Ferill 818. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1672  —  818. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2021.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


Gestir á fundum nefndarinnar.
    Fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytisins komu á fund nefndarinnar og kynntu frumvarpið. Þeir voru Björn Þór Hermannsson, Katrín Anna Guðmundsdóttir, Jón Viðar Pálmason, Þröstur Freyr Gylfason, Hlynur Hreinsson, Marta Birna Karlsdóttir, Dóróthea Jóhannsdóttir, Kristinn Bjarnason, Hilda Hrund Cortez og Ásgeir Runólfsson.
    Nefndin kallaði til fulltrúa félagsmálaráðuneytis og fulltrúa Vinnumálastofnunar. Frá ráðuneytinu komu Svanhvít Jakobsdóttir, Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir, Inga Birna Einarsdóttir, Unnar Örn Unnarsson og Bjarnheiður Gautadóttir og frá Vinnumálastofnun þau Unnur Sverrisdóttir, Helga Hassing og Vignir Hafþórsson.
    Frá heilbrigðisráðuneyti komu Runólfur Birgir Leifsson, Ásta Valdimarsdóttir, Elsa B. Friðfinnsdóttir og Linda Garðarsdóttir. Einnig fékk nefndin á sinn fund Pál Matthíasson og Ólaf Darra Andrason frá Landspítala, Jóhannes Þór Skúlason frá Samtökum fyrirtækja í ferðaþjónustu og Önnu Hrefnu Ingimundardóttur frá Samtökum atvinnulífsins. Loks komu Drífa Snædal og Róbert Farestveit á fund nefndarinnar.

Tilefni og markmið lagasetningar.
    Ríkisstjórnin kynnti í lok apríl áframhaldandi efnahagsaðgerðir vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Um er að ræða fjórða aðgerðapakkann af þessu tagi en áður voru aðgerðapakkar af þessu tilefni kynntir í mars, apríl og nóvember á síðasta ári. Fjárheimilda vegna þeirra aðgerða var aflað í nokkrum fjáraukalögum innan ársins í fyrra og í fjárlögum ársins í ár.
    Í þeim aðgerðum sem síðast voru kynntar er verið að framlengja og innleiða á annan tug efnahagsaðgerða til að mæta afleiðingum faraldursins. Markmiðið er að styðja áfram við heimili og fyrirtæki á lokametrum baráttunnar við faraldurinn. Vel hefur gengið að verja kaupmátt og innlenda eftirspurn með aðgerðum síðustu mánaða á sama tíma og veirunni er haldið í skefjum.

Meginefni frumvarpsins.
    Vakin er athygli á því að í veigamiklum tilvikum byggjast tillögur um hækkun gjalda á því að önnur lagafrumvörp verði samþykkt eða að reglugerðum verði breytt, sbr. eftirfarandi töflu:



Þingmál Lög og reglugerðir

m.kr.

775 Breyting á lögum um atvinnuleysistryggingar 260
775 Breyting á lögum um atvinnuleysistryggingar 850
776 Ferðagjöf (endurnýjun) 750
769 Breyting á lögum um tekjuskatt (barnabótaauki) 1.620
Reglugerðarbreyting, endurráðning í fyrra starfshlutfall 4.400
Tímabundin breyting á reglugerð, hefjum störf 4.300

Samtals
12.180

    Heildarheimildir frumvarpsins nema 14.550 m.kr. og þar af eru 12.180 m.kr. sem eru háðar ýmist lagabreytingum eða reglugerðarbreytingum. Þess má geta að nú þegar er búið að birta þær reglugerðir sem nauðsynlegar eru vegna útgjaldatilefna frumvarpsins.
    Aðrar tillögur frumvarpsins koma fram í eftirfarandi töflu:

    Aðrar útgjaldatillögur

m.kr.

