Ferill 708. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 1680  —  708. mál.
Viðbót. Undirskriftir.

2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um úrvinnslugjald (EES-reglur, hringrásarhagkerfi).

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kjartan Ingvarsson og Guðmund B. Ingvarsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Árna Grétar Finnsson frá Samtökum atvinnulífsins, Hildi Hauksdóttur og Sigurgeir Bárðarson frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Lárus M.K. Ólafsson frá Samtökum iðnaðarins, Benedikt S. Benediktsson frá SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu, Ólaf Stephensen og Hlíðar Þór Hreinsson frá Félagi atvinnurekenda, Gunnar Dofra Ólafsson frá Sorpu bs., Eygerði Margrétardóttur og Áslaugu Huldu Jónsdóttur frá FENÚR, Auði Önnu Magnúsdóttur og Tryggva Felixson frá Landvernd, Brynhildi Pétursdóttur frá Neytendasamtökunum, Guðjón Bragason, Eygerði Margrétardóttur og Bryndísi Gunnlaugsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Gísla Sigurðsson og Álfhildi Leifsdóttur frá Sveitarfélaginu Skagafirði og Matthildi Ásmundardóttur og Brynju Dögg Ingólfsdóttur frá Sveitarfélaginu Hornafirði, Ásu Valdísi Árnadóttur frá Grímsnes- og Grafningshreppi, Kristján Sturluson frá Dalabyggð, Ástu Stefánsdóttur frá Bláskógabyggð, Rósu Magnúsdóttur og Guðjón Inga Eggertsson frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Guðmund B. Friðriksson og Friðrik K. Gunnarsson frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, Ingibjörgu Huld Þórðardóttur og Unni Valborgu Hilmarsdóttur frá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Guðrúnu Vöku Steingrímsdóttur og Kára Gautason frá Bændasamtökum Íslands, Rakel Kristjánsdóttur og Frigg Thorlacius frá Umhverfisstofnun og Áslaugu Huldu Jónsdóttur og Sigurð Halldórsson frá Pure North Recycling.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Bláskógabyggð, Bændasamtökum Íslands, Dalabyggð, Félagi atvinnurekenda, FENÚR, Grímsnes- og Grafningshreppi, Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Landvernd, Pure North Recycling, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtökum iðnaðarins og SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Sorpu bs., Stefáni Gíslasyni, Sveitarfélaginu Hornafirði, Sveitarfélaginu Skagafirði, umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar og Umhverfisstofnun.

Umfjöllun nefndarinnar.
Efni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði hér á landi efnisákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/850 um breytingu á tilskipun 1999/31/EB um urðun úrgangs, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/851 um breytingu á tilskipun 2008/98/EB um úrgang, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/852 um breytingu á tilskipun 94/62/EB um umbúðir og umbúðaúrgang og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/904 um að draga úr áhrifum tiltekinna plastvara á umhverfið. Þá eru lagðar til breytingar á framleiðendaábyrgð vegna rafhlaðna og rafgeyma og skilagjaldi á ökutækjum. Með breytingunum eru sköpuð skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis í íslenskri löggjöf í því skyni að ýta undir bætta endurnýtingu og endurvinnslu úrgangs og draga verulega úr myndun hans.

Almennt.
    Sjálfbærni er löngu orðið viðurkennt stefnumið við auðlindanytjar. Það einkennir stefnumótun hér á landi í málefnum atvinnuvega og víða í hagkerfinu, t.d. í ferðaþjónustu, sjávarútvegi, landbúnaði og loftslagsmálum. Af sjálfbærni leiða þolmörk í auðlindanýtingu enda margar auðlindir jarðar óendurnýjanlegar. Kallar það á endurnýtingu þess efnis sem verður til eftir notkun vara úr hráefni slíkra auðlinda. Sama gildir um hráefni úr endurnýjanlegum auðlindum því það minnkar á álag á mörg vistkerfi jarðar og virðir þolmörk auðlinda betur en ella. Grunnhugmynd um hringrásarhagkerfi tekur mið af þessum þáttum í auðlindanytjum. Samkvæmt stefnumiðum þessa hagkerfis er brýnt að flokka allan úrgang úr atvinnulífi og einkaneyslu, hagnýta sem mest af honum og umgangast hann sem hráefni nema að því marki sem hluti hans er óendurvinnanlegur. Meiri hlutinn telur frumvarpið mikið framfaraskref þar sem með því er stefnt að heildrænu skipulagi úrgangsmála hér á landi sem styður innleiðingu hringrásarhagkerfis.
    Söfnun og endurvinnsla veiðarfæra, heyrúlluplasts og rúmfrekra plastíláta og umbúða undan matvælum eru meðal mikilvægra og umfangsmikilla verkefna sem bæta þarf í aðgerðaáætlun stjórnvalda um meðferð plastvara. Meiri hlutinn hvetur mjög til þess að farið verði samtímis yfir söfnunar- og flutningskostnað vegna þessa úrgangs. Enn fremur er brýnt að endurskoða fjárhagsumhverfi fyrirtækja sem stunda endurvinnslu plastefna og koma í fullnægjandi horf ef með þarf.

