Ferill 583. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1688  —  583. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um greiðsluþjónustu.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ernu Hjaltested frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Jónu Björk Guðnadóttur, Hallgrím Ásgeirsson og Leif Arnkel Skarphéðinsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Ásgeir Ásgeirsson og Viggó Ásgeirsson frá Samtökum fjártæknifyrirtækja, Vigdísi Evu Líndal og Gunnar Inga Ágústsson frá Persónuvernd og Aðalstein Eymundsson, Ingu Dröfn Benediktsdóttur, Lindu Kolbrúnu Björgvinsdóttur, Gunnar Þór Ásgeirsson, Hjálmar Brynjólfsson og Guðrúnu Finnborgu Þórðardóttur frá Seðlabanka Íslands. Nefndinni bárust erindi um málið frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Persónuvernd, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum fjártæknifyrirtækja og Seðlabanka Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að gildi taki ný heildarlög um greiðsluþjónustu og að gildandi lög um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, falli úr gildi. Auk þess er kveðið á um viðamiklar breytingar á lögum um útgáfu og meðferð rafeyris, nr. 17/2013. Með frumvarpinu er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2366 um greiðsluþjónustu á innri markaðnum og breytingar á öðrum gerðum.

Breytingartillögur nefndarinnar.
Skilgreining eiginfjárgrunns (3. tölul. 3. gr.).
    Í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja til nefndarinnar er bent á að misræmi sem þarfnist nánari skoðunar felist í skilgreiningu hugtaksins eiginfjárgrunnur í 3. tölul. 3. gr. frumvarpsins, þar sem vísað er til þess hvernig hugtakið er skilgreint í lögum um fjármálafyrirtæki auk frekari forsendna, m.a. um að þáttur 2 sé jafn eða minni en þriðjungur af almennu eigin fé þáttar 1. Að höfðu samráði við ráðuneytið leggur nefndin til breytingu á skilgreiningunni þannig að hún kveði á um að þáttur 2 sé jafn eða minni en þriðjungur af eiginfjárþætti 1 í stað almenns eigin fjár þáttar 1.

Upplýsingar í umsókn um starfsleyfi (4. gr. og e-liður 1. tölul. 117. gr.).
    Í 3. mgr. 4. gr. frumvarpsins er lagt til að Seðlabankanum verði heimilt að setja nánari reglur um þær upplýsingar sem koma þurfa fram í umsókn um starfsleyfi og nauðsynleg fylgigögn til að umsögn teljist fullnægjandi. Í umsögn Seðlabankans til nefndarinnar kemur fram að bankinn telji ónauðsynlegt að slík regluheimild sé í ákvæðinu heldur nægi að birta um það upplýsingar á vef bankans. Slíkt verklag sé í samræmi við lög um fjármálafyrirtæki þar sem bankinn hafi birt lista yfir upplýsingar sem fylgja þurfa umsóknum um starfsleyfi skv. 5. gr. laganna. Leggur Seðlabankinn til að 3. mgr. 4. gr. frumvarpsins falli brott en þess í stað bætist liður við 1. mgr. ákvæðisins um hvað skuli koma fram í umsókn um starfsleyfi þess efnis að Fjármálaeftirlitið birti opinberlega upplýsingar sem teljist nauðsynlegt að komi fram.
    Nefndin leggur til breytingu á 4. gr. frumvarpsins í samræmi við ábendingu Seðlabankans. Með sömu rökum leggur nefndin til breytingu á e-lið 1. tölul. 117. gr. frumvarpsins.

Starfsemi greiðslustofnunar (a-liður 1. mgr. 16. gr.).
    Í a-lið 1. mgr. 16. gr. er fjárvarsla talin upp sem starfsemi sem greiðslustofnun er heimilt að stunda ásamt greiðsluþjónustu. Í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja til nefndarinnar er bent á að í gildandi lögum um greiðsluþjónustu sé notast við orðalagið „ráðstafanir til verndunar eigna“ í stað fjárvörslu og lagt til að svo verði áfram í nýju lögunum. Í minnisblaði ráðuneytisins til nefndarinnar kemur fram að ráðuneytið leggist ekki gegn þessari tillögu enda hafi Fjármálaeftirlitið ekki gert kröfu um fjárvörslureikning í því skyni sem átt er við heldur einungis sérmerktan viðskiptareikning. Nefndin leggur til breytingu á a-lið 1. mgr. 16. gr. frumvarpsins í samræmi við ábendingu Samtaka fjármálafyrirtækja.

