Ferill 860. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1713  —  860. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um tæknifrjóvganir.


Flm.: Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson, Þorsteinn Sæmundsson.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að endurskoða reglur um þátttöku hins opinbera í kostnaði við tæknifrjóvganir með það að markmiði að draga úr útgjöldum sjúklinga vegna þessarar heilbrigðisþjónustu. Litið verði til regluverks og framkvæmdar á Norðurlöndunum og miðað að því að staða þeirra sem þurfa á tæknifrjóvgun að halda hérlendis verði ekki lakari en þar gerist.
    Endurskoðuð reglugerð um kostnaðarþátttöku taki gildi eigi síðar en 1. nóvember 2021.

Greinargerð.

    Með þessari tillögur er lagt til að staða þeirra einstaklinga og fjölskyldna sem þurfa á þeirri aðstoð að halda sem felst í tæknifrjóvgunum verði bætt með því að auka hlutdeild hins opinbera í kostnaði við slíkar aðgerðir. Í því felst aukið jafnrétti þar sem mikill kostnaður við tæknifrjóvganir getur reynst fólki ofviða.
    Fyrirkomulag á kostnaðarþátttöku hins opinbera vegna tæknifrjóvgana er nú þannig að Sjúkratryggingar Íslands niðurgreiða fyrstu meðferð um 5% (hlutur sjúklings er 456.000 kr.) og aðra, þriðju og fjórðu meðferð um 65% (hlutur sjúklings 168.000 kr.) skv. gildandi reglugerð frá 31.05.2019. Lyfjakostnaður er ekki hluti þessa kostnaðar.
    Á Norðurlöndum er hlutdeild hins opinbera í kostnaði vegna tæknifrjóvgana mun meiri en hérlendis.
    Í Danmörku eiga konur undir fertugu rétt á að fá aðstoð við tæknifrjóvgun. Kostnaður við slíkar aðgerðir og rannsóknir vegna þeirra er greiddur af sjúkratryggingakerfinu. Danskar konur greiða hluta lyfjakostnaðar vegna tæknifrjóvgunar en þau útgjöld eru ekki há þar sem lyfin eru niðurgreidd af sjúkratryggingakerfinu. Sjúkratryggingakerfið greiðir fyrir þrjár tæknifrjóvgunartilraunir.
    Í Svíþjóð taka sjúkratryggingar þátt í kostnaði við tæknifrjóvganir sem gerðar eru á sjúkrastofnunum hins opinbera. Kostnaðarhlutdeild sjúklings ræðst af búsetu þar sem reglur sænsku lénanna um þetta eru mismunandi. Reglur lénanna um það hversu margar tilraunir til tæknifrjóvgana hið opinbera greiðir eru einnig mismunandi en algengt er að þær séu þrjár.
    Finnska sjúkratryggingakerfið endurgreiðir konum sem njóta þar réttinda og fá þær endurgreiddan að hluta eða allan lyfja- og lækniskostnað vegna tæknifrjóvgunarmeðferða í gegnum sjúkratryggingakerfið. Skilyrði fyrir niðurgreiðslu tæknifrjóvgunarmeðferðar er að notaðar séu eigin eggfrumur og að konan sé yngri en 43 ára.
    Í Noregi eiga konur rétt á endurgreiðslu úr sjúkratryggingakerfinu vegna kostnaðar við tæknifrjóvganir. Meginregla er að sjúkratryggingakerfið greiðir fyrir þrjár tilraunir vegna tveggja barna, þ.e. til að geta fyrsta og annað barn, alls sex skipti.