Ferill 699. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1798  —  699. mál.




Frumvarp til laga


um verðbréfasjóði.

(Eftir 2. umræðu, 12. júní.)


I. KAFLI

Gildissvið og orðskýringar.

1. gr.

Gildissvið.

    Lög þessi gilda um rekstrarfélög verðbréfasjóða og rekstur og markaðssetningu verðbréfasjóða hér á landi.

2. gr.

Takmarkanir á gildissviði.

    Lög þessi gilda ekki um:
     a.      lokaða sjóði um sameiginlega fjárfestingu,
     b.      sjóði um sameiginlega fjárfestingu sem safna fjármunum án þess að hvetja til þátttöku almennings í kaupum á hlutdeildarskírteinum innan EES,
     c.      sjóði um sameiginlega fjárfestingu sem samkvæmt reglum sjóðs má einungis selja til almennings utan EES,
     d.      tegundir sjóða um sameiginlega fjárfestingu sem heimilt er að markaðssetja til almennings hér á landi, sem ekki eru verðbréfasjóðir, eða
     e.      fjárfestingarfélög sem fyrir milligöngu dótturfélaga fjárfesta einkum í öðru en framseljanlegum verðbréfum.

3. gr.

Orðskýringar.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     1.      EES: Evrópska efnahagssvæðið.
     2.      ESMA: Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin.
     3.      Eiginfjárgrunnur: Eiginfjárgrunnur samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.
     4.      Fjármálagerningur: Fjármálagerningur samkvæmt lögum um markaði fyrir fjármálagerninga.
     5.      Framseljanleg verðbréf: Hlutabréf í fyrirtækjum og önnur verðbréf sem eru ígildi hlutabréfa í fyrirtækjum, skuldabréf og aðrar tegundir tryggðra skuldaskjala, og aðrar tegundir verðbréfa sem veita rétt til að eignast slík verðbréf með viðskiptum.
     6.      Gistiríki rekstrarfélags: Ríki innan EES, annað en heimaríki rekstrarfélags, þar sem rekstrarfélag er með útibú eða veitir þjónustu.
     7.      Gistiríki verðbréfasjóðs: Ríki innan EES, annað en heimaríki verðbréfasjóðs, þar sem hlutdeildarskírteini verðbréfasjóðsins eru markaðssett.
     8.      Heimaríki rekstrarfélags: Ríki innan EES þar sem rekstrarfélag er með skráða starfsstöð.
     9.      Heimaríki verðbréfasjóðs: Ríki innan EES þar sem verðbréfasjóður hefur fengið staðfestingu samkvæmt viðkomandi landslögum.
     10.      Hlutdeildarsjóður: Sjóður um sameiginlega fjárfestingu sem stofnað er til af rekstrarfélagi og í reglum sjóðsins kemur fram að hann sé hlutdeildarsjóður.
     11.      Hlutdeildarskírteini: Fjármálagerningur sem er staðfesting á tilkalli allra þeirra sem eiga hlutdeild í hlutdeildarsjóði eða einstakri deild hans til eigna sjóðsins.
     12.      Innlendur samruni: Samruni verðbréfasjóða sem hafa staðfestu hér á landi, þar sem a.m.k. einn verðbréfasjóðanna hefur markaðssett hlutdeildarskírteini sín í öðru ríki innan EES.
     13.      Markaðssetning: Tilboð eða hvatning til fjárfesta, með auglýsingum eða annarri kynningu að frumkvæði rekstrarfélags eða fyrir þess hönd, um kaup á hlutdeildarskírteinum í verðbréfasjóði sem það rekur.
     14.      Millilandasamruni: Samruni verðbréfasjóða þar sem:
                  a.      a.m.k. tveir verðbréfasjóðanna eru með staðfestu í mismunandi aðildarríkjum, eða
                  b.      verðbréfasjóðir með staðfestu í sama aðildarríki renna saman í nýjan verðbréfasjóð með staðfestu í öðru aðildarríki.
     15.      Náin tengsl: Náin tengsl samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.
     16.      Peningamarkaðsgerningar: Þeir flokkar auðseljanlegra fjármálagerninga sem viðskipti fara venjulega fram með á peningamarkaði og hafa virði sem hægt er að ákvarða með nákvæmni á hvaða tímapunkti sem er.
     17.      Rekstrarfélag verðbréfasjóða: Lögaðili sem rekur einn eða fleiri verðbréfasjóði með reglubundnum hætti.
     18.      Samruni: Samruni þar sem:
                  a.      einum eða fleiri verðbréfasjóðum, samrunasjóðum, eða einstökum deildum samrunasjóðs sé hann deildaskiptur, er slitið án skuldaskila og allar eignir og skuldbindingar samrunasjóðsins eru yfirfærðar til annars starfandi verðbréfasjóðs (yfirtökusjóðs), eða einstakra deilda yfirtökusjóðs sé hann deildaskiptur, í skiptum fyrir útgáfu hlutdeildarskírteina til handa eigendum hlutdeildarskírteina samrunasjóðsins og, ef við á, greiðslu reiðufjár sem er ekki umfram 10% verðmætis þeirra hlutdeildarskírteina,
                  b.      tveimur eða fleiri verðbréfasjóðum (samrunasjóðum), eða einstökum deildum samrunasjóða séu þeir deildaskiptir, er slitið án skuldaskila og allar eignir og skuldbindingar samrunasjóðanna eru yfirfærðar í verðbréfasjóð (yfirtökusjóð) sem þeir stofna, eða til einstakra deilda yfirtökusjóðs sé hann deildaskiptur, í skiptum fyrir útgáfu hlutdeildarskírteina til handa eigendum hlutdeildarskírteina samrunasjóðanna og, ef við á, greiðslu reiðufjár sem er ekki umfram 10% verðmætis þeirra hlutdeildarskírteina,
                  c.      einn eða fleiri verðbréfasjóðir (samrunasjóðir), eða einstakar deildir verðbréfasjóðs sé hann deildaskiptur, halda áfram starfsemi sinni en yfirfæra hreina eign sína til annarrar deildar sama verðbréfasjóðs eða yfir í verðbréfasjóð (yfirtökusjóð) sem stofnaður er eða einstakra deilda hans sé hann deildaskiptur.
     19.      Staðfesta: Eftirfarandi gildir um staðfestu:
                  a.      Rekstrarfélag hefur staðfestu þar sem það er með skráða starfsstöð.
                  b.      Verðbréfasjóður hefur staðfestu þar sem hann hefur fengið staðfestingu.
                  c.      Vörsluaðili hefur staðfestu þar sem hann er með skráða starfsstöð eða útibú.
     20.      Staðfesting: Með staðfestingu verðbréfasjóðs er átt við heimild lögbærs yfirvalds til handa rekstrarfélagi til að starfrækja þann tiltekna verðbréfasjóð.
     21.      Stjórn: Stjórn í skilningi laga um hlutafélög.
     22.      Stofnframlag: Stofnframlag samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.
     23.      Útibú rekstrarfélags: Starfsstöð sem er hluti rekstrarfélags, er ekki sérstakur lögaðili, og veitir þá þjónustu sem rekstrarfélagi er heimilt að inna af hendi. Litið skal á allar starfsstöðvar rekstrarfélags í einu ríki innan EES sem eitt útibú hafi rekstrarfélag skráða starfsstöð í öðru ríki innan EES.
     24.      Varanlegur miðill: Tæki sem gerir fjárfesti kleift að geyma upplýsingar, sem beint er til hans, óbreyttar þannig að hann geti afritað þær og flett upp í þeim í hæfilegan tíma.
     25.      Verðbréfasjóður: Sjóður um sameiginlega fjárfestingu sem hefur það eitt að markmiði að veita viðtöku fé frá almenningi til sameiginlegrar fjárfestingar í fjármálagerningum og öðrum seljanlegum eignum, sbr. IX. kafla, á grundvelli áhættudreifingar samkvæmt fyrir fram kunngerðri fjárfestingarstefnu, og hlutdeildarskírteini í honum eru keypt eða innleyst að beiðni hlutdeildarskírteinishafa, beint eða óbeint, af eignum sjóðsins. Aðgerðir rekstrarfélags til að tryggja að skráð markaðsvirði hlutdeildarskírteina verðbréfasjóðs á skipulegum markaði víki ekki verulega frá virði hlutdeildarskírteina skulu taldar ígildi slíkra kaupa eða innlausna.
     26.      Virkur eignarhlutur: Virkur eignarhlutur samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.
     27.      Vörsluaðili: Lögaðili sem hefur heimild til vörslu verðbréfasjóða, sbr. VI. kafla.
     28.      Yfirráð: Yfirráð samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð þar sem nánar er kveðið á um merkingu hugtaka samkvæmt lögum þessum.


II. KAFLI

Starfsemi rekstrarfélaga, starfsleyfi o.fl.

4. gr.

Um rekstrarfélög verðbréfasjóða.

    Rekstur verðbréfasjóðs er starfsleyfisskyld starfsemi.
    Rekstrarfélagi er heimilt að hefja rekstur verðbréfasjóðs að fengnu starfsleyfi Fjármálaeftirlitsins. Tilkynna skal Fjármálaeftirlitinu ef rekstrarfélag uppfyllir ekki lengur skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis.
    Rekstrarfélagi með starfsleyfi er einu heimilt að hafa orðin rekstrarfélag verðbréfasjóða í nafni sínu eða til nánari skýringar á starfsemi sinni. Sé hætta á að villst verði á nöfnum rekstrarfélaga sem starfa hér á landi getur Fjármálaeftirlitið krafist þess að annað þeirra verði auðkennt sérstaklega.
    Verðbréfafyrirtæki með starfsleyfi samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki og einungis með starfsheimildir skv. d- og e-lið 1. tölul. 1. mgr. 25. gr. þeirra laga skal teljast uppfylla skilyrði 7. gr. um veitingu starfsleyfis sem rekstrarfélag. Komi til slíkrar starfsleyfisveitingar skal fyrirtækið afsala sér starfsleyfi sínu sem verðbréfafyrirtæki.

5. gr.

Starfsheimildir rekstrarfélags verðbréfasjóðs.

    Rekstrarfélag skal ekki sinna annarri starfsemi en rekstri verðbréfasjóða og starfsemi samkvæmt lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, sbr. þó 3. mgr.
    Rekstur verðbréfasjóðs felst í eftirfarandi:
     1.      Eignastýringu sjóðs.
     2.      Áhættustýringu sjóðs.
     3.      Umsýsluverkefnum:
                  a.      Bókhalds- og lögfræðiþjónustu.
                  b.      Þjónustu vegna fyrirspurna viðskiptavina.
                  c.      Mati á verðmæti eigna.
                  d.      Regluvörslu og innri endurskoðun.
                  e.      Að halda og uppfæra skrár yfir hlutdeildarskírteinishafa.
                  f.      Úthlutun arðs.
                  g.      Útgáfu og innlausn hlutdeildarskírteina.
                  h.      Uppgjöri viðskipta.
                  i.      Vistun gagna.
     4.      Markaðssetningu.
    Rekstrarfélagi er heimilt, að fenginni sérstakri heimild Fjármálaeftirlitsins, að sinna eftirfarandi verkefnum og skal við framkvæmd þeirra fara að lögum um markaði fyrir fjármálagerninga:
     1.      Eignastýringu samkvæmt lögum um markaði fyrir fjármálagerninga.
     2.      Fjárfestingarráðgjöf samkvæmt lögum um markaði fyrir fjármálagerninga.
     3.      Vörslu og umsýslu hlutdeildarskírteina sjóða um sameiginlega fjárfestingu.
    Rekstrarfélagi sem ekki hefur heimild til eignastýringar skv. 1. tölul. 3. mgr. er óheimilt að sinna verkefnum skv. 2.–3. tölul. sömu málsgreinar. Rekstrarfélagi er óheimilt að sinna eingöngu verkefnum skv. 3. mgr.
    Rekstrarfélagi er óheimilt, í tengslum við rekstur á sjóðum sem má markaðssetja til almennra fjárfesta, að nýta sameiginlegan atkvæðisrétt í sjóðum í rekstri þess til að hafa veruleg áhrif á stjórnun útgefenda verðbréfa.
    Rekstrarfélag með heimild til eignastýringar skv. 1. tölul. 3. mgr. skal ekki fjárfesta fyrir hönd viðskiptavinar í hlutdeildarskírteinum eða hlutum sjóða um sameiginlega fjárfestingu sem hann rekur nema að fengnu fyrir fram samþykki viðskiptavinarins.