Úrgangur frá sláturhúsum og vinnslustöðvum.
    Fyrir nefndinni kom fram að á hverju ári er umtalsvert magn af úrgangi frá sláturhúsum, t.d. gor og annað sem er ónothæft til vinnslu, urðað eða brennt en ekki verður séð að fyrir gildistöku laganna verði unnt að tryggja innviði til að taka við þessum úrgangi skv. 12. gr. frumvarpsins um sérstaka söfnun og flokkun úrgangs. Meiri hlutinn bendir á að lífúrgangur er skilgreindur með þeim hætti í frumvarpinu að úrgangur frá sláturhúsum fellur ekki þar undir og verður því áfram heimilt að urða tiltekinn úrgang frá sláturhúsum.

Sérstök söfnun og flokkun úrgangs.
    Í 12. gr. er að finna ákvæði um sérstaka söfnun og flokkun úrgangs. Þar kemur fram að skylt sé að viðhafa sérstaka söfnun á pappír og pappa, plasti og lífúrgangi á sem aðgengilegastan hátt við íbúðarhús og hjá lögaðilum í þéttbýli og skuli söfnunin fara fram innan lóðar viðkomandi íbúðarhúss eða lögaðila. Fram komu sjónarmið þess efnis að nauðsynlegt væri að kveða á um skyldu til að sérsafna blönduðum úrgangi frá heimilum til jafns við söfnun endurvinnsluefna til þess að koma í veg fyrir hættu á að blandaður úrgangur fari í ílát undir endurvinnsluefni og rýri þar með gæði endurvinnslustrauma. Meiri hlutinn bendir á að áfram verður heimilt að hafa tunnu fyrir blandaðan úrgang innan lóðar og telur ekki þörf á því að kveða á um skyldu til söfnunar slíks úrgangs innan lóðar.
    Í 4. mgr. 12. gr. er kveðið á um að við meðhöndlun úrgangs skuli nota samræmdar merkingar fyrir a.m.k. þær úrgangstegundir sem safna skal sérstaklega, þ.e. pappír og pappa, málma, plast, gler, lífúrgang, textíl og spilliefni, sbr. nánari ákvæði í reglugerð. Á fundum nefndarinnar var mikil áhersla lögð á að merkingar yrðu samræmdar fyrir aðra úrgangsflokka sem ætlunin er að sérsafna, t.d. frá byggingariðnaði, og að samræmd merking yrði til fyrir blandaðan úrgang. Að mati meiri hlutans er til mikilla bóta að merkingar verði samræmdar á landsvísu. Meiri hlutinn áréttar að upptalning úrgangstegunda sem skulu fá samræmdar merkingar er ekki tæmandi í ákvæðinu og leggur áherslu á að settar verði samræmdar merkingar fyrir sem flestar úrgangstegundir í reglugerð.

