Ferill 663. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1626  —  663. mál.
3. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, nr. 88/1995, með síðari breytingum (ferðakostnaður).

Frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið að nýju eftir 2. umræðu og skoðað sérstaklega samspil starfskostnaðar og annarra starfskjara þingmanna annars vegar og ráðherra hins vegar. Meiri hlutinn áréttar að lög um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað setja reglum um starfskostnað og önnur starfskjör ráðherra veigamiklar skorður. Í lögum um Stjórnarráð Íslands segir í 2. mgr. 27. gr. að ráðherra sem fer með starfsmannamál ríkisins setji almennar reglur um starfskostnað og önnur starfskjör ráðherra í samráði við forsætisráðherra. Í þeim reglum skuli meðal annars gæta samræmis við rétt alþingismanna og formanna stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi til greiðslu kostnaðar vegna stjórnmálalegra starfa þeirra. Þetta þýðir að þegar Alþingi hefur samþykkt breytingar á lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað ber ráðherra að taka reglur um starfskostnað ráðherra til endurskoðunar til að tryggja að þær samræmist þeim breytingum sem Alþingi hefur ákveðið. Í samræmi við þetta hefur forsætisráðuneytið og nú síðast fjármála- og efnahagsráðherra við 2. umræðu málsins staðfest að unnar verði tillögur að breytingum á reglunum sem feli í sér sambærilegar takmarkanir á endurgreiðslu ferðakostnaðar ráðherra í aðdraganda kosninga og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Meiri hlutinn leggur áherslu á að viðeigandi endurskoðun og samræming reglna fyrir ráðherra verði unnin fljótt og vel og þingið upplýst um framgang málsins.
    Að því sögðu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.


Alþingi, 7. júní 2021.

Jón Þór Ólafsson,
form.
Kolbeinn Óttarsson Proppé,
frsm.
Andrés Ingi Jónsson.
Guðmundur Andri Thorsson. Silja Dögg Gunnarsdóttir. Þórarinn Ingi Pétursson.