Ferill 140. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1790  —  140. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um matvæli, nr. 93/1995, með síðari breytingum (sýklalyfjanotkun).

Frá minni hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og borist umsagnir frá Betri landbúnaði, Bændasamtökum Íslands, Dýralæknafélagi Íslands, Félagi atvinnurekenda, Félagi svínabænda, Landssambandi kúabænda, Matvælastofnun, Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði sf., Samtökum iðnaðarins, sóttvarnaráði, Sveitarfélaginu Skagafirði, Halldóri Runólfssyni og Karli G. Kristinssyni.
    Markmið frumvarpsins er að bæta miðlun upplýsinga til neytenda um sýklalyfjanotkun við framleiðslu matvæla. Lagt er til að bætt verði við lög um matvæli ákvæði er kveður á um að fyrirtæki sem hafa með höndum smásölu matvæla tryggi með merkingum í sölurýmum að neytendur hafi greiðan aðgang að upplýsingum um upprunaland matvælanna og meðalnotkun sýklalyfja við framleiðslu matvæla í viðkomandi landi. Þá verði Matvælastofnun gert að gefa árlega út leiðbeiningar um miðlun upplýsinga um upprunaland og sýklalyfjanotkun við framleiðslu matvæla. Frumvarpið er nú lagt fram í þriðja sinn. Það var áður lagt fram á 149. og 150. löggjafarþingi (229. mál og 753. mál) en náði ekki fram að ganga.
    Minni hlutinn telur jákvætt að stefnt sé að því að auka meðvitund neytenda um notkun sýklalyfja við framleiðslu matvæla og um sýklalyfjaónæmi og leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Helgi Hrafn Gunnarsson og Oddný G. Harðardóttir skrifa undir álit þetta með fyrirvara sem þau gera grein fyrir í ræðu.

Alþingi, 12. júní 2021.

Ólafur Ísleifsson,
frsm.
Helgi Hrafn Gunnarsson,
með fyrirvara.
Oddný G. Harðardóttir,
með fyrirvara.
Sigurður Páll Jónsson.