Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1721, 151. löggjafarþing 561. mál: Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins (samþætting þjónustu, hlutverk o.fl.).
Lög nr. 85 22. júní 2021.

Lög um breytingu á lögum um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, nr. 83/2003 (samþætting þjónustu, hlutverk o.fl.).


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins“ í 2. mgr. kemur: Ráðgjafar- og greiningarstöð.
  2. Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Þjónusta Ráðgjafar- og greiningarstöðvar er fjölþætt og fjölskyldumiðuð með áherslu á snemmtæka íhlutun. Leiðarljós þjónustunnar er að stuðla að sjálfsbjörg barns og virkri þátttöku þess í samfélaginu.


2. gr.

     2. gr. laganna orðast svo:
     Í lögum þessum hafa eftirfarandi orð svofellda merkingu:
  1. Með alvarlegri þroskaröskun er átt við meðfætt eða áunnið ástand eða ástand sem kemur til vegna óvænts utanaðkomandi atburðar sem hefur slík áhrif á þroska einstaklings að það leiðir til eða kann að leiða til fötlunar.
  2. Með fötlun er átt við langvarandi líkamlega, andlega eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun sem kann, þegar víxlverkun verður milli þessara þátta og hindrana af ýmsu tagi, að koma í veg fyrir fulla og virka samfélagsþátttöku einstaklingsins til jafns við aðra.
  3. Með fjölþættri þjónustu er átt við þjónustu sem er margbreytileg, einstaklingsbundin og tekur til ýmissa þátta sem snúa að þroska einstaklings og aðstæðum hans á mismunandi tímum.
  4. Með óvenjuflókinni fötlun er átt við að vegna fötlunar hafi einstaklingur þörf fyrir langvarandi og fjölþættan stuðning ásamt sérhæfðri og þverfaglegri ráðgjöf og eftirfylgd.
  5. Með sjaldgæfri fötlun er átt við að fötlun sé svo fátíð að þörf sé á uppbyggingu sérfræðiþekkingar á henni.
  6. Með fjölskyldumiðaðri nálgun er átt við að foreldrar og börn, í samræmi við aldur og þroska, séu virkir þátttakendur í ákvarðanatöku er lýtur að þjónustu. Fagfólk sem veitir upplýsingar um íhlutunarleiðir og önnur úrræði virðir skoðanir þeirra og val.
  7. Með snemmtækri íhlutun er átt við markvissa íhlutun og samræmda þjónustu sem byrjað er að veita snemma í lífi barns. Markmið snemmtækrar íhlutunar er að hafa jákvæð áhrif á þroskaframvindu og framtíðarhorfur barnsins og styrkja foreldrana í uppeldishlutverki sínu.
  8. Með frumgreiningu er átt við formlega athugun á þroska, aðstæðum og aðbúnaði. Með frumgreiningu er metið hvort um sé að ræða alvarleg frávik í þroska sem þarfnast nánari athugunar.
  9. Með greiningu er átt við athugun og samráð sérfræðinga með alþjóðlega viðurkenndum aðferðum til mats á eðli röskunar, til flokkunar eftir alþjóðlegum greiningarviðmiðum og til staðfestingar á fötlun, þegar það á við. Enn fremur felur greining í sér mat á færni og aðstæðum einstaklingsins og fjölskyldu hans sem nýtist til sérhæfðrar ráðgjafar, íhlutunar og mats á stuðningsþörf.
  10. Með ráðgjöf er átt við miðlun upplýsinga og fræðslu til fjölskyldu og þjónustuveitenda um eðli þroskaröskunar og framtíðarhorfur. Einnig felur ráðgjöf í sér upplýsingar og fræðslu um aðstoð og þjónustu sem miðar að því að hámarka náms- og félagsþroska og auka lífsgæði og þátttöku fjölskyldunnar.
  11. Með langtímaeftirfylgd er átt við að fylgst sé með aðstæðum og stuðningsþörf til lengri tíma. Einnig felur langtímaeftirfylgd í sér sérhæfða ráðgjöf og endurmat á færni eftir því sem við á.
  12. Með mati á stuðningsþörf er átt við að skilgreindar séu þarfir fyrir stuðning eftir stöðluðu, alþjóðlega viðurkenndu matskerfi sem nýtist við mat á kostnaði ásamt gerð og framkvæmd einstaklingsbundinnar stuðningsáætlunar.
  13. Með þjónustuveitendum er átt við þá sem veita börnum og fjölskyldum þeirra farsældarþjónustu í skilningi laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins“ í 1. mgr. kemur: Ráðgjafar- og greiningarstöðvar.
  2. Orðin „skv. 17. og 18. gr. laga um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992“ í 1. mgr. falla brott.
  3. 2. mgr. orðast svo:
  4.      Frumgreining fer fram hjá þjónustuveitendum í nærumhverfi barns. Ef fyrir liggur ósk um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barnsins skal tengilið eða málstjóra gert viðvart um frumgreiningu. Frumgreining skal fara fram í samræmi við reglur sem Ráðgjafar- og greiningarstöð setur. Reglurnar öðlast gildi við staðfestingu ráðherra sem skal hafa samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga áður en til staðfestingar kemur.


