Ferill 845. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1606  —  845. mál.
Beiðni um skýrslu


frá fjármála- og efnahagsráðherra um mat á árangri aðgerða til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að fjármála- og efnahagsráðherra flytji Alþingi skýrslu um mat á árangri og ávinningi af þeim aðgerðum sem stjórnvöld hafa ráðist í til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru.

Greinargerð.

    Með skýrslubeiðninni er lagt til að fjármála- og efnahagsráðherra verði falið að flytja Alþingi skýrslu um mat á árangri af aðgerðum stjórnvalda til að mæta efnahagslegum afleiðingum heimsfaraldurs kórónuveiru og á þeim ávinningi sem úrræðin hafa skilað samfélaginu. Í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar (þskj. 1398, 769. mál á yfirstandandi löggjafarþingi) kom fram að nefndin væri einhuga um nauðsyn þess að slík úttekt yrði gerð.
    Frá upphafi kórónuveirufaraldursins hafa stjórnvöld gripið til margvíslegra aðgerða til að draga úr efnahagslegum áhrifum hans. Í meginatriðum hafa aðgerðirnar annars vegar snúist um að draga úr tekjumissi heimila og fyrirtækja og hins vegar um að styðja við aukin efnahagsumsvif til að vega upp á móti samdrætti í eftirspurn eftir vöru og þjónustu einkaaðila. Á sama tíma hefur Seðlabankinn beitt stjórntækjum peningamála í sama tilgangi, m.a. með lækkun vaxta.
    Í skýrslu um mat á árangri af opinberum aðgerðum er nauðsynlegt að horft sé á aðgerðirnar og árangur af þeim í heild sinni en einnig á einstaka þætti þeirra. Þá er nauðsynlegt að draga fram hvernig sjálfvirkir sveiflujafnarar ríkisfjármála hafa virkað og hvert samspil þeirra og beinna aðgerða stjórnvalda hefur verið.
    Við mat á áhrifum beinna aðgerða stjórnvalda og sjálfvirkra sveiflujafnara þarf að horfa til þeirra markmiða sem átti að ná. Má einkum nefna þessi:
     *      Að koma í veg fyrir að framleiðsluþættir skaðist að óþörfu.
     *      Að verja ráðningarsamband atvinnurekenda og launafólks.
     *      Að styðja við fyrirtæki og rekstraraðila sem faraldur og sóttvarnaaðgerðir hafa bitnað harðast á.
     *      Að styðja við heimili og viðkvæma hópa í samfélaginu.
     *      Að draga úr neikvæðri víxlverkun minnkandi eftirspurnar og atvinnuleysis.
     *      Að skapa öfluga viðspyrnu fyrir efnahagslífið og styrkja nýsköpun.
    Nefndin telur mikilvægt að skýrslan sem óskað er eftir verði unnin með aðstoð óháðra sérfræðinga sem leggi sjálfstætt mat á árangur af einstökum mótvægisaðgerðum og umfang þeirra auk þess sem metið verði hvernig þær hafa unnið hver með annarri. Meðal þeirra aðgerða sem sæta þurfa skoðun við gerð skýrslunnar eru:
     *      Lokunarstyrkir.
     *      Tekjufallsstyrkir.
     *      Viðspyrnustyrkir.
     *      Stuðningslán.
     *      Brúarlán.
     *      Frestun skattgreiðslna.
     *      Ráðningarstyrkir og átakið Hefjum störf.
     *      Styrkir vegna greiðslu launa á uppsagnarfresti.
     *      Laun í sóttkví.
     *      Atvinnuleysisbætur til sjálfstætt starfandi einstaklinga vegna minnkaðs starfshlutfalls.
     *      Greiðsluskjól.
     *      Auknar opinberar fjárfestingar.
     *      Allir vinna (endurgreiðsla virðisaukaskatts).
     *      Hlutabótaleið.
     *      Ferðagjöf.
     *      Tekjutengdar atvinnuleysisbætur.
     *      Styrkir vegna umönnunar fatlaðra og langveikra barna.
     *      Úttekt séreignarsparnaðar.
     *      Sérstakur barnabótaauki.
     *      Styrkir vegna íþrótta- og tómstundastarfs.
    Í skýrslunni verði samantekt um framkvæmd opinberra stuðningsaðgerða, mat á því hvernig til hefur tekist og ábendingar um hvað betur hefði mátt fara. Jafnframt verði sérstaklega tekinn saman lærdómur af mótvægisaðgerðunum sem hægt verði að styðjast við ef grípa þarf til aðgerða á sviði ríkisfjármála og peningamála til að mæta efnahagslegum áföllum í framtíðinni.