Stjórn Úrvinnslusjóðs.
    Mælt er fyrir um stjórn Úrvinnslusjóðs í 16. gr. laga um úrvinnslugjald. Ráðherra skipar sjö manna stjórn til fjögurra ára í senn. Ráðherra skipar formann stjórnar án tilnefningar. Fjórir meðstjórnendur eru skipaðir að tilnefningu hvers um sig Samtaka iðnaðarins, SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, Félags atvinnurekenda og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Tveir eru skipaðir samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Á fundi nefndarinnar kom fram gagnrýni á skipan sjóðsins. Úrvinnslugjaldið yrði hluti af heildarverði vöru og legðist því í raun á neytendur sem legðu þannig sitt af mörkum til að stuðla að þróun hringrásarhagkerfisins. Þetta væri sjóður sem neytendur fjármagna gegnum neysluvenjur og innkaup og það skyti því skökku við að neytendur hefðu ekki fulltrúa í stjórn sjóðsins. Með hliðsjón af því að sjóðurinn stuðli að því að hringrásarhagkerfi verði komið á og vinni þar með að mikilvægum umhverfismálum sé einnig rétt að umhverfissamtök eigi aðild að stjórn sjóðsins.
    Meiri hlutinn bendir á að úrvinnslugjaldið grundvallast á framleiðendaábyrgð, þ.e. þeirri skyldu sem hvílir á framleiðendum og innflytjendum til að tryggja ráðstöfun á þeim vörum sem lög um úrvinnslugjald taka til með tilheyrandi kostnaði. Framleiðendaábyrgð er þannig framlenging á mengunarbótareglunni sem felur í sér að sá sem mengar umhverfið skuli einnig bæta tjónið. Í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum um úrvinnslusjóð, nr. 162/2002, kemur fram að fulltrúar atvinnulífs eigi meiri hluta í nefndinni enda sé með frumvarpinu lagt til að sá sem til úrgangs stofnar greiði fyrir endurnýtingu, endurnotkun eða förgun úrgangs. Framleiðendaábyrgðin hvílir ekki með sama hætti á sveitarfélögum, neytendum eða öðrum aðilum og telur meiri hlutinn því rétt að halda fyrirkomulagi skipunar stjórnarmanna óbreyttu. Meiri hlutinn beinir því þó til stjórnar Úrvinnslusjóðs að leita leiða til þess að eiga í góðu samráði við fulltrúar neytenda og umhverfissamtaka. Mikilvægt sé að þeir aðilar geti fylgt sjónarmiðum sínum eftir, t.d. á reglubundnum samráðsfundum með stjórn sjóðsins og eftir atvikum hagaðilum og sérfræðingum á sviðinu. Meiri hlutinn telur því jafnframt mikilvægt að samhliða því að komið verði á ríku samráði verði unnið að því að tryggja þessum fulltrúum áheyrnaraðild að stjórninni og beinir því til stjórnar sjóðsins og ráðuneytis að kanna möguleika á því.

Breytingartillögur meiri hlutans.
Markmið um umhverfislegan ávinning.
    Í 27. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á markmiðsákvæði 1. gr. laga um úrvinnslugjald, nr. 162/2002. Í ákvæðinu kemur fram að markmið laganna sé m.a. að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis með vörur og þjónustu til að stuðla að sjálfbærri auðlindanýtingu, draga úr myndun úrgangs og auka endurvinnslu hans. Þá er jafnframt markmið laganna að skapa hagræn skilyrði fyrir endurnotkun og endurvinnslu úrgangs og aðra endurnýtingu úrgangs í þeim tilgangi að draga úr magni úrgangs, sem fellur til og fer til endanlegrar förgunar, og tryggja viðeigandi förgun spilliefna.
    Meiri hlutinn telur rétt að þess sé getið sérstaklega í markmiði laganna að við sköpun hagrænna skilyrða fyrir endurnotkun og endurvinnslu úrgangs og aðra endurnýtingu úrgangs skuli höfð hliðsjón af umhverfislegum ávinningi, t.d. minni losunar gróðurhúsalofttegunda. Þá bendir meiri hlutinn á að við mat á umhverfislegum ávinningi er mikilvægt að notuð sé viðurkennd aðferðarfræði vistferilsgreiningar eða önnur sambærileg aðferðafræði. Þannig verði ekki eingöngu litið til fjárhagslegrar hagkvæmni heldur einnig áhrifa á umhverfið. Meiri hlutinn telur mikilvægt að markmiðsákvæðið taki þegar gildi enda sé um skýra stefnumörkun að ræða sem eðlilegt er að tekið sé mið af strax og meðan unnið er að gildistöku annarra ákvæða frumvarpsins. Leggur meiri hlutinn til breytingu þess efnis.

