Ferill 856. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 1678  —  856. mál.
Flutningsmenn.
Tillaga til þingsályktunar


um aðgerðir gegn átröskun.


Flm.: Andrés Ingi Jónsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Halldóra Mogensen, Hanna Katrín Friðriksson, Helga Vala Helgadóttir.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp til að móta tillögur að átaki í forvörnum, fræðslu og meðferð til að sporna við átröskun á Íslandi. Haft verði náið samráð við hagsmunaaðila. Starfshópurinn skili tillögu til ráðherra fyrir 1. desember 2021.

Greinargerð.

    Með tillögu þessari er lagt til að heilbrigðisráðherra skipi starfshóp sem leggi heildstætt mat á þær þarfir sem einstaklingar með átröskun hafa til þjónustu, leiti leiða til að bæta þau úrræði sem standa sjúklingum nú til boða og skoði möguleika á langtímaúrræði. Hópurinn skili tillögum sínum til ráðherra fyrir 1. desember 2021.
    Meðal þess sem starfshópurinn skoði er:
          staða aðbúnaðar og þjónustu í meðferðarúrræðum á vegum Landspítala og hvernig hægt er að bæta úr,
          möguleikar á að setja á fót langtímameðferðarúrræði,
          vinna að gerð forvarnaefnis og fræðsluefnis um átraskanir fyrir heilbrigðisfólk, aðstandendur, skólayfirvöld og íþróttafélög,
          hvernig aðgerðum gegn átröskun er háttað í nágrannalöndunum.
    Þá verði þess gætt að í starfshópnum eigi sæti fulltrúar helstu hagsmunaaðila, þar á meðal fulltrúar fagfólks, sjúklinga og aðstandenda.

Um tillöguna.
    Átröskun er alvarlegur geðsjúkdómur og einkennist af miklum truflunum á matarvenjum sem hafa alvarlegar líkamlegar og andlegar afleiðingar fyrir sjúklinga og skerða lífsgæði þeirra verulega. Í verstu tilfellum getur átröskun leitt til dauða.
    Það er mikill misskilningur að átröskun snúist einungis um mat og útlit og að eingöngu ungar konur veikist. Fólk á öllum aldri, af öllum kynjum og uppruna getur glímt við átröskun og þurft að leita sér aðstoðar. Hins vegar er staðreynd að konur eru líklegri til að glíma við átröskun. Á síðastliðnum fimm árum hafa alls 490 einstaklingar fengið þjónustu á dag- og göngudeild átröskunar á Landspítala. Meiri hlutinn voru konur, eða alls 430, en 60 karlar fengu þjónustu hjá dag- og göngudeildinni. Í því ljósi er óhjákvæmilegt að greining starfshópsins taki mið af kynjasjónarmiðum.
    Fordómar gegn átröskunarsjúkdómum birtast á ýmsan hátt. Viðhorf margra er að átraskanir séu eins konar tískusjúkdómur sem ungar stúlkur fá, til að vera mjóar. Raunin er önnur. Um mjög alvarlegan sjúkdóm er að ræða, sem í einhverjum tilvikum byrjar sem megrun. Í mörgum tilvikum getur verið um deyfingu á sársauka að ræða, sem á rætur að rekja til áfalla og er þannig af mörgum talinn eins konar fíknisjúkdómur. Þeir sem glíma við átröskun eru mjög stór og fjölbreyttur hópur. Mörg glíma einnig við fjölþættan vanda sem má rekja til átröskunarinnar, eins og áfallastreitu, kvíða og þunglyndi.
    Í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar (þskj. 890) kemur fram bág staða meðferðarúrræða í þessum málaflokki og viðleitni til að bæta stöðuna, án þess að greint sé frá mögulegum tillögum til úrbóta. Í svarinu kemur m.a. fram að bið eftir meðferð hjá átröskunarteymi Landspítalans hefur lengst verulega á undanförnum árum:

Ár Biðtími að meðaltali
2016 2–4 mánuðir
2017 2–4 mánuðir
2018 2–4 mánuðir
2019 8–12 mánuðir
2020 18–20 mánuðir

