Ferill 355. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1550  —  355. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um Barna- og fjölskyldustofu.

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gissur Pétursson, Halldóru Dröfn Gunnarsdóttur og Önnu Tryggvadóttur frá félagsmálaráðuneyti, Harald Líndal Haraldsson og Arnar Haraldsson frá HLH-ráðgjöf, Rannveigu Einarsdóttur, Fanneyju D. Halldórsdóttur, Huldu B. Finnsdóttur og Eirík K. Þorvarðarson frá Hafnarfjarðarbæ, Jóhönnu Lilju Ólafsdóttur frá Kópavogsbæ, Guðrúnu Sigurðardóttur frá Akureyrarbæ, Guðjón S. Bragason, Maríu Kristjánsdóttur, Bryndísi Gunnlaugsdóttur, Svandísi Ingimundardóttur, Valgerði Rún Benediktsdóttur og Tryggva Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Regínu Ásvaldsdóttur og Helga Grímsson frá Reykjavíkurborg, Björn Brynjúlf Björnsson hagfræðing, Þorstein Hjartarson frá Sveitarfélaginu Árborg, Arndísi Soffíu Sigurðardóttur, sýslumann í Vestmannaeyjum, Bryndísi Snæbjörnsdóttur og Friðrik Sigurðsson frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Sigurveigu Þórhallsdóttur og Guðrúnu Lindu Jóhannsdóttur frá umboðsmanni barna, Heiðu Björgu Pálmadóttur, Guðrúnu Sigurjónsdóttur og Ingva Snæ Einarsson frá Barnaverndarstofu og Helgu Sigríði Þórhallsdóttur og Steinunni Birnu Magnúsdóttur frá Persónuvernd.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Akureyrarbæ, Barnaheillum, Barnaverndarstofu, Félagsráðgjafafélagi Íslands, Kópavogsbæ, Landssamtökunum Þroskahjálp, Öryrkjabandalagi Íslands, Persónuvernd, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Sveitarfélaginu Árborg og umboðsmanni barna.
    Þá bárust nefndinni minnisblöð frá félagsmálaráðuneyti og Persónuvernd.

Almennt.
    Vorið 2018 hélt þáverandi velferðarráðuneyti ráðstefnu og vinnufundi um snemmtæka íhlutun í málefnum barna. Niðurstöður ráðstefnunnar og vinnufundanna sýndu skýran vilja til aukins þverfaglegs samstarfs innan þeirra kerfa sem veita börnum og fjölskyldum þjónustu og skal hún ávallt vera með hagsmuni barna í fyrirrúmi sem og alþjóðlegar skuldbindingar. Í kjölfarið fór af stað heilmikil vinna og er frumvarpið ein afurð hennar. Haustið 2018 skrifuðu félags- og jafnréttismálaráðherra, heilbrigðisráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra, dómsmálaráðherra, forsætisráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga undir viljayfirlýsingu í þeim tilgangi að brjóta niður múra milli kerfa, bæta þjónustu í þágu barna og skapa barnvænt samfélag. Þar lýstu aðilar yfir vilja til að auka samstarf milli málefnasviða sem undir þá heyra og varða velferð barna.
    Í kjölfar þess var sett á laggirnar þingmannanefnd um málefni barna sem skipuð var fulltrúum allra þingflokka. Þá var einnig stofnaður stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna.     Frá árinu 2018 hefur margvísleg vinna farið fram í þessum hópum, í hliðarhópum þingmannanefndarinnar og á vinnufundum og ráðstefnum þar sem stjórnvöld hafa átt ítarlegt samtal við fagfólk sem veitir þjónustu í þágu farsældar barna, hagsmunasamtök og börn.
    Ein stærsta ábendingin sem fram kom í framangreindri vinnu var að gerðar yrðu umbætur á uppbyggingu stjórnsýslu ríkisins hvað varðar velferðarþjónustu í þágu barna. Frumvarp þetta og frumvörp um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála byggjast á þeirri vinnu og samráði ýmissa aðila sem koma að velferð barna.
    Með frumvarpinu er lagt til að ný stjórnsýslustofnun verði sett á fót sem beri heitið Barna- og fjölskyldustofa og er henni ætlað að sinna verkefnum sem tengjast þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra á málefnasviði félags- og barnamálaráðherra. Í frumvarpinu er lögð áhersla á skilvirkari afgreiðslu verkefna á sviði barnamála innan stjórnsýslunnar ásamt því að skapa barnvænt samfélag hér á landi.
    Samhliða frumvarpi þessu leggur félags- og barnamálaráðherra fram fyrrnefnd frumvörp, annars vegar frumvarp til laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála og hins vegar frumvarp til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Markmið þessara frumvarpa er að mynda nýjan ramma um fyrirkomulag ríkisins í velferðarþjónustu barna.