6. gr.

Umsókn um starfsleyfi.

    Umsókn rekstrarfélags til Fjármálaeftirlitsins um starfsleyfi skal vera skrifleg og henni skulu fylgja eftirfarandi upplýsingar:
     a.      upplýsingar um stjórnarmenn, framkvæmdastjóra og þá sem bera ábyrgð á lykilstarfssviðum rekstrarfélags,
     b.      upplýsingar um einstaklinga og lögaðila sem með beinum eða óbeinum hætti eiga virkan eignarhlut í rekstrarfélagi ásamt stærð eignarhlutar þeirra,
     c.      samþykktir félags,
     d.      staðfesting endurskoðanda á innborgun hlutafjár,
     e.      rekstraráætlun þar sem m.a. koma fram upplýsingar um skipurit rekstrarfélags og hvernig félagið hyggst uppfylla kröfur laga þessara,
     f.      upplýsingar um starfskjarastefnu og framkvæmd hennar, sbr. 17. gr.,
     g.      upplýsingar um fyrirkomulag útvistunar og keðjuútvistunar, sbr. 22. og 23. gr.,
     h.      upplýsingar um náin tengsl milli rekstrarfélags og annarra aðila, sbr. 15. tölul. 1. mgr. 3. gr.,
     i.      aðrar upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið telur nauðsynlegar.
    Tilkynna skal Fjármálaeftirlitinu, fyrir fram ef við á, um allar breytingar á áður veittum upplýsingum.

7. gr.

Skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis.

    Fjármálaeftirlitið skal veita rekstrarfélagi starfsleyfi að eftirfarandi skilyrðum uppfylltum:
     1.      Rekstrarfélag hefur nægilegt stofnframlag og eiginfjárgrunn skv. 12. gr.
     2.      Stjórnarmenn, framkvæmdastjóri og þeir sem bera ábyrgð á lykilstarfssviðum rekstrarfélags uppfylla kröfur 11. gr.
     3.      Þeir sem fara með virkan eignarhlut í rekstrarfélagi séu hæfir, sbr. 3. mgr. 13. gr.
     4.      Höfuðstöðvar og skráð starfsstöð rekstrarfélags eru hér á landi.
     5.      Rekstrarfélag starfar sem hlutafélag.
     6.      Náin tengsl milli rekstrarfélags og annarra aðila hindra ekki skilvirkt eftirlit með starfsemi rekstrarfélags.
     7.      Lög, reglugerðir og stjórnvaldsfyrirmæli ríkis utan EES sem gilda um aðila með náin tengsl við rekstrarfélag eða erfiðleikar við að framfylgja lögum, reglugerðum og stjórnvaldsfyrirmælum ríkis utan EES hindra ekki skilvirkt eftirlit með starfsemi rekstrarfélags.
     8.      Rekstrarfélag uppfyllir önnur skilyrði laga þessara.
    Fjármálaeftirlitið skal reglubundið óska eftir upplýsingum frá rekstrarfélagi um að skilyrðin fyrir veitingu starfsleyfis séu uppfyllt.
    Fjármálaeftirlitið skal leita álits viðkomandi lögbærs yfirvalds í öðrum ríkjum innan EES áður en starfsleyfi er veitt skv. 1. mgr. sé rekstrarfélag:
     a.      dótturfélag annars rekstrarfélags, rekstraraðila sérhæfðra sjóða, verðbréfafyrirtækis, lánastofnunar eða vátryggingafélags með starfsleyfi í öðru ríki innan EES,
     b.      dótturfélag móðurfélags annars rekstrarfélags, rekstraraðila sérhæfðra sjóða, verðbréfafyrirtækis, lánastofnunar eða vátryggingafélags með starfsleyfi í öðru ríki innan EES, eða
     c.      undir yfirráðum aðila sem hefur einnig yfirráð yfir öðru rekstrarfélagi, rekstraraðila sérhæfðra sjóða, verðbréfafyrirtæki, lánastofnun eða vátryggingafélagi með starfsleyfi í öðru ríki innan EES.
    Rekstrarfélag með starfsleyfi skal ávallt uppfylla skilyrði þessarar greinar.

8. gr.

Takmörkun á starfsemi rekstrarfélags.

    Fjármálaeftirlitið getur sett takmarkanir á starfsemi rekstrarfélags, t.d. hvað varðar fjárfestingaraðferðir verðbréfasjóða, telji Fjármálaeftirlitið sérstaka ástæðu til.
    Áður en gripið er til takmörkunar skv. 1. mgr. skal rekstrarfélagi gefinn kostur á að koma við úrbótum sé það unnt að mati Fjármálaeftirlitsins. Ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins um takmörkun á starfsemi skulu rökstuddar skriflega. Veiti rekstrarfélagið þjónustu í öðru ríki innan EES skal tilkynning um efni ákvörðunarinnar og rökstuðning send lögbærum eftirlitsaðila í því ríki.


9. gr.

Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um veitingu eða synjun starfsleyfis.

    Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um starfsleyfi rekstrarfélags skal tilkynnt rekstrarfélagi skriflega svo fljótt sem unnt er og eigi síðar en sex mánuðum eftir að fullnægjandi umsókn barst Fjármálaeftirlitinu.
    Synjun Fjármálaeftirlitsins á umsókn um starfsleyfi skal rökstudd.

10. gr.

Skrá yfir rekstrarfélög verðbréfasjóða.

    Fjármálaeftirlitið skal halda og birta opinberlega skrá yfir rekstrarfélög verðbréfasjóða þar sem fram koma allar helstu upplýsingar um félögin.

11. gr.

Um hæfi stjórnenda rekstrarfélags.

    Um hæfi stjórnar og framkvæmdastjóra rekstrarfélags gilda ákvæði 52. og 52. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, eftir því sem við á. Starfsmenn sem bera ábyrgð á lykilstarfssviðum skulu hafa gott orðspor og viðeigandi reynslu og þekkingu, með hliðsjón af starfsemi rekstrarfélags.
    Sjóðstjórar verðbréfasjóða skulu hafa verðbréfaréttindi samkvæmt lögum um markaði fyrir fjármálagerninga.
    Rekstrarfélag skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um skipan og breytingar varðandi þá einstaklinga sem gegna störfum skv. 1. mgr. og skulu tilkynningunni fylgja fullnægjandi upplýsingar til að hægt sé að meta hvort skilyrði 1. og 2. mgr. eru uppfyllt.

12. gr.

Stofnframlag og eiginfjárgrunnur.

    Stofnframlag og eiginfjárgrunnur rekstrarfélags verðbréfasjóðs skal að lágmarki nema jafnvirði 125 þúsunda evra í íslenskum krónum, miðað við opinbert viðmiðunargengi, kaupgengi, eins og það er skráð hverju sinni.
    Fari heildareignir sjóða um sameiginlega fjárfestingu í rekstri rekstrarfélags yfir jafnvirði 250 milljóna evra í íslenskum krónum skal rekstrarfélag hafa til staðar viðbótarfjárhæð eiginfjárgrunns. Viðbótarfjárhæðina skal reikna sem 0,02% af þeirri upphæð sem fer yfir jafnvirði 250 milljóna evra í íslenskum krónum en samanlögð upphæð stofnframlags og viðbótarfjárhæðar eiginfjárgrunns skal að hámarki nema jafnvirði 10 milljóna evra í íslenskum krónum.
    Verðbréfasjóðir og sérhæfðir sjóðir teljast í rekstri rekstrarfélags skv. 2. mgr. þótt rekstrarfélag hafi útvistað verkefnum vegna þeirra en til þeirra teljast ekki sjóðir sem rekstrarfélag sér um eignastýringu fyrir samkvæmt útvistunarsamningi.
    Þrátt fyrir 2. mgr. skal eiginfjárgrunnur rekstrarfélags aldrei vera lægri en sem nemur reiknaðri fjárhæð skv. 84. gr. d laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Fari eiginfjárgrunnur rekstrarfélags undir þau mörk getur Fjármálaeftirlitið gefið frest til að bæta þar úr, ella skuli rekstrarfélagið stöðva starfsemina.

13. gr.

Virkur eignarhlutur.

    Aðili sem hyggst einn sér eða í samstarfi við aðra eignast virkan eignarhlut í rekstrarfélagi skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu fyrir fram um áform sín. Hið sama á við hyggist aðili, einn sér eða í samstarfi við aðra, auka svo við eignarhlut sinn að virkur eignarhlutur fari yfir 20%, 33% eða 50% eða nemi svo stórum hluta að rekstrarfélag verði talið dótturfélag hans.
    Ákvæði 1. mgr. gildir einnig um eiganda virks eignarhlutar sem hyggst draga svo úr hlutafjáreign sinni eða atkvæðisrétti að hann eigi ekki virkan eignarhlut. Í tilkynningu skal koma fram hver eignarhlutur hans muni verða. Fari eignarhluturinn niður fyrir 20%, 33% eða 50% eða svo mikið að rekstrarfélag hættir að vera dótturfélag hlutaðeigandi skal það einnig tilkynnt. Sama á við ef hlutfallslegur eignarhlutur eða atkvæðisréttur rýrnar vegna hlutafjáraukningar.
    Ákvæði VI. kafla laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, gilda um eignarhluti og meðferð þeirra.

14. gr.

Afturköllun starfsleyfis.

    Fjármálaeftirlitið getur afturkallað starfsleyfi rekstrarfélags, í heild eða að hluta, ef:
     1.      Rekstrarfélag óskar sjálft eftir því.
     2.      Rekstrarfélag nýtir ekki starfsleyfið innan tólf mánaða frá því að það var veitt, afsalar sér ótvírætt leyfinu eða hættir að stunda þá starfsemi sem starfsleyfið tekur til í meira en sex mánuði samfellt.
     3.      Rekstrarfélag hefur öðlast starfsleyfið á grundvelli rangra upplýsinga eða á annan óeðlilegan hátt.
     4.      Rekstrarfélag uppfyllir ekki lengur skilyrði sem voru til grundvallar starfsleyfi.
     5.      Rekstrarfélag hefur starfsheimildir skv. 3. mgr. 5. gr. en fullnægir ekki kröfu um áhættugrunn skv. 84. gr. e laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.
     6.      Rekstrarfélag brýtur gróflega eða ítrekað gegn lögum þessum eða stjórnvaldsfyrirmælum settum með stoð í þeim.
     7.      Rekstrarfélag brýtur gegn ákvæðum annarra laga sem varðað getur afturköllun starfsleyfis.
    Afturköllun á starfsleyfi rekstrarfélags skal tilkynnt stjórn rekstrarfélags og rökstudd skriflega. Fjármálaeftirlitið skal birta tilkynningu um afturköllunina opinberlega.

III. KAFLI

Skilyrði fyrir starfsemi rekstrarfélaga og skipulagskröfur.

15. gr.

Almenn skilyrði.