Daggjöld hjúkrunarheimila
1.000
Framlög til geðheilbrigðismála 600
Strætó bs., styrkur til að koma til móts við tekjutap 120
Landsbjörg og Rauði krossinn vegna tekjutaps 200
Framlag til þróunar og dreifingar bóluefnis til þróunarríkja 250
Ýmsar félagslegar aðgerðir 180
Styrking á réttindagæslu fatlaðra 20
Samtals 2.370

    Nær allar útgjaldatillögur frumvarpsins skýrast af tilefnum sem rekja má til heimsfaraldursins og ætlað er að mæta efnahagslegum og samfélagslegum afleiðingum hans.
Lagt er til að fjárheimildir málefnasviða og málaflokka verið auknar um samtals 14,6 ma.kr. Það er sá hluti aðgerðapakkans sem ekki er unnt að fjármagna með öðrum úrræðum laga um opinber fjármál, svo sem með millifærslu fjárveitinga innan ársins eða nýtingu varasjóða málaflokka.
    Hækkunin nemur um 1,2% af útgjaldaheimildum í fjárlögum ársins. Þar af eru 13 ma.kr. sem tengjast heimsfaraldrinum og eru að mestu tilkomnar vegna síðasta aðgerðapakka stjórnvalda. Við bætast 570 m.kr. sem rekja má til afleiðinga faraldursins og loks er gert ráð fyrir 1 ma.kr. framlagi vegna hækkunar á daggjöldum hjúkrunarheimila á árinu.
    Af einstökum tillögum munar mest um 4,4 ma.kr. framlag vegna ráðningarstyrkja, en fyrirtæki eiga þess nú kost að fá styrk með endurráðningu starfsmanns í skertu starfshlutfalli. Næst mest vega 4,3 ma.kr. vegna verkefnisins Hefjum störf, sem hefur að markmiði að skapa um sjö þúsund tímabundin störf fyrir langtímaatvinnulausa og námsmenn. Þá er gerð tillaga um 1,6 ma.kr. vegna greiðslu barnabótaauka sem nemur 30.000 kr. fyrir hvert barn.
    Eina tillagan sem ekki er beint tengd heimsfaraldrinum er 1 ma.kr. til hækkunar á daggjöldum hjúkrunarheimila. Gerð er tillaga um 600 m.kr. til geðheilbrigðismála sem skiptist á nokkra málefnaflokka, m.a. framhaldsskóla og háskóla. Ákvörðun sem tekin var í fyrra um svokallaða ferðagjöf er endurnýjuð á þessu ári og lögð til 750 m.kr. heimild í því skyni.
    Aðrar tillögur frumvarpsins vega minna og vísast til greinargerðar frumvarpsins til skýringar á þeim.

Afkomuhorfur 2021.
    Lagt hefur verið mat á afkomuhorfur ársins. Fjárlög voru samþykkt með 326,1 ma.kr. halla. Útgjaldaáhrif nýrra ráðstafana sem fram koma í þessu frumvarpi nema 21,3 ma.kr. þegar tekið er tillit til 2,4 ma.kr. aukinna skatttekna af úttekt séreignarsparnaðar.
    Á móti vegur 13,2 ma.kr. betri afkoma vegna endurmats á kostnaðaráætlun aðgerða sem er nú þegar áætlað fyrir í fjárlögum. Auk endurmats annarra liða sem miðar við rúmlega 6 ma.kr. betri afkomu er nú gert ráð fyrir halla sem nemur 328 ma.kr. eða 10,5% af vergri landsframleiðslu (VLF).
    Afkomuspáin er innan marka gildandi fjármálastefnu þar sem áætlað var að halli ríkissjóðs gæti numið 9% af VLF auk 3% óvissusvigrúms. Ef spáin gengur eftir þá er verið að nýta helming óvissusvigrúmsins.

Almennur varasjóður fjárlaga.
    Meiri hlutinn vekur athygli á því að í fjárlögum ársins er á málaflokki 34.10 Almennur varasjóður áætlað fyrir 20,3 ma.kr. sem eru 1,7% af fjárlögum ársins. Lögbundið er að almennur varasjóður skuli ná 1% af fjárlögum. Þannig er hér um ríflegan varasjóð að ræða og er þá sérstaklega haft í huga að með honum verði hægt að fjármagna óvænt útgjöld vegna COVID-19 sem fram kunna að koma á árinu auk þess sem ætlunin er að nýta fjárheimildir við útfærslu á launabótum til stofnana vegna breytinga á vaktavinnufyrirkomulagi í kjölfar útfærslu á styttingu vinnuvikunnar.
    Af þessum rúmu 20 ma.kr. eru 5 ma.kr. sérstaklega tilkomnir til að mæta kostnaði stofnana vegna COVID-19. Áætlað er að um 3,6 ma.kr. af því sem eftir situr fari til að fjármagna verkefnið um betri vinnutíma í vaktavinnu.

