Ferill 639. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1744  —  639. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur um niðurstöður starfshóps um lækkun lífeyristökualdurs tiltekinna starfshópa.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
Hefur starfshópur sem ráðherra var gert að skipa til að greina með heildstæðum hætti þörf á því að lífeyristökualdur tiltekinna starfshópa verði lægri en almennt tíðkast, á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 127/2016, skilað niðurstöðum sínum? Ef svo er, hverjar voru niðurstöðurnar og hver eru áætluð næstu skref? Ef ekki, hver er staða vinnu starfshópsins?

    Starfshópurinn var skipaður í júní 2016. Hópurinn er skipaður fulltrúum fjármála- og efnahagsráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka atvinnulífsins auk fulltrúa heildarsamtaka launafólks á almennum og opinberum vinnumarkaði. Hópurinn hefur ráðist í umfangsmikla greiningarvinnu og gagnasöfnun og m.a. látið vinna sérstaka skýrslu um tilhögun starfstengdrar snemmtöku lífeyris og fjármögnunar hennar í þeim ríkjum sem Ísland er gjarnan borið saman við, einkum Evrópuríkjum og öðrum OECD-ríkjum.
    Til stóð að Vinnumálastofnun, í samstarfi við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, myndi gera rannsókn á aðstæðum á íslenskum vinnumarkaði árið 2020 þar sem meðal annars átti að skoða brottfall af vinnumarkaði, t.d. vegna örorku. Þar sem niðurstöður rannsóknarinnar gætu verið mikilvægt innlegg í vinnu hópsins ákvað hann að bíða með að ljúka störfum þar til að þær lægju fyrir. Hins vegar var ákveðið að fresta framkvæmd rannsóknarinnar í ljósi aðstæðna á vinnumarkaði sem voru um margt óvenjulegar vegna áhrifa frá Covid 19. Var það mat Vinnumálastofnunar að niðurstöður slíkrar rannsóknar, sem væri lögð fyrir í því ástandi, myndi ekki endurspegla þær aðstæður sem að öllu jöfnu tíðkast á innlendum vinnumarkaði og rýra þannig niðurstöður verulega þegar til lengri tíma er litið. Til stendur að gera rannsóknina næsta haust.
    Þrátt fyrir tafir á rannsókn Vinnumálastofnunar á aðstæðum á íslenskum vinnumarkaði telur starfshópurinn mikilvægt að bíða eftir niðurstöðum hennar og gert er ráð fyrir að hann ljúki störfum á vormánuðum 2022.