Ferill 775. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1586  —  775. mál.
3. umræða.Breytingartillaga


við frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, og lögum um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs, nr. 155/2020 (framlenging úrræða o.fl.).

Frá Halldóru Mogensen, Guðmundi Inga Kristinssyni og Helgu Völu Helgadóttur.


    Á eftir 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
    Á eftir 1. málsl. 4. mgr. 57. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þá skal einnig litið til þess hvort starfið hæfi starfsreynslu og menntun viðkomandi.

Greinargerð.

    Í síðastliðnum mánuði misstu rúmlega 350 atvinnuleitendur rétt til atvinnuleysisbóta tímabundið eða varanlega eftir að hafa hafnað starfi. Núgildandi lög gera ráð fyrir því að atvinnuleitandi geti misst rétt til atvinnuleysisbóta við það að hafna starfi, jafnvel þó að starfið sem honum bjóðist samræmist ekki á nokkurn hátt starfsreynslu og menntun hans. Ljóst er að endurskoða þarf 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, um tímabundna sviptingu bótaréttar ef starfi er hafnað en þangað til slík endurskoðun hefur farið fram er í það minnsta nauðsynlegt að tryggja að bótaréttur tapist ekki þegar einstaklingur hafnar starfi sem er ekki í nokkru samræmi við fyrri starfsreynslu eða menntun.