Ferill 813. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1729  —  813. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur um málefni fólks með ADHD.

    


     1.      Hversu mörg börn eru á biðlista eftir greiningu og þjónustu hjá Þroska- og hegðunarstöð og hvernig hefur biðlistinn þróast sl. tvö ár?
    Hinn 1. júní 2021 voru 664 börn á biðlista Þroska- og hegðunarstöðvarinnar. Þar af bárust 360 beiðnir á fyrstu fimm mánuðum þessa árs. Á biðlistanum eru ekki einungis börn sem bíða eftir ADHD-greiningu heldur einnig börn sem eru með fjölþættari og samsettan vanda sem þarfnast þverfaglegrar greiningar, þ.e. taugaþroskaraskanir, svo sem einhverfu, ADHD, kvíðaraskanir, hegðunar- og samskiptavanda, depurð, vanlíðan o.fl.
    Þróun biðlistans sl. tvö ár hefur verið í beinum tengslum við fjölgun beiðna árlega. Í árslok 2020 voru 608 börn á biðlista, í árslok 2019 biðu 420 börn og í árslok 2018 voru 315 börn á biðlistanum. Fjöldi beiðna árið 2020 var 622, árið 2019 voru þær 536 og árið 2018 komu 520 beiðnir.

     2.      Hvernig skiptist biðlistinn milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins og hvernig hefur sú skipting þróast sl. tvö ár?
    Um 70% barna á biðlistanum búa á höfuðborgarsvæðinu og 30% barna eru af landsbyggðinni. Það er svipuð skipting og verið hefur undanfarin ár.

     3.      Hvert er skilgreint hlutverk Þroska- og hegðunarstöðvar hvað varðar þjónustu og greiningu á börnum með ADHD þegar horft er til höfuðborgarsvæðisins annars vegar og landsbyggðarinnar hins vegar?
    Þroska- og hegðunarstöð heyrir undir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og þjónustan fellur því undir almennar lagalegar skilgreiningar um þjónustu heilsugæslunnar. Hlutverk og þjónusta Þroska- og hegðunarstöðvar er skilgreind og birt á heimasíðu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á eftirfarandi máta: Þroska- og hegðunarstöð veitir 2. stigs þjónustu á landsvísu fyrir börn í grunn- og framhaldsskólum að 18 ára aldri. Sinnt er greiningu, ráðgjöf, meðferð og fræðslu vegna taugaþroskaraskana og annarra erfiðleika í hegðun eða líðan. Þverfaglegur starfshópur vinnur eftir markvissu skipulagi með hámarks fagleg gæði að leiðarljósi. Áhersla er á gott viðmót og einstaklingsmiðaða nálgun. Þroska- og hegðunarstöð á reglulegt samstarf við aðra mennta-, félags- og heilbrigðisþjónustu víðsvegar um landið og sinnir starfsþjálfun háskólanema á sviðinu.
    Þroska- og hegðunarstöð veitir foreldrum og fagfólki á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu sömu þjónustu hvað varðar þverfaglega greiningu og ráðgjöf vegna taugaþroskavanda barna. Aðgengi foreldra að annarri þjónustu, svo sem lyfjameðferð og hópmeðferð sem kallar á reglulega staðbundna þátttöku, takmarkast af fjarlægð frá höfðuðborgarsvæðinu. Reynsla af notkun fjarfundabúnaðar við meðferð og færniþjálfun í hópum sýnir að sú tækni mun geta bætt aðgengi foreldra á landsbyggðinni að þeirri þjónustu.

     4.      Hversu margir fullorðnir eru á biðlista eftir greiningu og þjónustu hjá ADHD-teymi Landspítala og hvernig hefur biðlistinn þróast sl. tvö ár?
    ADHD-teymi Landspítala hefur haft það hlutverk að sinna greiningu og meðferð ADHD fyrir fólk 18 ára og eldra. Á biðlista eftir greiningu hjá ADHD-teymi Landspítala voru í byrjun júní 2021 alls 717 einstaklingar. Það er aukning milli ára þar sem í maí 2020 voru 480 einstaklingar á biðlistanum og í maí 2019 biðu 565 einstaklingar. Fækkun á biðlistanum frá því í maí 2019 þar til í maí 2020 skýrist meðal annars af því að gert var sérstakt átak í skimun á meðan samkomutakmarkanir voru í gildi vegna COVID-19. Biðlistinn hefur því lengst. Auk þess eru nú um 120 tilvísanir sem ekki eru komnar inn á biðlista þar sem eftir á að taka afstöðu til þess hvort þau mál eigi heima hjá ADHD-teymi Landspítala. Á biðlista eftir meðferð hjá lækni eru nú 66 einstaklingar.

     5.      Hvernig skiptist biðlistinn milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins og hvernig hefur sú skipting þróast sl. tvö ár?
    Um 75% þeirra sem eru á biðlistanum búa á höfuðborgarsvæðinu og um 25% eru af landsbyggðinni. Þessi skipting hefur verið svipuð síðastliðin tvö ár.

     6.      Hvaða áform hefur ráðherra, ef einhver, um að eyða biðlistum eftir greiningu og þjónustu vegna ADHD, annars vegar hjá börnum og hins vegar fullorðnum, og þá hver?
    Núna liggja fyrir greiningar um hvar skórinn kreppir svo að vandi þessa máls er nokkuð ljós. Undanfarna mánuði hefur verið unnið að lausn þess að mæta betur þörf barna og fullorðinna á greiningu og þjónustu vegna ADHD. Sú vinna hefur m.a. verið unnin í samvinnu við ADHD-samtökin. Vinna við tillögur til úrbóta er á lokastigi en um leið og þær liggja fyrir verða niðurstöðurnar kynntar.