Ferill 818. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1690  —  818. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2021.

Frá minni hluta fjárlaganefndar.


    Áhrif kreppunnar í kjölfar COVID-19 faraldursins bitnar harðast á þeim sem missa vinnuna og fjölskyldum þeirra. Grunnatvinnuleysisbætur eru langt undir lágmarkslaunum og standa nú í um 88% af lágmarkstekjutryggingu. Líkt og bent er á í skýrslu Alþýðusambands Íslands um íslenskan vinnumarkað 2021 er tekjufall atvinnuleitenda verulegt, eða að jafnaði um 37% á fyrstu mánuðum atvinnuleysis. Byrðar samdráttarins dreifast á minni og viðkvæmari hóp en í öðrum íslenskum kreppum, þ.e. fyrst og fremst við atvinnumissi og tekjufall atvinnulausra en síður vegna verðbólgu og almennrar lækkunar raunlauna. Ungt fólk verður fyrir langvarandi neikvæðum tekjuáhrifum af erfiðu atvinnuástandi á meðan langtímaatvinnulausir eru í hættu á að gefast upp á atvinnuleit og hverfa af vinnumarkaði. Samfélagslegur kostnaður langtímaatvinnuleysis er mikill og getur haft veruleg neikvæð áhrif á heilsufar atvinnuleitenda og velferð barna þeirra.
    Atvinnumissir er alvarlegra mál í kreppu en í góðæri. Fjöldi fólks missir vinnuna á sama tíma. Störfum fækkar og því er erfiðara að finna aðra vinnu og líkur á langtímaatvinnuleysi aukast. Slæmar félagslegar og heilsufarslegar aukaverkanir langtímaatvinnuleysis eru þekktar og þær eru kostnaðarsamar fyrir fjölskyldur og samfélagið.
    Mikilvægt er að atvinnuleitendur finni starf þar sem menntun þeirra og reynsla nýtist sem best. Að öðrum kosti er hætta á að verðmæt menntun og sérhæfing glatist. Sú alvarlega staða hefur skapast á íslenskum vinnumarkaði að skeytasendingar ganga á milli aðila um ástandið og upplýsingaóreiða er mikil um stöðu mála. Samtök atvinnurekenda og forsvarsmenn ferðaþjónustunnar halda því fram að atvinnulaust fólk neiti í stórum stíl störfum og vilji frekar vera í sumarfríi á atvinnuleysisbótum. Alþýðusambandið heldur því fram að sum fyrirtæki bjóði of lág laun til að nýta sér neyð fólksins og einhver þeirra hafi beinlínis sagt upp fólki og ráðið starfsmenn í staðinn á ráðningastyrk ríkisstjórnarinnar. Vinnumálastofnun heldur því fram að svik í kerfinu af hálfu atvinnuleitenda séu mjög óalgeng.
    Afar mikilvægt er að allir aðilar leggi sig fram um að safna áreiðanlegum gögnum um raunverulega stöðu á viðkvæmum hluta vinnumarkaðarins. Sýna þarf fólkinu sem hefur verið atvinnulaust virðingu og koma ekki fram við fólk sem vöru á lager sem hægt sé að grípa til þegar hentar og meðhöndla að vild.
    Það verður að grípa til aðgerða til að verja langtímaatvinnulausa. Grundvallaratriði í því sambandi er að lengja atvinnuleysistímabilið um að minnsta kosti 6 mánuði. Samfylkingin hefur ítrekað lagt fram tillögur um lengra atvinnuleysistímabil, allt frá því að ljóst var að afleiðingar faraldursins yrðu umtalsverðar og vöruðu lengur en svo að lögbundið atvinnuleysistímabil dygði. Stjórnarflokkarnir hafa jafn oft fellt þær tillögur.
    Fyrir faraldurinn, í byrjun árs 2020, voru um 10.000 manns atvinnulausir og þar af höfðu 1.800 verið atvinnulausir í meira en 12 mánuði. Þá þegar hefðu viðvörunarbjöllur átt að fara að hringja um að staðan á vinnumarkaði væri þung og leita þyrfti ástæðna og lausna.
    Aðilar vinnumarkaðarins voru sammála um eftir bankahrunið að leggjast á árarnar með ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur m..a. um að lengja atvinnuleysistímabilið sem þá varð fjögur ár. Nú er annar tónn í Samtökum atvinnulífsins og í ríkisstjórninni. Lögbundið atvinnuleysistímabil er tvö og hálft ár og rúmlega hundrað manns detta mánaðarlega út úr kerfinu. Með því að lengja ekki atvinnuleysistímabilið er verið að vísa fjölda fólks, eftir langvarandi atvinnuleysi, á félagsþjónustu sveitarfélaga sem er mun lægri en atvinnuleysisbætur og til hjálparstofnana eftir mat. Stjórnvöld leiða með þessu hóp fólks beina leið í sárafátækt.
    Samfylkingin gerir nú lokatilraun á þessu kjörtímabili til að breyta þessu og leggur til að með samþykkt breytingartillögu við fjáraukalagafrumvarpið verði mögulegt að lengja tímabil atvinnuleysisbóta um sex mánuði. Gert er ráð fyrir að á árinu 2021 kostaði sú lenging ef hún tæki gildi 1. júlí 2021 alls 710.000.000 kr.