    Rekstrarfélag skal ávallt:
     1.      Viðhafa eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur, þ.m.t. starfa af heiðarleika, fagmennsku, kostgæfni og sanngirni og starfa með hagsmuni verðbréfasjóða sem það rekur, eigenda hlutdeildarskírteina og heilleika markaða að leiðarljósi.
     2.      Hafa getu, þekkingu og verklag sem nauðsynlegt er til að sinna starfsemi rekstrarfélags með tilhlýðilegum hætti.
     3.      Grípa til allra sanngjarnra ráðstafana til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra. Verði ekki hjá hagsmunaárekstrum komist ber rekstrarfélagi að greina, stýra, vakta og upplýsa verðbréfasjóð, fjárfesta og aðra eftir því sem við á um hagsmunaárekstra til að koma í veg fyrir skaðleg áhrif á hagsmuni verðbréfasjóða og fjárfesta þeirra og til að tryggja sanngjarna meðhöndlun verðbréfasjóða í rekstri rekstrarfélags.
     4.      Starfa í samræmi við lög og reglur sem eiga við hverju sinni svo að því sé unnt að gæta hagsmuna verðbréfasjóða, fjárfesta þeirra og heilleika markaðarins.
    Meiri hluti stjórnarmanna rekstrarfélags skal vera óháður móðurfélagi og vörsluaðila sjóða í rekstri rekstrarfélags. Stjórnarmaður rekstrarfélags má ekki vera stjórnarmaður eða lykilstarfsmaður móðurfélags rekstrarfélagsins eða stjórnarmaður eða starfsmaður vörsluaðila sjóða í rekstri rekstrarfélags. Stjórnarmaður vörsluaðila sjóða í rekstri rekstrarfélags má ekki vera stjórnarmaður eða starfsmaður rekstrarfélags.
    Rekstrarfélag skal ávallt búa yfir viðeigandi mannauði og nauðsynlegri tækni til að geta rekið verðbréfasjóði á fullnægjandi hátt með hliðsjón af eðli þeirra. Í þessu felst m.a.:
     1.      Eftirlit með rekstri og bókhaldi.
     2.      Eftirlit og öryggisráðstafanir vegna rafrænnar gagnavinnslu.
     3.      Innra eftirlit, þar á meðal regluvarsla og innri endurskoðun.
    Rekstrarfélag skal setja reglur um eigin viðskipti stjórnar sinnar og starfsmanna með fjármálagerninga. Reglunum er ætlað að tryggja að unnt sé að rekja öll viðskipti sem tengjast verðbréfasjóði til uppruna þeirra, hver átti þau, auk upplýsinga um tilgang þeirra og tíma og hvar þau voru framkvæmd. Reglunum er jafnframt ætlað að tryggja að fjárfestingar verðbréfasjóðs séu í samræmi við lög og reglur hans.
    Rekstrarfélag skal viðhafa gagnsætt og skilvirkt verklag við meðferð kvartana frá fjárfestum. Fjárfestar skulu geta lagt fram kvörtun á opinberu tungumáli, eða einu af opinberum tungumálum, í heimaríki verðbréfasjóðs. Þá skal rekstrarfélag hafa til staðar ferla sem tryggja aðgengi almennings og lögbærra yfirvalda í heimaríki verðbréfasjóðs, þar sem það á við, að nauðsynlegum upplýsingum komi fram beiðni þar um.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um almenn skilyrði fyrir starfsemi rekstrarfélags, þar á meðal um viðmið fyrir eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, um meðferð kvartana, rafræna gagnavinnslu, bókhaldsaðferðir, eftirlit stjórnar, framkvæmdastjóra og eftirlitsaðila, regluvörslu, innri endurskoðun, hagsmunaárekstra, skráningu viðskipta, skráningu áskrifta og innlausna, meðferð skráðra upplýsinga og um áreiðanleikakannanir vegna fjárfestinga og við val á mótaðilum og aðalmiðlurum.

16. gr.
Þagnarskylda.

    Stjórnarmenn, framkvæmdastjóri, endurskoðendur, starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu rekstrarfélags eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa sinna og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna rekstrarfélags eða sjóða í rekstri þess nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
    Sá sem veitir viðtöku upplýsingum af því tagi sem um getur í 1. mgr. er bundinn þagnarskyldu með sama hætti og þar greinir. Sá aðili sem veitir upplýsingar skal áminna viðtakanda um þagnarskylduna.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. er heimilt að miðla upplýsingum til móðurfélags rekstrarfélags ef móðurfélagið er fjármálafyrirtæki eða eignarhaldsfélag á fjármálasviði. Slík upplýsingamiðlun má þó aðeins eiga sér stað að því marki sem nauðsynlegt er vegna áhættustýringar og má ekki ná til einkamálefna viðskiptamanna. Sama gildir um miðlun upplýsinga vegna eftirlits á samstæðugrunni.

17. gr.
Starfskjarastefna, kaupaukakerfi og starfslokasamningar.

    Stjórn rekstrarfélags skal samþykkja starfskjarastefnu sem nær til starfskjara stjórnarmanna og starfsmanna. Um starfskjarastefnuna gilda ákvæði laga um hlutafélög enda sé ekki á annan veg mælt í lögum þessum eða reglum settum á grundvelli þeirra. Stjórn rekstrarfélags skal hafa eftirlit með starfskjarastefnu og eigi sjaldnar en árlega taka stefnuna til endurskoðunar.
    Starfskjarastefnan og framkvæmd hennar skal stuðla að skilvirkri áhættustýringu og sporna við óhóflegri áhættutöku sem er í ósamræmi við áhættusnið og reglur sjóða. Auk þess skal hún samræmast ákvæðum 57. gr. a og 57. gr. b laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.
    Um kaupaukakerfi og starfslokasamninga rekstrarfélaga vegna starfsmanna og stjórnenda gilda ákvæði 57. gr. a og 57. gr. b laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.

18. gr.

Hagsmunaárekstrar.

    Rekstrarfélag skal grípa til allra eðlilegra ráðstafana til þess að greina, koma í veg fyrir, stýra og vakta hagsmunaárekstra.
    Skylda rekstrarfélags skv. 1. mgr. á við um hagsmunaárekstra milli:
     a.      rekstrarfélags, þ.m.t. stjórnenda, starfsmanna og annarra sem tengjast rekstrarfélagi í gegnum yfirráð, og verðbréfasjóðs sem það rekur eða fjárfesta sjóðsins,
     b.      verðbréfasjóðs eða fjárfesta hans og annars verðbréfasjóðs eða sérhæfðs sjóðs sem hann rekur eða fjárfesta slíkra sjóða,
     c.      verðbréfasjóðs eða fjárfesta hans og annars viðskiptavinar rekstrarfélags, og
     d.      tveggja viðskiptavina rekstrarfélags.
    Rekstrarfélag skal aðskilja verkefni og ábyrgð í starfsemi sinni sem telja má ósamrýmanleg eða sem geta mögulega valdið kerfisbundnum hagsmunaárekstrum. Rekstrarfélag skal meta hvort skipulag starfsemi þess geti valdið öðrum verulegum hagsmunaárekstrum og upplýsa fjárfesta verðbréfasjóða um þá.
    Rekstrarfélag skal upplýsa fjárfesti um eðli og ástæður hagsmunaárekstra áður en til viðskipta er stofnað ef ráðstafanir rekstrarfélags skv. 1.–3. mgr. veita ekki eða munu ekki veita fullnægjandi vissu fyrir því að komið sé í veg fyrir hættu á að hagsmuna fjárfestis verði ekki nægjanlega gætt. Rekstrarfélag skal setja sér viðeigandi stefnu og verkferla um upplýsingagjöf og meðferð slíkra hagsmunaárekstra.
    Ráðherra setur reglugerð um stefnu um hagsmunaárekstra, tegundir hagsmunaárekstra, aðgerðir rekstrarfélaga verðbréfasjóða og tiltækar ráðstafanir rekstrarfélaga verðbréfasjóða við að greina, koma í veg fyrir, stýra, vakta og birta upplýsingar um hagsmunaárekstra.

19. gr.
Áhættustýring.

    Rekstrarfélag skal aðskilja starfsemi og ábyrgð áhættustýringar frá rekstrareiningum, þ.m.t. frá eignastýringu sjóða, á fullnægjandi hátt. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að veita undanþágu frá þessari skyldu þar sem það er viðeigandi með hliðsjón af eðli, umfangi og flækjustigi rekstrarins og þeirra verðbréfasjóða sem rekstrarfélagið stýrir.
    Rekstrarfélag skal koma á fullnægjandi eftirlitskerfi með áhættu til að greina, mæla, stýra og vakta hvers konar áhættuþætti sem tengjast fjárfestingum hvers verðbréfasjóðs og áhrif þeirra á heildaráhættu sjóðsins. Rekstrarfélag skal ekki reiða sig einungis eða kerfisbundið á lánshæfismöt lánshæfismatsfyrirtækja við mat á lánshæfi eigna hvers verðbréfasjóðs.
    Rekstrarfélag skal endurskoða og uppfæra eftirlitskerfi með áhættu eins oft og þörf krefur, að lágmarki árlega.
    Rekstrarfélag skal að lágmarki:
     a.      koma á og fylgja fullnægjandi skriflegu verkferli um framkvæmd áreiðanleikakannana við fjárfestingar hvers verðbréfasjóðs; verkferill skal taka mið af fjárfestingaraðferðum, markmiðum og áhættusniði sjóðsins og skal uppfærður reglulega,
     b.      tryggja að unnt sé með viðvarandi hætti að greina, mæla, stýra og vakta áhættu vegna hverrar fjárfestingar verðbréfasjóðs og áhrif hennar á eignasafn hans, þ.m.t. með notkun viðeigandi álagsprófa, og
     c.      tryggja að áhættusnið verðbréfasjóðs sé í samræmi við stærð, samsetningu eignasafns, fjárfestingaraðferðir og markmið sjóðsins sem fram koma í reglum hans, lýsingu eða öðrum skjölum vegna markaðssetningar.
    Með hliðsjón af eðli, umfangi og starfsemi verðbréfasjóða rekstrarfélags skal Fjármálaeftirlitið hafa eftirlit með lánshæfismatsferlum rekstrarfélags, meta út frá fjárfestingarstefnum sjóða hvernig rekstrarfélag styðst við lánshæfismöt og, þegar við á, hvetja rekstrarfélag til að draga úr notkun þeirra til samræmis við 2. mgr.
    Ráðherra setur reglugerð um áhættustýringu verðbréfasjóða, svo sem um eftirlitskerfi með áhættustýringu sem rekstrarfélög verðbréfasjóða skulu nota í tengslum við þá áhættuþætti sem sjóðir sem þeir stýra verða eða gætu orðið fyrir.

20. gr.

Lausafjárstýring.

    Rekstrarfélag skal fyrir hvern verðbréfasjóð í rekstri þess hafa fullnægjandi eftirlitskerfi með lausafjárstýringu.
    Rekstrarfélag skal setja verkferil sem gerir því kleift að vakta lausafjáráhættu hvers verð-bréfasjóðs og tryggja að lausafjársnið fjárfestinga sjóðsins uppfylli undirliggjandi skuldbindingar hans.
    Rekstrarfélag skal reglulega framkvæma álagspróf, við venjuleg og óvenjuleg lausafjárskilyrði, sem gerir því kleift að meta og vakta lausafjáráhættu sjóða sem það rekur.
    Rekstrarfélag skal tryggja að fyrir hvern verðbréfasjóð í rekstri þess sé samræmi á milli fjárfestingaraðferða, lausafjársniðs og reglna um innlausn.
    Ráðherra setur reglugerð um lausafjárstýringu.


21. gr.

Skylda til verðmats.

