Ferill 731. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1779  —  731. mál.




Frumvarp til laga


um breytingar á barnaverndarlögum, nr. 80/2002 (barnaverndarþjónusta, samþætting o.fl.).

(Eftir 2. umræðu, 12. júní.)


1. gr.

    Í stað orðanna „og barnaverndarnefndir“ í 2. mgr. 3. gr. laganna kemur: barnaverndarþjónustu og umdæmisráð barnaverndar.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      2. mgr. orðast svo:
                      Barn á rétt til þátttöku í málum er það varða á grundvelli laga þessara. Veita skal barni upplýsingar um mál sitt á barnvænan hátt og að því marki sem aldur þess og þroski gefur tilefni til. Tryggja skal barni sem getur myndað sér eigin skoðanir rétt til að láta þær í ljós við meðferð máls. Þegar teknar eru ákvarðanir á grundvelli laga þessara skal taka réttmætt tillit til skoðana barns í samræmi við aldur þess og þroska.
     b.      Við 5. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þau skulu jafnframt stuðla að samþættingu barnaverndarþjónustu við aðra þjónustu í þágu farsældar barna.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „stjórnsýsluákvörðunum barnaverndarnefnda“ í 1. málsl. kemur: öðrum stjórnvaldsákvörðunum barnaverndarþjónustu, umdæmisráða barnaverndar og Barna- og fjölskyldustofu.
     b.      2. málsl. orðast svo: Aðrar ákvarðanir stjórnvalda á grundvelli laga þessara eru ekki kæranlegar til æðra stjórnvalds.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 7. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „barnaverndarnefndum“ í b-lið kemur: barnaverndarþjónustum og umdæmisráðum barnaverndar.
     b.      Í stað orðsins „barnaverndarnefndum“ í d-lið og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum, í öllum beygingarmyndum, nema í 2. málsl. 2. mgr., 3. og 4. mgr. 20. gr., 2. mgr. 22. gr., tvívegis í 2. mgr. 27. gr., 1. mgr. 29. gr., 4. og 5. mgr. 43. gr., 1. mgr. 47. gr., 2. mgr. 50. gr., 2. málsl. 3. mgr. og 3. málsl. 4. mgr. 51. gr., 4. mgr. 52. gr., þrívegis í 4. mgr., í 2. málsl. 5. mgr., þrívegis í 6. mgr. og í 7. mgr. 74. gr., þrívegis í 4. mgr., í 2. málsl. 5. mgr., þrívegis í 6. mgr., í 7. mgr. og í 8. mgr. 81. gr. og í 87. gr. kemur, í viðeigandi beygingarfalli: barnaverndarþjónustum.

5. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „10. gr.“ í 2. mgr. 9. gr. laganna kemur: 11. gr.

6. gr.

    III. kafli laganna, sem hefur fyrirsögnina Barnaverndarþjónusta og umdæmisráð barnaverndar, orðast svo:

    a. (10. gr.)

Hlutverk barnaverndarþjónustu.

    Sveitarfélög bera ábyrgð á barnavernd samkvæmt lögum þessum.
    Sveitarfélög skulu starfrækja barnaverndarþjónustu. Barnaverndarþjónusta ber ábyrgð á verkefnum og ákvörðunum samkvæmt lögum þessum sem ekki eru sérstaklega falin öðrum, þ.m.t. umdæmisráði barnaverndar, dómstólum eða öðrum stjórnvöldum.
    Barnaverndarþjónusta skal hafa yfir að ráða nægri fagþekkingu til að hún geti sinnt verkefnum sínum samkvæmt lögum þessum. Barnaverndarþjónustu er heimilt að leita aðstoðar sérfræðinga við meðferð barnaverndarmála eftir því sem þörf krefur.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, um næga fagþekkingu skv. 3. mgr.

    b. (11. gr.)

Umdæmi barnaverndarþjónustu.

    Í umdæmi hverrar barnaverndarþjónustu skulu vera í það minnsta 6.000 íbúar.
    Sveitarfélög hafa samvinnu um barnaverndarþjónustu í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga.
    Heimilt er að víkja frá skilyrði um lágmarksíbúafjölda, t.d. vegna landfræðilegra ástæðna, ef næg fagþekking er til staðar innan barnaverndarþjónustu og ef fyrir liggur samningur um umdæmisráð barnaverndar sem uppfyllir skilyrði 14. gr. Barnaverndarþjónusta skal þá í það minnsta hafa yfir að ráða sérhæfðu starfsfólki í tveimur stöðugildum og hafa aðgang að félagsráðgjafa, sálfræðingi, lögfræðingi og einum starfsmanni með annars konar uppeldismenntun.
    Ráðherra staðfestir samninga um samvinnu sveitarfélaga skv. 2. mgr. og veitir undanþágur vegna lágmarksíbúafjölda skv. 3. mgr.

    c. (12. gr.)