Þátttaka í greiðslukerfum – reglugerðarheimild (36. gr.).
    Í 36. gr. frumvarpsins er fjallað um þátttöku í greiðslukerfum og er ákvæðið sambærilegt 7. gr. gildandi laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011. Í minnisblaði ráðuneytisins til nefndarinnar er farið þess á leit við nefndina að við 36. gr. frumvarpsins bætist reglugerðarheimild sambærileg þeirri sem fyrir er í 5. mgr. 7. gr. gildandi laga. Nefndin fellst á það og leggur til breytingu á 36. gr. frumvarpsins þess efnis.

Birting niðurstaðna um beitingu stjórnsýsluviðurlaga (112. gr.).
    Samkvæmt 1. mgr. 112. gr. frumvarpsins ber Fjármálaeftirlitinu að birta á vefsíðu sinni sérhverja niðurstöðu um beitingu stjórnsýsluviðurlaga og skal birt niðurstaða að lágmarki innihalda upplýsingar um tegund og eðli brots og nafn hins brotlega. Í 2. mgr. er Fjármálaeftirlitinu veitt heimild til að fresta birtingu eða birta niðurstöðu án þess að nafngreina aðila ef nafnbirting samræmist ekki meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar eða ef birtingin getur stofnað stöðugleika fjármálamarkaða í hættu eða skaðað yfirstandandi rannsókn. Í umsögn Persónuverndar til nefndarinnar er lagt til að ákvæði 2. mgr. gildi jafnframt ef birting samræmist ekki meginreglum laga um persónuvernd. Nefndin fellst á tillöguna, að höfðu samráði við ráðuneytið, og leggur til breytingu þess efnis.
    Í 6. mgr. greinarinnar kemur fram að niðurstöður um beitingu stjórnsýsluviðurlaga vegna brota gegn ákvæðum laganna skuli birtar á vefsíðu Fjármálaeftirlitsins í að lágmarki fimm ár. Í 2. málsl. ákvæðisins kemur fram að persónuupplýsingar sem fram koma í niðurstöðunum skuli þó ekki birta lengur en málefnalegar ástæður leyfa í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja til nefndarinnar er bent á að persónuupplýsingar séu almennt hvorki birtar í niðurstöðum Persónuverndar, dómstóla né annarra stjórnvalda. Persónuvernd hafi úrskurðað um að birting persónuupplýsinga á vefjum stjórnvalda og dómstóla samrýmist ekki lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Nefndin tekur, að höfðu samráði við ráðuneytið, undir framangreinda ábendingu og telur að 2. máls. 6. mgr. 112. gr. frumvarpsins geti valdið vafa að óþörfu. Leggur nefndin til að málsliðurinn falli brott.

Gildistaka og lagaskil (115. og 116. gr. og ákvæði til bráðabirgða).
    Samkvæmt 115. gr. frumvarpsins öðlast lögin gildi 1. júlí 2021 og taka dagsetningar í lagaskilaákvæði 116. gr. og í ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu mið af því. Nefndinni hafa borist ábendingar um að nauðsynlegt sé að veita lengri aðlögunartíma frá samþykkt frumvarpsins þar til lögin taka gildi. Leggur nefndin til að gildistakan miðist við 1. nóvember 2021. Þá leggur nefndin til að dagsetningar í 116. gr. og í ákvæði til bráðabirgða breytist til samræmis við frestun gildistökunnar.

Aðrar breytingartillögur.
    Auk framangreindra breytinga leggur nefndin til minni háttar breytingar sem byggjast á minnisblaði ráðuneytisins og vísar til umfjöllunar í því þeim til útskýringar. Þá leggur nefndin til nokkrar breytingar sem eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 21. maí 2021.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Jón Steindór Valdimarsson. Brynjar Níelsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Hjálmar Bogi Hafliðason. Ólafur Þór Gunnarsson.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Smári McCarthy.