Upphæð atvinnuleysisbóta.
    Minni hlutinn bendir á að þrátt fyrir spár um bata og merki um betri horfur á vinnumarkaði gera áætlanir ráð fyrir 5% atvinnuleysi árið 2026. Það er því raunveruleg hætta á að hér á landi verði til lengri tíma meiri atvinnuleysi en þekkst hefur á undanförnum áratugum.
    Við því verður að bregðast með endurskoðun laga um atvinnuleysistryggingar og huga að réttindum launafólks á breyttum vinnumarkaði. Réttinda- og velferðarkerfi vinnumarkaðar hvíla á því að um hefðbundin föst ráðningarsambönd sé að ræða á milli starfsmanna og atvinnurekenda. Slík réttindi eiga víða undir högg að sækja þar sem launafólki er ýtt í hlutastörf, ótrygga vinnu og svokallaða launamannaverktöku á lágum launum. Slíkt er fremur boðið ungu fólki og fólki af erlendum uppruna. Áhrif þessa á afkomuöryggi yfir ævina eru gríðarleg og hefur neikvæð áhrif á réttindasöfnun, lífeyrisréttindi, atvinnuleysistryggingar, veikinda- og sjúkraréttindi og rétt til fæðingarorlofs.
    Því hefur verið haldið fram, m.a. af Samtökum atvinnulífsins, að atvinnulausum fjölgi ef atvinnuleysisbætur hækka. Því sé mikilvægt að halda atvinnuleysisbótum lágum. Þegar störfum fækkar í þúsundatali í heimsfaraldri sem veldur miklum erfiðleikum í stærstu atvinnugrein þjóðarinnar eru slíkar fullyrðingar augljóslega rangar og það verða engin ný störf til með því að skapa neyð á heimilum þeirra sem missa vinnu við þessar aðstæður. Auk þess sýna rannsóknir að atvinnuleysi er ekki meira í löndum sem búa við öflugar atvinnuleysistryggingar. Atvinnuþátttaka á Íslandi hefur verið mikil í eðlilegu árferði jafnvel þó að atvinnuleysisbætur hafi verið nær lágmarkslaunum en nú er.
    Samfylkingin hefur ítrekað lagt til að atvinnuleysisbætur hækki í 95% af lágmarkstekjutryggingu. Slík breytingartillaga er einnig lögð til að þessu sinni og taki gildi 1. júlí 2021. Gert er ráð fyrir að kostnaðurinn á árinu 2021 verði 2.000.000.000 kr.