Yfirstjórn og sjálfstæði barnaverndarþjónustu.

    Sveitarstjórn fer með yfirstjórn barnaverndarþjónustu en er heimilt að fela hana fastanefnd með sérstakri samþykkt.
    Hvorki sveitarstjórn né fastanefnd er heimilt að gefa barnaverndarþjónustu fyrirmæli um meðferð einstakra mála. Sveitarstjórn og fastanefnd er eingöngu heimilt að afla upplýsinga frá barnaverndarþjónustu sem eru nauðsynlegar fyrir yfirstjórn hennar.
    Sveitarstjórn setur samþykkt þar sem vald til fullnaðarafgreiðslu mála samkvæmt lögum þessum er falið einum eða fleiri úr hópi starfsfólks barnaverndarþjónustu eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum þessum.

    d. (13. gr.)

Hlutverk og sjálfstæði umdæmisráðs barnaverndar.

    Í umdæmi hverrar barnaverndarþjónustu skal starfrækja umdæmisráð barnaverndar.
    Umdæmisráð eru sjálfstæð í störfum sínum og standa utan við almenna stjórnsýslu sveitarfélaga. Ráðsmenn umdæmisráðs barnaverndar taka ekki við fyrirmælum um meðferð einstakra mála.
    Umdæmisráð tekur eftirfarandi ákvarðanir með úrskurði:
     1.      Beiting úrræða án samþykkis foreldra, sbr. 26. gr.
     2.      Vistun barns utan heimilis í allt að fjóra mánuði, sbr. 27. gr.
     3.      Heimild til barnaverndarþjónustu um að gera kröfu fyrir dómi um vistun barns í allt að tólf mánuði, sbr. 28. gr.
     4.      Heimild til barnaverndarþjónustu um að gera kröfu fyrir dómi um forsjársviptingu, sbr. 29. gr.
     5.      Umgengni í fóstri og við vistun, sbr. 74. og 81. gr.

    e. (14. gr.)

Skipan umdæmisráðs barnaverndar.

    Sveitarstjórn ber ábyrgð á að skipa í umdæmisráð barnaverndar til fimm ára í senn.
    Umdæmisráð skal skipað þremur ráðsmönnum. Einn skal vera félagsráðgjafi, einn sálfræðingur og einn lögfræðingur, sem jafnframt er formaður ráðsins. Ráðsmenn skulu í það minnsta hafa þriggja ára starfsreynslu í barnavernd. Þeir skulu að öðru leyti hafa næga þekkingu og færni til að geta sinnt starfi ráðsmanns. Ráðsmenn þurfa ekki að eiga lögheimili í umdæmi viðkomandi umdæmisráðs og getur sami einstaklingur setið í fleiri en einu umdæmisráði. Ekki er heimilt að skipa ráðsmann sem starfar við barnaverndarþjónustu í viðkomandi umdæmi. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
    Ef ráðsmaður óskar lausnar eða er vikið úr ráðinu vegna framkomu hans eða skorts á almennu hæfi til setu í því skipar sveitarstjórn ráðsmann í hans stað til þess tíma sem eftir er af skipunartíma ráðsins.
    Í umdæmi hvers umdæmisráðs skulu vera í það minnsta 6.000 íbúar. Sveitarfélög geta gert samning sín á milli um samstarf um umdæmisráð í samræmi við ákvæði þetta. Í samningi skal í það minnsta koma fram hvernig ráðið skuli skipað, hvernig kostnaður við ráðið skiptist milli sveitarfélaga, hvernig sé að öðru leyti búið að umdæmisráði og hvernig fara skuli um skipun nýs ráðsmanns skv. 3. mgr. Ef fullskipað umdæmisráð hefur ekki starfað á vegum sveitarfélags í einn mánuð tekur ráðherra ákvörðun um skipun umdæmisráðs viðkomandi sveitarfélags til næstu fimm ára. Í ákvörðun ráðherra samkvæmt þessari grein skal koma fram hvernig ráðið skuli skipað, hvernig kostnaður við ráðið skiptist milli sveitarfélaga, hvernig sé að öðru leyti búið að umdæmisráði og hvernig fara skuli um skipun nýs ráðsmanns skv. 3. mgr.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um ráðsmenn, þ.m.t. um nánari kröfur um almenn hæfisskilyrði skv. 2. mgr. og um skipan umdæmisráðs, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Ráðherra er jafnframt heimilt að halda lista yfir einstaklinga sem hann telur uppfylla almenn hæfisskilyrði skv. 2. mgr.

