Ferill 601. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1569  —  601. mál.
Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Önnu Kolbrúnu Árnadóttur um íslenskunám innflytjenda.


     1.      Hversu margar menntastofnanir og símenntunarmiðstöðvar bjóða upp á íslenskunám fyrir fullorðna innflytjendur, flokkað eftir tegund menntastofnana og svæðum?
    Svarinu er skipt í þrjá hluta eftir ólíkum framkvæmdaraðilum: A) símenntunarmiðstöðvum og viðurkenndum fræðsluaðilum, B) háskólum og C) framhaldsskólum.

A.     Yfirlit yfir símenntunarmiðstöðvar og viðurkennda fræðsluaðila:
    Eftirfarandi upplýsingar eru byggðar á umsóknum og styrkveitingum úr sjóði sem Rannís heldur utan um og nefnist „Íslenskukennsla fyrir útlendinga“. Samkvæmt reglum sjóðsins þurfa umsækjendur annaðhvort að vera með viðurkenningu frá Menntamálastofnun sem fræðsluaðili til þess að eiga möguleika á styrk eða með samning við slíkan aðila um framkvæmd námsins. Aðilum sem ekki hafa slíka viðurkenningu er þó ekki bannað að bjóða upp á íslenskunám sem þýðir að eftirfarandi upptalning er e.t.v. ekki tæmandi. Árið 2021 voru umsækjendur í sjóðinn 23. Af þeim uppfylltu 17 umsækjendur skilyrði sjóðsins og hlutu styrk. Þetta voru níu símenntunarmiðstöðvar, sex málaskólar, ein félagasamtök og eitt sveitarfélag í samstarfi við viðurkenndan fræðsluaðila. Dreifing þeirra um landið er eftirfarandi, en sumir aðilar vinna þvert á svæði, sérstaklega á stórhöfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum:

Höfuðborgarsvæðið: Mímir, Betri árangur, Múltíkúltí, Retor, Saga Akademía, Tungumálaskólinn, Reykjavíkurborg, Samband íslenskra kristniboðsfélaga.
Suðurnes: Múltíkúltí, Retor, Saga Akademía, Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, Pareto.
Suðurland: Fræðslunetið – símenntun á Suðurlandi.
Austurland: Austurbrú.
Norðurland: Símey, Farskólinn, Þekkingarnet Þingeyinga.
Vestfirðir: Fræðslumiðstöð Vestfjarða.
Vesturland: Miðstöð símenntunar á Vesturlandi.

B.     Yfirlit yfir íslensku sem annað mál í háskólum:
    Háskóli Íslands hefur boðið upp á íslenskunám sem annað mál en námsframboð og aðsókn hefur aukist töluvert í kjölfar heimsfaraldurs, sérstaklega á vorönn 2021.
    Fjölbreytt námskeið voru í boði sumarið 2020 og á vorönn 2021 bættist háskólinn á Bifröst í hópinn. Þar er boðið upp á aðfaranám að háskólanámi m.a. á ensku til að auðvelda innflytjendum að undirbúa sig fyrir háskólanám.

C.     Yfirlit yfir íslensku sem annað mál í framhaldsskólum:
    Tveir þriðju hlutar framhaldsskóla (af 30 skólum) hafa boðið upp á sérsniðna íslenskuáfanga fyrir nemendur af erlendum uppruna, óháð aldri, en af þeim sem ekki hafa boðið upp á þessa áfanga er tæplega helmingur á höfuðborgarsvæðinu. Í stað hefðbundinna íslenskuáfanga á brautum geta nemendur tekið áfanga í íslensku sem öðru máli og í stað dönskuáfanga geta nemendur valið um að bæta við sig áfanga í ensku eða áfanga í íslensku sem öðru máli.
    Hér að neðan má sjá upptalningu á framhaldsskólum og eru þeir sem buðu upp á sérstakt íslenskunám fyrir útlendinga árið 2020 merktir með X.

Borgarholtsskóli
Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra X
Fjölbrautaskóli Snæfellinga X
Fjölbrautaskóli Suðurlands X
Fjölbrautaskóli Suðurnesja X
Fjölbrautaskóli Vesturlands X
Fjölbrautaskólinn Ármúla X
Fjölbrautaskólinn í Breiðholti X
Fjölbrautaskólinn í Garðabæ
Flensborgarskóli X
Framhaldsskólinn á Húsavík X
Framhaldsskólinn á Laugum X
Framhaldsskólinn í A-Skaftafellssýslu
Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ X
Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum
Kvennaskólinn í Reykjavík
Menntaskóli Borgarfjarðar
Menntaskólinn að Laugarvatni
Menntaskólinn á Akureyri (1 nemandi) X
Menntaskólinn á Egilsstöðum X
Menntaskólinn á Ísafirði X
Menntaskólinn á Tröllaskaga
Menntaskólinn í Kópavogi X
Menntaskólinn í Reykjavík X
Menntaskólinn við Hamrahlíð
Menntaskólinn við Sund
Tækniskólinn X
Verkmenntaskóli Austurlands X
Verkmenntaskólinn á Akureyri X
Verzlunarskóli Íslands

