Ferill 354. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1573  —  354. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

Frá minni hluta velferðarnefndar.


    Minni hlutinn styður þær grundvallarbreytingar sem lagt er upp með í þeim frumvörpum sem nú eru til umfjöllunar á Alþingi í þágu velsældar barna. Sú mikla vinna og samráð sem fram fór á kjörtímabilinu er til fyrirmyndar enda var um það rætt af hálfu þeirra umsagnaraðila er mættu fyrir velferðarnefnd hversu gott samráð hefði verið haft af hálfu þingmannanefndar og ráðuneytis við hagsmunaaðila og ótal þjónustuveitendur barna og fjölskyldna um allt land. Slíkt samráð, þegar um svo viðamikið mál er að ræða, er afar mikilvægt til að stuðla að samvinnu þeirra er sinna skulu verkefninu til frambúðar svo að útkoman verði eins og best verður á kosið.
    Frumvarp til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna er umfangsmikið mál sem ætlað er að umbylta þjónustu í þágu barna. Grundvallarbreytingar má finna á þjónustunni og þeim heimildum sem þar er að finna varðandi hana. Við vinnslu málsins barst nefndinni fjöldi umsagna og minnisblaða og fyrir hana mættu margir gestir með gagnlegar ábendingar. Eðli málsins samkvæmt telur minni hlutinn afar mikilvægt að gefa umsögnum Barnaverndarstofu og Persónuverndar sérstakan gaum og átelur meiri hlutann fyrir að sneiða hjá þeim mikilvægu ábendingum sem frá þessum lykilaðilum komu. Telur minni hlutinn að meiri hlutinn taki með því mikla áhættu enda liggur fyrir að sú vinnsla persónuupplýsinga sem fyrirséð er að verði innt af hendi í umræddu máli lýtur grunnreglum 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Þá njóta persónuupplýsingar barna sérstakrar verndar samkvæmt ákvæðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, og reglugerðar (ESB) 2016/679. Þá telur minni hlutinn fyrirséð að við þann flýti sem meiri hlutinn vill hafa á afgreiðslu málsins og gildistöku þess, þrátt fyrir ábendingar hagaðila, muni notendur þjónustunnar, öll börn og foreldrar í landinu, vantreysta því framfaramáli sem hér er á ferð. Kann það að hafa í för með sér langvinnt tjón sem erfitt verður að vinda ofan af.

Vinnsla persónuupplýsinga.
    Í umsögn Persónuverndar voru gerðar athugasemdir við víðtæka upplýsingavinnslu sem frumvarpið fæli í sér og greint frá efasemdum um hvort sú vinnsla samrýmdist grunnreglu 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Ljóst væri að sá réttur gæti þurft að sæta takmörkunum eins og fram kæmi í 3. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmálans. Þá bæri löggjafanum skylda til að tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefðist, sbr. 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Var þó bent á að takmarkanir í lögum á friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu, þar á meðal til að tryggja hag barna, yrðu að helgast af brýnni nauðsyn. Þá var í umsögn Persónuverndar einnig fjallað um hvort svo umfangsmikil vinnsla persónuupplýsinga sem lögð væri til væri nauðsynleg til að ná markmiðum frumvarpsins og hvernig það samrýmdist meðalhófssjónarmiðum.
    Í ljósi þess hversu fjölbreyttir aðilar geta tekið að sér hlutverk þjónustuveitenda, sbr. orðalag 14. tölul. 1. mgr. 2. gr., sem og þess hversu umfangsmiklar og viðkvæmar upplýsingar um er að ræða, leggur minni hlutinn til breytingar á frumvarpinu þess efnis að skilgreint verði með nákvæmum hætti hvaða þjónustuaðilar fái heimild til vinnslu persónuupplýsinga og hvaða þjónustuaðilar fái heimild til skráningar og miðlunar. Leggur minni hlutinn til orðalagsbreytingu á 2. málsl. 3. mgr. 8. gr. þannig að í stað orðanna „þjónustuveitenda og þeirra sem veita almenna þjónustu í þágu farsældar barns“ komi „tengiliðar og málstjóra barns“.

