Ferill 858. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1697  —  858. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um uppsögn alþjóðasamnings um vernd nýrra yrkja (UPOV-samningsins).


Flm.: Smári McCarthy, Andrés Ingi Jónsson, Halldóra Mogensen, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, Helgi Hrafn Gunnarsson.


    Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að segja upp alþjóðasamningi um vernd nýrra yrkja (UPOV-samningnum) og að við samningsgerð nýrra fríverslunarsamninga verði gætt að því að þeir feli ekki í sér kvöð á samningsaðila um löggildingu UPOV-samningsins.
    Ráðherra skili Alþingi skýrslu um málið og tillögum að endurskoðun laga í tengslum við uppsögn samningsins.

Greinargerð.

    Landbúnaður hefur verið stundaður á heimsvísu í rúmlega fimmtán þúsund ár, og á þeim tíma hafa bændur og ræktendur um heim allan beitt þekkingu sinni og forfeðra sinna til að safna og nýta fræ, blanda yrkjum og finna bestu leiðir til að rækta land sitt.
    Síðustu þrjár aldirnar, eða frá setningu Statute of Anne laganna í Bretlandi 1710, hafa smám saman orðið til í heiminum lagalegar takmarkanir á nýtingu þekkingar í formi svokallaðra hugverkaréttinda, sem eru í reynd einokunarréttur á tilteknum hugmyndum, þekkingu eða aðferðum. Rökin sem færð hafa verið fyrir slíkum einokunarrétti hafa gjarnan snert vernd efnahagslegra réttinda höfunda og skapenda hugverka, en í reynd hefur slík lagasetning nánast undantekningarlaust nýst stórfyrirtækjum og ríkjum á kostnað bæði neytenda og raunverulegra höfunda skapandi verka.
    Eitt form slíkrar hugverkaeinokunar er UPOV-samningurinn sem er alþjóðasamningur um vernd nýrra yrkja (International Convention for the Protection of New Varieties of Plants) frá 1961, sem var síðar uppfærður 1972, 1978 og 1991. Samkvæmt samningnum, sem 74 ríki eru aðilar að, eru einokunarréttindi gefin á ný yrki til 25–30 ára, að því gefnu að þau uppfylli fjögur skilyrði. Ákvæði samningsins hafa verið lögfest og skv. 2. gr. laga um yrkisrétt, nr. 58/2000, má veita yrkisrétt ef yrki er:
     1.      greinilega sérstætt, þ.e. unnt er að greina það með skýrum hætti frá öðrum yrkjum sem þekkt eru á umsóknardegi, sbr. 2. mgr.,
     2.      nægilega einsleitt, þ.e. ef afgerandi einkenni þess eru nægilega einsleit með tilliti til þeirrar fjölbreytni sem búast má við miðað við fjölgunaraðferð hverju sinni,
     3.      stöðugt, þ.e. ef einkenni þess sem máli skipta eru óbreytt eftir endurtekna fjölgun eða ef um er að ræða sérstaka fjölgunarhringrás við lok hverrar slíkrar hringrásar,
     4.      nýtt, þ.e. efniviður til fjölgunar þess eða uppskera af því hefur ekki á umsóknardegi yrkisréttar, með samþykki yrkishafa, verið seld eða boðin til sölu á almennum markaði ellegar með öðrum hætti framseld til hagnýtingar í atvinnuskyni:
                  a.      hér á landi lengur en eitt ár,
                  b.      erlendis lengur en fjögur ár, þó í sex ár þegar um er að ræða tré eða vínvið.

    Umræddur einokunarréttur, sem kallaður er yrkisréttur, hefur einkum verið nýttur af stærri fræframleiðendum til að tryggja að bændur þurfi að kaupa af þeim nýtt fræ á hverju ári, í stað þess að þeir safni fræi sjálfir með þeim hætti sem gert hefur verið í rúmlega fimmtán þúsund ár. Efnahagsleg áhrif af þessu á bændur eru veruleg og óviðunandi, ekki síst í þeim fjölmörgu tilfellum þar sem bændur sem ekki nýta varin yrki hafa verið lögsóttir eftir að yrkisréttarvarin fræ hafa dreift sér yfir í akurlendi þeirra. Sérstaklega er yrkisréttur á erfðabreyttu fræi (GMOs, CRISPR/CAS o.fl.) íþyngjandi og óréttlátur, m.a. vegna þess að aðgerðir líftæknifyrirtækja og fræframleiðenda, í skjóli yrkisréttar, stefna í hættu þróun lífræns landbúnaðar, sem nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar sem sjálfbærustu búskaparhættirnir.
    Undanfarin ár hafa fríverslunarsamtök Evrópu, EFTA, haft það sem samningsmarkmið að samningsaðilar, einkum þá ríki sem ekki eru aðilar að UPOV-samningnum, bæði undirgangist samninginn og lögfesti yrkisrétt. Þannig hafa Marokkó (fríverslunarsamningur 1999), Jórdanía (2002), Líbanon (2007), Egyptaland (2008), Miðameríkuríkin (2014) og Indónesía (2018) undirritað fríverslunarsamninga við EFTA sem fela í sér að þau virði skilmála UPOV-samningsins.
    Áhrifin UPOV-samningsins á Vesturlöndum eru mikil, en viðleitni til að ýta fátækari og minna þróuðum ríkjum út í að taka upp og lögfesta UPOV-samninginn skapar aðstæður þar sem fátækt ágerist, enda verður smám saman til sterkari kvöð á að nýta einokunarréttarvarin yrki. Bent hefur verið á að UPOV-samningurinn ógni fæðuöryggi, sjálfstæði og sjálfbærni.
    Meðan ljóst er að ýmiss konar ávinningur er af þróun nýrra yrkja og eðlilegt að stutt sé við slíka starfsemi, verður ekki séð að það samræmist markmiðum um sjálfbæra þróun, varðveislu og eflingu lífríkisins og upprætingu fátæktar á heimsvísu að viðhalda þessum einokunarrétti í núverandi mynd. Fyrsta skrefið til að bæta úr ástandinu er að lönd eins og Ísland dragi sig út úr þessum samningi, en á grundvelli þess verði hægt að þróa nýjar leiðir til að styðja við þróun nýrra yrkja. Einnig er mikilvægt að við samningsgerð nýrra fríverslunarsamninga verði gætt að því að þeir feli ekki í sér kvöð á samningsaðila um löggildingu UPOV-samningsins. Þá er lagt til að ráðherra skili Alþingi skýrslu um málið og tillögum að endurskoðun laga í tengslum við uppsögn samningsins, svo sem á lögum um yrkisrétt og lögum um einkaleyfi.