Ferill 711. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 1732  —  711. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.



Framhaldsnefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012 (markmið um kolefnishlutleysi).

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið að nýju. Markmið um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040 er sett fram í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar sem og í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem var gefin út árið 2018 og uppfærð árið 2020. Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að lögbinda þetta markmið.
    Verði stefnubreyting í þessum efnum er mikilvægt að skýr markmiðsákvæði laga verði uppfærð enda er það hlutverk löggjafans að mæla fyrir um markmið sem stjórnvöldum ber að starfa eftir. Taki löggjafinn ákvörðun um að uppfæra markmið í löggjöf í samræmi við tillögur stjórnvalda og stefnubreytingu þá fyrst verður slíkt markmið skuldbindandi fyrir stjórnvöld, sbr. lögmætisreglu stjórnskipunarréttar.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að skýrt samræmi sé á milli stefnu stjórnvalda og markmiðsákvæðis í lögum um kolefnishlutleysi og leggur því til breytingu á 1. gr. frumvarpsins þess efnis að verði breyting á loftslagsmarkmiðum stjórnvalda skuli leggja til breytingar á lögunum.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi:

BREYTINGU:

    Við 1. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Verði loftslagsmarkmið stjórnvalda uppfærð skal leggja til breytingar á þessu ákvæði því til samræmis.

    Guðjón S. Brjánsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið í samræmi við 2. mgr. 29. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991.

Alþingi, 11. júní 2021.

Ari Trausti Guðmundsson,
frsm.
Guðjón S. Brjánsson. Hanna Katrín Friðriksson.
Jón Gunnarsson. Karl Gauti Hjaltason. Kolbeinn Óttarsson Proppé.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Vilhjálmur Árnason.