    Rekstrarfélag skal fyrir hvern verðbréfasjóð í rekstri þess hafa viðeigandi ferla til að hægt sé að framkvæma fullnægjandi og óháð mat á eignum sjóðs í samræmi við ákvæði laga og reglur sjóðsins. Verðmat skal framkvæmt af óhlutdrægni, þekkingu og áreiðanleika.
    Mat á eignum verðbréfasjóðs skal á hverjum tíma endurspegla raunverulegt virði þeirra að teknu tilliti til markaðsaðstæðna. Fjármálagerningar sem skráðir eru eða teknir til viðskipta á skipulegum markaði skulu metnir samkvæmt dagslokagengi viðkomandi skipulegs markaðar.
    Virði annarra fjármálagerninga skal háð mati rekstrarfélags, undir eftirliti vörsluaðila og endurskoðanda, að teknu tilliti til markaðsaðstæðna hverju sinni. Rekstrarfélag skal halda skrá yfir mat eigna á hverjum tíma þar sem fram koma forsendur við mat á eignum.
    Ráðherra setur reglugerð um viðmið fyrir verðmatsferla.

22. gr.

Útvistun.

    Rekstrarfélagi er heimilt að útvista til þriðja aðila hluta starfsemi sinnar enda liggi fyrir því hlutlægar ástæður. Rekstrarfélagi er þó óheimilt að útvista bæði eignastýringu sjóðs og áhættustýringu sama sjóðs.
    Rekstrarfélag skal tilkynna um útvistun til Fjármálaeftirlitsins áður en útvistun hefst.
    Útvistun skal heimil að eftirfarandi skilyrðum uppfylltum:
     a.      útvistunaraðili skal hafa nauðsynlega getu, þekkingu, hæfni, reynslu og gott orðspor til að sinna þeim verkefnum sem útvistað er til hans,
     b.      ef útvistunin varðar eigna- eða áhættustýringu sjóðs má aðeins fela hana útvistunaraðilum sem hafa heimild til eignastýringar og eru undir eftirliti en sé hún falin aðila utan EES skal auk þess vera samstarfssamningur við lögbært yfirvald í því ríki þar sem útvistunaraðili hefur staðfestu,
     c.      útvistun má hvorki hamla virku eftirliti með rekstrarfélagi né koma í veg fyrir að rekstrarfélag starfi eða geti rekið verðbréfasjóð með hagsmuni fjárfesta að leiðarljósi, og
     d.      útvistunaraðili skal hafa hæfi og getu til að sinna útvistuðum verkefnum, hann skal hafa verið valinn af kostgæfni, rekstrarfélag skal geta með skilvirkum hætti vaktað útvistaða starfsemi, gefið frekari leiðbeiningar til útvistunaraðila vegna útvistaðra verkefna og fellt niður útvistun án tafar sé það í þágu fjárfesta.
    Óheimilt er að útvista eignastýringu sjóðs eða áhættustýringu til:
     a.      vörsluaðila eða útvistunaraðila vörsluaðila eða
     b.      sérhvers annars aðila ef hagsmunir hans kunna að rekast á hagsmuni rekstrarfélags eða hlutdeildarskírteinishafa.
    Rekstrarfélag skal yfirfara þjónustu útvistunaraðila reglubundið. Rekstrarfélag getur hvenær sem er gefið fyrirmæli til útvistunaraðila og sagt umsvifalaust upp samningi við hann um útvistun ef slík ráðstöfun þjónar hagsmunum fjárfesta.
    Rekstrarfélagi er óheimilt að útvista verkefnum í þeim mæli að hann teljist í raun ekki lengur reka verðbréfasjóð.
    Fjármálaeftirlitið skal án tafar áframsenda upplýsingar um útvistun skv. 2. mgr. til lögbærs yfirvalds í heimaríki verðbréfasjóðs.
    Ráðherra setur reglugerð um skilyrði sem þarf að uppfylla varðandi útvistun, þar á meðal um hlutlægar ástæður fyrir útvistun, þekkingu, reynslu og getu útvistunaraðila, útvistun áhættu- eða eignastýringar sjóðs, skilvirkt eftirlit, hagsmunaárekstra og keðjuútvistun, og enn fremur um hvenær útvistun telst vera það víðtæk að rekstrarfélag telst ekki lengur stýra verðbréfasjóði.

23. gr.

Keðjuútvistun.

    Útvistunaraðili getur framselt til þriðja aðila verkefni sem útvistað hefur verið til hans hafi rekstrarfélag veitt samþykki sitt fyrir fram og tilkynnt um keðjuútvistunina til Fjármálaeftirlitsins áður en keðjuútvistunin hefst. Skilyrði 1.–4. mgr. 22. gr. gilda einnig um keðjuútvistun.
    Útvistunaraðili skal reglubundið fara yfir þá þjónustu sem sérhver keðjuútvistunaraðili veitir.
    Útvisti keðjuútvistunaraðili verkefnum sem hefur verið keðjuútvistað til hans ber að fara eftir skilyrðum 1. og 2. mgr., eftir því sem við á.

24. gr.

Áhrif útvistunar og keðjuútvistunar á ábyrgð rekstrarfélags.

    Útvistun rekstrarfélags eða keðjuútvistun verkefna hefur ekki áhrif á skyldur eða ábyrgð rekstrarfélags gagnvart verðbréfasjóði eða hlutdeildarskírteinishöfum.

IV. KAFLI

Staðfesting verðbréfasjóða.

25. gr.

Rekstrarform verðbréfasjóða.

    Verðbréfasjóður skal rekinn af rekstrarfélagi verðbréfasjóða sem hlutdeildarsjóður, sbr. V. kafla.
    Óheimilt er að skipta um rekstrarfélag verðbréfasjóðs eða vörsluaðila án samþykkis Fjármálaeftirlitsins.
    Óheimilt er að breyta verðbréfasjóðum í aðrar tegundir sjóða um sameiginlega fjárfestingu.

26. gr.

Skilyrði um staðfestingu.

    Fjármálaeftirlitið veitir verðbréfasjóði staðfestingu samkvæmt reglum þessa kafla. Óheimilt er að markaðssetja sjóð um sameiginlega fjárfestingu sem verðbréfasjóð eða UCITS-sjóð eða gefa á annan hátt til kynna að um verðbréfasjóð eða UCITS-sjóð sé að ræða án staðfestingar viðkomandi lögbærs yfirvalds.
    Verðbréfasjóður getur fengið staðfestingu Fjármálaeftirlitsins ef rekstrarfélag sjóðsins er með staðfestu og starfsleyfi innan EES að uppfylltum öðrum skilyrðum.
    Verðbréfasjóður fær aðeins staðfestingu ef Fjármálaeftirlitið samþykkir umsókn rekstrarfélags til að reka þann tiltekna verðbréfasjóð, sbr. 27. gr., reglur sjóðsins, sbr. 32. gr., og val á vörsluaðila, sbr. 44. gr.
    Fjármálaeftirlitið skal ekki veita verðbréfasjóði staðfestingu sem ekki verður markaðssettur á Íslandi.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd 2. mgr., svo sem um umsókn rekstrarfélags með staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan EES um staðfestingu verðbréfasjóðs hér á landi.

27. gr.

Umsókn um staðfestingu.

    Umsókn rekstrarfélags um staðfestingu verðbréfasjóðs skal vera skrifleg og henni skulu fylgja:
     a.      reglur sjóðsins skv. 32. gr.,
     b.      útboðslýsing skv. 58. gr.,
     c.      lykilupplýsingar sjóðsins skv. 59. gr.,
     d.      upplýsingar um sjóðstjóra, og
     e.      aðrar viðeigandi upplýsingar.

28. gr.

Veiting og synjun staðfestingar.

    Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um staðfestingu eða synjun staðfestingar skal tekin svo fljótt sem auðið er. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skal tilkynnt umsækjanda eigi síðar en tveimur mánuðum eftir móttöku fullnægjandi umsóknar.
    Synjun Fjármálaeftirlitsins á umsókn um staðfestingu skal rökstudd.

29. gr.

Afturköllun staðfestingar.

    Fjármálaeftirlitið getur afturkallað staðfestingu verðbréfasjóðs og krafist þess að honum verði slitið eigi eitt af eftirtöldu við:
     a.      hafi rekstrarfélag brotið gróflega eða ítrekað gegn lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða reglum sjóðsins,
     b.      uppfylli verðbréfasjóður ekki lengur skilyrði fyrir staðfestingu,
     c.      hafi rekstrarfélag ekki nýtt heimild til starfsemi verðbréfasjóðs innan tólf mánaða frá því að staðfesting var veitt, ótvírætt afsalað slíkri staðfestingu eða hafi sjóðurinn ekki verið með starfsemi í meira en sex mánuði samfellt, eða
     d.      hafi staðfesting fengist á grundvelli rangra upplýsinga eða á annan óeðlilegan hátt.
    Afturköllun á staðfestingu verðbréfasjóðs skal tilkynnt stjórn rekstrarfélags og rökstudd skriflega. Fjármálaeftirlitið skal birta tilkynningu um afturköllun opinberlega.
    Markaðssetji rekstrarfélag verðbréfasjóð í öðru ríki innan EES skal Fjármálaeftirlitið tilkynna afturköllunina lögbæru yfirvaldi í viðkomandi ríki.

30. gr.

Skrá yfir verðbréfasjóði.

    Fjármálaeftirlitið skal halda og birta opinberlega skrá yfir verðbréfasjóði sem hlotið hafa staðfestingu skv. 28. gr. þar sem fram koma allar helstu upplýsingar um sjóðina.

V. KAFLI

Rekstrarformið hlutdeildarsjóður.

A. Stofnun, starfsemi o.fl.

31. gr.

Stofnun og heiti.

    Rekstrarfélagi verðbréfasjóða er einu heimilt að stofna hlutdeildarsjóð sem er verðbréfasjóður.
    Hlutdeildarsjóði er einum heimilt og jafnframt skylt að nota í heiti sínu orðið hlutdeildarsjóður eða skammstöfunina hs.

32. gr.

Reglur verðbréfasjóðs.

    Rekstrarfélag skal setja verðbréfasjóði reglur sem skulu ávallt vera fjárfestum aðgengilegar. Rekstrarfélag fyrir hönd verðbréfasjóðs skal framfylgja reglum sjóðsins.
    Í reglum sjóðsins skulu að lágmarki koma fram upplýsingar um:
     1.      Heiti sjóðsins, kennitölu og rekstrarform.
     2.      Að um verðbréfasjóð sé að ræða.
     3.      Hvert er rekstrarfélagið, hvernig skipt verði um rekstrarfélag og hvernig hagsmunir hlutdeildarskírteinishafa verði tryggðir við slík skipti.
     4.      Hvort sjóðurinn starfi óskiptur eða í aðgreindum deildum.
     5.      Fjárfestingarstefnu sjóðsins.
     6.      Hver er vörsluaðili, hvernig skipt verði um vörsluaðila og hvernig hagsmunir hlutdeildarskírteinishafa verði tryggðir við slík skipti.
     7.      Þóknun rekstrarfélags og aðferðir við útreikning þóknunar, sem og kostnað sem rekstrarfélagi er heimilt að krefja sjóðinn um.
     8.      Heimild til markaðssetningar sjóðsins á Íslandi og í öðrum ríkjum innan EES.
     9.      Útgáfu hlutdeildarskírteina og innlausn þeirra.
     10.      Hvernig ráðstafa skuli arði eða öðrum hagnaði af eignum sjóðsins.
     11.      Hvernig reikna skuli út virði hlutdeildarskírteina hvers hlutar skv. 62. gr.
     12.      Hvernig staðið skuli að samruna sjóðsins við aðra verðbréfasjóði eða samruna deilda sama sjóðs.
     13.      Hvernig sjóði eða deild er slitið.
    Breytingar á reglum verðbréfasjóðs öðlast gildi að fenginni staðfestingu Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að fresta gildistöku reglna sjóðsins í allt að þrjá mánuði frá staðfestingu ef ástæða er til.
    Rekstrarfélag skal tilkynna eigendum hlutdeildarskírteina um sérhverja breytingu á reglum sjóðsins. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að veita undanþágu frá þeirri tilkynningarskyldu.

33. gr.

Deildaskipting.