    f. (15. gr.)

Valdsvið og samstarf barnaverndarþjónustna.

    Barnaverndarþjónusta í umdæmi þar sem barn á fasta búsetu á úrlausn um málefni þess, sbr. þó 3. og 4. mgr. Ef foreldrar hafa samið um skipta búsetu barns samkvæmt ákvæðum barnalaga á barnaverndarþjónusta í umdæmi þar sem barnið á lögheimili úrlausn um málefni þess, sbr. þó 3. og 4. mgr. Ef barn dvelur eða býr í umdæmi annarrar barnaverndarþjónustu skal hún veita þjónustunni, sem hefur mál barnsins til meðferðar, upplýsingar og skýringar ásamt því að veita henni liðsinni við framkvæmd barnaverndarráðstafana. Barnaverndarþjónusta í umdæmi þar sem barn á fasta búsetu á rétt til aðgangs að gögnum sem liggja fyrir hjá barnaverndarþjónustum í öðrum umdæmum sem hafa haft mál barnsins eða foreldra þess til meðferðar.
    Ef barn flyst úr umdæmi barnaverndarþjónustu á meðan mál þess er til meðferðar skal hún tafarlaust tilkynna flutninginn til barnaverndarþjónustu í umdæminu sem barnið flytur í og upplýsa hana um stöðu málsins. Barnaverndarþjónustu í umdæminu sem barnið flytur í ber að taka strax við meðferð málsins og tryggja samfellu í vinnslu og meðferð þess. Barnaverndarþjónustunum er heimilt að hafa áframhaldandi samskipti um málið að því marki sem það er nauðsynlegt til að tryggja samfellu í meðferð þess.
    Ef það er barni fyrir bestu að mál sé rekið í öðru umdæmi en því þar sem barn á fasta búsetu geta viðkomandi barnaverndarþjónustur samið um það sín í milli. Ef ekki næst samkomulag um hvaða þjónusta skuli fara með mál samkvæmt þessari grein getur Barna- og fjölskyldustofa ákveðið hvaða barnaverndarþjónusta fer með mál barnsins.
    Ef barnaverndarþjónusta ráðstafar barni í fóstur eða vistun í annað umdæmi fer hún áfram með mál þess. Hún getur þó gert samkomulag við barnaverndarþjónustu í því umdæmi um að bera tilteknar skyldur.
    Ef barn á ekki fasta búsetu hér á landi skal barnaverndarþjónusta í umdæminu þar sem barn dvelst eða er statt fara með mál þess. Barnaverndarþjónusta fer þá með umsjá barnsins eftir því sem þörf krefur og ber henni að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja hagsmuni þess. Ef uppi er ágreiningur um hver skuli fara með mál getur Barna- og fjölskyldustofa ákveðið að tiltekin barnaverndarþjónusta fari með málið. Ríkissjóður endurgreiðir sveitarstjórn útlagðan kostnað sem af máli hlýst.
    Ef barni sem er hér á landi án forsjáraðila sinna er veitt alþjóðleg vernd eða dvalarleyfi á Íslandi ákveður Barna- og fjölskyldustofa hvaða barnaverndarþjónusta skuli taka við forsjá barnsins og fara með málið eftir að leyfi er veitt. Ríkissjóður greiðir allan kostnað viðkomandi barnaverndarþjónustu samkvæmt ákvæðum laga þessara vegna ráðstöfunar barnsins í fóstur eða aðra vistun samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur um slíkan kostnað og útlagðan kostnað skv. 5. mgr.

7. gr.