4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: Ráðgjafar- og greiningarstöðvar.
  2. 2. tölul. 1. mgr. orðast svo: Ráðgjöf og fræðslu til einstaklinga og fjölskyldna þeirra, t.d. varðandi viðeigandi íhlutun, þjálfun og önnur úrræði sem þörf er á.
  3. 3. tölul. 1. mgr. orðast svo: Tilvísanir til heilbrigðisstarfsmanna og eftir atvikum annarra þjónustuveitenda í því skyni að hlutaðeigandi njóti þar þeirrar þjónustu sem þörf er á hverju sinni.
  4. 4. tölul. 1. mgr. orðast svo: Langtímaeftirfylgd vegna þeirra einstaklinga sem búa við óvenjuflókna og/eða sjaldgæfa fötlun.
  5. 5. tölul. 1. mgr. orðast svo: Fræðslu, leiðbeiningar og stuðning til stjórnvalda og annarra þjónustuveitenda um þroskaraskanir og fötlun, íhlutunarleiðir og stuðningsþarfir.
  6. 6. tölul. 1. mgr. orðast svo: Fræðilegar rannsóknir og þróun, öflun og miðlun þekkingar á sviði fötlunar og þroskaraskana, þ.m.t. í samvinnu við innlenda og erlenda fræðimenn, þátttöku í alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði og þróunarverkefnum.
  7. 7.–9. tölul. 1. mgr. falla brott.
  8. 3. mgr. orðast svo:
  9.      Ráðgjafar- og greiningarstöð er með samningi heimilt að fela einkaaðilum að framkvæma verk sem kveðið er á um í 1., 2., 4., 5. og 6. tölul. 1. mgr.
  10. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  11.      Ráðgjafar- og greiningarstöð er heimilt að taka að sér mat á stuðningsþörf fatlaðs fólks í einstökum sveitarfélögum og þjónustusvæðum á grundvelli samnings við Jöfnunarsjóð sveitarfélaga gegn greiðslu.


5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
  1. Í stað orðsins „forstöðumann“ í 1. málsl. og hvarvetna annars staðar í greininni kemur, í viðeigandi beygingarfalli: forstjóri.
  2. Í stað orðanna „Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins“ í 1. málsl. kemur: Ráðgjafar- og greiningarstöðvar.
  3. Í stað orðsins „fatlana“ í 2. málsl. kemur: fötlunar.


6. gr.

     6. gr. laganna orðast svo:
     Um ábyrgð forstjóra á fjármálum stofnunarinnar fer samkvæmt ákvæðum laga um opinber fjármál.

7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins“ í 1. mgr. og „Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins“ í 3. mgr. kemur: Ráðgjafar- og greiningarstöðvar; og: Ráðgjafar- og greiningarstöð.
  2. Á eftir orðunum „ákvæðum í“ í 2. mgr. kemur: lögum um sjúkraskrár.