    Heimilt er að starfrækja verðbréfasjóð í aðgreindum sjóðsdeildum eftir því sem fram kemur í reglum sjóðsins. Hver sjóðsdeild skal hafa aðgreindan fjárhag innan rekstrarfélags. Ber þá hver deild ábyrgð á sínum skuldbindingum en þó bera deildir sjóðsins óskipta ábyrgð á sameiginlegum kostnaði þeirra.

34. gr.

Sjóðsmyndun.

    Eignir myndast í verðbréfasjóði með samningi rekstrarfélags við viðskiptavin sem felur því að ávaxta fjármuni sína í tilteknum verðbréfasjóði í rekstri hans. Sjóðurinn myndast með afhendingu fjármuna viðskiptavinar gegn hlutdeildarskírteinum og samanstendur af þeim eignum sem verða til við ráðstöfun fjármunanna til sameiginlegrar fjárfestingar.

35. gr.

Rekstur verðbréfasjóðs.

    Rekstrarfélag verðbréfasjóðs fer með stjórn og stýrir daglegum rekstri sjóðsins.
    Rekstrarfélag ber ábyrgð á rekstri verðbréfasjóða og sjóðsdeilda og kemur fram fyrir þeirra hönd.

36. gr.

Ábyrgð fjárfesta á skuldbindingum verðbréfasjóðs.

    Hlutdeildarskírteinishafar bera ekki persónulega ábyrgð á skuldbindingum einstakra verðbréfasjóða eða deilda þeirra.

37. gr.

Ábyrgð rekstrarfélags á skuldbindingum verðbréfasjóðs.

    Rekstrarfélag ber ekki ábyrgð á skuldbindingum einstakra verðbréfasjóða eða deilda þeirra og standa einvörðungu eignir hvers sjóðs eða deildar til fullnustu skuldbindingum hvers þeirra. Ákvæði þetta víkur ekki til hliðar skaðabótaábyrgð rekstrarfélags.

38. gr.

Tilkynning verðbréfasjóðs til skráningar hjá fyrirtækjaskrá.

    Tilkynna skal verðbréfasjóð til skráningar í fyrirtækjaskrá í samræmi við lög um fyrirtækjaskrá.

B. Hlutdeildarskírteini.

39. gr.

Útgáfa hlutdeildarskírteina.

    Rekstrarfélag skal gefa út hlutdeildarskírteini fyrir eignarréttindum í verðbréfasjóði. Rekstrarfélagi er þó ekki skylt að gefa út hlutdeildarskírteini nema að ósk fjárfestis ef fjárfestar geta hvenær sem er aflað sér staðfestingar á hlutdeild sinni með öðrum hætti.
    Hlutdeildarskírteinishafar eiga sama rétt til tekna og eigna sjóðsins eða viðkomandi deildar í hlutfalli við hlutdeild sína og eru hlutdeildarskírteinin staðfesting á tilkalli til eignarhlutdeildar.
    Séu hlutdeildarskírteini gefin út sem rafbréf í verðbréfamiðstöð gilda um útgáfuna lög um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga.
    Hlutdeildarskírteini skulu skráð á nafn eða á safnreikning í samræmi við lög um markaði fyrir fjármálagerninga.
    Rekstrarfélag getur höfðað mál í eigin nafni fyrir hönd einstakra eigenda hlutdeildarskírteina til ógildingar á skírteinum.

40. gr.

Upplýsingar í hlutdeildarskírteini.

    Í hlutdeildarskírteini skulu a.m.k. eftirtalin atriði koma fram, sbr. þó 3. og 4. mgr. 39. gr.:
     1.      Nafn hlutdeildarsjóðs, rekstrarfélags og vörsluaðila.
     2.      Nafn og kennitala upphaflegs eiganda skírteinis.
     3.      Hvernig hlutdeildarskírteini verði innleyst og hvaða reglur gildi um arðgreiðslur.
     4.      Nafn og kennitala framsalshafa hafi skírteini gengið kaupum og sölum án innlausnar þess.
    Hlutdeildarskírteini skal vera dagsett og undirritað af stjórn rekstrarfélags. Nafnritunin má vera prentuð eða sett fram á annan sannanlegan hátt.

41. gr.

Skrá yfir hlutdeildarskírteini.

    Rekstrarfélag skal halda skrá yfir hlutdeildarskírteinishafa í hlutdeildarsjóðnum. Í skránni skulu a.m.k. eftirtalin atriði koma fram:
     1.      Nafn og kennitala eiganda.
     2.      Söludagur skírteinis.
     3.      Nafnverð skírteinis.
     4.      Heildarfjöldi útistandandi skírteina.
    Tilkynna skal eigendaskipti hlutdeildarskírteina til rekstrarfélags. Slíkar tilkynningar, ásamt öðrum upplýsingum sem berast varðandi eignarhald á skírteinum, skulu færðar inn á skrána og heimildar tilkynningar getið, sbr. þó 3. mgr. 39. gr.

42. gr.
Staðgreiðsla.

    Hlutdeildarskírteini verða einungis seld gegn staðgreiðslu kaupverðs.

VI. KAFLI

Vörsluaðili verðbréfasjóða.

43. gr.

Skipan vörsluaðila.

    Rekstrarfélag skal tryggja að fyrir sérhvern verðbréfasjóð sem það rekur sé skipaður einn vörsluaðili, í samræmi við ákvæði þessa kafla.
    Um skipan vörsluaðila skal gera skriflegan samning. Samningurinn skal m.a. innihalda ákvæði um miðlun upplýsinga sem nauðsynlegar eru svo að vörsluaðila sé unnt að rækja hlutverk sitt í samræmi við lög þessi.
    Óheimilt er að skipta um vörsluaðila án samþykkis Fjármálaeftirlitsins.
    Ráðherra setur reglugerð um samning á milli rekstrarfélags og vörsluaðila.

44. gr.

Vörsluaðili verðbréfasjóða.

    Vörsluaðili verðbréfasjóðs skal hafa staðfestu hér á landi.
    Eftirtöldum aðilum er heimilt að vera vörsluaðili:
     1.      Lánastofnunum með starfsleyfi innan EES.
     2.      Verðbréfafyrirtækjum með starfsleyfi innan EES sem sótt hafa um og fengið heimild Fjármálaeftirlitsins til vörslu verðbréfasjóða samkvæmt lögum þessum. Verðbréfafyrirtæki skal hafa heimild til vörslu og umsýslu í tengslum við einn eða fleiri fjármálagerninga fyrir reikning viðskiptavinar, þ.m.t. vörslu fjármálagerninga og tengdrar þjónustu, svo sem vegna fjármuna eða trygginga. Verðbréfafyrirtæki skal lúta eiginfjárkröfum vegna rekstraráhættu samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki. Eiginfjárgrunnur þess skal að lágmarki nema fjárhæð stofnframlags skv. 2. mgr. 14. gr. a sömu laga.
    Vörsluaðili skv. 2. tölul. 2. mgr. skal að lágmarki uppfylla eftirtaldar kröfur:
     a.      hafa nauðsynlega innviði til að geta haft í sinni vörslu fjármálagerninga sem unnt er að skrá á vörslureikninga sem opnaðir eru í bókum vörsluaðilans,
     b.      hafa fullnægjandi stefnu og verkferla sem nægja til að tryggja að viðkomandi vörsluaðili, stjórnendur og starfsfólk hans meðtalin, uppfylli allar skyldur hans samkvæmt lögum þessum,
     c.      hafa traustar aðferðir fyrir stjórnun og bókhald, innri eftirlitskerfi, skilvirka verkferla fyrir áhættumat og skilvirkar ráðstafanir vegna eftirlits og öryggis sem tengist upplýsingavinnslukerfi,
     d.      grípa til allra sanngjarnra ráðstafana til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra,
     e.      halda skrár yfir alla þjónustu, starfsemi og viðskipti sem viðkomandi vörsluaðili tekur sér fyrir hendur og skulu þær vera nægilega ítarlegar til að Fjármálaeftirlitið geti sinnt eftirlitsverkefnum sínum og framkvæmt eftirlitsaðgerðir sem kveðið er á um í lögum þessum,
     f.      gera eðlilegar ráðstafanir til að tryggja að störf vörsluaðila séu samfelld og reglubundin með því að beita viðeigandi og hóflegum kerfum, aðföngum og málsmeðferðarreglum, þ.m.t. til að stunda vörslustarfsemi sína,
     g.      allir aðilar stjórnar og framkvæmdastjórnar vörsluaðila hafi ávallt nægilega gott orðspor og búi yfir fullnægjandi þekkingu, hæfni og reynslu,
     h.      stjórn vörsluaðila búi yfir fullnægjandi sameiginlegri þekkingu, hæfni og reynslu til að skilja starfsemi vörsluaðila, þ.m.t. helstu áhættu í rekstri hans og
     i.      hver og einn aðili stjórnar og framkvæmdastjórnar vörsluaðila starfi heiðarlega og af heilindum.
    Fjármálaeftirlitið skal halda og birta opinberlega skrá yfir verðbréfafyrirtæki sem hafa fengið heimild sem vörsluaðili verðbréfasjóða.
    Fjármálaeftirlitið getur afturkallað heimild verðbréfafyrirtækis skv. 2. tölul. 2. mgr. til vörslu verðbréfasjóða ef:
     a.      vörsluaðili hefur brotið gróflega eða ítrekað gegn lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða reglum sjóðsins,
     b.      vörsluaðili hefur öðlast heimild til vörslu verðbréfasjóða á grundvelli rangra upplýsinga eða á annan óeðlilegan hátt, eða
     c.      vörsluaðili uppfyllir ekki lengur skilyrði sem voru til grundvallar heimild til vörslu verðbréfasjóða.
Afturköllun heimildar vörsluaðila skal tilkynnt stjórn vörsluaðila og stjórn rekstrarfélags og rökstudd skriflega.

45. gr.

Hlutverk vörsluaðila með tilliti til sjóðstreymis verðbréfasjóðs.

    Vörsluaðili skal vakta sjóðstreymi verðbréfasjóðs og tryggja sérstaklega að allir fjármunir sem fjárfestar inna af hendi vegna kaupa á hlutdeildarskírteinum séu mótteknir og að allir fjármunir verðbréfasjóðs séu lagðir inn á reikninga sjóðsins eða reikninga rekstrarfélags eða vörsluaðila fyrir hönd sjóðsins.
    Reikningar skv. 1. mgr. skulu vera hjá:
     a.      seðlabanka,
     b.      lánastofnun með starfsleyfi samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki eða sambærilegri löggjöf annarra ríkja innan EES, eða
     c.      lánastofnun með starfsleyfi í ríki utan EES eða sambærilegum aðila sem lýtur skilvirkum varfærnisreglum og eftirliti sem er sambærilegt og hefur sömu áhrif og slík löggjöf innan EES.
    Um aðila skv. 2. mgr. skulu gilda sambærilegar reglur og í lögum um markaði fyrir fjármálagerninga og stjórnvaldsfyrirmælum settum með stoð í þeim um verndun réttinda viðskiptavina í tengslum við fjármálagerninga og fjármuni í eigu þeirra.
    Ef reikningur er í nafni vörsluaðila fyrir hönd verðbréfasjóðs, sbr. 1. mgr., skal ekkert reiðufé vörsluaðila eða þeirra aðila sem nefndir eru í 2. mgr. lagt inn á slíkan reikning.
    Ráðherra setur reglugerð um hlutverk vörsluaðila og skilyrði fyrir framkvæmd verkefna vörsluaðila.

46. gr.

Hlutverk vörsluaðila með tilliti til eigna verðbréfasjóðs.