Innheimta gjalds fyrir meðhöndlun úrgangs.
    Skv. 2. mgr. 23. gr. laga um meðhöndlun úrgangs skal sveitarfélag innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs. Í 16. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um skyldu sveitarfélags til að innheimta gjald sem næst raunkostnaði við viðkomandi þjónustu, svo sem með því að miða gjaldið við magn úrgangs, gerð úrgangs, losunartíðni, frágang úrgangs og aðra þætti sem áhrif hafa á kostnað við meðhöndlun úrgangs viðkomandi aðila. Tekið er fram að sveitarfélagi sé heimilt að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignaeiningu til þess að innheimta allt að 25% af heildarkostnaði sveitarfélagsins. Er ákvæðið í samræmi við greiðslukerfið borgaðu þegar þú hendir. Fram komu ábendingar þess efnis að viðmiðunarhlutfallið væri of lágt, sérstaklega í sveitarfélögum sem samanstanda af ólíkum svæðum, þ.e. þéttbýli, dreifbýli og frístundasvæði. Sorphirða í þeim sveitarfélögum væri nú þegar mjög kostnaðarsöm. Núverandi fyrirkomulag sorphirðu á frístundasvæðum væri í formi gáma- eða grenndarstöðva en ákvæði 16. gr. útilokaði í raun núverandi grenndarstöðvar til móttöku á heimilisúrgangi þar sem gera þyrfti ráð fyrir starfsfólki eða tæknilausnum til að taka á móti greiðslu. Þá var bent á að nú þegar væri töluverður kostnaður sveitarfélaga fyrir meðhöndlun úrgangs fastur kostnaður svo sem í tilfelli grenndarstöðva, söfnunarstöðva og móttökustöðva. Ljóst væri að þessar breytingar myndu kalla á uppbyggingu innviða og reksturs þeirra með tilheyrandi kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin og þar með íbúa. Til að mæta þessum sjónarmiðum leggur meiri hlutinn til að við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða þess efnis að sveitarfélagi sé heimilt að innheimta allt að 50% af heildarkostnaði sveitarfélagsins í tvö ár, þ.e. til 1. janúar 2025. Þannig gefist sveitarfélögum rýmri tími til aðlögunar að breyttum reglum um innheimtu.
    Í 16. gr. frumvarpsins er sveitarfélögum veitt heimild til að færa raunkostnað á milli úrgangsflokka í því skyni að stuðla að hringrásarhagkerfi. Þannig geta sveitarfélög hvatt til aukinnar endurvinnslu með því að færa kostnað vegna meðhöndlunar endurvinnsluefna yfir á gjaldtöku vegna t.d. blandaðs úrgangs. Fram kom að mikilvægt væri að ákvæðið væri skýrt að því leyti að sveitarfélög hefðu heimild til að innheimta hærri þjónustugjöld vegna tiltekinna úrgangsflokka til að stuðla að hringrásarhagkerfinu. Í því fælist ekki heimild til aukinnar gjaldtöku umfram heildarkostnað heldur aðeins breytt innheimta. Að sama skapi væri mikilvægt að byggðasamlög sveitarfélaga hefðu sömu heimild. Meiri hlutinn tekur undir framangreind sjónarmið og leggur til breytingu á 16. gr. frumvarpsins þess efnis.