Barna- og fjölskyldustofa.
    Líkt og fyrr greinir er lagt til í frumvarpinu að sett verði á fót ný ríkisstofnun sem heyri undir félagsmálaráðuneyti. Stofnunin, sem mun bera heitið Barna- og fjölskyldustofa, tekur við fjölbreyttum verkefnum á sviði barnaverndar, m.a. almennum stuðningi við stjórnvöld, ráðgjöf vegna einstakra mála og uppbyggingu og yfirstjórn heimila, stofnana og sérhæfðra úrræða. Þannig færist stór hluti verkefna Barnaverndarstofu til Barna- og fjölskyldustofu en önnur verkefni Barnaverndarstofu færast til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála. Verði frumvörpin að lögum verður Barnaverndarstofa lögð niður.

Umfjöllun nefndarinnar.
Stjórnsýsluleg staða.
    Í umsögnum til nefndarinnar var bent á að málaflokkur barnaverndar hefði sérstöðu, einkum vegna þeirra ríku heimilda sem barnaverndaryfirvöld hafa til afskipta af einkalífi fjölskyldna. Af þeim sökum töldu umsagnaraðilar að Barna- og fjölskyldustofa ætti að verða skilgreind sem sjálfstæð stofnun en ekki heyra undir yfirstjórn ráðherra.
    Meiri hlutinn bendir á að Barna- og fjölskyldustofa mun ekki hafa aðkomu að ákvörðunum í barnaverndarmálum. Þrátt fyrir að barnavernd verði mikilvægur þáttur innan stofnunarinnar verður gert ráð fyrir því að hún fari með ný og fjölbreyttari verkefni. Verður á ábyrgð ráðherra að móta sameiginlega stefnu og framkvæmdaáætlun um farsæld barna og verða verkefni stofnunarinnar á sviði samvinnu, samþættingar og samræmingar. Meiri hlutinn telur því mikilvægt að stofnunin lúti yfirstjórn ráðherra í samræmi við almennar reglur, m.a. til að koma í veg fyrir að vafi leiki á framfylgd stefnu og áætlanagerðar um farsæld barna.
    Þá bendir meiri hlutinn sérstaklega á að ráðherra og ráðuneyti eru bundin af efnisreglum stjórnsýsluréttar og verða að byggja athafnir sínar og ákvarðanir á málefnalegum sjónarmiðum. Það er mat meiri hlutans að með því að stofnunin lúti yfirstjórn ráðherra verði frekar unnt að koma í veg fyrir ómálefnaleg afskipti af einstaklingsmálum. Að þessu virtu tekur meiri hlutinn ekki undir framangreind sjónarmið.

Samlegð verkefna sérhæfðra þjónustustofnana.
    Fyrir nefndinni komu fram athugasemdir um að Barna- og fjölskyldustofa myndi ekki starfa á grundvelli laga nr. 61/2011, um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Meiri hlutinn bendir á að fyrir liggja skýrslur um mögulega samlegð verkefna sérhæfðra þjónustustofnana sem heyra undir félagsmála-, heilbrigðis- og mennta- og menningarmálaráðherra. Í fyrirliggjandi frumvarpi er ekki lagt til að tengja verkefni slíkra stofnana saman en meiri hlutinn tekur undir sjónarmið félagsmálaráðuneytis um að fullt tilefni sé til að taka það til nánari skoðunar.

