Ferill 354. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1549  —  354. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gissur Pétursson, Halldóru Dröfn Gunnarsdóttur og Önnu Tryggvadóttur frá félagsmálaráðuneyti, Harald Líndal Haraldsson og Arnar Haraldsson frá HLH ráðgjöf, Rannveigu Einarsdóttur, Fanneyju D. Halldórsdóttur, Huldu B. Finnsdóttur og Eirík K. Þorvarðarson frá Hafnarfjarðarbæ, Jóhönnu Lilju Ólafsdóttur frá Kópavogsbæ, Guðrúnu Sigurðardóttur frá Akureyrarbæ, Guðjón S. Bragason, Maríu Kristjánsdóttur, Bryndísi Gunnlaugsdóttur, Svandísi Ingimundardóttur og Valgerði Rún Benediktsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Regínu Ásvaldsdóttur og Helga Grímsson frá Reykjavíkurborg, Björn Brynjúlf Björnsson hagfræðing, Þorstein Hjartarson frá sveitarfélaginu Árborg, Arndísi Soffíu Sigurðardóttur, sýslumann í Vestmannaeyjum, Bryndísi Snæbjörnsdóttur og Friðrik Sigurðsson frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Sigurveigu Þórhallsdóttur og Guðrúnu Lindu Jóhannsdóttur frá umboðsmanni barna, Heiðu Björgu Pálmadóttur, Guðrúnu Sigurjónsdóttur og Ingva Snæ Einarsson frá Barnaverndarstofu og Helgu Sigríði Þórhallsdóttur og Steinunni Birnu Magnúsdóttur frá Persónuvernd.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá ADHD samtökunum, Akureyrarbæ, Barnaheill – Save the Children á Íslandi, Barnaverndarstofu, Félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands, Félagsráðgjafafélagi Íslands, Hafnarfjarðarbæ, Kópavogsbæ, Landssamtökunum Þroskahjálp, Lúðvík Júlíusyni, Persónuvernd, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Sveitarfélaginu Árborg, sýslumanninum í Vestmannaeyjum, umboðsmanni barna, Þroskaþjálfafélagi Íslands og Öryrkjabandalagi Íslands auk sameiginlegrar umsagnar Sjónarhóls – ráðgjafarmiðstöðvar, ADHD samtakanna, Landssamtakanna Þroskahjálpar, Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra og Umhyggju – félags langveikra barna.
    Þá bárust nefndinni minnisblöð frá félagsmálaráðuneytinu og Persónuvernd.

Almennt.
    Vorið 2018 hélt þáverandi velferðarráðuneyti ráðstefnu og vinnufundi um snemmtæka íhlutun í málefnum barna. Niðurstöður ráðstefnunnar og vinnufundanna sýndu skýran vilja til aukins þverfaglegs samstarfs innan þeirra kerfa sem veita börnum og fjölskyldum þjónustu og skal hún ávallt vera með hagsmuni barna í fyrirrúmi sem og alþjóðlegar skuldbindingar. Í kjölfarið fór af stað heilmikil vinna og er frumvarpið ein afurð hennar. Haustið 2018 skrifuðu svo félags- og jafnréttismálaráðherra, heilbrigðisráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra, dómsmálaráðherra, forsætisráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga undir viljayfirlýsingu í þeim tilgangi að brjóta niður múra milli kerfa, bæta þjónustu í þágu barna og skapa barnvænt samfélag. Þar lýstu aðilar yfir vilja til að auka samstarf milli málefnasviða sem undir þá heyra og varða velferð barna.
    Í kjölfar þess var sett á laggirnar þingmannanefnd um málefni barna sem skipuð var fulltrúum allra þingflokka. Þá var einnig stofnaður stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna. Frá árinu 2018 hefur margvísleg vinna farið fram í þessum hópum, í hliðarhópum þingmannanefndarinnar og á vinnufundum og ráðstefnum þar sem stjórnvöld hafa átt ítarlegt samtal við fagfólk sem veitir þjónustu í þágu farsældar barna, hagsmunasamtök og börn.
    Ein stærsta ábendingin sem fram kom í framangreindri vinnu var að gerðar yrðu umbætur á uppbyggingu stjórnsýslu ríkisins hvað varðar velferðarþjónustu í þágu barna. Frumvarp þetta, ásamt frumvörpum um Barna- og fjölskyldustofu og um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, byggjast á þeirri vinnu og samráði ýmissa aðila sem koma að velferð barna.
    Með frumvarpinu er lagt til að þjónusta í þágu farsældar barna verði samþætt og að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að þjónustu við hæfi án hindrana. Samstarf um veitingu þjónustu í þágu farsældar barna er formfest auk þess sem skilyrði eru sköpuð til að unnt sé að bregðast fyrr við tilteknum aðstæðum eða erfiðleikum í lífi barns með viðeigandi stuðningi þegar þörf þykir. Í frumvarpinu er lögð áhersla á að stjórnsýsla og eftirfylgni mála sé skilvirk og eins einföld í framkvæmd og mögulegt er út frá sjónarhorni barna og foreldra.
    Samhliða frumvarpi þessu leggur félags- og barnamálaráðherra fram fyrrnefnd frumvörp sem kveða á um stofnun tveggja nýrra stjórnsýslustofnana, annars vega Barna- og fjölskyldustofu og hins vegar Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Markmið frumvarpanna er að mynda nýjan ramma um fyrirkomulag ríkisins í velferðarþjónustu barna.

