Ferill 105. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1695  —  105. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um aðgengi að vörum sem innihalda CBD.

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gunnar Sigurðarson frá Samtökum iðnaðarins og Oddnýju Önnu Björnsdóttur, Sigurð Hólmar Jóhannesson og Hauk Örn Birgisson frá Hampfélaginu og Samtökum smáframleiðenda matvæla.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Hampfélaginu og Samtökum smáframleiðenda matvæla, Lighter Leaf Ltd. London og Reykjavík Hemp, Samtökum iðnaðarins og Snarrótinni.

Iðnaðarhampur.
    Á fundum sínum fjallaði nefndin um umrædda þingsályktun samhliða 644. máli, ávana- og fíkniefni (iðnaðarhampur), en það frumvarp felur í sér heimild til að leyfa innflutning á fræjum af tegundinni Cannabis sativa á grundvelli nánar tilgreindra skilyrða sem ráðherra er gert að setja í reglugerð. Þá er kveðið á um eftirlit Matvælastofnunar með innflutningi á fræjunum á grundvelli laga um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, nr. 22/1994. Sérstaklega er tekið fram í greinargerð þess frumvarps að málið fjalli ekki um CBD (cannabidiol).
    Meiri hlutinn bendir á að CBD er ein af mest nýttu afurðum iðnaðarhamps og því ekki síður mikilvægt að tryggja skýrt lagaumhverfi fyrir CBD hér á landi. Nú þegar er flutt inn talsvert magn af vörum sem innihalda CBD og er ekki síður mikilvægt að íslenskir framleiðendur hafi tök á að nýta afurðir sínar til jafns við erlenda. Um er að ræða mikið hagsmunamál fyrir ræktendur, framleiðendur og neytendur þar sem ræktun iðnaðarhamps veltur að miklu leyti á því að hægt sé að markaðssetja afurðir hans. Meiri hlutinn telur því mikilvægt að stíga markviss skref til þess að tryggja aðgengi að CBD í almennri sölu með löggjöf sem fyrst.

Markaðssetning CBD í Evrópu.
    Hér á landi hefur skilgreining á vörum sem innihalda CBD verið nokkuð á reiki. Heimilt hefur verið að hafa vörur í sölu sem innihalda efnið nema þegar vörurnar eru ætlaðar til innvortis notkunar. Ástæða þess er að Lyfjastofnun telur að vörur sem innihalda CBD falli undir skilgreiningu á lyfi skv. 8. tölul. 3. gr. lyfjalaga, nr. 100/2020.
    Meiri hlutinn telur vert að líta til nýlegs dóm Evrópudómstólsins í máli nr. C-663/18 þar sem fjallað var um hvort aðildarríkjum Evrópusambandsins væri heimilt að banna sölu CBD sem framleitt væri í öðru aðildarríki á þeim grundvelli að sala slíkra efna bryti gegn refsiákvæðum þess aðildarríkis þar sem varan væri markaðssett. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að aðildarríkjum Evrópusambandsins væri óheimilt að koma í veg fyrir sölu á vörum sem innihéldu CBD, þar sem efnin gætu ekki talist fíkniefni í skilningi alþjóðasamninga um ávana- og fíkniefni, og þar af leiðandi fæli bann við sölu efnanna í sér brot á 34. og 36. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins sem fjallar um frjálsa vöruflutninga milli landa. Þó að dómar Evrópudómstólsins séu ekki bindandi fyrir Ísland hafa EES-ríkin skuldbundið sig til að skýra og beita ákvæðum EES-samningsins í samræmi við úrskurði og dóma Evrópudómstólsins auk þess sem dómar EFTA-dómstólsins byggjast alla jafna á niðurstöðum dóma Evrópudómstólsins þegar þeir eru fyrir hendi. Í þessum dómi Evrópudómstólsins felst að ekki er hægt að skilgreina CBD sem ávana- og fíkniefni og segja má að tilraunir til að koma í veg fyrir markaðssetningu slíkra efna hér á landi, í það minnsta þegar um væri að ræða sölu yfir landamæri, gætu falið í sér brot gagnvart ákvæðum EES-samningsins um frjálsa vöruflutninga. Því verður ekki séð að hægt sé að setja skorður við markaðssetningu CBD hér á landi. Nauðsynlegt er því, á sama tíma og ræktun iðnaðarhamps er gerð heimil, að gera framleiðendum hans mögulegt að markaðssetja afurðir í samræmi við þær reglur sem gilda í öðrum EES-ríkjum.
    Í framhaldi af framangreindum dómi Evrópudómstólsins lýsti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins því yfir að þar sem CBD félli ekki undir áðurgreinda alþjóðasamninga um fíkniefna mætti flokka CBD sem matvæli, ekki fíkniefni eða lyf. Ljóst er að áframhaldandi skilgreining CBD sem lyfs í skilningi lyfjalaga hér á landi leiðir til nokkurra erfiðleika fyrir íslenska framleiðendur við að fá leyfi fyrir markaðssetningu vara sem innihalda CBD, hvort sem það er til innvortis eða útvortis notkunar. Leiðir það til ósamræmis gagnvart evrópskum framleiðendum og þess að ekki verður hægt að fullnýta afurðir iðnaðarhamps hér á landi.
    Fyrirhugaður er flutningur umsýslu er varðar innflutning og ræktun iðnaðarhamps frá Lyfjastofnunar til Matvælastofnunar og vegna þess sem áður hefur komið fram um skilgreiningu CBD sem matvæla, hlýtur að teljast eðlilegt til framtíðar að fela Matvælastofnun einnig þau stjórnsýslulegu verkefni sem fylgja markaðssetningu og sölu CBD. Telur meiri hlutinn mikilvægt að huga til framtíðar að samræmi í stjórnsýslulegri umsjón með verkefnum er tengjast iðnaðarhampi og CBD og beinir því til ráðherra að hafa framangreind atriði til hliðsjónar þegar unnið er að nauðsynlegum lagabreytingum til að gera CBD aðgengilegt í almennri sölu.

Breytingartillaga nefndarinnar.
    Með það að markmiði að tryggja jafnræði íslenskra framleiðenda til móts við evrópska framleiðendur og ræktendur telur meiri hlutinn nauðsynlegt að gera breytingar á tillögugreininni þess efnis að könnun ráðherra á regluverki taki einnig til framleiðslu og jafnframt að þær breytingar sem ráðherra leggi til heimili íslenskum framleiðendum að framleiða vörur úr CBD.
    Meiri hlutinn leggur því til að málið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Tillögugreinin orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að láta fara fram könnun á því regluverki sem gildir um framleiðslu, sölu og markaðssetningu á vörum sem innihalda CBD (cannabidiol). Ráðherra leggi í kjölfarið til þær breytingar sem eru nauðsynlegar til að leyfa innlenda framleiðslu á og auka aðgengi að vörum sem innihalda CBD. Ráðherra kynni niðurstöður könnunarinnar og tillögur sínar fyrir Alþingi og leggi fram frumvarp, ef þess er þörf, á vorþingi 2022.

    Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 7. júní 2021.

Helga Vala Helgadóttir,
form.
Halldóra Mogensen,
frsm.
Vilhjálmur Árnason.
Halla Signý Kristjánsdóttir,
með fyrirvara.
Ólafur Þór Gunnarsson,
með fyrirvara.