Ferill 853. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1662  —  853. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um rannsóknir á nýgengi krabbameina á Suðurnesjum.


Flm.: Birgir Þórarinsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson, Þorsteinn Sæmundsson, Ásmundur Friðriksson.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að gera samning við Rannsókna- og skráningarsetur Krabbameinsfélags Íslands um rannsókn á nýgengi krabbameina á Suðurnesjum í samanburði við nýgengi krabbameina annars staðar á landinu. Einnig verði könnuð tíðni þekktra áhættuþátta krabbameina eftir búsetu og loks yfirfarnar skýrslur sem Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. hefur látið gera varðandi mengun á svæðinu. Tekin verði saman heildstæð skýrsla sem lýsir þeim gerðum krabbameina sem algengari eru á Suðurnesjum ásamt því að meta algengi áhættuþátta sem tengjast þeim meinum. Þá verði styrkur mengandi efna í grunnvatni og jarðvegi borinn saman við lista yfir alþjóðlega viðurkennda krabbameinsvalda.
    Ráðherra skili Alþingi skýrslu með niðurstöðum fyrir 1. janúar 2022.

Greinargerð.

    Með þingsályktunartillögunni er lagt til að heilbrigðisráðherra verði falið að gera samning við Rannsókna- og skráningarsetur Krabbameinsfélags Íslands um rannsókn á nýgengi krabbameina á Suðurnesjum í samanburði við nýgengi annars staðar á landinu.

Nýgengi krabbameina eftir landsvæðum.
    Samkvæmt nýlegri könnun á búsetu og krabbameinum hjá Rannsókna- og skráningarsetri Krabbameinsfélags Íslands hafa Suðurnesin hæst nýgengi krabbameina af öllum stöðum á landinu (sjá töflu) yfir tímabilið 2009–2018. Almennt hafa höfuðborgir og aðrar stærri borgir gjarnan hæst nýgengi þegar krabbamein eru borin saman eftir búsetu. En á Íslandi eru nú Suðurnesin komin upp fyrir höfuðborgarsvæðið hjá körlum og eru á svipuðu róli og höfuðborgarsvæðið hjá konum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Nýgengi krabbameina á Suðurnesjum.
    Samtals greindust rúmlega 1000 krabbameinstilvik á Suðurnesjum yfir þetta 10 ára tímabil. Dreifing krabbameinanna var svipuð og á landsvísu, þ.e. hæst nýgengi krabbameina var í brjóstum kvenna og blöðruhálskirtli karla, þar á eftir í lungum og ristli hjá báðum kynjum. Þá var áberandi hátt nýgengi krabbameina í lungum og leghálsi en ekki liggja fyrir rannsóknir á fleiri tegundum krabbameina. Samkvæmt upplýsingum frá Krabbameinsfélaginu er einnig áhugi á að kanna betur hugsanlega orsakaþætti, bæði efnafræðilega og lífsstílstengda þætti. Samkvæmt lýðheilsuvísum Landlæknisembættisins er t.d. tíðni reykinga í Reykjanesbæ há miðað við aðra staði, en 85% lungnakrabbameina orsakast af reykingum, og mæting í leit að leghálskrabbameini hefur verið slakari þar en annars staðar. Krabbameinsfélagið telur hins vegar að ekki sé hægt að útiloka að aðrar orsakir skýri einhvern hluta af hækkuðu nýgengi og telur því rétt að fara yfir skýrslur sem Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. hefur látið gera varðandi mengun á svæðinu. Í kjölfarið þyrfti að gera heildstæða skýrslu sem lýsir nýgenginu og þeim gerðum krabbameina sem algengari eru á Suðurnesjum ásamt því að meta algengi áhættuþátta sem tengjast þeim meinum, og loks sem athugar styrk mengandi efna í grunnvatni og jarðvegi og ber saman við lista IARC (Alþjóðastofnunar um krabbameinsrannsóknir) yfir krabbameinsvaldandi efni.

Rannsókn á áhættuþáttum.
    Flutningsmenn telja nauðsynlegt að leggja þingsályktunartillöguna fram þannig að málið verði rannsakað ítarlega. Ef marktækur munur er á tíðni krabbameins á Suðurnesjum annars vegar og á höfuðborgarsvæðinu hins vegar er mikilvægt að fá fram um hvaða mein sé að ræða og hugsanlega orsakaþætti. Suðurnesin ættu undir eðlilegum kringumstæðum að hafa heldur lægri krabbameinstíðni en höfuðborgarsvæðið. Flutningsmenn leggja til að heilbrigðisráðherra láti rannsaka málið ítarlega og telja eðlilegast að gerður verði samningur við Rannsókna- og skráningarsetur Krabbameinsfélags Íslands sem hefur unnið að rannsóknum málsins um að kanna tíðni þekktra áhættuþátta krabbameina eftir búsetu og fara yfir skýrslur Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf. varðandi mengun á Suðurnesjasvæðinu. Tekin verði saman heildstæð skýrsla sem lýsir þeim gerðum krabbameina sem algengari eru á einstökum landsvæðum ásamt því að meta algengi áhættuþátta sem tengjast þeim meinum og loks verði borinn saman styrkur mengandi efna í grunnvatni og jarðvegi við lista yfir alþjóðlega viðurkennda krabbameinsvalda.
    Lagt er til að heilbrigðisráðherra skili ítarlegri skýrslu fyrir 1. janúar 2022.