     2.      Hvaða menntunarkröfur eru gerðar til kennara sem sinna íslenskukennslu fyrir fullorðna innflytjendur?
    Þær menntunarkröfur sem gerðar eru til kennara sem kenna útlendingum íslensku fara eftir því undir hvaða lögum þeir starfa. Gerðar eru hæfnikröfur til þeirra kennara sem starfa í háskólum og kenna samkvæmt lögum um háskóla annars vegar og hins vegar til þeirra kennara sem starfa í framhaldsskólum og kenna samkvæmt lögum um framhaldsskóla. Ekki er kveðið á um menntunarkröfur til kennara í lögum um framhaldsfræðslu, nr. 27/2010, reglugerð nr. 1163/2011, um framhaldsfræðslu, né í úthlutunarreglum Rannís um íslenskukennslu fyrir útlendinga.
    Skýr viðmið eru hjá Háskóla Íslands sem bendir á að við ráðningu í fast starf akademísks starfsmanns við háskólann er nær undantekningarlaust krafist doktorsprófs. Á námsbrautinni „Íslenska sem annað mál“ hafa stundakennarar sinnt talsverðum hluta kennslunnar. Við ráðningu þeirra er að jafnaði miðað við að kennarar hafi meistaragráðu hið minnsta. Kynjahlutfall er núna vegið 16 konur á móti 9 körlum sem kenna við brautina.
    Ætla má að íslenskukennarar í framhaldsskólum sinni kennslu í sérsniðnum íslenskuáföngum fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku (ÍSAN-áfangar). Ekki liggja fyrir upplýsingar um kynjaskiptingu kennara sem sinna þeirri kennslu en eins og áður hefur komið fram er gerð krafa um kennsluréttindi sem er á meistarastigi.
    Ekki liggja fyrir upplýsingar um menntunarkröfur starfandi kennara innan framhaldsfræðslunnar þar sem ekki er krafist kennsluréttinda. Þó eru sterkar vísbendingar um, m.a. í könnun sem stendur yfir á framkvæmd íslenskukennslu fyrir útlendinga á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis og Rannís, að almennt hafi kennarar sem kenna íslensku sem annað mál hjá símenntunarmiðstöðvum íslenskunám að baki og/eða kennsluréttindi.
    Vitað er að stór hluti kennara og leiðbeinenda eru verktakar sem koma og fara en það ráðningarsamband er algengt innan framhaldsfræðslunnar og hjá öðrum viðurkenndum fræðsluaðilum. Þá má sjá í ársskýrslum símenntunarmiðstöðva að konur eru langstærsti hluti fastráðinna starfsmanna.

     3.      Hver er skipting kennara eftir kynjum?
    Að því er varðar þennan lið fyrirspurnarinnar vísast í svar við 2. tölul.

     4.      Hversu margir innflytjendur hafa nýtt sér námið síðastliðin fjögur ár, sundurliðað eftir kyni, aldri (18–24, 25–35 og 36–50 ára) og landsvæðum?
    Svarinu er skipt í þrjá hluta eftir ólíkum framkvæmdaraðilum: A) símenntunarmiðstöðvum og viðurkenndum fræðsluaðilum, B) háskólum og C) framhaldsskólum.

A.     Yfirlit yfir símenntunarmiðstöðvar og viðurkennda fræðsluaðila:
    Í meðfylgjandi töflu má sjá upplýsingar varðandi viðurkennda fræðsluaðila sem sækja í sjóð Rannís um íslenskukennslu fyrir útlendinga. Fræðsluaðilar skila inn upplýsingum um fjölda einstaklinga og mönnun á námskeið en hafa ekki þurft að skila inn upplýsingum um aldur þátttakenda í uppgjörum vegna styrkveitinga úr sjóðnum en um er að ræða nám fullorðinna.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


B. Yfirlit yfir íslensku sem annað mál í háskólum:
    Undanfarin fjögur almanaksár (2017–2020) hafa 2647 nemendur sótt námskeið í íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands og eru rúmlega tveir af hverjum þremur nemum konur. Langflestir nemar eru á aldrinum 25–35 ára (60%). Ekki er safnað saman upplýsingum um búsetu nemenda. Þar sem námið er staðnám má gera ráð fyrir því að flestir þeirra hafi búið á höfuðborgarsvæðinu eða í nágrenni þess. Hins vegar er upplýsingum safnað um núverandi ríkisfang nemenda.
    Fjöldi einstaklinga, sem skráðir hafa verið í námskeið á námsbrautinni „Íslenska sem annað mál“, eru eftir kyni og aldri árin 2017–2020:

Bæði kyn Karlar Konur Hlutfall kvenna
Nemendur alls: 2647 863 1784 67,4%
18–24 ára 343 105 238 69,4%
25–35 ára 1577 528 1049 66,5%
36–50 ára 605 183 422 69,8%
51 + 122 47 75 61,5%

    Samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá hafa nemendur í íslensku sem öðru máli 99 ríkisföng. Flestir nemendur hafa nú filippseyskt ríkisfang, eða 323 nemendur, og jafnmargir íslenskt. Næst á eftir kemur þýskt ríkisfang, eða 218 nemendur, og því næst bandarískt, 212 nemendur.

C. Yfirlit yfir íslensku sem annað mál í framhaldsskólum:
    Eins og áður hefur komið fram bjóða framhaldsskólar ýmist upp á sérstaka íslenskuáfanga fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku og hins vegar íslenskunámsbrautir fyrir sama hóp. Oftast er um að ræða grunnáfanga í íslensku, svo sem ritun, málfræði, talþjálfun og tjáningu. Framhaldsskólinn stendur nemendum opinn óháð aldri. Hvorki hefur verið safnað saman upplýsingum um kynjahlutfall þátttakenda né aldur í þessum áföngum og því er víðtækari greininga þörf fyrir þannig samantekt. Upplýsingar um heildarfjölda nemenda í áföngunum liggja einungis fyrir frá árinu 2018. Þróunin m.a. í kjölfar heimsfaraldurs, á vorönn 2021, er hins vegar aukin aðsókn útlendinga í íslenskunám og tungumálastuðning innan starfsnámsbrauta sem nokkrir skólar bjóða upp á.

Fjöldi einstaklinga í íslenskuáföngum fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku 2018–2020.
Haust ´20 Vor ´20 Haust ´19 Vor ´19 Haust ´18 Vor ´18
582 510 499 421 564 413