Veiðarfæri úr plasti.
    Á fundi nefndarinnar kom fram að réttari þýðing úr tilskipun 2019/904 hvað varðar veiðarfæri væri „veiðarfæri sem innihalda plast“ en ekki „veiðarfæri úr plasti“. Í greinargerð frumvarpsins er þetta misræmi skýrt þannig að lagt sé til að nota frekar orðalagið veiðarfæri úr plasti þar sem það sé þjálla og auk þess sé sambærilegt orðalag nú þegar notað í lögum um úrvinnslugjald, þ.e. veiðarfæri úr gerviefnum. Samkvæmt skilgreiningu frumvarpsins á hugtakinu veiðarfæri getur búnaður sem telst vera veiðarfæri í skilningi laganna, verið samsettur úr nokkrum hlutum sem mynda eina heild í þeim tilgangi að laða að og fanga t.d. fisk. Þessir hlutar geta því verið samsettir úr mismunandi tegundum af plasti sem og öðrum efnum, svo sem málmi. Meiri hlutinn bendir þó á að merkingarmunur er á því hvort veiðarfæri séu úr plasti eða innihaldi plast og mikilvægt sé að lagatextinn sé skýr hvað þetta varðar. Þar sem ákvæði frumvarpsins byggjast á Evrópugerðum er einnig rétt að gæta samræmis við orðalag ákvæða þeirra gerða um þetta efni. Með vísan til þessa leggur meiri hlutinn til breytingar á nokkrum ákvæðum frumvarpsins til að tryggja skýrleika og að þau eigi við um veiðarfæri sem innihalda plast en áréttar jafnframt að það nær þá einnig til veiðarfæra sem eru samsett úr nokkrum efnum, svo sem plasti, málmi og gúmmíi.

Innleiðing framleiðendaábyrgðar og úrvinnslugjald.
    Í 18. gr. er lagt til nýtt ákvæði um lágmarkskröfur varðandi framlengda framleiðendaábyrgð en í 2. mgr. kemur fram að framleiðendur og innflytjendur vara skuli fjármagna og tryggja meðhöndlun vöru sem er orðin að úrgangi. Sú fjármögnun skuli m.a. standa straum af kostnaði við sérstaka söfnun sem og aðra söfnun úrgangsins og meðhöndlun hans í kjölfarið, kostnaði við upplýsingasöfnun, upplýsingaskil og upplýsingagjöf. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið þess efnis að ekki væri nægilega skýrt í lögum um úrvinnslugjald að gjaldið skuli standa undir allri ábyrgð framleiðenda eins og hún er skilgreind á hverjum tíma í lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, m.a. hinni framlengdu framleiðendaábyrgð sem lögð er til í 18. gr. frumvarpsins. Meiri hlutinn telur mikilvægt að kostnaður vegna framlengdrar framleiðendaábyrgðar lendi ekki á sveitarfélögum heldur standi úrvinnslugjaldið undir honum. Meiri hlutinn leggur því til að við 29. gr. frumvarpsins bætist stafliður þess efnis.
    Bent var á að fjallað er um framleiðendaábyrgð í þremur lagabálkum, lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um úrvinnslugjald. Það geti því verið flókið að átta sig á umfangi framleiðendaábyrgðar. Meiri hlutinn tekur undir það og beinir því til ráðuneytisins að taka til skoðunar hvort tilefni sé til að endurskoða framangreinda lagabálka með hliðsjón af einföldun og skýrleika.

Skilagjald á ökutæki.
    Í c-lið 31. gr. kemur fram að greiða skuli 20.000 kr. skilagjald hverjum þeim sem afhendir gjaldskylt ökutæki til móttökustöðvar til endurnýtingar eða endanlegrar förgunar, enda hafi ökutækið verið afskráð og skilagjald eigenda greitt a.m.k. einu sinni af viðkomandi ökutæki. Bent var á að ástæða væri til að hækka gjaldið en það væri búið að vera 20.000 kr. í rúm sex ár. Sveitarfélög og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga hefðu orðið vör við töluverða fjölgun tilfella þar sem ökutæki eru skilin eftir á víðavangi og eigendur sinna því ekki að skila ökutækinu til móttökustöðvar. Því sé ljóst að upphæðin sé ekki nægilegur hvati til að skila inn ökutækjum og falli kostnaður við förgun þessara ökutækja á viðkomandi sveitarfélag sem ekki sé ásættanlegt. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur fram að áætlað sé að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu þurfi a.m.k. að greiða 30.000 kr. í beinan kostnað við að fjarlægja ökutæki af víðavangi en samkvæmt gjaldskrá Vöku kosti allt að 25.000 kr. að fjarlægja ökutæki. Þá sé kostnaður við geymslu á ökutækinu ekki talinn með. Meiri hlutinn leggur til þá breytingu að skilagjaldið verði hækkað í 30.000 kr. í því augnamiði að auka hvata til þess að einstaklingar og lögaðilar skili úr sér gengnum ökutækjum á móttökustöðvar. Meiri hlutinn telur mikilvægt að á grunni þessa frumvarps haldi hlutaðeigandi ráðherrar áfram að skoða mögulegar breytingar á fjárhæðum úrvinnslugjalds og gjöldum vegna endurvinnslu ökutækja.