Nokkur áherslumál í vinnu meiri hlutans.
    Meiri hlutinn hefur fylgt sérstaklega eftir nokkrum málum í tengslum við frumvarpið og kallað eftir skýringum umfram það sem fram kemur í greinargerðinni.

Stuðningur við Rauða krossinn og Landsbjörg.
    Kallað var eftir viðbótarrökstuðningi vegna samtals 200 m.kr. tillögu um framlög til Rauða krossins og Landsbjargar.
    Rauði krossinn tapaði 273 m.kr. árið 2020. Tekjur frá Íslandsspilum lækkuðu um 220 m.kr., eða um rúmlega 50%. Tekjur frá fataverkefni félagsins sem er söfnun og sala á notuðum fatnaði lækkuðu um 50 m.kr. vegna lokana verslana og verðfalls í útflutningi.
    Landsbjörg tapaði 299 m.kr. árið 2020. Ekkert varð af fyrirhugaðri sölu á Neyðarkallinum, við það töpuðust tekjur að fjárhæð 112 m.kr. sem er reiknað með að komi til baka fyrri hluta ársins 2021. Eftir standa tapaðar tekjur vegna Íslandsspila sem eru áætlaðar 95 m.kr., tap vegna ýmissa annarra verkefna er um 74 m.kr. og 16 m.kr. tap vegna flugeldasýninga sem ekkert varð af.
    Samstæður félaganna hafa ekki uppfyllt skilyrði fyrir viðspyrnustyrkjum, lokunarstyrkjum, tekjufallsstyrkjum eða hlutabótaleið sem eru umfangsmestu úrræði stjórnvalda til að mæta tekjufalli.
    Tillögur um fjárframlög til félaganna eru til að mæta hluta af tekjufalli vegna COVID-19 með 100 m.kr. framlagi til hvors félags.