    Vörsluaðili skal varðveita alla fjármálagerninga verðbréfasjóðs, bæði fjármálagerninga sem unnt er að skrá á vörslureikninga og áþreifanlega fjármálagerninga, og tryggja aðgreiningu á varðveislu fjármálagerninga sjóðsins frá öðrum. Jafnframt skal hann tryggja að vörslureikningar séu í nafni sjóðsins eða rekstrarfélags sjóðsins fyrir hans hönd svo að ávallt sé unnt að auðkenna að fjármálagerningarnir tilheyri sjóðnum. Aðgreiningin skal vera í samræmi við lög um markaði fyrir fjármálagerninga.
    Vörsluaðili skal sannreyna eignarhald verðbréfasjóðs eða rekstrarfélags fyrir hönd sjóðsins á öðrum eignum sjóðsins og halda skrá yfir þær eignir. Eignarhaldið skal sannreynt með gögnum frá sjóðnum eða rekstrarfélagi og utanaðkomandi gögnum ef þau eru tiltæk. Vörsluaðili skal uppfæra eignaskrána til samræmis við breytingar.
    Vörsluaðilinn skal, með reglulegu millibili, leggja fram til rekstrarfélags ítarlega skrá yfir allar eignir verðbréfasjóðs.
    Ráðherra setur reglugerð um hlutverk vörsluaðila og skilyrði fyrir framkvæmd verkefna vörsluaðila, m.a. um tegundir fjármálagerninga sem skulu vera í vörslu.

47. gr.

Hlutverk vörsluaðila með tilliti til ráðstafana vegna eigna verðbréfasjóðs.

    Vörsluaðili skal:
     1.      Tryggja að sala, útgáfa, endurkaup, innlausn og ógilding hlutdeildarskírteina sé samkvæmt lögum, stjórnvaldsfyrirmælum og reglum verðbréfasjóðs.
     2.      Tryggja að útreikningur á virði hlutdeildarskírteina sé gerður samkvæmt lögum, stjórnvaldsfyrirmælum og reglum verðbréfasjóðs.
     3.      Framfylgja fyrirmælum rekstrarfélags nema þau brjóti í bága við lög, stjórnvaldsfyrirmæli eða reglur verðbréfasjóðs.
     4.      Tryggja að í viðskiptum með eignir verðbréfasjóðs sé sjóðnum greitt endurgjald innan eðlilegra tímamarka.
     5.      Tryggja að tekjur verðbréfasjóðs séu notaðar í samræmi við lög og reglur sjóðsins.
    Ráðherra setur reglugerð um hlutverk vörsluaðila og skilyrði fyrir framkvæmd verkefna vörsluaðila.

48. gr.

Heimildir vörsluaðila til hagnýtingar á eignum í vörslu.

    Vörsluaðila er óheimilt að hagnýta sér, þ.m.t. selja, lána, veðsetja eða ráðstafa með öðrum hætti, eignir sem hann hefur í vörslu fyrir eigin reikning. Sama gildir um þriðja aðila sem fengið hefur verkefni í tengslum við vörslu útvistað til sín. Hagnýting eignanna er einungis heimil ef:
     a.      hagnýting á eignum er framkvæmd fyrir eigin reikning verðbréfasjóðsins,
     b.      ráðstafanir eru framkvæmdar af vörsluaðilanum samkvæmt fyrirmælum rekstrarfélagsins fyrir hönd viðkomandi verðbréfasjóðs,
     c.      hagnýtingin er í þágu verðbréfasjóðsins og til hagsbóta fyrir eigendur hlutdeildarskírteina, og
     d.      viðskiptin eru tryggð með hágæða seljanlegri eign sem verðbréfasjóðurinn hefur fengið ráðstöfunarrétt yfir með framsali; markaðsvirði tryggingarinnar skal ávallt vera a.m.k. jafnt markaðsverði hagnýttu eignanna að viðbættu álagi.

49. gr.

Útvistun verkefna vörsluaðila.

    Vörsluaðila er óheimilt að útvista verkefnum skv. 45. og 47. gr. til þriðja aðila. Vörsluaðila er heimilt að útvista verkefnum skv. 1. og 2. mgr. 46. gr. að eftirfarandi skilyrðum uppfylltum:
     1.      Markmið útvistunar er ekki að komast undan ákvæðum laga þessara.
     2.      Vörsluaðili getur sýnt fram á að útvistun sé byggð á hlutlægum ástæðum.
     3.      Vörsluaðili velur slíkan útvistunaraðila af tilhlýðilegri kunnáttu, varfærni og kostgæfni og að vörsluaðili hafi tilhlýðilegt eftirlit með útvistunaraðila hvað varðar útvistuð verkefni.
     4.      Útvistunaraðili uppfylli, meðan á útvistun verkefna stendur, eftirfarandi skilyrði:
                  a.      hann sé til þess bær og hafi fullnægjandi þekkingu til að sinna útvistuðum verkefnum með hliðsjón af eðli og samsetningu eigna verðbréfasjóðs eða eigna rekstrarfélags fyrir hönd verðbréfasjóðs,
                  b.      hann fari að skilvirkum varfærnisreglum, þ.m.t. lágmarkskröfum um eigið fé og eftirlit, og framkvæmd sé reglubundin ytri endurskoðun til að tryggja að fjármálagerningar séu í vörslu útvistunaraðila í þeim tilvikum þegar útvistunaraðili sinnir verkefnum skv. 1. mgr. 46. gr.,
                  c.      hann aðgreini eignir viðskiptavina vörsluaðila frá eigin eignum og frá eignum vörsluaðila þannig að eignir viðskiptavina vörsluaðila séu auðkenndar tilteknum vörsluaðila,
                  d.      hann geri allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að ef komi til ógjaldfærni útvistunaraðila þá séu eignir verðbréfasjóðs, sem eru í vörslu útvistunaraðila, hvorki tiltækar til úthlutunar né sölu til hagsbóta fyrir lánveitendur útvistunaraðila, og
                  e.      hann starfi í samræmi við 43., 46., 48. og 50. gr.
    Vörsluaðila er heimil útvistun skv. 1. mgr. á vörslu fjármálagerninga skv. 1. mgr. 46. gr. þrátt fyrir að skilyrði b-liðar 4. tölul. 1. mgr. séu ekki uppfyllt ef öll eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
     1.      Af löggjöf ríkis utan EES leiðir að varsla fjármálagerninga verði að vera í höndum svæðisbundins aðila.
     2.      Útvistun vörsluaðila er ekki umfangsmeiri en nauðsyn krefur samkvæmt lögum ríkis skv. 1. tölul.
     3.      Enginn svæðisbundinn aðili uppfyllir skilyrði b-liðar 4. tölul. 1. mgr.
     4.      Fjárfestar í verðbréfasjóði eru upplýstir fyrir fram með fullnægjandi hætti um að slík útvistun sé nauðsynleg vegna áskilnaðar laga í viðkomandi ríki, um þær aðstæður sem réttlæta slíka útvistun og um áhættu sem fylgir slíkri útvistun.
     5.      Rekstrarfélag fyrir hönd verðbréfasjóðs beinir þeim fyrirmælum til vörsluaðila að hann útvisti vörslu slíkra fjármálagerninga til svæðisbundins aðila.
    Útvistunaraðila er heimil keðjuútvistun að uppfylltum skilyrðum þessarar greinar.
    Ráðherra setur reglugerð um útvistun verkefna vörsluaðila, m.a. um aðgreiningu eigna.

50. gr.

Hátternisreglur vörsluaðila.

    Rekstrarfélag skal ekki vera vörsluaðili verðbréfasjóða.
    Vörsluaðili skal sinna hlutverki sínu af heiðarleika, sanngirni, fagmennsku og óhæði og eingöngu standa vörð um hagsmuni verðbréfasjóðs og eigenda hlutdeildarskírteina.
    Vörsluaðila er óheimilt að sinna verkefnum sem kunna að valda hagsmunaárekstrum á milli hans, verðbréfasjóðs, eigenda hlutdeildarskírteina eða rekstrarfélags nema vörsluaðili hafi með tilhlýðilegum hætti aðskilið framkvæmd og ábyrgð vörsluverkefna sinna frá öðrum verkefnum sem kunna að valda hagsmunaárekstrum og að þeir mögulegu hagsmunaárekstrar séu greindir og vaktaðir og fjárfestar upplýstir um þá.
    Ráðherra setur reglugerð um óhæði vörsluaðila.

51. gr.

Ábyrgð vörsluaðila.

    Vörsluaðili ber ábyrgð gagnvart verðbréfasjóði og eigendum hlutdeildarskírteina á því þegar fjármálagerningur í vörslu hans eða útvistunaraðila hans glatast. Í því tilviki skal vörsluaðili láta af hendi án ástæðulausrar tafar sams konar fjármálagerning eða fjárhæð sem samsvarar virði hans til verðbréfasjóðs eða rekstrarfélags fyrir hönd sjóðsins.
    Vörsluaðili ber ekki ábyrgð skv. 1. mgr. ef hann getur sýnt fram á að fjármálagerningur hafi glatast vegna utanaðkomandi atviks sem ekki er með sanngirni hægt að ætlast til að vörsluaðili hafi getað haft stjórn á og afleiðingar atviksins voru óhjákvæmilegar þótt vörsluaðili hefði gripið til þeirra ráðstafana sem með sanngirni hefði mátt ætlast til af honum.
    Vörsluaðili ber ábyrgð á öðru tjóni en skv. 1. mgr. sem hann af ásetningi eða gáleysi veldur verðbréfasjóði eða eigendum hlutdeildarskírteina við framfylgd verkefna sinna.
    Útvistun eða keðjuútvistun hefur ekki áhrif á ábyrgð vörsluaðila samkvæmt ákvæði þessu.
    Ekki verður vikið frá ábyrgð vörsluaðila samkvæmt ákvæði þessu eða hún takmörkuð með samningi. Þeir samningar sem gerðir eru í andstöðu við ákvæði þetta eru ógildir.
    Ráðherra setur reglugerð um ábyrgð vörsluaðila, svo sem skilyrði og aðstæður þar sem litið er á fjármálagerninga í vörslu glataða og þær aðstæður sem geta talist til utanaðkomandi aðstæðna sem ekki er hægt með sanngirni að ætlast til að vörsluaðili hafi haft stjórn á.

52. gr.

Bótakröfur.

    Beri vörsluaðili eða útvistunaraðili bótaábyrgð gagnvart eigendum hlutdeildarskírteina í verðbréfasjóði má beina bótakröfu eigenda hlutdeildarskírteina að vörsluaðila af hálfu rekstrarfélags fyrir hönd eigenda hlutdeildarskírteina, að því tilskildu að það leiði ekki til tvítekningar bótakrafna eða ójafnrar meðferðar eigenda hlutdeildarskírteina í viðkomandi sjóði.

53. gr.

Upplýsingagjöf til Fjármálaeftirlits.

    Fjármálaeftirlitið getur óskað eftir öllum upplýsingum sem vörsluaðili hefur fengið við framkvæmd starfa sinna og sem eftirlitið telur að kunni að vera nauðsynlegar.

VII. KAFLI

Gagnsæiskröfur.

54. gr.

Ársreikningar.