    2. mgr. 16. gr. laganna orðast svo:
    Þá er öllum skylt að tilkynna til barnaverndarþjónustu ef þeir hafa ástæðu til að ætla að lífi, heilsu eða þroska ófædds barns sé stefnt í alvarlega hættu vegna lífernis, háttsemi eða aðstæðna verðandi foreldra þess eða um hvert það tilvik sem telja má að barnaverndarþjónusta eigi að láta sig varða.

8. gr.

    Í stað orðanna „þungaðra kvenna“ í 1. mgr. 17. gr. laganna kemur: barnshafandi einstaklinga.

9. gr.

    Í stað orðsins „nefndinni“ í 1. málsl. 2. mgr. 19. gr. og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum, nema í 2. mgr. og 2. málsl. 4. mgr. 51. gr., 2. málsl. 2. mgr., 2. málsl. 3. mgr. og 2. málsl. 4. mgr. 52. gr., 1. málsl. 2. mgr. 63. gr., 2. málsl. 4. mgr. 74. gr. og 2. málsl. 4. mgr. 81. gr. kemur, í viðeigandi beygingarfalli: þjónustunni.

10. gr.

    Í stað orðsins „barnaverndarnefndir“ í 2. málsl. 2. mgr., 3. og 4. mgr. 20. gr. kemur, í viðeigandi beygingarfalli: barnaverndaryfirvöld.

11. gr.

    Á eftir 4. mgr. 21. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ef fyrir liggur beiðni um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barns skal barnaverndarþjónusta upplýsa tengilið eða málstjóra um ákvarðanir samkvæmt þessari grein.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 22. gr. laganna:
     a.      Orðin „fyrir barnaverndarnefnd“ í 2. mgr. falla brott.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Ef grunur leikur á að barn hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi eða alvarlegu líkamlegu eða andlegu ofbeldi ber barnaverndarþjónustu að óska eftir þjónustu Barnahúss við könnun málsins.

13. gr.

    Á eftir 22. gr. laganna kemur ný grein, 22. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Samþætting þjónustu í þágu farsældar barns við könnun máls.

    Ef fyrir liggur beiðni um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barns tekur barnaverndarþjónusta þátt í samþættingu þjónustunnar frá upphafi barnaverndarmáls. Að öðru leyti gilda lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna meðan á könnun stendur.
    Ef ekki liggur fyrir beiðni um samþættingu þjónustu ber barnaverndarþjónustu við upphaf barnaverndarmáls, og eftir þörfum á meðan könnun vindur fram, að leiðbeina foreldrum og/ eða barni um rétt samkvæmt lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Í greinargerð skal sérstaklega tiltaka hvernig barni var gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og hvernig tillit var tekið til skoðana barnsins, eftir því sem við á.
     b.      Á eftir 3. málsl. 2. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Um samþættingu þjónustu fer skv. 23. gr. a.
     c.      3. mgr. orðast svo:
                      Ef barnaverndarþjónusta tekur ákvörðun um að loka máli, sbr. 1. eða 2. mgr., og fyrir liggur beiðni um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barnsins er tengilið og/eða málstjóra, og eftir atvikum þjónustuveitendum sem taka þátt í samþættingu þjónustunnar, heimilt að vinna með greinargerð um niðurstöðu könnunar og gögn sem niðurstaðan er byggð á. Ef beiðni um samþættingu liggur ekki fyrir skal veita foreldrum og/eða barni leiðbeiningar um samþættingu samhliða tilkynningu um lok máls. Ef málið hófst með tilkynningu skv. 17. gr. frá þjónustuveitanda í þágu farsældar barnsins skal jafnframt upplýsa þjónustuveitandann um lok málsins.

15. gr.

    Á eftir 23. gr. laganna kemur ný grein, 23. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Samþætting þjónustu vegna úrræða samkvæmt lögum þessum.

    Ef fyrir liggur beiðni um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barns og niðurstaða barnaverndarþjónustu um að barn hafi þörf fyrir úrræði samkvæmt lögum þessum tekur barnaverndarþjónusta við hlutverki málstjóra. Um samþættingu fer að öðru leyti samkvæmt lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna nema öðruvísi sé mælt fyrir um í lögum þessum. Í þeim tilvikum er heimilt að fjalla um stuðningsúrræði samkvæmt lögum þessum í stuðningsáætlun, sbr. 22. gr. laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.
    Ef ekki liggur fyrir beiðni um samþættingu þjónustu við beitingu úrræða ber barnaverndarþjónustu að meta þörf barns á samstarfi við þjónustuveitendur og aðra sem veita þjónustu í þágu farsældar barns og afla samþykkis foreldra, og barns eftir atvikum, til að samstarfi verði komið á.

