Ferill 644. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1631  —  644. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974 (iðnaðarhampur).

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristínu Láru Helgadóttur frá heilbrigðisráðuneytinu og Iðunni Guðjónsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Gunnar Sigurðarson frá Samtökum iðnaðarins, Guðrúnu Vöku Steingrímsdóttur frá Bændasamtökunum og Oddnýju Önnu Björnsdóttur, Sigurð Hólmar Jóhannesson og Hauk Örn Birgisson frá Hamfélaginu og Samtökum smáframleiðenda matvæla
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Bindindissamtökunum IOGT, Bændasamtökum Íslands, Læknafélagi Íslands, Samtökum iðnaðarins, Samtökum smáframleiðenda matvæla og Hamfélaginu og Æskunni – barnahreyfingu IOGT.
    Með frumvarpinu er lagt til að ráðherra sem fer með landbúnaðarmál setji reglugerð sem kveði á um veitingu leyfis til innflutnings á fræjum af tegundinni Cannabis sativa og skuli þar m.a. koma fram nánari skilyrði og takmarkanir á innflutningi, meðferð og vörslu þeirra fræja sem frumvarpið nær til.
    Í allflestum umsögnum sem nefndinni bárust er frumvarpinu fagnað. Tekið var undir að málaflokkurinn ætti heima hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þá var bent á að sökum undanþáguheimildar með breytingu á reglugerð nr. 233/2001, sem gerði innflutning, meðferð og vörslu fræja til ræktunar iðnaðarhamps mögulega, hefði ræktun hér á landi gengið vel.
    Nefndin ræddi jafnframt um vörur sem innihalda CBD (cannabidiol) og möguleika á að heimila slíka framleiðslu og markaðssetningu á Íslandi. Fékk hún þær upplýsingar frá ráðuneytinu að flókið væri að leggjast í svo umfangsmiklar breytingar á frumvarpinu. Jafnframt kom fram að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hyggist skipa starfshóp sem muni fjalla um CBD-olíu þegar frumvarp þetta hefur verið afgreitt. Starfshópurinn muni fara sérstaklega yfir lög um matvæli, nr. 93/1995, lög um ávana- og fikniefni, nr. 65/1974, og lyfjalög, nr. 100/2020, og leggja mat á nauðsyn þeirra breytinga sem gera þarf á framangreindum lögum svo framleiða megi og markaðssetja CBD-olíu hér á landi. Starfshópurinn mun jafnframt fara yfir þá vinnu sem á sér stað um þessar mundir á vettvangi Evrópusambandsins og varðar löggjöf um nýfæði og umsóknir um að CBD-olía falli þar undir. Þá sé miðað við að starfshópur skili af sér niðurstöðum í formi skýrslu eða frumvarps til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eigi síðar en 1. desember 2021.
    Nefndin fagnar þessari vinnu ráðuneytisins og telur mikilvægt að kannað verði með hvaða leiðum hægt sé að heimila framleiðslu og markaðssetningu á CBD-olíu hér á landi svo að jafnræði ríki milli íslenskra framleiðenda og erlendra. Jafnframt ítrekar nefndin mikilvægi þess að vinnan verði kláruð. Að því sögðu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 7. júní 2021.

Helga Vala Helgadóttir,
form.
Halldóra Mogensen,
frsm.
Ólafur Þór Gunnarsson.
Ásmundur Friðriksson. Anna Kolbrún Árnadóttir, með fyrirvara. Guðmundur Ingi Kristinsson.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Lilja Rafney Magnúsdóttir. Vilhjálmur Árnason.