    Rekstrarfélag skal semja og birta ársreikning og árshlutareikninga sem gefa glögga mynd af fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu félagsins og skulu gerðir í samræmi við lög, reglur og góða reikningsskilavenju og skulu a.m.k. innihalda:
     a.      efnahagsreikning,
     b.      rekstrarreikning og
     c.      skýringar og upplýsingar um liði utan efnahagsreiknings.
    Rekstrarfélag skal semja ársreikning og árshlutareikninga í samræmi við 1. mgr. fyrir hvern verðbréfasjóð og sérhverjar deildir hans sem það rekur eða markaðssetur innan EES í samræmi við kröfur heimaríkis sjóðs til ársreikninga og reglur sjóðsins. Skulu þeir birtir í ársreikningi og árshlutareikningum rekstrarfélags. Ársreikningur verðbréfasjóðs skal a.m.k. innihalda:
     1.      Efnahagsreikning.
     2.      Rekstrarreikning.
     3.      Skýrslu um rekstur og starfsemi sjóðsins.
     4.      Heildargreiðslur og hlunnindi starfsmanna rekstrarfélags, sundurgreinanlegar eftir föstum og breytilegum starfskjörum og fjölda starfsmanna og, þar sem við á, fjárhæðir sem hafa verið greiddar beint úr sjóðnum, þar á meðal árangurstengdar þóknanir.
     5.      Heildargreiðslur og hlunnindi sundurliðuð eftir flokkum starfsfólks, sbr. 17. gr.
     6.      Lýsingu á því með hvaða hætti greiðslur og hlunnindi hafa verið reiknuð.
     7.      Niðurstöðu endurskoðana sem kveðið er á um í 17. gr., þ.m.t. öll frávik sem hafa átt sér stað.
     8.      Verulegar breytingar á samþykktri starfskjarastefnu.
    Fjárfesti verðbréfasjóður verulegan hluta eigna sinna í öðrum verðbréfasjóðum eða öðrum sjóðum um sameiginlega fjárfestingu skal í ársreikningi verðbréfasjóðs tilgreina hámarkshlutfall stjórnunarkostnaðar sem annars vegar verðbréfasjóðurinn sjálfur og hins vegar hinir sjóðirnir, sem hann fjárfestir í, bera.
    Árshlutareikningur verðbréfasjóðs skal a.m.k. innihalda:
a.      yfirlit yfir eignir og skuldir,
b.      upplýsingar um fjölda útgefinna hlutdeildarskírteina,
c.      upplýsingar um verðmæti hreinnar eignar fyrir hvert skírteini, og
d.      sundurliðað eignasafn.
Hafi verðbréfasjóður greitt eða hyggist hann greiða arð á tímabilinu skulu tölur sýna niðurstöðu tímabilsins eftir skatta og þann arð sem greiddur hefur verið eða stendur til að greiða.
    Ársreikningar rekstrarfélaga og verðbréfasjóða í rekstri þess skulu vera aðgengilegir eigi síðar en fjórum mánuðum eftir lok reikningsárs, en árshlutareikningar tveimur mánuðum eftir lok reikningstímabils.
    Rekstrarfélagi er skylt að afhenda fjárfesti ársreikning og árshlutareikning verðbréfasjóðs endurgjaldslaust óski hann eftir því á þann hátt sem kveðið er á um í útboðslýsingu og lykilupplýsingum. Afrit ársreiknings og árshlutareiknings skulu ávallt vera aðgengileg á vef rekstrarfélags endurgjaldslaust.
    Ársreikningar og árshlutareikningar rekstrarfélags og verðbréfasjóða sem það rekur eða markaðssetur skulu jafnframt vera aðgengilegir Fjármálaeftirlitinu á því formi sem eftirlitið ákveður.

55. gr.

Endurskoðun ársreikninga og tilkynningarskylda endurskoðanda.

    Ársreikningur rekstrarfélags og verðbréfasjóðs skal endurskoðaður og birtingu hans skal fylgja áritun endurskoðanda ásamt athugasemdum.
    Endurskoðanda er skylt að veita Fjármálaeftirlitinu upplýsingar um framkvæmd og niðurstöður endurskoðunar sé þess óskað.
    Endurskoðanda er skylt að gera Fjármálaeftirlitinu tafarlaust viðvart fái hann vitneskju í starfi sínu fyrir rekstrarfélag verðbréfasjóða eða aðila sem er í nánum tengslum við það um atriði eða ákvarðanir sem:
     a.      fela í sér veruleg brot á löggjöf eða reglum sem gilda um starfsemi rekstrarfélagsins eða verðbréfasjóðsins eða hvers konar brot sem koma til skoðunar á grundvelli 14. gr.,
     b.      kunna að hafa áhrif á áframhaldandi starfsemi rekstrarfélagsins eða verðbréfasjóðsins, þ.m.t. atriði sem hafa verulega þýðingu fyrir fjárhagsstöðu þeirra,
     c.      geta leitt til þess að endurskoðandi mundi synja um áritun eða gera fyrirvara við ársreikning rekstrarfélagsins eða verðbréfasjóðsins.
    Endurskoðandi skal gera stjórn rekstrarfélagsins viðvart um tilkynningu skv. 3. mgr. nema rík ástæða sé til þess að gera það ekki.
    Upplýsingar sem endurskoðandi veitir Fjármálaeftirlitinu samkvæmt ákvæðum þessarar greinar teljast ekki brot á lögbundinni eða samningsbundinni þagnarskyldu endurskoðanda.

56. gr.

Almennt um skyldubundna upplýsingagjöf til fjárfesta.

    Rekstrarfélag skal útbúa útboðslýsingu og lykilupplýsingar, sbr. 58.–59. gr., fyrir hvern verðbréfasjóð sem það rekur. Þær skulu birtar á vef rekstrarfélags. Afhenda skal fjárfesti útboðslýsingu og lykilupplýsingar verðbréfasjóðs á pappír óski hann eftir því. Afrit útboðslýsingar og lykilupplýsinga skulu ávallt vera aðgengileg fjárfesti í verðbréfasjóði endurgjaldslaust.
    Halda skal efni útboðslýsingar og lykilupplýsinga uppfærðu. Rekstrarfélag skal senda Fjármálaeftirlitinu útboðslýsingu og lykilupplýsingar vegna verðbréfasjóða sem það rekur og allar breytingar á þeim skjölum.
    Á vef rekstrarfélags skal birta upplýsingar um tíu stærstu útgefendur í eignasafni sjóðsins ásamt upplýsingum um hlutfall fjárfestingar í hverjum aðila. Upplýsingar um stærstu útgefendur sjóðsins skal uppfæra a.m.k. á sex vikna fresti.
    Verðbréfasjóði er óheimilt að umreikna ávöxtun eins tímabils á annað lengra tímabil.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um skilyrði sem þarf að uppfylla þegar lykilupplýsingar eru veittar á varanlegum miðli öðrum en pappír, eða á vef sem ekki telst vera varanlegur miðill.

57. gr.

Markaðsefni til fjárfesta og önnur kynningarstarfsemi.

    Í auglýsingum og annarri kynningarstarfsemi rekstrarfélags verðbréfasjóða skal þess gætt að fram komi sanngjarnar og skýrar upplýsingar um starfsemina og að þær séu ekki settar fram á villandi hátt. Skýrt skal koma fram að um kynningarefni sé að ræða.
    Ef kynningarefni felur í sér boð um kaup á hlutdeildarskírteinum í verðbréfasjóði þar sem koma fram tilteknar upplýsingar um sjóðinn skulu upplýsingarnar ekki settar fram þannig að þær séu í mótsögn við eða geri lítið úr vægi upplýsinga sem koma fram í útboðslýsingu eða lykilupplýsingum sjóðsins.
    Í auglýsingum og annarri kynningarstarfsemi vegna verðbréfasjóða skulu m.a. eftirfarandi atriði koma fram:
     a.      að sjóður sé verðbréfasjóður,
     b.      heiti rekstrarfélags,
     c.      upplýsingar um áhættu verðbréfasjóðs, og
     d.      tilvísun í útboðslýsingu og lykilupplýsingar og hvar megi nálgast þau gögn.

58. gr.

Upplýsingar í útboðslýsingu o.fl.

    Í útboðslýsingu skulu koma fram nauðsynlegar upplýsingar til að fjárfestum sé kleift að meta kosti fjárfestinga í viðkomandi verðbréfasjóði. Í útboðslýsingu skal útskýra áhættusnið sjóðsins á skýran og auðskiljanlegan hátt.
    Í útboðslýsingu skulu annaðhvort koma fram:
     a.      upplýsingar um nýjustu starfskjarastefnu rekstrarfélags verðbréfasjóðs, þ.m.t. lýsing á því hvernig greiðslur og hlunnindi eru reiknuð, deili á þeim aðilum sem bera ábyrgð á að veita greiðslur og hlunnindi, þ.m.t. samsetning starfskjaranefndar ef slík nefnd hefur verið skipuð, eða
     b.      samantekt á starfskjarastefnunni og yfirlýsing þess efnis að upplýsingar um nýjustu starfskjarastefnu, þ.m.t. lýsing á því hvernig greiðslur og hlunnindi eru reiknuð og deili á þeim aðilum sem bera ábyrgð á að veita greiðslur og hlunnindi, þ.m.t. samsetning starfskjaranefndar ef slík nefnd hefur verið skipuð, séu aðgengilegar á vef, þ.m.t. tilvísun í þann vef, og að afrit á pappír sé aðgengilegt án endurgjalds samkvæmt beiðni.
    Í útboðslýsingu verðbréfasjóðs skal lýsa fjárfestingarstefnu sjóðsins ítarlega og, ef við á, einstakra deilda hans og tilgreina þær tegundir fjárfestinga sem honum eru heimilar samkvæmt reglum sjóðsins.
    Í útboðslýsingu skal tilgreina hvort sjóði, eða einstakri deild hans, er heimilt að fjárfesta í afleiðum og, sé slíkt heimilt, skal í útboðslýsingu koma fram á áberandi hátt hvort heimildin takmarkist við að lágmarka áhættu eða hvort hún sé liður í fjárfestingarstefnu. Þá skal lýsa ítarlega hugsanlegum áhrifum af notkun afleiðna á áhættusnið sjóðsins.
    Ef innra virði eigna verðbréfasjóðs, eða einstakrar deildar hans, er líklegt til að sveiflast mikið vegna samsetningar eignasafns hans eða aðferða sem beitt er við stjórnun eignasafns skal vakin sérstök athygli á því á áberandi hátt í útboðslýsingu og öðru kynningarefni.
    Fjárfesti verðbréfasjóður verulegan hluta eigna sinna í öðrum verðbréfasjóðum eða öðrum sjóðum um sameiginlega fjárfestingu skal í útboðslýsingu tilgreina hámarksstjórnunarkostnað sem verðbréfasjóðurinn sjálfur og hinir sjóðirnir skulu bera.
    Fjárfesti verðbréfasjóður einkum í fjármálagerningum og innlánum skv. 64. gr., öðrum en framseljanlegum verðbréfum og peningamarkaðsgerningum, eða ef fjárfestingarstefna verðbréfasjóðsins er eins og kveðið er á um í 68. gr., skal í útboðslýsingu og öðru markaðsefni upplýsa á skýran hátt um fjárfestingarstefnu sjóðsins.
    Reglur verðbréfasjóðs teljast til hluta útboðslýsingar.
    Rekstrarfélagi er skylt að afhenda, óski fjárfestir eftir því, upplýsingar um aðferðafræði sjóðsins við áhættustýringu eigna sjóðsins með tilliti til áhættu og væntrar ávöxtunar í fjárfestingum sjóðsins undangengin misseri.
    Í útboðslýsingu skal koma fram hvaða verkefnum rekstrarfélagi er heimilt að útvista.
    Ráðherra setur reglugerð um útboðslýsingar, m.a. um hvaða upplýsingar skuli birta í útboðslýsingum verðbréfasjóða.

59. gr.

Lykilupplýsingar.