Umfjöllun nefndarinnar.
Sýslumenn sem þjónustuveitendur.
    Í 5. og 14. tölul. 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um að þjónustuveitandi sé sá sem veitir þjónustu sem mælt er fyrir um í lögum og sé veitt á vegum ríkis eða sveitarfélaga og á þátt í að efla og/eða tryggja farsæld barns. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að ákvæðið eigi við um þjónustu en að stjórnvöld, sem eingöngu hafa áhrif á hagsmuni barna með töku ákvarðana um rétt eða skyldur, en veiti ekki eiginlega þjónustu, teljist ekki til þjónustuveitenda. Úrskurðaraðilar, svo sem sýslumenn, teljist því ekki þjónustuveitandi í skilningi ákvæða frumvarpsins.
    Fyrir nefndinni komu fram þau sjónarmið að sýslumenn eigi að teljast þjónustuveitendur í skilningi frumvarpsins þar sem þeir veiti ýmiss konar þjónustu í þágu barna sem falli ekki undir úrskurðarhlutverk þeirra.
    Meiri hlutinn lítur svo á að með frumvarpinu sé ekki ætlunin að stjórnvöld verði skilgreind annaðhvort sem þjónustuveitendur eða ekki. Frekar er lögð áhersla á að ákveðin verkefni geti talist til þjónustu. Í því sambandi má t.d. líta til hlutverks Útlendingastofnunar sem bæði fer með ákvörðunarvald í málum og veitir þjónustu í þágu barna, t.d. búsetuþjónustu.
    Meiri hlutinn ítrekar þá afstöðu sína að samkvæmt frumvarpinu geta stjórnvöld verið skilgreind sem þjónustuveitendur við framkvæmd ákveðinna verkefna þótt þau fari jafnframt með vald til að taka stjórnvaldsákvarðanir. Ummælin í frumvarpinu á ekki að skilja sem svo að það útiloki tiltekin stjórnvöld frá því að falla innan gildissviðs ákvæða frumvarpsins. Við skilgreiningu á þjónustuveitanda ætti því að líta til skilgreiningar á farsældarþjónustu, eins og hún er nánar útfærð í III. kafla frumvarpsins.

Vinnslusamningar.
    Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að almennt verði ekki gert ráð fyrir að Barna- og fjölskyldustofa geri vinnslusamninga við stjórnvöld og einstaklinga sem vinna með upplýsingar á grundvelli frumvarpsins. Í staðinn verði settar reglur sem fela í sér skuldbindingar þeirra stjórnvalda sem teljast vinnsluaðilar gagnvart Barna- og fjölskyldustofu.
    Nefndinni bárust athugasemdir um framangreint fyrirkomulag og að æskilegt væri að í greinargerð væri vísað til þess að í sumum tilvikum væri hagkvæmara að gera vinnslusamninga. Meiri hlutinn telur ekki nauðsynlegt að Barna- og fjölskyldustofa geri vinnslusamninga við alla aðila sem munu vinna með persónuupplýsingar í gagnagrunnum stofnunarinnar vegna ákvæða laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018. Stofnunin muni hafa svigrúm til að útfæra reglur um vinnslu persónuupplýsinga, t.d. með því að setja fram staðlaðar reglur sem gilda um alla þjónustuveitendur og einnig sérstakar reglur um vinnslu persónuupplýsinga hjá hópum þjónustuveitenda. Meiri hlutinn tekur því ekki undir athugasemdir um að hagkvæmara sé að uppfylla skilyrði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, með gerð vinnslusamninga fram yfir setningu reglna.