    Biðlistar hafa einnig lengst á BUGL fyrir börn sem glíma við átraskanir.
    Skýringar sem koma fram í svari heilbrigðisráðherra á því að bið hafi lengst síðustu ár eru margþættar. Má þar nefna húsnæðisvanda en átröskunarteymið hefur verið til húsa í göngudeildarhúsnæði á Kleppi frá árinu 2019 eftir að mygla kom upp í húsnæði teymisins á Hvítabandinu. Göngudeildarhúsnæðið á Kleppi hentar starfseminni ekki. Þá hafi eftirspurn eftir þjónustunni aukist, vandamál myndast í tengslum við þjónustu vegna COVID-faraldursins.
    Fámennt teymi eins og átröskunarteymið er viðkvæmt fyrir starfsmannaveltu og breytingar á starfsmannahaldi hafa áhrif á hraða þjónustunnar, enda tekur tíma að þjálfa nýja meðferðaraðila í stað reyndra sem hætta. Í svari heilbrigðisráðherra kemur fram að árið 2016, þegar átröskunarteymið var fjölmennast, hafi það verið 7,5 stöðugildi, en á síðasta ári hafi stöðugildin verið 5,2 talsins. Á sama tíma lækkaði kostnaður teymisins úr 73 millj. kr. í 55 millj. kr. Þetta er hlutfallslega mikil lækkun, en tölurnar sýna jafnframt að ekki er um að ræða háar fjárhæðir til að ná fram verulegum úrbótum í þeim bráðavanda sem steðjar að teyminu.
    Hindranir á vegi þeirra sem vilja leita sér meðferðar við átröskun núna eru margar. Fólk með átröskun getur aðeins sótt þjónustuna hjá þriðju línu heilbrigðisstofnunum, þ.e. Landspítala eða sjúkrahúsinu á Akureyri, eða greitt fyrir meðferð hjá sérfræðingum úr eigin vasa. Kostnaðurinn við hvern tíma í slíkri meðferð getur numið rúmlega 20 þús. kr., sem mörg geta ekki staðið straum af. Þar að auki er lítil sem engin þjónusta við fólk með átraskanir víða á landsbyggðinni. Félag fagfólks um átraskanir (FFÁ) segir þannig nauðsynlegt að efla úrræði utan Landspítala og SAK og bjóða upp á sérhæfða þjónustu fyrir fólk með átraskanir. Þá bráðvanti meðferðarúrræði fyrir fólk með átraskanir innan heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þessa þjónustu vanti jafnframt alfarið á heilsugæslustöðvum á landinu öllu þar sem þörfin er mikil. Þar tekur félagið undir með Samtökum um átröskun og tengdar raskanir (SÁTT), sem undanfarið hafa vakið athygli á bágri stöðu málaflokksins.
    Það er óverjandi að fólk sem glímir við jafn erfiðan og lífshættulegan geðsjúkdóm og átröskun fái ekki þá þjónustu sem það þarfnast. Það er til skammar í velferðarsamfélagi eins og Íslandi, og þar að auki kostnaðarsamt til lengri tíma, að ekki sé gripið til þeirra ráðstafana sem þörf er á. Aukinn biðtími leiðir jafnframt til þess að sjúklingar og aðstandendur þeirra leggja sjálfir út fyrir sálfræðiþjónustu meðan á biðinni stendur, oft með miklum tilkostnaði.
Átröskun er sjúkdómur sem ágerist hratt og getur haft alvarlegar afleiðingar ef ekki er gripið inn í snemma. Sjálfsvígshætta er há ásamt flóknum líkamlegum kvillum, hjartabilun, nýrnabilun, skertri frjósemi o.s.frv. Það úrræði sem stendur einstaklingum með átröskun til boða, dagdeild og göngudeild með matarstuðningi þrjá daga í viku, er ófullnægjandi. Einstaklingar sem þurfa meiri aðstoð, oft í bráðri lífshættu, hafa verið lagðir inn á almenna bráðageðdeild, þar sem þekking á átröskunum er takmörkuð og meðferð miðast ekki við þær þarfir og heildrænu nálgun sem nauðsynleg er.
    Við núverandi ástand meðferðar við átröskun verður ekki unað. Þjónusta hefur skerst mörg undanfarin ár og biðlistar lengst. Hætt er við að vanfjármögnun og undirmönnun leiði til vítahrings, þar sem reyndir sérfræðingar hrökklast úr starfi frekar en að starfa við óviðunandi aðstæður. Ef ekki verður gripið í taumana hið fyrsta er hætt við að sú góða reynsla sem byggst hefur upp við meðferð átröskunar á Landspítala hverfi og erfitt getur reynst að byggja upp á ný. Því telja flutningsmenn brýnt að grípa til þeirra aðgerða sem mælt er fyrir í þessari tillögu.