Ferill 826. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1567  —  826. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð, nr. 89/2019.

Flm.: Jón Gunnarsson.


1. gr.

    Við 2. málsl. 3. mgr. 7. gr. laganna bætist: til sveitarfélaga.

2. gr.

    4. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
    Stjórn sjóðsins úthlutar styrkjum til sveitarfélaga á þeim landsvæðum þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað í hlutfalli við íbúafjölda með þeim hætti að sveitarfélög fá 70% úthlutaðs styrks en ríkissjóður 30% sem renna í Umhverfissjóð sjókvíaeldis.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2021.

Greinargerð.

    Með frumvarpinu er lagt til að stjórn fiskeldissjóðs verði falið að úthluta styrkjum til sveitarfélaga þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað í hlutfalli við íbúafjölda í stað þess að stjórn sjóðsins auglýsi opinberlega eftir umsóknum frá sveitarfélögum um styrki úr sjóðnum.
Fiskeldissjóður var stofnaður með lögum nr. 89/2019 og er ætlað það hlutverk að auglýsa eftir umsóknum og úthluta styrkjum til sveitarfélaga í tengslum við verkefni sem eru til þess fallin að byggja upp innviði á þeim svæðum þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað. Samband íslenskra sveitarfélaga sendi umsögn þegar málið var í samráðsgátt stjórnvalda árið 2018 og einnig við meðferð frumvarpsins á Alþingi (710. mál á 149. löggjafarþingi). Sambandið benti á að það gjald sem lagt væri á fyrirtæki í sjókvíaeldi rynni í ríkissjóð en sveitarfélög sætu eftir með umhverfiskostnaðinn og þá áhættu sem fylgdi uppbyggingu innviða á þeim svæðum þar sem sjókvíaeldi er stundað. Slíkir innviðir væru t.d. samfélagsleg þjónusta og samgöngur, þ.m.t. hafnarmannvirki.
    Fiskeldissjóður nýtur framlaga á fjárlögum. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 89/2019 kom fram að framlög til sjóðsins úr ríkissjóði samsvöruðu þriðjungi tekna af greininni sem til myndu falla. Fjárheimild í málaflokknum Stjórnun sjávarútvegs og fiskeldis er um 117 millj. kr. fyrir þennan nýja fiskeldissjóð samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2021.
    Umrædd gjaldtaka sem rennur í ríkissjóð er fyrir afnot af hafsvæði sem liggur utan umráðasvæðis sveitarfélaganna. Í tillögum auðlindastefnunefndar frá 2011 og starfshóps um stefnumótun í fiskeldi sem skilaði skýrslu til sjávarútvegsráðherra 2017 var lagt til að rekstrarleyfishafar, sem stunda fiskeldi í sjókvíum, greiddu sérstakt auðlindagjald sem lagt væri á öll eldisfyrirtæki sem nýttu sameiginlega auðlind, þ.e. hafsvæði utan netlaga. Einnig var lagt til að 85% af innheimtu auðlindagjaldi rynnu til uppbyggingar innviða á þeim svæðum sem nýst gætu við uppbyggingu fiskeldis og að 15% auðlindagjaldsins yrði ráðstafað sem framlagi til Umhverfissjóðs sjókvíaeldis til þess að efla vöktun og rannsóknir í fiskeldi og frekari þróun þess.
    Það er álit flutningsmanns að með frumvarpi þessu sé tekið mið af þeim niðurstöðum sem lagðar voru til í framangreindri skýrslu. Ekki sé rétt að sveitarfélög á þeim svæðum þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað þurfi á einhvern hátt að réttlæta þörf sína fyrir innviðauppbyggingu þannig að hún teljist á einhvern hátt meira knýjandi en hjá næsta nágranna. Sú aðferðafræði sem kveðið er á um í 7. gr. laganna og í reglugerð sem sett er samkvæmt þeim ýtir því undir ágreining meðal sveitarfélaga. Breytingar sem lagðar eru til í frumvarpi þessu komi því í veg fyrir ágreining meðal sveitarfélaga og að fjármunirnir renni til uppbyggingar innviða á þeim svæðum sem nýtast til uppbyggingar atvinnugreinarinnar og tryggi þar með sveitarfélögum í þeim landshlutum þar sem fiskeldi er stundað sjálfstæðan tekjustofn af fiskeldisstarfsemi.