Stigskipting þjónustu.
    Í umsögnum til velferðarnefndar komu fram athugasemdir og ábendingar varðandi stigskiptingu þjónustu, sem kveðið er á um í III. kafla frumvarpsins. Sérstaklega komu fram ábendingar um nauðsyn þess að skilgreina frekar fyrsta, annað og þriðja stig þjónustu. Meiri hlutinn tekur undir það mat ráðuneytisins að skilgreina ekki þjónustuveitanda á hverju stigi heldur leggja áherslu á að hver þjónustuþáttur tilheyri ákveðnu stigi. Þarfir barna geti verið mismiklar á hverjum tíma auk þess sem óráðlegt sé að ganga út frá sömu þjónustuþörf allra barna. Þá lítur meiri hlutinn svo á að þjónusta á hverju stigi miði að því að minnka þjónustuþarfir barns, þar sem við á.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að stigskipting þjónustu verði nánar útfærð í reglugerð ráðherra og bendir á nauðsyn þess að fagleg sjónarmið ráði för við stigskiptingu þjónustu. Meiri hlutinn telur því rétt að stýrihópur Stjórnarráðsins um málefni barna og eftir atvikum þingmannanefnd um málefni barna leiði það verkefni.

Tengiliðir og málstjórar.
    Frumvarpið felur í sér það nýmæli að börn og fjölskyldur þeirra hafi aðgang að tengilið í nærumhverfi og gert er ráð fyrir að barni sé skipaður málstjóri þegar þörfin fyrir þjónustu er metin meiri. Gert er ráð fyrir að tengiliðir veiti barni og fjölskyldu þess þjónustu á fyrsta þjónustustigi. Þá er gert ráð fyrir því að viðkomandi tengiliður hitti barnið reglulega og þekki þarfir þess og er mikilvægt að traust ríki á milli tengiliðar og barns og fjölskyldu. Í frumvarpinu er lagt til að tengiliðir yngri barna séu á heilsugæslu. Með því verði unnt að tryggja áðurnefnda þætti, enda er ungbarnaeftirlit virkt um allt land og þegar hluti af þeirri þjónustu sem veitt er yngri börnum. Með uppvexti barns færist tengiliður síðar til þess skóla þar sem barnið stundar nám. Tengiliðum er ætlað að leiðbeina, veita ráðgjöf og hafa yfirsýn yfir þá þjónustu sem stendur barninu til boða og þá þjónustu sem barnið nýtur.
    Þegar fyrir liggur að barn hefur þörf fyrir frekari þjónustu en veitt er á fyrsta stigi og þörf er á fjölþættri þjónustu á öðru eða þriðja stigi er í frumvarpinu gert ráð fyrir að sveitarfélag tilnefni málstjóra þjónustu í þágu farsældar barns.
    Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga er lagt til að tengiliðir verði skilgreindir sem málsvarar barna. Meiri hluti nefndarinnar bendir á að samkvæmt frumvarpinu skuli tengiliðir vera innan veggja skóla barnsins og á barnið og fjölskylda þess að hafa greiðan aðgang að sínum tengilið. Verkefni tengiliðar séu fyrst og fremst að vera tenging barns og fjölskyldu þess við þjónustukerfi í þágu barna og að leiðbeina. Hann á þannig að styðja við þjónustu á fyrsta stigi í nærumhverfi barnsins og fjölskyldu. Að mati meiri hlutans fellur það ekki að þessum hugmyndum um samvinnu milli þjónustukerfa að skilgreina tengiliði sem málsvara.
