Ferill 697. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1566  —  697. mál.
2. umræða.



Breytingartillaga


við frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (nýsköpun, arður, yfirskattanefnd o.fl.).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar (BHar, ÓBK, JSV, OH, ÓGunn, SDG, HBH).


     1.      Við 1. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi: Í stað orðanna „bréfin eru seld“ í 3. málsl. 9. gr. laganna kemur: eigendaskipti verða á hlutabréfunum.
     2.      2. gr. orðist svo:
                      Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
                  a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Lögaðila er heimilt að fresta yfir tvenn áramót skattlagningu hagnaðar sem myndast hefur við umbreytingu skuldabréfs með breytirétti í hluti í félagi sem fellur undir 3. tölul. 3. gr. laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, á því ári þegar viðskiptin eru gerð.
                  b.      Við 2. mgr. bætast fjórir nýir málsliðir, svohljóðandi: Skipti einstaklingur utan atvinnurekstrar á hlutum í sprotafyrirtæki fyrir eignarhluti í nýstofnuðu félagi, skv. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr., í hans eigu skulu skiptin sem slík ekki hafa í för með sér skattskyldar tekjur fyrir þann sem hlutina lét af hendi. Skal kaupverð þeirra eignarhluta sem hann eignast við skiptin ákvarðast jafnt kaupverði þeirra hluta sem látin voru af hendi. Með sprotafyrirtæki er átt við félag sem fellur undir 3. tölul. 3. gr. laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, er innan stærðarmarka 2. tölul. 3. mgr. 1. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr., hefur fyrir skiptin varið meira en 10% af veltu í viðurkennda rannsókna- og þróunarstarfsemi og er stofnað í þeim tilgangi. Ráðherra er heimilt að kveða á um framkvæmd ákvæðisins í reglugerð, m.a. skilgreiningu á sprotafyrirtæki.
     3.      Á eftir 2. gr. komi þrjár nýjar greinar, svohljóðandi:
                  a.      (3. gr.)
                      3. mgr. 49. gr. laganna orðast svo:
                      Til frádráttarbærra vaxta skv. 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. teljast vextir af fjármálagerningum sem fara skal með sem fjárskuld í reikningsskilum og jafnframt uppfylla kröfur til myndunar eiginfjárgrunns fjármálafyrirtækis, skv. 84. gr. b laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Skilyrtir vextir eru fyrst gjaldfæranlegir þegar skilyrði til greiðslu þeirra eru uppfyllt. Vextir sem skuldari hefur val um að greiða eða greiða ekki eru gjaldfæranlegir við greiðslu.
                  b.      (4. gr.)
                      Við ákvæði til bráðabirgða LXVI í lögunum bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Þrátt fyrir 1. mgr. 98. gr. skal ríkisskattstjóra heimilt, með samþykki ráðherra, að fresta framlagningu álagningarskrár fyrir hvert sveitarfélag að lokinni álagningu skattaðila á árinu 2021 vegna tekna ársins 2020 vegna aðstæðna sem leiðir af heimsfaraldri kórónuveiru.
                  c.      (5. gr.)
                      Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                      Þrátt fyrir 2. mgr. 98. gr. skal ríkisskattstjóra heimilt, með samþykki ráðherra, að fresta framlagningu þeirra skattskráa sem við gildistöku þessa ákvæðis hafa vegna aðstæðna sem leiðir af heimsfaraldri kórónuveiru ekki verið lagðar fram. Skattskrár sem svo háttar um skulu lagðar fram eigi síðar en 31. maí 2022.
     4.      Í stað orðsins „málskostnað“ í 2. efnismálsl. 3. gr., er verði 6. gr., komi: greiðslu málskostnaðar.
     5.      Á eftir orðunum „framlagning álagningarskrár“ í 12. gr., er verði 15. gr., komi: og „framlagningu álagningarskrár“.
     6.      Á eftir 12. gr., er verði 15. gr., komi þrír nýir kaflar, VIII. kafli, Breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með einni nýrri grein, 16. gr., IX. kafli, Breyting á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með einni nýrri grein, 17. gr., og X. kafli, Breyting á lögum um bókhald, nr. 145/1994, með einni nýrri grein, 18. gr., svohljóðandi:
                  a.      (16. gr.)
                      Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                      Þrátt fyrir 46. gr. skal ríkisskattstjóra heimilt, með samþykki ráðherra, að fresta framlagningu þeirra virðisaukaskattsskráa sem við gildistöku þessa ákvæðis hafa vegna aðstæðna sem leiðir af heimsfaraldri kórónuveiru ekki verið lagðar fram. Virðisaukaskattsskrár sem svo háttar um skulu lagðar fram eigi síðar en 31. maí 2022.
                  b.      (17. gr.)
                      Á eftir orðinu „tollgæslustjóra“ í 2. málsl. 1. mgr. 39. gr. laganna kemur: skattrannsóknarstjóra.
                  c.      (18. gr.)
                      1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II í lögunum orðast svo:
                      Þeim sem það kjósa skal gefinn kostur á að ljúka öllum prófhlutum til viðurkenningar bókara fyrir 1. apríl 2024.