Ferill 852. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1660  —  852. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um skipun starfshóps um uppbyggingu opinbers skrifstofuhúsnæðis í Reykjanesbæ.


Flm.: Ásmundur Friðriksson.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp sem geri tillögu um uppbyggingu opinbers skrifstofuhúsnæðis fyrir fyrirtæki og stofnanir sem þegar eru með starfsemi á Suðurnesjum og Keflavíkurflugvelli. Uppbyggingin verði í samstarfi við einkaaðila og tengist uppbyggingu Kadeco á Keflavíkurflugvelli og í Reykjanesbæ. Starfshópurinn skili tillögu sinni fyrir árslok 2021.

Greinargerð.

    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að setja á fót starfshóp sem hafi það hlutverk að gera tillögur þvert á ráðuneyti um uppbyggingu opinbers skrifstofuhúsnæðis í Reykjanesbæ í samstarfi við einkaaðila. Byggingin hýsi stofnanir og fyrirtæki sem hafa mikilvægu hlutverki að gegna á flugvallarsvæðinu og við Keflavíkurflugvöll. Uppbyggingin verði liður í því að þau opinberu fyrirtæki og stofnanir sem hafa veigamiklu hlutverki að gegna á Suðurnesjum hafi starfsstöðvar sínar á svæðinu og stuðli að auknu rekstrarhagræði. Þessari framkvæmd munu fylgja samlegðaráhrif fyrir þær stofnanir og fyrirtæki sem nýta saman húsnæði. Samnýting matar- og fundarsala og annarra sameiginlegra rýma lækkar byggingarkostnað og fjöldi starfa í slíkri byggingu getur verið sameiginlegur fyrir öll fyrirtækin og lækkað þannig launakostnað.
    Sameiginlegar skrifstofur gætu losað pláss í Flugstöðinni en þörf er fyrir húsnæði í Flugstöðinni sem gæti nýst til leigu eða útvíkkunar á staðbundinni flugtengdri starfsemi sem sífellt kallar á meira rými og aðstöðu.
    Starfshópurinn hafi í huga það meginmarkmið og það hagræði sem fælist í því að tengja saman þá aðila undir sama þaki sem þekkingarlega og kostnaðarlega hefðu hag af uppbyggingu húsnæðisins. Hagsmunaaðilar hafa mikinn hag af þróunaráætlun Kadeco á flugvallarsvæðinu og þarf starfshópurinn að skoða hvernig verkefnið gæti stutt við þá áætlun.
    Starfshópurinn geri tillögu um að láta fara fram þarfagreiningu vegna byggingar skrifstofuhúsnæðis. Þá þarf að skoða hvernig framkvæmdinni væri best fyrir komið. Einkaframkvæmd í gegnum opinbert einkahlutafélag eða önnur leið sem hafi hagsmuni verkefnisins til langs tíma að leiðarljósi eru möguleikar sem starfshópurinn þyrfti að skoða og gera síðan tillögu til ráðherra um verkefnið.