Hjúkrunarheimili.
    Meiri hlutinn fjallaði ítarlega um málefni hjúkrunarheimila í áliti sínu um nýsamþykkta fjármálaáætlun. Þar var m.a. fjallað um nýlega skýrslu um afkomu heimilanna sem byggðist á greiningu uppgjöra áranna 2017–2019 og fyrri helmingi ársins 2020. Í skýrslunni kom fram að mörg heimilanna hafa verið rekin með halla undanfarin ár. Árið 2019 var samanlagður halli þeirra sem voru rekin með tapi rétt tæpur milljarður kr. Ákveðið vanmat kemur þó fram í þeim tölum þar sem framlög sveitarfélaga eru talin til tekna heimilanna auk daggjalda frá ríkissjóði. Árið 2019 náðu einungis 13% heimilanna jákvæðri rekstrarafkomu án greiðslna sem sum þeirra fá frá sveitarfélögum.
    Enn ber of mikið á milli í túlkun og greiningu á skýrslu um hjúkrunarheimilin. Sérstaklega vantar á að liggi fyrir fullnægjandi greining á mismunandi kostnaði á milli heimila. Heilbrigðisráðuneytið hefur upplýst nefndina um nokkra þætti sem þarf að vinna betur, eins og um færslu kostnaðar vegna húsnæðis og hvernig hann fellur að daggjaldagrunninum.
    Meðal þess sem fram kemur í skýrslunni er að lyfja- og hjálpartækjakostnaður heimilanna hefur hækkað um 28% á þremur árum sem er langt umfram verðlag en meiri hlutinn fjallaði sérstaklega um fyrirkomulag á greiðslum vegna hjálpartækja og lyfja í nefndaráliti sínu um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2021. Heilbrigðisráðuneytið hefur upplýst fjárlaganefnd um vinnu í framhaldi af því. Koma þarf í betra horf skilgreiningum á því hvaða hjálpartæki eiga að vera búnaður heimilanna og hvaða hjálpartæki fylgja heimilisfólki.
    Á örfáum árum hefur meðhöndlun heimilismanna orðið þyngri og mikilvægt að geta fylgt því eftir með meiri sérhæfingu í umönnun. Á undanförnum þremur árum hefur meiri hlutinn í tvígang hækkað framlög til heimilanna við 2. umr. fjárlaga, samtals um 577 m.kr., og byggðist hækkunin á útreikningum um hækkun hjúkrunarþyngdar.
    Sjónarmið meiri hlutans er að þátttaka í lyfjakostnaði einstaklinga eigi að vera innan almenna lyfjaniðurgreiðslukerfisins. Slíkt gerir rekstur hjúkrunarheimila gegnsærri og jafnar stöðu þeirra. Slíkt er einnig réttlætismál gagnvart einstaklingum sem þurfa á mismunandi lyfjum að halda.
    Meiri hlutinn gerir tillögu um 300 m.kr. fjárveitingu í sjóð hjá Sjúkratryggingum Íslands, en í þann sjóð geta rekstraraðilar hjúkrunarrýma sótt viðbótarfjármagn ef þjónusta við einstaka heimilismenn er tímabundið eða varanlega verulega umfram hefðbundið framlag samkvæmt mati á hjúkrunarþyngd. Í nokkrum tilfellum geta heimilismenn kallað á mikla og dýra mönnun, dýr lyf eða sérstök hjálpartæki, og flokkast þeir þá sem svokallaðir útlagar hvað varðar kostnað, sem verður umtalsvert meiri en daggjöldin standa undir. Því er lagt til að rekstraraðilar hjúkrunarrýma geti sótt um viðbótargreiðslur vegna hjálpartækja og lyfja og sérstakrar umönnunar heimilismanna með miklar hjúkrunarþarfir, vegna áranna 2019, 2020 og 2021, þ.e. það ár sem rekstrarsamningur var ekki í gildi og þau tvö ár sem núgildandi samningur tekur til. Lagt er til að heilbrigðisráðuneytið setji nánari reglur um skiptingu framlagsins og Sjúkratryggingar Íslands sjái um framkvæmd þeirra.
    Meiri hlutinn telur að með þessari aðgerð megi til viðbótar við tillögu í frumvarpinu bæta nokkuð rekstur heimilanna. Meiri hlutinn leggur áherslu á að lyfjakostnaður megi aldrei verða sjálfstæður hvati til velja á milli þeirra sem þurfa þjónustu hjúkrunarheimila.
    Gerð er tillaga í frumvarpinu um 1 ma.kr. hækkun til að styrkja rekstrarstöðu heimilanna og með því liðkað fyrir framlengingu á samningum heimilanna við Sjúkratryggingar Íslands. Ákvörðun fjárhæðarinnar tekur mið af greiningu í skýrslunni um árlegan meðaltals hallarekstur undanfarinna ára.
    Meiri hlutinn bendir á að til viðbótar koma um 800 m.kr. launabætur sem er ætlað að bæta kostnað heimilanna vegna breytinga á vaktavinnufyrirkomulagi til að uppfylla ákvæði kjarasamninga um styttingu vinnuvikunnar. Á heilu ári er sú fjárveiting áætluð um 1,2 ma.kr. Viðbótarfjárveitingin og launabæturnar koma til hækkunar á daggjöldum stofnana og verður hækkunin að meðaltali um 4%.
    Hækkunin sést í eftirfarandi töflu (fjárhæðir í m.kr.):

Fjárlög Rekstur Fjárfesting Samtals Breyting
milli ára
Hlutfall
Fjárlög 2019 39.878 2.696 42.574 3.503 9%
Fjárlög 2020 43.644 4.371 48.014 5.441 13%
Fjárlög 2021 46.999 6.125 53.124 5.109 11%
Viðbætur ársins 2021 2.100 2.100
Samtals heimildir 2021 49.099 6.125 55.224 7.209 15%