8. gr.

     Fyrirsögn IV. kafla laganna verður: Ráðgjafar- og greiningarstöð.

9. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á V. kafla laganna:
  1. 8. gr. orðast svo:
  2.      Ráðgjafar- og greiningarstöð fer með langtímaeftirfylgd og ráðgjöf til lengri tíma vegna einstaklinga með óvenjuflókna og/eða sjaldgæfa fötlun. Ráðgjafar- og greiningarstöð setur reglur um langtímaeftirfylgd samkvæmt þessari grein. Reglurnar öðlast gildi við staðfestingu ráðherra sem skal hafa samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga áður en til staðfestingar kemur.
  3. Fyrirsögn kaflans verður: Langtímaeftirfylgd.


10. gr.

     Á eftir V. kafla laganna kemur nýr kafli, VI. kafli, Samþætting og samstarf, með þremur nýjum greinum, 9.–11. gr., svohljóðandi, og breytast númer annarra kafla og greina samkvæmt því:
     
     a. (9. gr.)
     Ráðgjafar- og greiningarstöð tekur þátt í samþættingu þjónustu þegar hún telst þjónustuveitandi í skilningi laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.
     Ráðgjafar- og greiningarstöð hefur samstarf við Barna- og fjölskyldustofu um stuðning við þjónustuveitendur vegna samþættingar þjónustu í þágu farsældar barna þar sem þörf er á sérþekkingu á fötlun barna, íhlutunarleiðum og stuðningsþörfum.
     
     b. (10. gr.)
     Ráðgjafar- og greiningarstöð veitir þjónustuveitendum og öðrum sem veita börnum þjónustu og leita til hennar faglega ráðgjöf, leiðbeiningar og stuðning um fötlun og þroskaraskanir, íhlutunarleiðir og stuðningsþarfir. Stofnunin getur haft aðkomu að einstaklingsmálum og málum tiltekinna hópa barna.
     
     c. (11. gr.)
     Ráðgjafar- og greiningarstöð vinnur markvisst að þróun íhlutunarleiða og stuðningsúrræða. Stofnunin aflar þekkingar í málaflokknum, m.a. með fræðilegum rannsóknum í samvinnu við innlenda og erlenda fræðimenn, háskóla og aðrar stofnanir, svo og með þátttöku í alþjóðlegu samstarfi.
     Ráðgjafar- og greiningarstöð miðlar þekkingu og sinnir fræðslu í málaflokknum, m.a. með útgáfu fræðsluefnis og stuðningi við menntun og þjálfun starfsfólks.

11. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á VI. kafla laganna, sem verður VII. kafli:
  1. Orðin „einkum um samstarf Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar við aðra aðila, sbr. 3. mgr. 4. gr., og varðandi sérstaka samninga við sveitarfélög, sbr. 4. mgr. 6. gr.“ í 9. gr., sem verður 12. gr., falla brott.
  2. Við 9. gr., sem verður 12. gr., bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Ráðherra er heimilt að setja gjaldskrá til að standa straum af kostnaði við námskeiðahald, útgáfu fræðsluefnis og faglega aðstoð og ráðgjöf til stjórnvalda og annarra þjónustuveitenda, sbr. 5. og 6. tölul. 1. mgr. 4. gr.
  4. Á eftir 9. gr., sem verður 12. gr., kemur ný grein, 13. gr., svohljóðandi:
  5.      Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála fer með eftirlit með gæðum þjónustu sem er veitt á grundvelli laga þessara.
  6. Fyrirsögn kaflans verður: Stjórnvaldsfyrirmæli, eftirlit og gildistaka.


12. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða í lögunum fellur brott.

13. gr.

     Heiti laganna verður: Lög um Ráðgjafar- og greiningarstöð.

14. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2022.

15. gr.

Breyting á öðrum lögum.
     Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á lögum um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, nr. 129/1990: Í stað orðanna „Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins“ í 3. mgr. 2. gr. laganna kemur: Ráðgjafar- og greiningarstöð.

Samþykkt á Alþingi 11. júní 2021.