    Með sömu framangreindum rökum tekur meiri hlutinn ekki undir athugasemdir um að tengiliður geti í ákveðnum tilvikum verið starfsmaður félagsþjónustu sveitarfélagsins. Í umsögn Persónuverndar um þetta atriði kemur fram að það geti það skapað óþægindi fyrir barnið að tengiliður þess sé í nærumhverfi. Að mati meiri hlutans væri um að ræða grundvallarbreytingu á hugmyndafræði frumvarpsins ef barn og fjölskylda þess hefði ekki greiðan daglegan aðgang að tengiliðnum. Starfsmenn félagsþjónustu sveitarfélaga eru í ákveðinni fjarlægð frá barninu og því ekki til þess fallnir að sinna hlutverki tengiliða. Þá leggur meiri hlutinn áherslu á að samþætting er valkvæð og að börn og fjölskyldur geta kosið hvort tengiliður fær aðgang að viðkvæmum upplýsingum á grundvelli frumvarpsins eða ekki. Þá stendur þeim ávallt til boða að óska eftir þjónustu á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991.
    Í umsögnum sem nefndinni bárust komu fram athugasemdir varðandi menntunar- og hæfniskröfur tengiliða og málstjóra. Þau sjónarmið sem þar vegast á varða annars vegar hagsmuni sveitarfélaga, þá sérstaklega þeirra smærri, af því að hafa svigrúm við útfærslu menntunarkrafna og möguleika þeirra á að fá sérfræðimenntaða einstaklinga til vinnu og hins vegar sjónarmið um að tryggja verði að vinna með börnum sé fagleg og að þeir sem henni sinni hafi hæfni til starfans. Í frumvarpinu er ráðherra veitt heimild til að setja reglugerð um þennan þátt, þ.e. menntun og hæfni tengiliða og málstjóra. Meiri hlutinn telur mikilvægt að í slíkri reglugerð verði gerðar faglegar kröfur en að jafnframt verði tryggður nægur sveigjanleiki svo minni sveitarfélög geti uppfyllt þær skyldur sem lögin kveða á um. Þá bendir meiri hlutinn á að í 24. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir samvinnu sveitarfélaga um þau verkefni sem lögbundin verða. Meiri hlutinn telur ljóst að verkefni á höndum málstjóra geti vel haldist í hendur við samvinnu sveitarfélaga um verkefni félagsþjónustu sveitarfélaga, sbr. 7. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, og að verkefni tengiliða geti fylgt samvinnu vegna leik- og grunnskóla, sbr. 28. gr. laga um leikskóla, nr. 90/2008, og 1. mgr. 45. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008.

Ósk um samþættingu.
    Í umsögnum til nefndarinnar vegast á mismunandi sjónarmið, þ.e. hvort samþætting þjónustu við barn eigi að vera þjónustuboð eða skylda. Meiri hlutinn leggur áherslu á mikilvægi þess að þjónusta við börn sé samþætt eftir því sem unnt er. Við mat á því hvort unnt sé að leggja á slíka skyldu lítur meiri hlutinn svo á að sjónarmið um persónuvernd og réttindi foreldra og barna til að hafa áhrif á eigið líf vegi þyngra. Meiri hlutinn er því sammála mati ráðuneytisins að samþætting þjónustu skuli vera valkvæð, en leggur áherslu á að þessi þáttur, líkt og aðrir þættir frumvarpsins, verði metinn út frá reynslu og endurskoðaður ef þurfa þykir.
    Meiri hlutinn bendir þó á að upp geti komið þær aðstæður að foreldri hafi ekki innsýn í þarfir barnsins. Þá er mikilvægt að þjónustuveitendur komi þar að máli og leggi mat á það hvort um tilkynningarskylt atvik samkvæmt barnaverndarlögum sé að ræða. Í frumvarpi til barnaverndarlaga er gert ráð fyrir sérstökum farvegi varðandi samþættingu þjónustu í barnaverndarlögum og er samþætting þjónustu eitt þeirra úrræða sem hægt er að úrskurða um án samþykkis foreldra. Ef afleiðingar þess að foreldri eða barn þiggur ekki samþættingu þjónustu ná ekki því alvarleikastigi sem fjallað er um í barnaverndarlögum kemur barnaverndarþjónusta ekki að máli barnsins og reynir þá á aðrar heimildir laga til samvinnu minni þjónustuveitenda.