16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 24. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „þungaða konu“ í e-lið 1. mgr. kemur: verðandi foreldra.
     b.      3. mgr. orðast svo:
                      Ef úrræði samkvæmt þessari grein beinast að heimili þar sem barn býr nægir samþykki þess foreldris eða foreldra sem barnið býr hjá samkvæmt ákvæðum barnalaga. Ef úrræði beinast eingöngu að barni sem orðið er 15 ára nægir samþykki barnsins. Ef úrræði beinast að heimili foreldris eða annarra þar sem barn nýtur umgengni þarf samþykki lögheimilisforeldris og þess sem nýtur umgengninnar.
     c.      Fyrirsögn greinarinnar verður: Úrræði með samþykki foreldra og barns.

17. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 26. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                      Hafi úrræði skv. 24. og 25. gr. ekki skilað árangri að mati barnaverndarþjónustu, eða barnaverndarþjónusta hefur eftir atvikum komist að þeirri niðurstöðu að þau séu ófullnægjandi, getur barnaverndarþjónusta farið fram á það við umdæmisráð barnaverndar að ráðið með úrskurði gegn vilja foreldra:
              a.      kveði á um eftirlit með heimili,
              b.      gefi fyrirmæli um aðbúnað og umönnun barns, svo sem dagvistun þess, skólasókn, læknisþjónustu, rannsókn, meðferð eða þjálfun,
              c.      kveði á um að heimilt sé að láta aðilum, sem vinna með mál viðkomandi barns og nefndir eru í 2. mgr. 17. gr. og 18. gr., í té upplýsingar um líðan barns eða meðferð máls ef það er talið nauðsynlegt vegna hagsmuna barnsins,
              d.      kveði á um að samþætta skuli þjónustu í þágu farsældar barnsins,
              e.      ákveði að ekki megi fara með barnið úr landi.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Þegar kveðið hefur verið á um samþættingu þjónustu skv. d-lið 1. mgr. með úrskurði tekur barnaverndarþjónusta við hlutverki málstjóra samkvæmt lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Að öðru leyti fer um samþættingu þjónustunnar samkvæmt lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna nema öðruvísi sé mælt fyrir um í lögum þessum.

18. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 27. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                      Með sömu skilyrðum og fram koma í 26. gr. og ef brýnir hagsmunir barns mæla með því getur barnaverndarþjónusta farið fram á það við umdæmisráð barnaverndar að ráðið með úrskurði gegn vilja foreldra og/eða barns sem náð hefur 15 ára aldri:
              a.      kveði á um að barn skuli vera kyrrt á þeim stað þar sem það dvelst í allt að fjóra mánuði,
              b.      kveði á um töku barns af heimili í allt að fjóra mánuði og um nauðsynlegar ráðstafanir, svo sem ráðstöfun þess í fóstur eða vistun á heimili eða stofnun eða leiti annarra úrræða skv. XIII. og XIV. kafla til að tryggja öryggi þess eða til að unnt sé að gera viðeigandi rannsókn á barninu og veita því nauðsynlega meðferð og aðhlynningu.
     b.      Í stað orðsins „barnaverndarnefndar“ tvívegis í 2. mgr. kemur: umdæmisráðs barnaverndar.
     c.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Úrskurður umdæmisráðs barnaverndar um vistun barns utan heimilis.

19. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 28. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Ef barnaverndarþjónusta telur nauðsynlegt að ráðstöfun skv. a- og b-lið 1. mgr. 27. gr. standi lengur en þar er kveðið á um skal hún, að fengnum úrskurði umdæmisráðs barnaverndar, gera kröfu um það fyrir héraðsdómi.
     b.      Í stað orðanna „Ef krafist er“ í 2. mgr. kemur: Ef fyrir liggur úrskurður umdæmisráðs barnaverndar sem heimilar barnaverndarþjónustu að krefjast.

20. gr.

    Í stað orðsins „Barnaverndarnefnd“ í 1. mgr. 29. gr. laganna kemur: Barnaverndarþjónustu, að fengnum úrskurði umdæmisráðs barnaverndar.

21. gr.

    30. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Úrræði vegna ófæddra barna.