Tengiliður þjónustu í þágu farsældar barns.
    Nokkuð er um það rætt í umsögn og minnisblaði Persónuverndar að þótt rök geti almennt staðið til þess að tengiliðir séu í daglegu nærumhverfi barns kunni að vera að því fyrirkomulagi fylgi í einstaka tilvikum óþægindi fyrir barnið eða foreldra þess, óháð því hvort til staðar sé eiginlegt vanhæfi hjá viðkomandi tengilið. Má nefna dæmi um það er tengiliður tengist barni eða foreldri frá fyrri tíð, eða ef barn á menntaskólaaldri þarf að sæta því að tiltekinn framhaldsskólakennari fái aðgang að ýmsum viðkvæmum gögnum ungmennisins. Getur slíkt komið barni eða ungmenni illa. Þarf þá að vera til úrræði fyrir viðkomandi barn eða foreldri til að leita leiða til að fá að skipta um tengilið. Tekur minni hlutinn undir mikilvægi þess að í slíkum undantekningartilvikum sé hægt að óska þess að tengiliður verði fluttur svo að ekki skapist vandkvæði við vinnslu máls og leggur því til breytingu í 2. mgr. 17. gr.

Samræmdar tæknilausnir.
    Minni hlutinn telur mikilvægt að skylt verði að vinnsla, miðlun og skráning persónuupplýsinga á grundvelli frumvarpsins verði eingöngu heimil í sameiginlegu upplýsingakerfi eða gagnagrunni sem Barna- og fjölskyldustofa hefur umsjón með líkt og Persónuvernd mælir með. Tekur minni hlutinn undir það mat Persónuverndar að slíkt skilyrði sé til þess fallið að draga úr þeirri áhættu sem óneitanlega felst í því ef þær persónuupplýsingar sem unnið er með séu varðveittar hjá fjölda mismunandi aðila sem jafnvel hafa misgóða gagnagrunna til að geyma svo viðkvæm gögn. Persónuvernd bendir á í umsögn sinni að ætla megi að öryggisvitund þessara aðila sé mismikil og aðstæður þeirra jafnframt ólíkar þegar kemur að því að tryggja öryggi persónuupplýsinga í vörslum þeirra. Minni hlutinn leggur því til að við 23. gr. verði bætt ákvæði um framangreint.

Gildistaka.
    Minni hlutinn tekur undir þá ábendingu Persónuverndar og Barnaverndarstofu að nauðsynlegt sé að öryggi í vinnslu og miðlun svo viðkvæmra gagna sé tryggt frá fyrsta degi er lögin taka gildi enda sé um að ræða vinnslu persónuupplýsinga sem í mörgum tilvikum geta talist mjög viðkvæmar, auk þess sem þær varða börn, en persónuupplýsingar barna njóta sérstakrar verndar samkvæmt ákvæðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, og reglugerðar (ESB) 2016/679. Vekur Persónuvernd sérstaka athygli á þessu lykilatriði í minnisblaði er stofnunin sendi velferðarnefnd við lokavinnslu málsins. Kom þar fram að verði frumvarpið að lögum myndi það leiða til mun umfangsmeiri vinnslu persónuupplýsinga um börn og aðstandendur þeirra en verið hefur. Að mati Persónuverndar sé ekki ásættanlegt að sú vinnsla hefjist fyrr en tryggt hefur verið að öryggi upplýsinganna samrýmist lögum nr. 90/2018 og reglugerð (ESB) 2016/679 og tekur minni hlutinn heils hugar undir það. Kemur fram í minnisblaði Persónuverndar að óásættanlegt sé að slá af þeim kröfum sem gerðar eru til öryggis við vinnslu fyrrgreindra persónuupplýsinga ef vinnsla þeirra hefst áður en öruggar stafrænar lausnir verða tilbúnar eða aðrar ráðstafanir gerðar. Barnaverndarstofa telur að miðað við umfang þeirrar vinnslu persónuupplýsinga sem frumvarpið felur í sér sé óheppilegt ef stafrænar lausnir við meðferð slíkra gagna verði mögulega ekki tilbúnar áður en lögin öðlast gildi. Tjón sem fyrirséð er að verði þegar um svo mikla vinnslu er að ræða verður ekki afturkallað og því telur minni hlutinn óábyrgt ef Alþingi gerir ekki allt sem í þess valdi stendur til að tryggja að sá gagnagrunnur sem nota skal verði fullmótaður og nothæfur þegar vinnsla hefst. Verði framangreint ekki tryggt telja Persónuvernd og Barnaverndarstofa nauðsynlegt að gildistöku laganna verði frestað og tekur minni hlutinn undir það. Því leggur minni hlutinn til að gildistöku laganna verði frestað til 1. júní 2022, enda liggur fyrir að nauðsynlegur gagnagrunnur verður ekki tilbúinn 1. janúar 2022 og innleiðingu ekki heldur lokið.

