveitingar o.fl.).


    Ásmundur Friðriksson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis. Helgi Hrafn Gunnarsson og María Hjálmarsdóttir skrifa undir álit þetta með fyrirvara.

Alþingi, 28. maí 2021.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Haraldur Benediktsson,
frsm.
Halla Signý Kristjánsdóttir.
Ásmundur Friðriksson. Helgi Hrafn Gunnarsson,
með fyrirvara.
María Hjálmarsdóttir,
með fyrirvara.
Njáll Trausti Friðbertsson. Ólafur Ísleifsson. Sigurður Páll Jónsson.