Hlutverk Úrvinnslusjóðs – hagrænir hvatar.
    Með 37. gr. eru lagðar til breytingar á 15. gr. laga um úrvinnslugjald um hlutverk sjóðsins. M.a. er lagt til að úrvinnslusjóður skuli með hagrænum hvötum koma upp skilvirku fyrirkomulagi á úrvinnslu úrgangs sem er tilkominn vegna vara sem falla undir lög þessi og leggja til grundvallar forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs, sbr. lög um meðhöndlun úrgangs. Fram kom gagnrýni á að með breytingunni sé verið að fella úr lögum skyldu sjóðsins til að skapa sem hagkvæmust skilyrði til úrvinnslu úrgangs. Það sé mikilvægt að fram komi í lögum að Úrvinnslusjóði beri að leita hagkvæmustu lausna, m.a. til að standa gegn þrýstingi einstakra sveitarfélaga og fyrirtækja sem vilja að önnur markmið séu í fyrirrúmi. Fyrirtæki sem beri framleiðendaábyrgð samkvæmt lögunum standi undir kostnaði við úrvinnslu og sé því mikilvægt fyrir þau að kveðið sé á um hagkvæmni í lögunum. Það séu einnig hagsmunir neytenda sem á endanum greiði fyrir verkefni sjóðsins í gegnum verðlagsáhrif úrvinnslugjalds. Á hinn bóginn kom fram að ganga ætti lengra og fela Úrvinnslusjóði að horfa einnig til vistferilskostnaðar og umhverfislegra áhrifa við innleiðingu hagrænna hvata. Horfa þyrfti til umhverfislegrar hagkvæmni en ekki einungis fjárhagslegrar enda tilgangur sjóðsins að styðja við aukna endurvinnslu og umhverfisvitund. Að mati meiri hlutans er mikilvægt að Úrvinnslusjóður stuðli að hringrásarhagkerfinu á Íslandi í starfsemi sinni en horfi ekki einungis til fjárhagslegrar hagkvæmni. Leggur meiri hlutinn því til þá breytingu á c-lið 37. gr. að vísað verði til umhverfislegs ávinnings. Þannig skuli Úrvinnslusjóður með hagrænum hvötum koma upp skilvirku fyrirkomulagi á úrvinnslu úrgangs sem sé tilkominn vegna vara sem falli undir lögin með hliðsjón af umhverfislegum ávinningi og leggja til grundvallar forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs, sbr. 7. gr. laga um meðhöndlun úrgangs og 1. gr. laga um úrvinnslugjald.

Endurvinnsla á plasti hér á landi.
    Meiri hlutinn áréttar að hagkvæmnis- og umhverfisverndarrök mæla með því að sem mest af plasti er til fellur í landinu verði endurunnið hérlendis og sem minnstur hluti fluttur úr landi. Ef aðstæður til endurvinnslu eru til staðar á landinu er rétt að nýta þær enda sé um mikilvægan þátt í myndun hringrásarhagkerfis á Íslandi. Mikilvægt sé að ef plast verði flutt úr landi séu fyrir því gildar ástæður. Tryggja verði að unnt sé að styrkja nýsköpun enn frekar á þessu sviði endurvinnslu, aðstoða jafnvel fyrirtæki til þess að sinna endurvinnslu plasts og auka jafnt sérhæfni sem samkeppni í þeim geira. Meiri hlutinn fagnar þeim styrktarsjóðum sem snúa að nýsköpun í úrgangsmálum.
    Meiri hlutinn hvetur til þess að umhverfis- og auðlindaráðuneytið efni til átaks sem miði að því að koma bæði umgjörð innlendrar plastendurvinnslu og framkvæmd hennar í horf sem hæfir hringrásarhagskerfi sem best. Þar þarf að kanna og ákvarða hvort og þá að hve miklu leyti endurvinnsluþátturinn verði aðskilinn frá verkefnum Úrvinnslusjóðs. Á það við um endurvinnslu fleiri efna, t.d. glers og ef til vill málma á borð við ál.
    Með vísan til framangreindra sjónarmiða um mikilvægi þess að sem mest af plasti er fellur til á landinu verði endurunnið á Íslandi leggur meiri hlutinn til breytingu á 2. mgr. 15. gr. laga um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, þess efnis að nýjum málslið verði bætt við 2. mgr. 15. gr. laga um úrvinnslugjald sem kveður á um skyldu Úrvinnslusjóðs að tryggja að fullnægjandi gögn séu til staðar áður en greiðslur er inntar af hendi. Af því leiðir að Úrvinnslusjóður þarf að fá upplýsingar um endanlega ráðstöfun plastúrgangs, hvar plastið verði endurunnið og hver umhverfisáhrif ráðstöfunarleiðar eru. Liggi þessar upplýsingar ekki fyrir getur Úrvinnslusjóður ekki greitt út fyrir ráðstöfun úrgangsins. Í ljósi þeirra hagsmuna sem eru undir og tengslum ákvæðanna við markmiðsákvæði leggur meiri hlutinn til að ákvæðið og aðrar breytingar á 2. mgr. 15. gr. laganna taki þegar gildi.