Fjöldi stöðugilda hjá Barna- og fjölskyldustofu.
    Í umsögn Barnaverndarstofu segir að fjöldi stöðugilda og kostnaður vegna nýrra verkefna Barna- og fjölskyldustofu sé mjög varlega áætlaður miðað við þau fjölmörgu verkefni sem stofnuninni sé ætlað að sinna. Í frumvarpsdrögum sé gert ráð fyrir að stöðugildum sérfræðinga með fjölbreyttan bakgrunn fjölgi um 15 til 20 og er áætlaður kostnaður vegna þessa 250 millj. kr. á ári. Barnaverndarstofa framkvæmdi kostnaðarmat að beiðni félagsmálaráðuneytis vegna aukinna verkefna sem tengjast frumvarpi um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og frumvarpi um Barna- og fjölskyldustofu. Er það mat Barnaverndarstofu að fjölga þurfi stöðugildum um 36 og árlegur kostnaður metinn 534 millj. kr. Bendir Barnaverndarstofa á að um sé að ræða mismun á frumvarpsdrögum og útreikningi stofunnar sem nemi 16–21 stöðugildi. Virðist munurinn að mestu liggja í því að í frumvarpinu sé ekki gert ráð fyrir aukningu stöðugilda í stoðþjónustu og stjórnun líkt og stofnunin gerði ráð fyrir í útreikningum sínum. Í frumvörpunum tveimur er áætlað að stöðugildum fjölgi um allt að 20 með nýjum verkefnum. Telur Barnaverndarstofa ekki raunhæft að þau 15–20 stöðugildi, sem gert er ráð fyrir að bætist við stofnunina í frumvarpinu, verði öll helguð beinni þjónustu við börn. Telur minni hlutinn mikilvægt að við afgreiðslu þessa máls, sem og frumvarps um Barna- og fjölskyldustofu, verði gerð grein fyrir hinum mikla fjölda stöðugilda sem vantar til að þjónusta stofnunarinnar sé fullnægjandi.
    Minni hlutinn vill árétta áhyggjur sínar af skeytingarleysi og vanvirðingu meiri hlutans gagnvart athugasemdum umsagnaraðila og minni hlutans. Eftir ómælda vinnu þingmannanefndar um málefni barna undanfarin ár og yfirlýsingar ráðherra um mikilvægi samvinnu og þverpólitískrar sáttar var þessari mikilvægu vinnu lokið á þann hátt að frumvörpin voru tekin út úr nefndinni í ágreiningi, án tillits til mikilvægra ábendinga sem nefndinni bárust frá fagaðilum. Félags- og barnamálaráðherra hefur áréttað mikilvægi þess að jafnstór mál og hér um ræðir fái vandaða þinglega meðferð og taki, eftir atvikum, breytingum í meðförum þingsins. Þykir minni hlutanum miður að sjá meiri hlutann virða svo sjálfsagðan hlut að vettugi og afgreiða málið úr nefnd án fullnægjandi umræðu. Var það að auki gert þrátt fyrir eindregna ósk minni hlutans sem vildi koma ábendingum sínum á framfæri og þrátt fyrir að nægur tími gæfist til vinnslu álits fyrir þinglok. Eftir þverpólitíska samvinnu allt kjörtímabilið fór svo, vegna vinnubragða meiri hlutans við lok vinnslu málsins, að sprengd var sú góða samvinna og samstaða sem verið hefur í málinu. Telur minni hlutinn það miður og ekki til þess að efla traust á stjórnmálum.

    Að framangreindu virtu leggur minni hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðanna „þjónustuveitenda og þeirra sem veita almenna þjónustu í þágu farsældar barns“ í 2. málsl. 3. mgr. 8. gr. komi: tengiliðar og málstjóra barns.
     2.      Við 2. mgr. 17. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í undantekningartilvikum, þegar um sérstök og persónuleg tengsl barns og/eða foreldra er eða hefur verið að ræða við tengilið, þó ekki á þann veg sem um ræðir í 2. málsl. 4. mgr., er barni og/eða foreldri heimilt að óska eftir nýjum tengilið fyrir barnið.
     3.      Við 23. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Skráning, miðlun og önnur vinnsla persónuupplýsinga er eingöngu heimil í sameiginlegu upplýsingakerfi eða sameiginlegum gagnagrunni sem Barna- og fjölskyldustofa hefur umsjón með.
     4.      Í stað dagsetningarinnar „1. janúar 2022“ í 26. gr. komi: 1. júní 2022.

    Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 1. júní 2021.

Helga Vala Helgadóttir,
form., frsm.
Anna Kolbrún Árnadóttir. Guðmundur Ingi Kristinsson.
Halldóra Mogensen.