Rekstur hjúkrunarheimila.
    Ríkisstjórnin hefur samþykkt fern fjárlög þar sem rekstur hjúkrunarheimila er vanfjármagnaður. Sveitarfélögin hafa lengi lýst yfir áhyggjum af þessari stöðu og Samfylkingin ítrekað lagt fram tillögur til breytinga á fjárlögum, sem hafa allar verið felldar. Ríkinu ber þó að standa undir kostnaði af starfsemi hjúkrunarheimila, en mörg af hjúkrunarheimilum landsins eru rekin af sveitarfélögum með samningi við Sjúkratryggingar Íslands. Afleiðing þessarar skortstefnu ríkisstjórna síðustu ára er að sveitarfélög hafa þurft að greiða milljarða króna til að tryggja öldruðum mannsæmandi þjónustu í heimabyggð, sem ríkið ber þó ábyrgð á. Akureyrarbær hefur t.d. borgað hátt í tvo milljarða króna með hjúkrunarheimilum bæjarins síðustu átta ár. Í nýrri skýrslu um rekstrarkostnað hjúkrunarheimila sést að fjárveitingar ríkisins duga ekki til reksturs hjúkrunarheimila. Þessi skortstefna stjórnvalda getur bitnað á þjónustu við fólk. Í skýrslunni kemur fram að tap á rekstri hjúkrunarheimila nam þremur og hálfum milljarði króna árin 2017–2019.
    Taprekstur flestra hjúkrunarheimila hefur verið viðvarandi og þá skiptir engu hver það er sem rekur heimilið, hvorki einkaaðilar né sveitarfélög komast frá þessu fjárhagslega ósködduð. Ekkert hjúkrunarheimili nær lágmarksviðmiði landlæknis varðandi umönnunarklukkustundir og fæst ná þau viðmiði landlæknis varðandi lágmarkshlutfall hjúkrunarfræðinga eða annars faglærðs starfsfólks.
    Aldur heimilisfólks á hjúkrunarheimilum hefur tekið miklum breytingum á síðustu þremur árum sem voru til rannsóknar í skýrslu nefndarinnar. Fjölgaði sérstaklega í elsta hópnum, 90 ára og eldri, en fækkun var í næstelsta hópnum. Á það var bent að þetta hefði áhrif á hjúkrunarþyngd sem hefði aftur áhrif á rekstrarkostnað á hvert rými. Fulltrúar stjórnvalda hafa oft bent á að fjárveitingavaldið sé hjá Alþingi, en þá verður að hafa í huga að ríkisstjórnarflokkarnir eru með meirihluta á Alþingi og leggja línurnar um fjármagn til málaflokksins. Þá ákveður framkvæmdavaldið í framhaldinu, hvernig ráðstafa skuli fjármagninu og hversu mörg rými séu fyrir hendi fyrir umrædda fjárhæð. Er það gert í samráði við Sjúkratryggingar Íslands sem annast samninga fyrir hönd ríkisins. Minni hlutinn telur það augljóst að bæta einungis einum milljarði í þennan málaflokk muni á engan hátt snúa við þeim rekstrarvanda sem hjúkrunarheimilin eru í. Þar þarf meira að koma til og hvetur minni hlutinn til endurskoðunar samninga um rekstur heimilanna sem tryggir góða þjónustu við þá sem þar búa.