Besta aðgengilega tækni.
    Fyrir nefndinni var bent á að í lögum um meðhöndlun úrgangs gætti nokkurs misræmis við lög um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í fyrrnefndu lögunum er vísað til „bestu fáanlegu tækni“ en í þeim síðarnefndu til „bestu aðgengilegu tækni“. Síðarnefnda orðalagið kom inn í lög árið 2017 og er einnig í samræmi við Evrópugerðir á þessu sviði þar sem vísað er til bestu aðgengilegu tækni (BAT). Meiri hlutinn telur rétt að leiðrétta þetta misræmi svo að samræmis sé gætt í hugtakanotkun laga á þessu sviði sem tryggir þá einnig samræmi við Evrópugerðir. Meiri hlutinn leggur því til breytingu þessa efnis.

Innleiðingarákvæði í 26. og 39. gr.
    Líkt og að framan greinir felur frumvarpið í sér lögfestingu efnisákvæða fjögurra tilskipana Evrópuþingsins og ráðsins. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu hafa tilskipanirnar ekki verið teknar upp í EES-samninginn en unnið er að undirbúningi ákvörðunar þar um á vettvangi EES/EFTA ríkja. Frumvarp þetta felur því ekki í sér eiginlega innleiðingu á tilskipunum sem Íslandi er skylt að taka upp í landsrétt í kjölfar ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar og leggur meiri hlutinn því til að innleiðingarákvæði í 26. og 39. gr. frumvarpsins falli brott. Engu að síður eru efnisákvæði tilskipananna lögfest með frumvarpinu og telst því Ísland hafa uppfyllt sínar þjóðréttarlegu skuldbindingar hvað þær varðar verði þær teknar upp í EES-samninginn. Meiri hlutinn beinir því jafnframt til ráðuneytisins að fylgjast með framgangi gerðanna á þeim vettvangi og bregðast við ef þurfa þykir, svo sem með frestun gildistöku laganna, sem nú er 1. janúar 2023, til að tryggja að við upptöku gerðanna í EES-samninginn komi íþyngjandi kostnaðaráhrif ekki fram hjá íslenskum fyrirtækjum, sveitarfélögum og neytendum fyrr en fyrirkomulag framkvæmdar regluverksins liggur fyrir.
    Þá leggur meiri hlutinn til nokkrar breytingar tæknilegs eðlis sem ekki er ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Jón Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið í samræmi við 2. mgr. 29. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991.
    Guðjón S. Brjánsson og Hanna Katrín Friðriksson skrifa undir álitið með fyrirvara sem þau hyggjast gera grein fyrir í ræðu.

Alþingi, 7. júní 2021.

Ari Trausti Guðmundsson,
frsm.
Guðjón S. Brjánsson,
með fyrirvara.
Hanna Katrín Friðriksson,
með fyrirvara.
Jón Gunnarsson. Kolbeinn Óttarsson Proppé. Líneik Anna Sævarsdóttir.
Vilhjálmur Árnason.