Ferill 801. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1581  —  801. mál.
Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um fulltrúa Hæstaréttar í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum stjórnvalda.

     1.      Hvernig hefur verið brugðist við ábendingu dómsmálaráðherra til forsætisráðuneytisins um breytt verklag varðandi frumvörp þar sem Hæstarétti er falið það hlutverk að tilnefna fulltrúa í nefndir, ráð og stjórnir á vegum stjórnvalda, sbr. svar á þskj. 1373?
    Í tilvísuðu svari dómsmálaráðherra kemur fram að Hæstiréttur tilnefni árlega fjölda einstaklinga í nefndir, ráð og stjórnir á grundvelli laga og að allar slíkar tilnefningar komi fram í ársskýrslum réttarins. Þannig hafi árið 2020 verið tilnefndir 25 einstaklingar í nefndir, ráð og stjórnir. Jafnframt segir í svarinu að Hæstiréttur telji rök standa til að þessi verkefni verði færð frá réttinum til dómstólasýslunnar, í samræmi við tillögur í skýrslu um sjálfstæðar stjórnsýslunefndir frá desember 2019. Tekið er undir framangreint af hálfu dómsmálaráðherra í svarinu, lagaákvæði sem fela réttinum þetta hlutverk sé þó að finna víða í löggjöf og hafi dómsmálaráðherra beint því til forsætisráðuneytisins að hafa framangreind sjónarmið Hæstaréttar í huga við yfirlestur á frumvörpum til breytinga á lögum þar sem ákvæðin er að finna.
    Skrifstofa löggjafarmála í forsætisráðuneytinu hefur hlutverki að gegna að því er varðar vinnulag við samningu lagafrumvarpa af hálfu ráðuneyta og þær kröfur sem gerðar eru til lagasetningar. Auk þess að gefa út leiðbeiningar og handbækur á þessu sviði og standa fyrir námskeiðum og fræðslu sinnir skrifstofan eftirliti með því að frumvörp standist gæðakröfur með yfirlestri stjórnarfrumvarpa, sbr. samþykkt ríkisstjórnarinnar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og stjórnartillagna frá 10. mars 2017. Ábending dómsmálaráðuneytisins, dagsett 6. maí 2021, verður tekin til skoðunar í ráðuneytinu en rétt er að vekja athygli á því að ákvörðun um að ráðast í lagabreytingar er eðli máls samkvæmt á ábyrgð hlutaðeigandi ráðherra og fellur það utan hefðbundins yfirlestrar og hlutverks skrifstofu löggjafarmála í forsætisráðuneytinu að hafa eftirlit með slíkri ákvörðunartöku við yfirlestur stjórnarfrumvarpa.
     2.      Telur ráðherra ástæðu til að horfa ekki eingöngu til framtíðar með frumvörp líkt og dómsmálaráðherra leggur til, heldur jafnframt að endurskoða eldri lög þar sem um slíkar tilnefningar er að ræða?
    Að því er varðar heildarendurskoðun lagaákvæða þar sem gert er ráð fyrir tilnefningum Hæstaréttar í nefndir, ráð og stjórnir telur forsætisráðherra að æskilegt gæti verið að ráðast í slíka vinnu fremur en að breyta fyrirkomulaginu smám saman á komandi árum eða áratugum. Vel færi á að móta heildstæða stefnu á þessu sviði og að gætt verði að samræmi og heildaryfirsýn. Málefni dómstóla heyra undir málefnasvið dómsmálaráðuneytis en endurskoðun af þessu tagi krefst samvinnu, m.a. milli hlutaðeigandi ráðuneyta og dómstólasýslunnar.