Ferill 744. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1668  —  744. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Helga Hrafni Gunnarssyni um breytingu eldri námslána á grundvelli laga um Menntasjóð námsmanna.


     1.      Hefur verið unnin greining á áhrifum þess ef lánþegar í eldra kerfi Lánasjóðs íslenskra námsmanna gætu breytt lánum í samræmi við nýtt lánakerfi Menntasjóðs námsmanna, þá sér í lagi í óverðtryggð lán, sbr. lög nr. 60/2020? Ef svo er, hvað leiddi sú greining í ljós?
    Þegar unnið var að gerð frumvarpsins um Menntasjóð námsmanna, sem síðar varð að lögum um Menntasjóð námsmanna nr. 60/2020, kom í ljós að efstu 20% af hópi einstaklinga sem skulda hvað mest hlutu 67% af heildarstyrk ríkisins en aftur á móti sá hópur sem skuldar hvað minnst hlaut 0,7% af heildarstyrk ríkisins. Skoðunin leiddi einnig í ljós að stærsti hluti ríkisstyrksins fór til þeirra námsmanna sem tóku hæstu námslánin og fóru seint í nám. Til að vinda ofan af þessari þróun var talið nauðsynlegt að búa til sanngjarnara lánasjóðskerfi til framtíðar og ekki væri tímabært að leggjast í þá miklu vinnu sem þyrfti til þess að ná utan um allar þær forsendur sem til þyrfti í útlánasafni Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Áhersla var lögð á nýja lánþega lánasjóðsins fram yfir eldri lánþega.
    Samhliða þessari áherslu sem finna má í lögum um Menntasjóð námsmanna, ákvað ríkisstjórnin að hrinda í framkvæmd tillögum starfshóps sem forsætisráðherra skipaði árið 2019 um endurskoðun á reglum vegna endurgreiðslna námslána. Hópurinn var skipaður í tengslum við kjaraviðræður á opinberum markaði. Aðgerðirnar fólu m.a. í sér að lækkaðir voru vextir á námslánum í eldra kerfi námslána úr 1% í 0,4%, ásamt því að veita afslátt vegna greiðslu inn á eða uppgreiðslu á námslánum allt að 15%.

     2.      Ef svo er ekki, stendur til að framkvæma slíka greiningu fyrir lánþega í eldra lánakerfi við endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna innan þriggja ára frá því þau komu til framkvæmda samkvæmt ákvæði til bráðabirgða VIII?
    Lög um Menntasjóð námsmanna komu fyrst til framkvæmda 1. júlí 2020 og ekki er hafin vinna við endurskoðun laganna. Fyrirspurn þessi er gott innlegg í þá vinnu sem stendur frammi fyrir ráðuneytinu og sjóðnum.