    Ef könnun leiðir í ljós að lífi, heilsu eða þroska ófædds barns er stefnt í alvarlega hættu vegna lífernis, háttsemi eða aðstæðna verðandi foreldra þess skal barnaverndarþjónusta beita úrræðum laga þessara í samráði við hina verðandi foreldra.
    Stefni barnshafandi einstaklingur heilsu og/eða lífi ófædds barns í hættu með líferni sínu eða háttsemi og brýn þörf stendur til, enda hafi vægari úrræði verið fullreynd, getur barnaverndarþjónusta sett fram kröfu fyrir dómi um sviptingu sjálfræðis hins barnshafandi einstaklings samkvæmt ákvæðum lögræðislaga.

22. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 31. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                      Ef vinda þarf bráðan bug að ráðstöfun getur starfsfólk barnaverndarþjónustu sem fer með vald til fullnaðarafgreiðslu mála samkvæmt lögum þessum, án undangenginnar málsmeðferðar skv. VIII. kafla, framkvæmt hana.
     b.      Í stað 1. málsl. 2. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Barnaverndarþjónusta skal án tafar taka málið til meðferðar. Innan 14 daga frá því að ákvörðun um neyðarráðstöfun var tekin skal taka ákvörðun eða kveða upp úrskurð, eftir atvikum með aðkomu umdæmisráðs barnaverndar, um áframhaldandi ráðstöfun, að öðrum kosti fellur ákvörðun skv. 1. mgr. úr gildi.

23. gr.

    Við 1. mgr. 33. gr. laganna bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Jafnframt skal samþætta þjónustu í þágu farsældar barnsins óháð afstöðu foreldra. Barnaverndarþjónusta tekur þá við hlutverki málstjóra. Að öðru leyti fer um samþættingu samkvæmt lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

24. gr.

    Fyrirsögn VI. kafla laganna verður: Ráðstafanir barnaverndarþjónustu og umdæmisráðs barnaverndar.

25. gr.

    35. gr. laganna fellur brott.

26. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 37. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „getur nefndin krafist þess fyrir dómi“ í 1. málsl. kemur: skal barnaverndarþjónusta setja fram beiðni til lögreglu um.
     b.      Í stað orðanna „þungaða konu“ í 1. málsl. og „þungaðrar konu“ í 2. málsl. kemur: barnshafandi einstakling; og: barnshafandi einstaklings.
     c.      Í stað orðanna „heimilt að krefjast þess“ í 2. málsl. kemur: skylt að setja fram beiðni til lögreglu um.

27. gr.

    Fyrirsögn VII. kafla laganna verður: Aðrar ráðstafanir barnaverndaryfirvalda.

28. gr.

    38. gr. laganna orðast svo:
    Um meðferð barnaverndarmála gilda ákvæði stjórnsýslulaga með þeim frávikum sem greinir í lögum þessum. Ákvæði kaflans gilda þegar barnaverndarþjónusta og umdæmisráð barnaverndar taka ákvarðanir í barnaverndarmálum, þ.m.t. við undirbúning mála til úrskurðar skv. 13. gr.
    Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði í reglugerð um meðferð barnaverndarmála, svo sem um tilkynningar, könnun, samþættingu þjónustu, gerð áætlana, úrræði og stafræna vinnslu.

29. gr.

    39. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Skráning mála, varðveisla upplýsinga og stafræn vinnsla barnaverndarmála.

    Barnaverndarþjónusta heldur skrá yfir öll barnaverndarmál. Öll gögn er barnaverndarmál varða, þ.m.t. gögn sem verða til hjá umdæmisráði barnaverndar, skulu varðveitt hjá barnaverndarþjónustu í gagnagrunni og stafrænum lausnum sem eru starfrækt af Barna- og fjölskyldustofu. Umdæmisráð barnaverndar hefur aðgang að gögnum mála hjá viðkomandi barnaverndarþjónustu.
    Barnaverndarþjónustur og umdæmisráð barnaverndar skulu vinna gögn barnaverndarmála í gagnagrunni og stafrænum lausnum sem eru starfrækt af Barna- og fjölskyldustofu í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur.
    Barna- og fjölskyldustofa útbýr leiðbeiningar um varðveislu og vinnslu gagna skv. 1. mgr.

30. gr.

    Í stað orðanna „Barnaverndarnefnd eða starfsmönnum hennar“ í 4. og 5. mgr. 43. gr. laganna kemur: Starfsfólki barnaverndarþjónustu.

31. gr.