Landspítali.
    Það er ólíðandi að mati minni hlutans að sú staða sem uppi er núna á bráðamóttöku Landspítalans komi reglulega upp vegna skorts á legurými og manneklu á bráðamóttökunni. Staðan er ekki ný af nálinni. Í lok árs 2019 var uppi álíka staða og þá var ráðist í úttekt og átakshópur skipaður. Sænskir sérfræðingar komu að þeirri úttekt og lögðu fram ábendingar og leiðir til úrbóta. Ljóst er að það verður að bregðast við vandanum sem er í aðalatriðum tvenns konar.
    Annars vegar er það mönnunarvandi. Það vantar fyrst og fremst hjúkrunarfræðinga sem hafa menntað sig til starfa en kosið að stunda önnur störf vegna áralangrar kjarabaráttu og álag sem stjórnvöld bera ábyrgð á. Einnig er skortur á læknum og sjúkraliðum. Það vantar fjármagn til að ráða til starfa fleira fólk og á því bera stjórnvöld líka ábyrgð. Heilbrigðiskerfið hefur á vakt Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn undanfarin átta ár verið vanfjármagnað og áætlanir eru um að svo verði áfram. Landlæknir sagði í fréttum á dögunum að staðan hafi aldrei verið jafn slæm og nú á bráðadeild Landspítalans. Um 500 vaktir hjúkrunarfræðinga á deildinni í sumar eru ómannaðar.
    Hins vegar er það vöntun á hjúkrunarrýmum. Forstöðumaður bráðaþjónustu Landspítala sagði í fréttum 9. júní 2021 að hlutfall sjúklinga á Landspítalanum sem bíða eftir hjúkrunarrýmum eða öðrum úrræðum hafi aldrei verið hærra. Það að fjölga úrræðum fyrir aldraða til að losa um legurými á spítalanum er mikilvægasta aðgerðin sem hægt er ráðast í til að laga stöðuna sem upp er komin og leysa hana til frambúðar. Félag bráðalækna sendi frá sér yfirlýsingu þar sem því er lýst að öryggi sjúklinga sé í hættu við núverandi aðstæður. Í yfirlýsingu segir: „Komi til alvarlegra atvika á bráðadeild sem rekja má til manneklu, ófullnægjandi starfsaðstöðu eða annarra tengdra þátta, vísum við allri ábyrgð á þeim atvikum til forstjóra Landspítala, Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra sem æðsta yfirmanns heilbrigðismála, Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og Alþingis sem fer með fjárveitingarvald ríkisins.“
    Hinn 10. desember 2020 tilkynnti heilbrigðisráðuneytið að framlög yrðu aukin um 1,7 milljarða kr. í hjúkrunarrými og stærsti hluti fjármagnsins færi í að fjölga hjúkrunarrýmum um allt að 90 á höfuðborgarsvæðinu strax á næsta ári. Einnig kom fram að stefnt væri á að bjóða út húsnæði og rekstur nýrra rýma sem fyrst eftir áramót og gert væri ráð fyrir að Sjúkratryggingar Íslands auglýstu eftir húsnæði og rekstraraðilum fyrir ný hjúkrunarrými í samræmi við lög um opinber innkaup fljótlega eftir áramót.
    Útboð varðandi þessa starfsemi fór fram í febrúar og mars og enn hefur ekkert frést af því máli. Að mati minni hlutans er óboðlegt að stjórnvöld hreyfi sig ekki hraðar og leggi sig ekki betur fram í þessu máli þegar vitað er að 120 einstaklingar bíða inni á Landspítalanum eftir úrræði. Minni hlutinn skorar því á stjórnvöld nýta þá fjármuni sem settir voru í hjúkrunarrými sem allra fyrst.
    Minni hlutinn vekur athygli á því að Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar, er fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu um mörkun nýrrar velferðarstefnu aldraðra. Til þess að ráðast að rót vandans og ná varanlegum árangri í þessum málaflokki er mikilvægt að samstaða náist um slíka stefnu. Þar sem lögð er áhersla á að stórefla heimaþjónustu, heimahjúkrun og dagsdvalir fyrir eldra fólk. Það þarf að gera markvisst fram til ársins 2030 og um leið leggja áherslu á notendamiðaða aðstoð sem byggist á samhæfingu heilsteyptra þjónustukerfa og trausti en ekki á steinsteyptri umgjörð sem skírskotar til fortíðar og samfélags sem heyrir sögunni til.

Alþingi, 10. júní 2021.

Oddný G. Harðardóttir.