Ferill 378. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1639  —  378. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum og lögum um tekjustofna sveitarfélaga (lágmarksíbúafjöldi sveitarfélags).

Frá 1. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Fyrsti minni hluta fagnar þeirri stefnubreytingu sem fram kemur í nefndaráliti meiri hlutans að horfið verði frá lögþvingaðri sameiningu smærri sveitarfélaga.
    Fyrsti minni hluti bendir á að burðir sveitarfélaga til þjónustu er ekki bundinn við fjölda íbúa. Ef litið er til þeirrar lögbundnu þjónustu sem stendur íbúum hvað næst, leikskólaþjónustu, má t.d. sjá að leikskólavist hefur staðið börnum til boða frá 12 mánaða aldri í fjölmörgum af minni sveitarfélögum landsins. Stærri sveitarfélög á sama svæði hafa alla jafna ekki náð sama þjónustustigi hvað þá þjónustu varðar. Þá eru mörg dæmi þess að minni sveitarfélög sinni félagslegri þjónustu við aldraða betur en stærri sveitarfélög. Að mati 1. minni hluta eiga því fullyrðingar um að stækka þurfi sveitarfélög svo að íbúarnir fái viðunandi þjónustu alls ekki við. Því miður má finna einstaka brotalamir í þjónustu sveitarfélaga, en þær eru ekki bundnar við smærri sveitarfélög fremur en þau stærri. Þá bendir 1. minni hluti á að almennt er fjárhagsleg staða stærri sveitarfélaga verri en hinna minni þegar miðað er við mælikvarða sveitarstjórnarlaga, þ.e. jafnvægisreglu og skuldareglu sem kveðið er á um í 64. gr. laganna. Staða sveitarfélaga samkvæmt þeim viðmiðum segir nokkuð um sjálfbærni viðkomandi sveitarfélags. 1. minni hluti telur því að sjálfbærni sveitarfélags verði ekki talin bundin við stærð þess og nægir í því efni að bera saman fjárhagslega stöðu ýmissa sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar.
     Í breytingartillögu meiri hlutans er gert ráð fyrir því að ef íbúafjöldi sveitarfélags er undir 1.000 við almennar sveitarstjórnarkosningar skuli sveitarstjórn þess, innan árs frá þeim sveitarstjórnarkosningum, leitast við að ná markmiðum laganna um aukna sjálfbærni og tryggja getu sveitarfélagsins til að annast lögbundin verkefni, með því að hefja formlegar sameiningarviðræður eða vinna álit um stöðu sveitarfélagsins og getu þess til að sinna lögbundnum verkefnum og um þau tækifæri sem felast í mögulegum sameiningarkostum. Þá er kveðið á um að ráðherra setji leiðbeiningar um þau atriði sem fram þurfi að koma í áliti en þar skuli m.a. fjallað um fjárhagslega og félagslega þætti sveitarfélagsins, íbúaþróun, þjónustu sveitarfélagsins og aðrar samfélagslegar aðstæður. 1. minni hluti geldur varhug við því að kvaðir séu lagðar á smærri sveitarfélög sem ekki er gerð krafa um að þau stærri uppfylli, ekki síst á sviði fjármála. Með ákvæðinu virðist ráðherra fært mikið vald til að setja kröfur um innihald álitsgerðarinnar, þ.e. skilgreina kröfur sem gerðar eru til minni sveitarfélaga um sjálfbærni og þjónustu en ekki hinna stærri. 1. minni hluti áréttar að varhugavert er að fela ráðherra aukið vald til að skilgreina eða leggja viðbótarskyldur á sveitarfélög. Mikilvægt er að gætt sé jafnræðis og meðalhófs þegar fjallað er um stöðu sveitarfélaga og sjálfsstjórnarvald þeirra virt.
    Fyrsti minni hluti ítrekar afstöðu sína um að ekki skuli gerðar meiri kröfur til minni sveitarfélaga um sjálfbærni og þjónustu en almennt gerist meðal stærri sveitarfélaga.

Alþingi, 8. júní 2021.

Karl Gauti Hjaltason,
frsm.
Bergþór Ólason.