Ferill 785. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1629  —  785. mál.
Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Jóni Gunnarssyni um kostnað vegna rammaáætlunar.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver hefur kostnaður vegna rammaáætlunar verið frá árinu 2009, sundurliðað eftir árum og eftir stofnunum og ráðuneytum? Óskað er eftir því að svör taki mið af öllum kostnaði vegna verkefnisins í heild, jafnt beinum sem óbeinum kostnaði, svo sem vegna verkefnastjórnar, faghópa og aðkeyptrar þjónustu.

    Áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða – rammaáætlun – hefur verið í framkvæmd frá árinu 2009. Á tímabilinu 2009 til og með 2012 var áætlunin á ábyrgð ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og framkvæmd hennar í höndum Orkustofnunar, en frá árinu 2013 hefur hún verið á ábyrgð umhverfis- og auðlindaráðherra og framkvæmd hennar í höndum verkefnisstjórnar um vernd og orkunýtingu landsvæða í samræmi við lög nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun.
    Bókfærður kostnaður við framkvæmd áætlunarinnar hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti hefur verið sem hér segir:

Ár Umhverfis- og auðlindaráðuneyti Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti Útgjöld alls
2009 27.081.007 27.081.007
2010 25.200.000 25.200.000
2011 25.000.000 25.000.000
2012 610.344 610.344
2013 18.583.930 1.045.024 19.628.954
2014 21.683.778 17.413.079 39.096.857
2015 139.398.138 3.481.756 142.879.894
2016 131.617.423 125.092 131.742.515
2017 29.465.032 29.465.032
2018 80.966.965 648.000 81.614.965
2019 50.954.489 442.000 51.396.489
2020 85.534.751 5.750.000 91.284.751
Alls 558.204.506 106.796.302 665.000.808

    Bókfærður kostnaður felur í sér allan kostnað vegna vinnu stofnana, verkefnisstjórna, faghópa, alla aðkeypta þjónustu og endurgreiðslu útgjalda sem og bókfærða þjónustu sem ráðuneyti veita við framkvæmd áætlunarinnar. Í framangreindum tölum er því ekki að finna annan óbeinan kostnað sem mögulega hefur fallið til við framkvæmd áætlunarinnar þar sem slíkur kostnaður er þá ekki bókfærður á verkefnið.