    Fjárfesting í ár er áætluð 3,4 ma.kr. hærri en árið 2019 sem er meira en tvöföldun á tímabilinu eða 127%. Að meðtöldum viðbótarfjárveitingum 2021 er hækkun rekstrarframlaga tæpir 9 ma.kr. sem er 22% á sama tíma og launavísitalan hækkar um 14% og verðlag um 7%. Hluti hækkunarin nar skýrist af fjölgun rýma frá árinu 2019.
    Meiri hlutinn bendir á að það kann að koma til þess að endurmeta þurfi framlögin að nýju þegar að greiningarvinnu í kjölfar skýrslunnar er lokið af hálfu ráðuneyta en í því sambandi ber að hafa í huga að á síðastliðnum árum hefur verið gert stórátak í fjölgun heimila og aukinna fjármuna til rekstrar. Leita þarf enn frekari kosta í þjónustu við aldraða. En fyrst og fremst þarf að koma rekstri hjúkrunarheimila sem þegar eru í rekstri í viðunandi horf.

Landspítalinn.
    Á fundi nefndarinnar var farið yfir rekstrarniðurstöðu Landspítala vegna ársins 2020 og horfur ársins í ár. Spítalinn var rekinn með 450 m.kr. halla í fyrra þrátt fyrir að útkomuspá hafi gert ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu. Spítalinn telur að hallinn skýrist m.a. af kostnaði sem tengist kórónuveirufaraldrinum sem kom of seint fram til að ná inn í fjáraukalög í fyrra. Önnur frávik skýrast m.a. af veikingu á gengi krónunnar sem eykur kostnað vegna innkaupa, hækkandi orlofsskuldbindingu starfsfólks auk þess sem spítalinn telur að kostnaður við kjarasamninga sé vanmetinn í fjárheimildum.
    Áætlað er að spítalinn verði rekinn með lítils háttar afgangi í ár miðað við heimildir fjárlaga. Í þeim forsendum er miðað við að kostnaður vegna COVID-19 fáist bættur auk þess sem mikilvægt er að spítalinn og ráðuneytin nái sameiginlegri niðurstöðu vegna annarra forsendna rekstraráætlunar, svo sem vegna mats á kostnaði við breytingar á vinnutíma vaktavinnufólks og kostnaði við lyf sem áður voru með svokallaðri S-merkingu.
    Í samræmi við samkomulag milli ráðuneyta heilbrigðismála og fjármála er miðað við að spítalinn verði rekinn innan fjárheimilda í þrjú ár. Gangi það eftir er ætlunin að leggja til við fjárlaganefnd og Alþingi að fella niður eldri uppsafnaðan halla.
    Meiri hlutinn bendir á mikilvægi þess að uppsafnaður halli hamli ekki starfseminni og leggur áherslu á að ráðuneytin tryggi aukið gagnsæi þegar kemur að mati á kostnaðaráhrifum kjarasamninga þannig að ekki komi stöðugt til ágreinings um kostnaðarmat þeirra.
    Fram kom að áhrifa COVID-19-faraldursins gætir víða í starfsemi spítalans, bæði með færri komum á hinar ýmsu deildir auk þess sem skurðaðgerðum fækkaði um 2.000 talsins milli áranna 2019 og 2020. Samdráttur i valkvæðum aðgerðum leiddi til þess að starfsfólk fluttist til í starfi yfir á gjörgæslur og legudeildir til að mæta auknu álagi vegna faraldursins.
Áframhald er á sérstöku biðlistaátaki í samráði við heilbrigðisráðuneytið til þess að forgangsraða aðgerðum og vinna á biðlistum sem lengdust vegna faraldursins.

