Ferill 604. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1579  —  604. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi, nr. 43/1999 (tilgreining kostnaðarliða, eftirlit o.fl.).

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Brynhildi Pálmarsdóttur og Þóri Hrafnsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Lilju Ósk Snorradóttur frá Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Sigríði Mogensen frá Samtökum iðnaðarins, Bergþóru Halldórsdóttur og Einar Hansen Tómasson frá Íslandsstofu, Skúla Eggert Þórðarson og Guðrúnu Jenný Jónsdóttur frá Ríkisendurskoðun og Elínu Ölmu Arthursdóttur og Jón Ásgeir Tryggvason frá Skattinum.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Íslandsstofu og Ríkisendurskoðun auk sameiginlegrar umsagnar frá Samtökum iðnaðarins og Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi, en þær eru gerðar í ljósi ábendinga Ríkisendurskoðunar sem skilaði í október 2019 skýrslu til Alþingis, Endurgreiðslukerfi kvikmynda. Lagðar eru til breytingar er varða staðfestingu kostnaðaruppgjörs sem skylt er að leggja fram við umsókn um útborgun endurgreiðslu, auk þess sem sett er fram skýrari afmörkun á því hvaða kostnaður telst framleiðslukostnaður og myndar stofn til endurgreiðslu. Þá er kveðið á um aðgang að kynningarefni þeirra verkefna sem eru grundvöllur endurgreiðslu. Jafnframt er lagt til að framlengja gildistíma endurgreiðslukerfisins til 31. desember 2025 en að óbreyttu falla lögin úr gildi í lok þessa árs. Um markmið og efni frumvarpsins vísast að öðru leyti til greinargerðar með því.
    Þær umsagnir er nefndinni bárust um málið voru jákvæðar og lýst var ánægju með að framlengja ætti gildistíma laganna um fjögur ár til viðbótar.

Stofn til endurgreiðslu.
    Við meðferð málsins fyrir nefndinni kom fram sjónarmið um að kanna mætti hvort hægt væri að nýta sama kostnað oftar en einu sinni sem stofn til endurgreiðslu í fleiru en einu ríki þegar sótt er um endurgreiðslu vegna framleiðslu kvikmynda eða sjónvarpsefnis hér á landi. Nefndin bendir á að þær endurgreiðslur sem hér um ræðir taka til innlends heildarframleiðslukostnaðar, sbr. 2. gr. laganna. Þó er samkvæmt ákvæðinu heimilt að telja til stofns endurgreiðslu heildarframleiðslukostnað sem fellur til á Evrópska efnahagssvæðinu, auk Grænlands og Færeyja, að því skilyrði uppfylltu að meira en 80% heildarframleiðslukostnaðar kvikmyndar eða sjónvarpsefnis falli til hér á landi. Nefndin áréttar því að stofn til endurgreiðslu kostnaðar við framleiðslu kvikmynda eða sjónvarpsefnis hér á landi tekur til innlends heildarframleiðslukostnaðar og eftir atvikum kostnaðar sem fellur til innan Evrópska efnahagssvæðisins, Grænlands og Færeyja. Ráðuneytið skipaði nýverið starfshóp sem ætlað er að meta núverandi endurgreiðslukerfi vegna kvikmyndagerðar í samræmi við aðgerð 6 í kvikmyndastefnu til ársins 2030 sem gefin var út á síðasta ári. Nefndin beinir því til ráðuneytisins að starfshópnum verði einnig falið að skoða útfærslur á breytingum sem tengjast m.a. endurgreiðslum. Kannað verði hvort hér sé um sérstakt vandamál að ræða og hvort þá sé unnt að gera auknar kröfur til umsækjenda að því er varðar framlögð gögn.

Möguleg ofgreiðsla.
    Við meðferð málsins fyrir nefndinni kom fram sjónarmið um að eðlilegt væri að bæta við lögin ákvæði um úrræði vegna ofgreiðslu til umsækjanda komi síðar í ljós að ákvörðun um endurgreiðslur hafi ekki byggst á réttum gögnum og að umsækjandi hafi fengið styrk umfram það sem hann átti rétt á samkvæmt ákvæðum laga og reglugerða um tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi. Fram kom að slík ákvæði eru nú til staðar í þeim lögum sem hafa verið sett vegna Covid-úrræða, t.d. í 19. gr. laga um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og í 9. gr. laga um tekjufallsstyrki.
    Nefndin beinir því til fyrrnefnds starfshóps á vegum ráðuneytisins að skoða hvort hætta sé á ofgreiðslum og hvernig væri þá hægt að bregðast við. Höfð verði hliðsjón af greindum ákvæðum í lögum um hina ýmsu styrki vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins á atvinnulífið, þar sem m.a. er gert ráð fyrir að beitt sé 50% álagi á ofgreiðslur ef veittar hafa verið rangar eða ófullnægjandi upplýsingar eða það varði sektum eða fangelsi ef brotið er af ásetningi eða stórfelldu gáleysi gegn lögunum.

Breytingartillögur nefndarinnar.
    Fyrir nefndinni kom fram sjónarmið um að afmarka mætti skýrar orðalag lokamálsgreinar nýrrar 5. gr. a, sbr. 3. gr. frumvarpsins. Þar segir að í því skyni að staðreyna kostnaðaruppgjör geti nefnd um endurgreiðslur óskað eftir viðeigandi upplýsingum frá skattyfirvöldum sem og úr bókhaldi félagsins. Var bent á að í stað orðsins viðeigandi færi betur á að afmarka upplýsingaöflun nefndar við þær upplýsingar sem henni eru nauðsynlegar til að geta staðreynt kostnaðaruppgjör á grundvelli laga og reglna þar um. Nefndin fellst á það sjónarmið og leggur til breytingu þess efnis.
    Þá gerir nefndin tillögu að breytingu á gildistökuákvæði sem ætlað er að auka skýrleika og tryggja að lögin gildi um þær umsóknir sem þegar eru komnar til meðferðar og vinnslu líkt og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.
    Breytingartillögur nefndarinnar eru að öðru leyti tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Orðin „framleitt hefur verið og“ í 1. mgr. c-liðar 2. gr. falli brott.
     2.      1. málsl. efnismálsgreinar b-liðar 3. gr. orðist svo: Nefnd um endurgreiðslur skal send beiðni um útborgun og skal nefndin ákvarða endurgreiðslur skv. 3. gr.
     3.      1. málsl. 3. efnismgr. c-liðar 3. gr. orðist svo: Nefnd skv. 3. gr. getur óskað eftir þeim upplýsingum frá skattyfirvöldum og úr bókhaldi félagsins sem henni eru nauðsynlegar til að staðreyna kostnaðaruppgjör umsækjanda.
     4.      Í stað orðanna „4. mgr. 5. gr.“ í 6. gr. komi: 5. mgr. 5 gr.
     5.      2. mgr. 8. gr. orðist svo:
                      Lög þessi taka einnig til umsókna um endurgreiðslu framleiðslukostnaðar skv. 3. gr. laga um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, nr. 43/1999, sem borist hafa og eru til meðferðar hjá endurgreiðslunefnd fyrir gildistöku laga þessara.

    Helgi Hrafn Gunnarsson skrifar undir álit þetta með fyrirvara.

Alþingi, 7. maí 2021.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form., frsm.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Ásmundur Friðriksson.
Haraldur Benediktsson. Helgi Hrafn Gunnarsson,
með fyrirvara.
María Hjálmarsdóttir.
Njáll Trausti Friðbertsson. Ólafur Ísleifsson. Sigurður Páll Jónsson.