    Í stað orðanna „barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð“ í 1. mgr. 47. gr. laganna kemur: úrskurður er kveðinn upp í barnaverndarmáli.

32. gr.

    49. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Meðferð barnaverndarmála fyrir umdæmisráði barnaverndar.

    Ákvæði þessa kafla gilda um meðferð barnaverndarmála fyrir umdæmisráði barnaverndar eftir því sem við á.
    Barnaverndarþjónusta undirbýr og fer fram á úrskurð umdæmisráðs barnaverndar vegna mála sem lúta úrskurðarvaldi ráðsins, sbr. 13. gr. Þegar farið hefur verið fram á úrskurð umdæmisráðs getur ráðið lagt fyrir barnaverndarþjónustu að afla frekari gagna sem ráðið telur nauðsynleg til að komast að niðurstöðu í málinu.
    Um ályktunarhæfi og form úrskurða umdæmisráðs barnaverndar fer samkvæmt stjórnsýslulögum.
    Þegar fyrir liggur úrskurður umdæmisráðs barnaverndar ber barnaverndarþjónustu án tafar að koma honum til framkvæmdar í samræmi við hagsmuni barnsins. Úrskurður skv. 3. og 4. tölul. 3. mgr. 13. gr. fellur úr gildi hafi hann ekki komið til framkvæmda innan sex vikna frá því að hann varð bindandi.

33. gr.

    Í stað orðsins „barnaverndarnefndar“ í 2. mgr. 50. gr. laganna kemur: barnaverndarþjónustu, umdæmisráðs barnaverndar.

34. gr.

    Fyrirsögn VIII. kafla laganna verður: Málsmeðferð barnaverndarmála.

35. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 51. gr. laganna:
     a.      Orðin „nefndarinnar“ í 2. mgr., „barnaverndarnefndar“ í 2. málsl. 3. mgr. og „til barnaverndarnefndar“ í 3. málsl. 4. mgr. falla brott.
     b.      Í stað orðsins „Nefndin“ í 2. málsl. 4. mgr. kemur: Úrskurðarnefndin.

36. gr.

    Í stað orðsins „barnaverndarnefndar“ í 4. mgr. 52. gr. laganna kemur: sem kærður er til úrskurðarnefndarinnar.

37. gr.

    Orðin „þar með talið úrskurði og endurrit úr fundargerðabók nefndarinnar“ í 1. málsl. 2. mgr. 63. gr. laganna falla brott.

38. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 74. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Barnaverndarnefnd“ þrívegis í 4. mgr., í 2. málsl. 5. mgr., þrívegis í 6. mgr. og í 7. mgr., í öllum beygingarmyndum, kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Umdæmisráð barnaverndar.
     b.      Í stað orðanna „nefndin“ í 2. málsl. 4. mgr. og „hún“ í 3. málsl. 4. mgr. kemur: ráðið; og: það.

39. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 81. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Barnaverndarnefnd“ þrívegis í 4. mgr., í 2. málsl. 5. mgr., þrívegis í 6. mgr., í 7. mgr. og í 8. mgr., í öllum beygingarmyndum, kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Umdæmisráð barnaverndar.
     b.      Í stað orðanna „nefndin“ í 2. málsl. 4. mgr. og „hún“ í 3. málsl. 4. mgr. kemur: ráðið; og: það.
     c.      Í stað orðanna „Barnaverndarnefnd skal leita“ í 7. mgr. kemur: Leita skal.

40. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 87. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „starfi barnaverndarnefndar“ kemur: störfum barnaverndarþjónustu og umdæmisráðs barnaverndar.
     b.      Í stað orðsins „hún“ kemur: barnaverndarþjónusta.
     c.      Í stað orðsins „nefndin“ kemur: hún.

41. gr.

    Fyrirsögn XVI. kafla laganna verður: Vistun barna á vegum annarra en barnaverndarþjónustu.

42. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir 39. gr. er barnaverndarþjónustu og umdæmisráði barnaverndar heimilt að varðveita gögn er barnaverndarmál varða í eigin skjalasöfnum þar til gagnagrunnur og stafrænar lausnir verða fullbúin.

43. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2022.
    Þrátt fyrir 1. mgr. skulu ákvæði sem fjalla um barnaverndarþjónustu og umdæmisráð barnaverndar ekki koma til framkvæmda fyrr en 28. maí 2022. Þá taka barnaverndarþjónusta og umdæmisráð barnaverndar við verkefnum barnaverndarnefnda eins og nánar er mælt fyrir um í lögum þessum. Á tímabilinu 1. janúar til 28. maí 2022 fara barnaverndarnefndir áfram með verkefni barnaverndarþjónustu sveitarfélaga og umdæmisráða barnaverndar.
    Ef málsmeðferð barnaverndarmáls hefur hafist í tíð eldri laga gilda ákvæði laga þessara um meðferð málsins eftir gildistöku þeirra. Gildir það þótt atvik þau sem mál er sprottið af hafi gerst að einhverju eða öllu leyti í tíð eldri laga.

44. gr.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um almannatryggingar, nr. 100/2007: Í stað orðsins „barnaverndarnefnd“ í 50. gr. laganna kemur: barnaverndarþjónustu.
     2.      Barnalög, nr. 76/2003: Í stað orðsins „barnaverndarnefndar“ í 5. mgr. 30. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum, í öllum beygingarmyndum, kemur, í viðeigandi beygingarfalli: barnaverndarþjónustu.
     3.      Lög um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991:
                  a.      Í stað orðsins „barnaverndarnefndar“ í 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna kemur: á grundvelli barnaverndarlaga.
                  b.      31. gr. laganna fellur brott.
     4.      Lög um fullnustu refsinga, nr. 15/2016: Í stað orðsins „barnaverndarnefnd“ í 1. mgr. 30. gr. laganna kemur: barnaverndarþjónustu.
     5.      Lög um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020: Í stað orðsins „barnaverndarnefnd“ í 1. málsl. 4. mgr. 8. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: barnaverndarþjónusta.
     6.      Lög um grunnskóla, nr. 91/2008: Í stað orðsins „barnaverndarnefnd“ í 2. málsl. 3. mgr. 5. gr. laganna kemur: barnaverndarþjónusta.
     7.      Lög um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019: Í stað orðsins „barnaverndarnefnd“ í 16. gr. laganna kemur: barnaverndarþjónustu.
     8.      Lög um lögheimili og aðsetur, nr. 80/2018: Í stað orðsins „barnaverndarnefnd“ í 3. mgr. 6. gr. laganna kemur: barnaverndarþjónusta.
     9.      Lögræðislög, nr. 71/1997:
                  a.      Við 4. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Ef barnshafandi einstaklingur stofnar heilsu og/eða lífi ófædds barns síns í hættu með líferni sínu eða háttsemi.
                  b.      Við 1. mgr. 5. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. fellur tímabundin svipting barnshafandi einstaklings skv. e-lið 4. gr. sjálfkrafa niður við þungunarrof eða fæðingu.
     10.      Lög um meðferð sakamála, nr. 88/2008: Í stað orðsins „barnaverndarnefnd“ í 2. málsl. 1. mgr. 61. gr. laganna kemur: barnaverndarþjónustu.
     11.      Lög um nálgunarbann og brottvísun af heimili, nr. 85/2011: Í stað orðsins „barnaverndarnefndar“ í 2. mgr. 3. gr. og 1. málsl. 17. gr. laganna kemur: barnaverndarþjónustu.
     12.      Sveitarstjórnarlög, nr. 138/2011: 1. málsl. 2. mgr. 50. gr. laganna fellur brott.
     13.      Lög um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995: Í stað orðsins „barnaverndarnefndar“ í d-lið 1. mgr. og 1. málsl. 6. mgr. 13. gr. laganna kemur: barnaverndarþjónustu.
     14.      Tollalög, nr. 88/2005: Í stað orðsins „barnaverndarnefndar“ í 1. mgr. 160. gr. laganna kemur: barnaverndarþjónustu.
     15.      Lög um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, nr. 55/1996: Í stað orðsins „barnaverndarnefndar“ í 4. mgr. 3. gr. laganna kemur: barnaverndarþjónustu.
     16.      Lög um útlendinga, nr. 80/2016: Í stað orðsins „barnaverndarnefndar“ í 6. mgr. 24. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum, í öllum beygingarmyndum, kemur, í viðeigandi beygingarfalli: barnaverndarþjónustu.
     17.      Lög um ættleiðingar, nr. 130/1999: Í stað orðsins „barnaverndarnefndar“ í 4. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum, í öllum beygingarmyndum, kemur, í viðeigandi beygingarfalli: barnaverndarþjónustu.