Gjaldtaka.
    Í umsögnum og fyrir nefndinni komu fram athugasemdir um að Barna- og fjölskyldustofu verði heimilt að taka gjald fyrir verkefni sem stofnunin sinnir, sbr. 8. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um nýja 7. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Benda umsagnaraðilar á að ákvæðið sé óljóst og að slík gjaldtaka skapi ójafnræði meðal þeirra sem leita þurfa úrræða á vegum stofnunarinnar. Meiri hlutinn bendir á að engar efnislegar breytingar eru gerðar á heimildum til gjaldtöku fyrir þá þjónustu sem nefnd er í frumvarpinu og er gjaldtökuákvæði frumvarpsins óbreytt frá núgildandi ákvæðum sem kveða á um sömu þjónustu.

Breytingartillögur nefndarinnar.
Mannréttindi.
    Fyrir nefndinni komu fram athugasemdir um að í frumvarpinu mætti vera skýrari áhersla á mannréttindi þeirra hópa sem því væri ætlað að vernda. Meiri hlutinn tekur undir þær athugasemdir og telur mikilvægt að í frumvarpinu verði áréttaðar skyldur stjórnvalda til að túlka réttindi sem leiðir af lögunum til samræmis við mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar og alþjóðlegar skuldbindingar. Meiri hlutinn leggur til að við 3. gr. frumvarpsins verði bætt ákvæði sem ætti að ná fram því markmiði.

Vinnsla persónuupplýsinga.
    Í 4. gr. frumvarpsins er kveðið á um heimildir Barna- og fjölskyldustofu til vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við verkefni stofnunarinnar. Í umsögn Persónuverndar kemur fram tillaga að orðalagsbreytingu í 2. mgr. ákvæðisins með það að markmiði að skýrt sé kveðið á um það að miðlun samkvæmt ákvæðinu sé ekki umfram það sem nauðsynlegt megi teljast í samræmi við meðalhófskröfu laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018. Meiri hlutinn tekur undir þá tillögu Persónuverndar og leggur til breytingu á ákvæðinu þess efnis.

Önnur atriði.
    Meiri hlutinn telur þörf á að gera nokkrar breytingar á frumvarpinu sem eru tæknilegs eðlis og lúta ekki að efnisþáttum frumvarpsins, m.a. til að gæta að samræmi milli lagabálka og sjónarmiðum um íslenska tungu. Þarfnast tillögurnar því ekki frekari útskýringa.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 3. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Við framkvæmd laga þessara skal gæta að mannréttindum þeirra hópa sem fá þjónustu sem lýtur eftirliti stofnunarinnar í samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist.

     2.      2. mgr. 4. gr. orðist svo:
                      Stofnunin getur krafið þá aðila sem vísað er til í 1. mgr. um upplýsingar og skýringar sem nauðsynlegar eru til að sinna verkefnum sem henni eru falin að lögum.
     3.      Við 8. gr.
                  a.      A-liður 2. tölul. orðist svo: Í stað orðsins „Barnaverndarstofu“ í 2. mgr. 3. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum, nema í 6. mgr. 21. gr., 2. mgr. 38. gr., 3. málsl. 3. mgr. 46. gr., 1. málsl. 1. mgr. 73. gr., 78. gr., 4. og 6. mgr. 82. gr., 5. mgr. 84. gr., 2. mgr. 85. gr., 2. mgr. 86. gr., 4. mgr. 89. gr. b, 2. mgr. 89. gr. d, 3. mgr. 91. gr. og 2. og 3. mgr. 93. gr., kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Barna- og fjölskyldustofa.
                  b.      G-liður 2. tölul. orðist svo: Orðin „að fengnum tillögum Barnaverndarstofu“ í 6. mgr. 21. gr., 2. mgr. 38. gr., 3. málsl. 3. mgr. 46. gr., 78. gr., 4. og 6. mgr. 82. gr., 5. mgr. 84. gr., 2. mgr. 85. gr., 2. mgr. 86. gr., 4. mgr. 89. gr. b, 2. mgr. 89. gr. d og 3. mgr. 91. gr. laganna falla brott.
                  c.      L-liður 2. tölul. falli brott.
                  d.      N-liður 2. tölul. falli brott.

Alþingi, 25. maí 2021.

Halla Signý Kristjánsdóttir,
frsm.
Ásmundur Friðriksson. Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Ólafur Þór Gunnarsson. Vilhjálmur Árnason.