Samræmdar tæknilausnir.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að Barna- og fjölskyldustofa reki gagnagrunn og stafrænar lausnir og að öll vinnsla persónuupplýsinga fari fram innan þess gagnagrunns. Meiri hlutinn tekur undir ábendingar Persónuverndar og telur mikilvægt að slíkur gagnagrunnur verði aðgangsstýrður og að virkt eftirlit verði haft með uppflettingum í gagnagrunninum. Þar sem þær upplýsingar sem unnið verður með á grundvelli frumvarpsins eru að meginstefnu til viðkvæmar persónuupplýsingar um ólögráða einstaklinga leggur meiri hlutinn mikla áherslu á að öryggi verði tryggt og að gætt verði að persónuupplýsingum í hvívetna.
    Samkvæmt upplýsingum nefndarinnar hefur verið unnið að þróun gagnagrunns í barnavernd og að vonir standi til að unnt verði að byggja gagnagrunn samþættingar á sama grunni. Líkur séu þó að sá gagnagrunnur verði ekki tilbúinn þegar lögin taka gildi. Fyrir nefndinni komu fram ábendingar frá Persónuvernd um mikilvægi þess að kveðið verði skýrt á um það að skráning, miðlun og önnur vinnsla persónuupplýsinga á grundvelli ákvæða frumvarpsins verði eingöngu heimil í sameiginlegu upplýsingakerfi eða gagnagrunni sem Barna- og fjölskyldustofa hafi umsjón með. Að mati Persónuverndar er óásættanlegt að slík vinnsla hefjist áður en tryggt hefur verið að öryggi upplýsinganna samrýmist lögum nr. 90/2018. Ef ekki verður unnt að tryggja framangreint öryggi persónuupplýsinga telur Persónuvernd nauðsynlegt að fresta gildistöku laganna.
    Vegna framangreindra athugasemda Persónuverndar ítrekar meiri hlutinn fyrri afstöðu um mikilvægi þess að öryggi verði tryggt við vinnslu persónuupplýsinga þrátt fyrir að stafrænar lausnir verði ekki tilbúnar við gildistöku laganna. Engin vinnsla persónuupplýsinga verður heimil sem ekki samrýmist lögum nr. 90/2018 þótt ákvæði frumvarpsins taki gildi áður en gagnagrunnur og stafrænar lausnir verða að veruleika. Heimildir um vinnslu persónuupplýsinga samkvæmt ákvæðum frumvarpsins verða því ekki að veruleika nema að því marki sem öryggi við vinnslu persónuupplýsinga heimilar.
    Þá bendir meiri hlutinn á að fyrstu þrjú ár eftir gildistöku eru skilgreind sem innleiðingartímabil, sbr. kaflann um innleiðingu hér síðar. Meiri hlutinn telur því ekki þörf á að seinka gildistöku laganna enda hefur hún upplýsingar um að allir innviðir séu reiðubúnir til að hefa innleiðingarferli um næstu áramót.

Veitendur þjónustu í þágu farsældar barna (þriðji geirinn).
    Nefndinni bárust umsagnir um aðra þætti frumvarpsins sem veita heimildir til vinnslu persónuupplýsinga, m.a. um að þeir sem veita almenna þjónustu í þágu farsældar barna fái heimildir til vinnslu slíkra upplýsinga. Meiri hlutinn bendir á að samkvæmt frumvarpinu eru lagðar vægari skyldur á þá sem veita almenna þjónustu í þágu farsældar, þ.e. að þeir skuli „leitast við“ að fylgjast með velferð og farsæld barns, sbr. 14. gr. frumvarpsins. Af ákvæðum frumvarpsins má sjá að þessir aðilar taka ekki þátt í samþættingu nema fyrir liggi beiðni foreldris og/eða barns þar um. Gert er ráð fyrir að vinnsla persónuupplýsinga hjá þeim sem veita almenna þjónustu í þágu farsældar barna sé skýrt aðgreind frá annarri starfsemi þessara aðila. Þá er gert ráð fyrir að persónuupplýsingum sé eytt um leið og vinnsluheimildir ná ekki lengur yfir þær. Að mati meiri hlutans eru þessar vinnsluheimildir skýrar og meðalhófs gætt og til þess fallnar að ná fram markmiðum frumvarpsins.

