Ferill 628. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1630  —  628. mál.
2. umræða.Nefndarálit með frávísunartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, og lögum um stofnun Landsnets hf., nr. 75/2004 (forsendur tekjumarka, raforkuöryggi o.fl.).

Frá minni hluta atvinnuveganefndar.


    Minni hlutinn telur að hér sé um að ræða mjög viðamikið mál. Ekki hafi verið sýnt fram á að málið sé brýnt og að nauðsyn beri til að afgreiða það á tiltölulega skömmum tíma nú á vorþingi frekar en að taka góðan tíma til að ígrunda vandlega ýmis álitamál sem uppi eru í því.
    Minni hlutinn bendir á að í frumvarpinu er vikist undan því að skilgreina hugtakið raforkuöryggi með fullnægjandi hætti og ráðherra látið það eftir í reglugerð. Þetta er gert þrátt fyrir eindregnar ábendingar um að slíkt skuli gert í lögunum eins og minni hlutinn telur rétt að gera.
    Minni hlutinn telur jafnframt að of snemma sé farið af stað með frumvarpið í ljósi þess að komið hefur fram að vinna við breytingar á reglugerð nr. 192/2016, um mat á vegnum fjármagnskostnaði (WACC), stendur nú yfir. Að mati minni hlutans ætti þessu starfi að vera lokið áður en lögum er breytt í atriðum sem snúa að setningu og uppgjöri tekjumarka.
    Þá telur minni hlutinn að ekki hafi verið tekið með fullnægjandi hætti á ábendingum er varða það nýmæli að Orkustofnun verði veitt heimild til að hafa eftirlit með fjárfestingaráætlunum dreifiveitna.
    Minni hlutinn tekur hins vegar undir með meiri hlutanum um að gerð verði breyting á raforkulögum er veiti stórnotendum raforku heimild til að nýta og selja áfram þá orku er myndast af eigin starfsemi, þ.e. orku sem leysist úr læðingi í formi varma frá eigin framleiðsluferlum og vélbúnaði sem nota orku.
    Að framangreindu virtu leggur minni hlutinn til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 4. júní 2021.

Ólafur Ísleifsson,
frsm.
Sigurður Páll Jónsson.