Nemendafjöldi á háskólastigi.
    Meiri hlutinn hefur sérstaklega kallað eftir upplýsingum um nemendafjölda í framhaldsskólum og háskólum í kjölfar heimsfaraldursins. Að teknu tilliti til nýlegra innsendra talna frá háskólum um nemendafjölda á árinu 2021 gera nemendaforsendur ráð fyrir að ársnemum fjölgi um 1.590 frá forsendum fjárlaga fyrir árið 2021 eða um 10,2%. Fjölgunin jafngildir því að framlög til kennslu þyrftu að hækka um 1.900 m.kr. miðað við meðalframlag á hvern ársnema á háskólastigi.
    Ljóst er að óvissa um þróun nemendafjölda á háskólunum er mikil, ekki síst í ljósi breytinga á atvinnuleysi. Umsóknarfrestur fyrir komandi skólaár er ekki liðinn, en reynsla undanfarinna ára sýnir að margir bíða fram á síðustu stundu með að skrá sig til náms. Áreiðanlegra mat fæst þegar kallað verður eftir nýjum tölum þegar umsóknarfresti er lokið og nemendur hafa greitt skráningargjöld í ágúst.
    Engu að síður benda skráningar til þess hækka þurfi fjárveitingar til háskóla til að fullfjármagna nemendafjöldann miðað við reiknilíkan um kennslukostnað.
    Á móti vegur afgangur af fjárheimildum framhaldsskóla. Í fjárlögum fyrir árið 2021 var veitt samtals 2,7 ma.kr. framlag í tengslum við átaksverkefnið Nám er tækifæri. Verkefninu er ætlað að veita atvinnuleitendum tækifæri til þátttöku í námsúrræðum á framhalds- og háskólastigi, auk framhaldsfræðslu. Framlagið skiptist þannig að 971,2 m.kr. voru veittar til háskólastigs og 1.728 m.kr. til framhaldsskólastigs. Áætlanir um þátttöku í verkefninu virðast ekki hafa gengið eftir. Miðað við þátttöku í verkefninu á vormisseri og áætlun fyrir haustönn má gera ráð fyrir að nýtt verði 541 m.kr. af framlaginu, sem nemur um 20% af upphaflegu framlagi.
    Gert er ráð fyrir að hluti fjárheimildarinnar verði nýttur til að fjármagna sumarnám á framhalds- og háskólastigi um sem nemur 576 m.kr. miðað við fyrirliggjandi tölur um áætlaðan kostnað. Gera má því ráð fyrir að eftirstöðvar af upphaflegu framlagi til átaksverkefnisins Nám er tækifæri sem veitt var í fjárlögum fyrir árið 2021 verði tæpar 1,6 m.kr., þ.e. 138 m.kr. af háskólastigi og 1.444 m.kr. af framhaldsskólastigi.
    Í ljósi þessa gerir meiri hlutinn tillögu um millifærslu af málefnasviði framhaldsskóla og á málefnasvið háskóla sem nemur 1.444 m.kr.

Vinnumarkaðsúrræði.
    Meðal þeirra úrræða sem gerð er tillaga um í frumvarpinu er 260 m.kr. framlag vegna styrks til atvinnuleitenda sem hafa fengið greiddar atvinnuleysisbætur samfellt í 14 mánuði eða lengur.
    Við endurmat á tillögunni hefur komið í ljós vanmat. Skýrist það af því að við útreikninga á kostnaði var gert ráð fyrir að meðalbótahlutfall þessa hóps atvinnuleitenda væri það sama og þegar tekið er mið af öllum sem voru án atvinnu á árinu 2020 eða um 72%. Við nánari eftirgrennslan reyndist bótahlutfallið hins vegar hærra eða 92%. Það eykur áætlaðan kostnað aðgerðarinnar þar sem styrkurinn er greiddur í hlutfalli við bótarétt hvers og eins. Aukning kostnaðar gæti numið um 90 m.kr. og væri þá umfang styrksins um 350 m.kr.
    Meiri hlutinn gerir breytingartillögu til samræmis við framkomnar upplýsingar á fundi nefndarinnar með 90 m.kr. hækkun útgjaldaheimildar.

