Ferill 851. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1659  —  851. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um þekkingarsetur í Reykjanesbæ.


Flm.: Ásmundur Friðriksson.


    Alþingi ályktar að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra skipi starfshóp til að vinna þróunaráætlun vegna uppbyggingar þekkingarseturs á Suðurnesjum. Starfshópurinn geri tillögu um samþættingu frumkvöðlastarfsemi sem byggist á þeim innviðum sem þegar eru fyrir hendi á svæðinu. Starfshópurinn skili af sér tillögum fyrir lok árs 2021.

Greinargerð.

    Gerð verði tillaga að þróunaráætlun um samstarf þekkingaraðila sem þegar eru með starfsemi á og við flugvallarsvæðið og Ásbrú og hvernig uppbyggingin og samstarf þessara aðila leiði til þess að svæðið verði sérstakt og eftirsótt fyrir vísindi og nýsköpun. Hér væri höfð til hliðsjónar hugmyndin á bak við Sílikondalinn víðfræga sem byggðist upp af tveimur frjóum kornum sem urðu að miklum akri.
    Á næstu árum tengist nýr sæstrengur milli Evrópu og Ameríku við Ísland og eykur mjög alla möguleika á því að gera Ísland að miðstöð gagnavera og þekkingaröflunar mitt á milli sterkustu póla hins vestræna heims. Nokkur gagnaver eru starfandi á Suðurnesjum í dag og mögulegt að byggja frekar upp slíka starfsemi og styrkja þannig alþjóðlegar tengingar á svæðinu.
    Sú starfsemi sem fram fer á Ásbrú og framtíðarsýn um nýtt skipulag og uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli er góður grunnur fyrir áframhaldandi verðmætasköpun í nágrenninu. Uppbygging þjónustusvæðis kringum Keflavíkurflugvöll og þær alþjóðlegu tengingar sem honum fylgja geta gert svæðið eftirsótt fyrir starfsemi alþjóðlegra stórfyrirtækja.
    Suðurnesjamenn hafa lengi verið í fararbroddi þegar kemur að nýtingu jarðhita og þeirra orkustrauma sem honum fylgja. HS Orka rekur tvö orkuver á Suðurnesjum en vegna heppilegrar staðsetningar og einstakra aðstæðna má nýta afgangsstrauma frá orkuverunum til fjölbreyttrar framleiðslu. Meðal þeirra sem njóta góðs af starfseminni má nefna Bláa lónið og snyrtivöruframleiðendur, auk líftækni- og fiskeldisfyrirtækja. Mun fleiri tækifæri eru til samstarfs um nýtingu afgangsstrauma og jarðhita til uppbyggingar atvinnustarfsemi, svo sem til framleiðslu fæðubótarefna og ýmissa vara sem byggja á þörungarækt. Styðja þarf við uppbyggingu innviða fyrir slíka starfsemi á svæðinu og skoða mætti samstarf einkaaðila og opinberra aðila í því sambandi.
    Reykjanesskaginn er í dag skilgreindur sem „geopark“ sem þýðir að svæðið er hluti af verndaráætlun Unesco Global Geopark. Það er mikil viðurkenning fyrir þetta einstaka svæði að fá þá útnefningu og fyrir fyrirtæki og stofnanir á svæðinu felast tækifæri í að vekja athygli á þeirri staðreynd. Eldgosið í Geldingadölum mun laða að sér mikinn fjölda ferðamanna og möguleikar gefast á að byggja upp vísindamiðaða ferðaþjónustu. Skoða mætti að koma á fót alþjóðlegu þekkingarsetri á sviði jarðvísinda á svæðinu.
    Suðurnesin hafa mikla möguleika á að byggja upp öflugt samfélag og atvinnulíf sem byggir á hugviti, nýsköpun og hátækni. Mikilvægt er að unnin verði áætlun sem miði að því markmiði.