Innleiðing.
    Í ákvæði til bráðabirgða er lagt til að ráðherra beri ábyrgð á því að gera viðeigandi ráðstafanir til að undirbúa gildistöku laganna og styðja við innleiðingu þeirra. Í umsögnum og við umfjöllun nefndarinnar komu fram sjónarmið um að mikilvægt væri að sérstakur stýrihópur kæmi að innleiðingunni enda væru reglugerðarheimildir margar og mikilvægt að margs konar sjónarmið yrðu sætt eftir þörfum.
    Meiri hlutinn bendir á að í félagsmálaráðuneytinu hefur farið fram mikil vinna sem mun nýtast við innleiðinguna. Þá hefur ráðuneytið upplýst nefndina um að verði frumvarpið að lögum hafi það í hyggju að ráða í það minnsta einn starfsmann sem muni eingöngu vinna að innleiðingu laganna. Meiri hlutinn telur rétt að nýta þá vinnu og þá hópa sem þegar eru að störfum við að halda utan um verkefnið, þ.e. stýrihóp Stjórnarráðsins um málefni barna og þingmannanefnd um umálefni barna. Til að styðja enn frekar við innleiðingarverkefnið telur meiri hlutinn mikilvægt að skipaður verði formlegur starfshópur aðila úr röðum þjónustuveitenda og þjónustuþega, barna og foreldra. Til að tryggja nauðsynlega aðkomu sveitarfélaga að innleiðingu laganna á öllum stigum telur meiri hlutinn nauðsynlegt að hvert sveitarfélag tilnefni sérstakan tengilið á tímabili innleiðingar auk þess sem þverfaglegir svæðisbundnir innleiðingarhópar verði starfandi.
    Meiri hlutinn telur ljóst að jafn viðamikil löggjöf og hér um ræðir þarfnist rýmri tíma en vanalegt er til innleiðingar. Meiri hlutinn leggur til að þau úrræði sem mælt er fyrir um verði að fullu innleidd að fimm árum liðnum frá gildistöku laganna. Þó verði endurmetið að þremur árum liðnum hvort þörf sé á því að lengja, eða eftir atvikum hvort tilefni sé til þess að stytta, áðurnefnt innleiðingartímabil. Meiri hlutinn leggur áherslu á að stýrihópur Stjórnarráðsins um málefni barna og aðrir þeir sem koma að gerð reglugerða á grundvelli laganna vinni hratt og örugglega að smíði reglugerða á grundvelli þeirra. Mikilvægt er að tryggja fyrirsjáanleika við innleiðingu laganna og að sveitarfélögum og öðrum þeim sem reglugerðirnar beinast að verði veitt svigrúm til að aðlaga störf sín að þeim.

Breytingartillögur nefndarinnar.
    Meiri hlutinn telur þörf á að ákvæði til bráðabirgða öðlist þegar gildi svo ráðherra geti hafið undirbúning innleiðingar laganna sem fyrst. Meiri hlutinn leggur því til breytingu á gildistökuákvæði 26. gr. þess efnis.
    Þá telur meiri hlutinn þörf á að gera nokkrar breytingar á frumvarpinu sem eru tæknilegs eðlis en lúta ekki að efnisþáttum frumvarpsins og þarfnast þar af leiðandi ekki frekari útskýringa, m.a. til að gæta samræmis milli lagabálka.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðanna „hún vaknar“ í 2. tölul. 3. mgr. 1. gr. komi: þörf krefur.
     2.      Í stað orðanna „styðja og efla“ í 1. tölul. 2. gr. komi: stuðla að.
     3.      Í stað orðsins „skapa“ í 1. mgr. 5. gr. komi: skipa.
     4.      Í stað orðanna „skv. IV.“ í 16. gr. komi: samkvæmt þessum kafla.
     5.      Í stað orðsins „stuðningsteymi“ í 5. tölul. 1. mgr. 18. gr. komi: starfi stuðningsteymis.
     6.      Við 26. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvæði til bráðabirgða öðlast þó þegar gildi.

Alþingi, 25. maí 2021.

Halla Signý Kristjánsdóttir,
frsm.
Ásmundur Friðriksson. Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Ólafur Þór Gunnarsson. Vilhjálmur Árnason.