Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1704, 151. löggjafarþing 604. mál: tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi (tilgreining kostnaðarliða, eftirlit o.fl.).
Lög nr. 83 22. júní 2021.

Lög um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, nr. 43/1999 (tilgreining kostnaðarliða, eftirlit o.fl.).


1. gr.

     Við 1. málsl. 3. mgr. 2. gr. laganna bætist: sbr. þó 5. gr. a.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
 1. B-liður 1. mgr. orðast svo: að viðkomandi framleiðsla uppfylli þau menningar- og framleiðsluskilyrði sem fram koma í reglugerð sem ráðherra setur skv. 8. gr.
 2. Í stað orðanna „um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldismyndum“ í i-lið 1. mgr. kemur: um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum.
 3. Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
 4.      Við sýningu á myndefni sem hlotið hefur endurgreiðslu samkvæmt lögum þessum skal koma fram að framleiðslan hafi hlotið stuðning frá íslenska ríkinu, eins og nánar skal útfært í reglugerð sem ráðherra setur skv. 8. gr.
       Þeir sem njóta endurgreiðslu skulu veita Íslandsstofu, henni að kostnaðarlausu, aðgang að kynningarefni sem tengist verkefninu svo nýta megi það við markaðssetningu. Upplýsa ber um hömlur sem kunna að vera á notkun kynningarefnis.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
 1. Við 1. mgr. bætist: og 5. gr. a.
 2. 2. mgr. orðast svo:
 3.      Nefnd um endurgreiðslur skal send beiðni um útborgun og skal nefndin ákvarða endurgreiðslur skv. 3. gr. Berist beiðnin eftir að sex mánuðir hafa liðið frá lokum framleiðslu kvikmyndar eða sjónvarpsefnis skal hafna henni. Lok framleiðslu teljast vera í síðasta lagi við frumsýningu. Þegar um framleiðslu þáttaraðar er að ræða teljast lok framleiðslu vera við frumsýningu síðasta þáttar í stakri þáttaröð.
 4. Við bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
 5.      Skilyrði endurgreiðslu er að umsækjandi færi bókhald vegna þess kostnaðar sem hann æskir endurgreiðslu á í samræmi við lög um bókhald og falli félagið undir lög um ársreikninga skulu reikningsskil félagsins vera í samræmi við þau lög.
       Nemi endurgreiðsla lægri fjárhæð en 3 millj. kr. skal stjórn og framkvæmdastjóri umsækjanda staðfesta að kostnaðaruppgjör sé í samræmi við ákvæði laga þessara og reglugerða settra á grundvelli þeirra. Nemi endurgreiðsla hærri fjárhæð en 3 millj. kr. skal kostnaðaruppgjör verkefnis staðfest af endurskoðanda sem jafnframt skal staðfesta, ásamt stjórn og framkvæmdastjóra umsækjanda, að uppgjörið samræmist lögum þessum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra.
       Nefnd skv. 3. gr. getur óskað eftir þeim upplýsingum frá skattyfirvöldum og úr bókhaldi félagsins sem henni eru nauðsynlegar til að staðreyna kostnaðaruppgjör umsækjanda. Sé kostnaðaruppgjör og/eða fylgigögn þess ófullnægjandi skal nefndin veita umsóknaraðila frest til að skila inn fullnægjandi gögnum. Berist nefndinni ekki fullnægjandi gögn að loknum veittum fresti eða bendi gögn málsins til þess að kostnaðaruppgjör sé ekki í samræmi við ákvæði laga þessara skal nefndin hafna beiðni um endurgreiðslu.


4. gr.

     Á eftir 5. gr. laganna kemur ný grein, 5. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Framleiðslukostnaður sem myndar stofn til endurgreiðslu.
     Framleiðslukostnaður sem myndar stofn til endurgreiðslu telst vera kostnaður:
 1. sem heimilt er að draga frá tekjum af atvinnurekstri samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt,
 2. sem fellur til hér á landi við framleiðslu kvikmynda eða sjónvarpsefnis, og eftir atvikum í öðru aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið auk Grænlands og Færeyja, sbr. 2. mgr. 2. gr., og
 3. sem tengist undirbúningstímabili, aðalframleiðslutímabili eða eftirvinnslutímabili framleiðslu.

     Framleiðslukostnaður skal skráður í fjárhagsbókhald umsækjanda.
     Þrátt fyrir 1. mgr. telst eftirtalinn kostnaður ekki vera hluti af stofni til endurgreiðslu:
 1. kostnaður sem fellur til eftir að framleiðslu er lokið skv. 2. mgr. 5. gr.,
 2. kostnaður sem greiddur er til aðila sem ekki eru skattskyldir hér á landi, sama hvort um er að ræða laun, verktakagreiðslur eða greiðslur vegna veittrar þjónustu eða vörukaupa, sbr. þó 2. mgr. 2. gr.,
 3. kaup eða afskriftir af varanlegum rekstrarfjármunum eða eignum vegna framleiðslunnar,
 4. kostnaður, svo sem óbeinn stjórnunarkostnaður, hlutdeild í rekstrarkostnaði eða framlag til framleiðanda, sem metinn er sem hlutfall af veltu móðurfélags, fari framleiðsla fram hjá dótturfélagi,
 5. kostnaður skráður á grundvelli reikninga milli aðila sem tengjast framleiðslunni eða vegna hagnýtingar á búnaði og aðstöðu sem ekki er á markaðsvirði,
 6. sektir eða greiðsla opinberra gjalda eða skatta.


5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 6. gr. laganna:
 1. Tilvísunin „skv. 5. gr.“ fellur brott.
 2. Á eftir tilvísuninni „skv. 3. mgr. 2. gr.“ kemur: og 5. gr. a.


6. gr.

     Á eftir orðunum „afgreiðslu umsókna“ í 2. málsl. 8. gr. laganna kemur: menningar- og framleiðsluskilyrði skv. b-lið 1. mgr. 4. gr., útfærslu stuðnings skv. 6. mgr. 4. gr., kröfur varðandi staðfestingu endurskoðanda á grundvelli 5. mgr. 5. gr.

7. gr.

     Í stað ártalsins „2021“ í 9. gr. laganna kemur: 2025.

8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Lög þessi taka einnig til umsókna um endurgreiðslu framleiðslukostnaðar skv. 3. gr. laga um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, nr. 43/1999, sem borist hafa og eru til meðferðar hjá endurgreiðslunefnd fyrir gildistöku laga þessara.

Samþykkt á Alþingi 10. júní 2021.