Fjármögnun betri vinnutíma í vaktavinnu og styttingu vinnuvikunnar.
    Meiri hlutinn kynnti sér sérstaklega stöðu og fjármögnun verkefnis um styttingu vinnuvikunnar. Verkefnið felur í sér breytingu á vinnufyrirkomulagi og launamyndunarkerfi í vaktavinnu. Helstu breytingarnar eru að vinnuvika vaktavinnufólks, í fullu starfi, styttist úr 40 klukkustundum í 36.
    Með styttingu vinnutíma vaktavinnufólks myndast mönnunargat sem kallar á fleiri stöðugildi ef halda á uppi sömu þjónustu og verið hefur. Í kostnaðarmati verkefnisins er gert ráð fyrir að fjölgun stöðugilda verði fyrst og fremst brúuð með því að starfsfólk í hlutastarfi auki við sig starfshlutfall og á það sérstaklega við um störf í heilbrigðisþjónustu. Breytingar á launamyndunarkerfi með hækkun vaktaálags og vaktahvata hvetur starfsfólk til að vera í hærra starfshlutfalli sem leiðir af sér aukinn stöðugleika í mönnun og dregur úr þörf fyrir yfirvinnu. Umbætur og hagræðing sem verkefnið gerir kröfu um mun einnig minnka mönnunargatið. Engu að síður er ljóst að það þarf að ráða nýtt starfsfólk, sérstaklega hjá þeim stofnunum þar sem þorri starfsmanna er í 100% starfi. Á það t.d. við um löggæslustörf. Áætlaður kostnaður við breytingarnar er mismikill eftir stofnunum og fer eftir eðli starfseminnar, núverandi vaktafyrirkomulagi og meðalstarfshlutfalli starfsmanna.
    Samkvæmt kostnaðarmati er áætlað að kostnaður vegna verkefnisins gæti numið um 5,4 ma.kr. á ársgrundvelli. Miðað við gildistöku verkefnisins 1. maí sl. gæti þessi kostnaður numið 3,6 ma.kr. árið 2021. Á ársgrundvelli er miðað við að um 900 m.kr. fari til stofnana dómsmálaráðuneytis, sem eru þá lögregluembætti og Fangelsismálastofnun. Um 2 ma.kr. fara til Landspítalans og um 1,2 ma.kr. til hjúkrunarheimila. Af þeim 1,3 ma.kr. sem eftir standa rennur mest til annarra stofnana heilbrigðisráðuneytisins, en einnig er gert ráð fyrir minni hækkun hjá nokkrum öðrum ráðuneytum, t.d. hjá fjármála- og efnahagsráðuneyti vegna tollvarða og félagsmálaráðuneyti vegna Barnaverndarstofu.
    Verkefnið er að fullu fjármagnað með því að nýta almenna varasjóðinn í fjárlögum ársins þar sem umfang hans nemur í heild rúmum 20 ma.kr. Fjármála- og efnahagsráðuneytið mun millifæra fjárveitingar til einstakra stofnana vegna þessa verkefnis.

Breytingartillögur meiri hlutans.
20 Framhaldsskólastig og 21 Háskólastig.
    Gerð er tillaga um 1.444 m.kr. millifærslu af málefnasviði 20 Framhaldsskólastig á málefnasvið 21 Háskólastig.

25 Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta.
    Gerð er tillaga um 300 m.kr. fjárveitingu í sjóð hjá Sjúkratryggingum Íslands, en í þann sjóð geta rekstraraðilar hjúkrunarrýma sótt viðbótarfjármagn ef þjónusta við einstaka heimilismenn er tímabundið eða varanlega verulega umfram hefðbundið framlag samkvæmt mati á hjúkrunarþyngd. Heilbrigðisráðuneytið mun setja nánari reglur um skiptingu framlagsins og Sjúkratryggingar Íslands sjá um framkvæmd þeirra.

30 Vinnumarkaður og atvinnuleysi.
    Gerð er tillaga um 90 m.kr. hækkun vegna sérstaks styrks til atvinnuleitenda sem hafa fengið greiddar atvinnuleysisbætur samfellt í 14 mánuði eða lengur til viðbótar við 260 m.kr. í frumvarpinu. Samtals verður tillagan þá 350 m.kr. í samræmi við athugasemd um meðaltals 92% bótarétt hjá 3.800 manns sem fá 100.000 kr. styrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Kostnaðarmat hækkar þá um 90 m.kr.

35 Alþjóðleg þróunarsamvinna.
    Gerð er tillaga um breytta hagræna skiptingu á 250 m.kr. framlagi vegna alþjóðlegra þróunarsamvinnu. Í frumvarpinu er það skráð sem rekstrarframlög en nú er því breytt í rekstrartilfærslu í samræmi við eðli útgjaldanna.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 8. júní 2021.

Willum Þór Þórsson,
form., frsm.
Haraldur Benediktsson. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.
Páll Magnússon. Steinunn Þóra Árnadóttir.