    Í lykilupplýsingum skal draga fram meginatriði útboðslýsingar. Veita skal viðeigandi upplýsingar um grundvallareinkenni viðkomandi verðbréfasjóðs í því skyni að fjárfestar hafi möguleika á að skilja eðli og áhættu við fjárfestingu í sjóðnum og geti tekið upplýsta fjárfestingarákvörðun.
    Rekstrarfélag og aðrir sem selja eða veita ráðgjöf um mögulegar fjárfestingar í verðbréfasjóði eða vörum sem fela í sér áhættu tengda verðbréfasjóði skulu bjóða fjárfestum lykilupplýsingar tímanlega áður en viðskipti með hlutdeildarskírteini fara fram.
    Upplýsingar í lykilupplýsingum skulu veittar á stöðluðu eyðublaði og á gagnorðan hátt og skulu þær vera sanngjarnar, skýrar og ekki villandi.
    Í lykilupplýsingum skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram á skýran og skiljanlegan hátt fyrir fjárfesta og væntanlega fjárfesta án tilvísunar til annarra gagna:
     a.      auðkenning á verðbréfasjóðnum og á lögbæru yfirvaldi sjóðsins,
     b.      stutt lýsing á fjárfestingarmarkmiðum og fjárfestingarstefnu,
     c.      fyrri árangur eða, þar sem við á, sviðsmyndir árangurs,
     d.      kostnaður og tengd gjöld, og
     e.      möguleg áhætta og ávöxtun af fjárfestingunni, þar á meðal viðeigandi leiðbeiningar og viðvaranir í tengslum við þá áhættu sem fylgir fjárfestingu í viðkomandi verðbréfasjóði.
    Í lykilupplýsingum verðbréfasjóðs skal koma fram hvar og hvernig hægt er að fá viðbótarupplýsingar í tengslum við væntanlega fjárfestingu, þar á meðal hvar og hvernig hægt er að nálgast útboðslýsingu sjóðsins og ársreikning og árshlutareikning og á hvaða tungumálum upplýsingarnar eru aðgengilegar fjárfestum.
    Í lykilupplýsingum skal upplýsa um að starfskjarastefnu rekstrarfélags, þar á meðal útskýringar á því hvernig greiðslur og hlunnindi eru reiknuð, hvaða aðilar eru ábyrgir fyrir að veita starfskjör og hlunnindi, þar á meðal samsetning starfskjaranefndar, ef við á, megi nálgast á vef rekstrarfélags, þ.m.t. tilvísun í þann vef, og að afrit á pappír sé aðgengilegt án endurgjalds samkvæmt beiðni.
    Skýr ábending skal vera í lykilupplýsingum verðbréfasjóðs um að ef lykilupplýsingar eru villandi, ónákvæmar eða í ósamræmi við útboðslýsingu geti það varðað skaðabótaskyldu.
    Rekstrarfélag skal nota óbreyttar lykilupplýsingar í öllum ríkjum EES þar sem verðbréfasjóður er markaðssettur.
    Ráðherra setur reglugerð um framkvæmd þessa ákvæðis, svo sem um inntak og framsetningu lykilupplýsinga.

60. gr.

Gagnaskil til Fjármálaeftirlitsins.

    Rekstrarfélag verðbréfasjóða skal senda Fjármálaeftirlitinu skýrslu um sundurliðun fjárfestinga verðbréfasjóða á því formi sem Fjármálaeftirlitið ákveður.

    VIII. KAFLI

Innlausn.

61. gr.

Innlausnarskylda.

    Hlutdeildarskírteini skulu innleyst að kröfu eigenda samkvæmt reglum verðbréfasjóðsins.
    Þrátt fyrir 1. mgr. er rekstrarfélagi heimilt að fresta innlausn hlutdeildarskírteina. Frestun skal vera almenn og taka til allra hlutdeildarskírteina og verður einungis beitt mæli sérstakar ástæður með því og sameiginlegir hagsmunir eigenda hlutdeildarskírteina krefjist. Frestun á innlausn skal ekki vara lengur en nauðsyn krefur og skal þegar tilkynnt Fjármálaeftirlitinu og hlutdeildarskírteinishöfum og tekur gildi við sendingu tilkynningar. Jafnframt skal frestun auglýst á vef rekstrarfélags.
    Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að innlausn hlutdeildarskírteina verði frestað krefjist hagsmunir eigenda skírteinanna eða almennings þess.
    Er frestun á innlausn lýkur skal tilkynna opnun sjóða með sama hætti og getur í 2. mgr.
    Eftirlitsaðilum annarra ríkja innan EES, þar sem hlutdeildarskírteini verðbréfasjóðs eru markaðssett, skal tilkynnt um frestun innlausna samkvæmt ákvæðum þessarar greinar.

62. gr.

Virði hlutdeildarskírteina.

    Innra virði verðbréfasjóðs er markaðsvirði samanlagðra eigna að frádregnum skuldum sjóðsins, svo sem skuldum hans við lánastofnanir, ógreiddum umsýslu- og stjórnunarkostnaði, innheimtukostnaði og áföllnum eða reiknuðum opinberum gjöldum.
    Virði hlutdeildarskírteina er innra virði verðbréfasjóðsins deilt niður á heildarfjölda hlutdeildarskírteina.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um útreikning á virði hlutdeildarskírteina verðbréfasjóða og kostnað við kaup og sölu þeirra.

63. gr.

Auglýsing virðis hlutdeildarskírteina.

    Virði hlutdeildarskírteina verðbréfasjóða skal reiknað og birt á vef rekstrarfélags daglega.

IX. KAFLI

Fjárfestingarheimildir.

64. gr.

Fjármálagerningar og innlán.

    Fjárfestingarheimildir taka til verðbréfasjóðs eða til einstakra deilda hans, sé hann deildaskiptur.
    Verðbréfasjóði er eingöngu heimilt að fjárfesta í eftirtöldu:
     1.      Framseljanlegum verðbréfum og peningamarkaðsgerningum sem uppfylla eftirtalin skilyrði:
                  a.      hafa verið skráð eða tekin til viðskipta á skipulegum markaði í skilningi laga um markaði fyrir fjármálagerninga,
                  b.      ganga kaupum og sölum á öðrum markaði innan EES sem er opinn almenningi, starfar reglulega, lýtur opinberu eftirliti og er viðurkenndur á þann hátt sem Fjármálaeftirlitið metur gildan, og/eða
                  c.      hafa verið skráð eða tekin til viðskipta á skipulegum markaði í ríki utan EES eða ganga kaupum og sölum á öðrum markaði í ríki utan EES sem er opinn almenningi, starfar reglulega, lýtur opinberu eftirliti og er viðurkenndur á þann hátt sem Fjármálaeftirlitið metur gildan.
     2.      Nýútgefnum verðbréfum, enda sé í skilmálum vegna útgáfu þeirra skuldbinding um að sótt verði um skráningu verðbréfanna á skipulegan markað eða annan markað skv. 1. tölul. Skráning verðbréfa samkvæmt þessu ákvæði skal fara fram eigi síðar en innan árs frá útgáfu þeirra.
     3.      Hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða með staðfestingu samkvæmt lögum þessum eða sambærilegri löggjöf innan EES. Einnig er heimilt að fjárfesta í hlutdeildarskírteinum eða hlutum annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu að því tilskildu að:
                  a.      verðbréfasjóður sýni fram á með fullnægjandi hætti að mati Fjármálaeftirlitsins að þeir sjóðir séu leyfisskyldir samkvæmt lögum, lúti lögum samkvæmt sambærilegu eftirliti og verðbréfasjóðir, og að samstarf Fjármálaeftirlitsins og lögbærra yfirvalda sjóðsins sé tryggt,
                  b.      vernd hlutdeildarskírteinishafa sé tryggð á sambærilegan hátt og í verðbréfasjóðum, einkum er varðar aðgreiningu eigna, innlausnarrétt, lánveitingar, lántökur og skortsölu framseljanlegra verðbréfa og peningamarkaðsgerninga,
                  c.      gefinn sé út ársreikningur og árshlutareikningur sjóðsins a.m.k. á sex mánaða fresti til að gera kleift að meta eignir og skuldir, tekjur og rekstur á reikningstímabili, og
                  d.      þeim sjóðum sem ætlunin er að kaupa hlutdeildarskírteini eða hluti í sé óheimilt samkvæmt reglum sjóðsins að fjárfesta meira en 10% eigna sinna í hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða eða hlutdeildarskírteinum eða hlutum annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu.
     4.      Innlánum lánastofnana sem hafa staðfestu í ríki innan EES. Þó er verðbréfasjóði heimilt að binda fé í innlánum lánastofnana með staðfestu utan EES sýni hann fram á með fullnægjandi hætti að mati Fjármálaeftirlitsins að lánastofnanirnar búi við sambærilegar reglur um áhættu og eftirlit og gilda innan EES. Innlán samkvæmt þessum tölulið geta verið hefðbundin innlán sem eru innleysanleg á hverjum tíma og bundin innlán sem eru endurgreiðanleg að kröfu innlánseiganda innan tólf mánaða.
     5.      Afleiðum sem skráðar eru á skipulegum markaði eða ganga kaupum og sölum á öðrum markaði skv. 1. tölul. Undirliggjandi eignir afleiðna skulu vera fjárfestingarheimildir samkvæmt þessari grein, verðbréfavísitölur, vextir, gengi erlendra gjaldmiðla eða gjaldmiðlar sem verðbréfasjóðnum er heimilt að fjárfesta í samkvæmt ákvæðum reglna sjóðsins.
     6.      Afleiðum utan skipulegra markaða. Undirliggjandi eignir afleiðna skulu vera fjárfestingarheimildir samkvæmt þessari grein, verðbréfavísitölur, vextir, gengi erlendra gjaldmiðla eða gjaldmiðlar sem verðbréfasjóðnum er heimilt að fjárfesta í samkvæmt ákvæðum reglna sjóðsins. Gagnaðilar verðbréfasjóðs í slíkum afleiðuviðskiptum skulu lúta varfærniseftirliti sem Fjármálaeftirlitið metur gilt. Verðmæti slíkra samninga skal vera unnt að reikna daglega á áreiðanlegan og sannreynanlegan hátt. Tryggt skal að hægt sé að selja, gera upp eða loka slíkum samningum samdægurs á raunvirði hverju sinni.
     7.      Peningamarkaðsgerningum skv. 16. tölul. 1. mgr. 3. gr. sem viðskipti eru með utan skipulegra markaða eða annarra markaða ef útgáfan eða útgefandinn fellur undir reglur sem hafa þann tilgang að vernda fjárfesta og sparifé að því tilskildu að eitt af eftirfarandi skilyrðum sé uppfyllt:
                  a.      aðildarríki, sveitarfélag aðildarríkis, seðlabanki aðildarríkis, Seðlabanki Evrópu, Fjárfestingarbanki Evrópu, ríki utan EES, ríki innan sambandsríkis eða alþjóðlegar stofnanir, sem eitt eða fleiri aðildarríkja eru aðilar að, gefa út eða ábyrgjast gerninginn,
                  b.      útgefandi gerningsins er félag sem hefur gefið út verðbréf sem viðskipti eiga sér stað með á skipulegum verðbréfamörkuðum eða öðrum mörkuðum sem um getur í 1. tölul.,
                  c.      aðili sem sætir varfærniseftirliti, eða lýtur og hlítir varfærnisreglum sem Fjármálaeftirlitið metur fullnægjandi, gefur út eða ábyrgist gerninginn, eða
                  d.      aðrir aðilar sem Fjármálaeftirlitið samþykkir gefa út gerninginn eða ábyrgjast að því tilskildu að:
                      1.      fjárfestingar í slíkum gerningi heyri undir sambærilega fjárfestavernd og gerningar skv. a–c-lið,
                      2.      útgefandi gerningsins sé með eigið fé og varasjóði sem nema að lágmarki jafnvirði 10 milljóna evra, miðað við opinbert viðmiðunargengi (kaupgengi) eins og það er skráð hverju sinni, og leggur fram og birtir ársreikninga í samræmi við lög um ársreikninga eða sambærilega löggjöf annars EES-ríkis, og
                      3.      útgefandi gerningsins sé innan samstæðu með einu eða fleiri skráðum félögum og helgi sig fjármögnun samstæðunnar eða sé aðili sem helgar sig fjármögnun verðbréfunaraðila með aðgangi að lánalínu hjá lánastofnun.
     8.      Öðrum framseljanlegum verðbréfum og peningamarkaðsgerningum en skv. 1.–7. tölul. fyrir sem svarar allt að 10% af eignum verðbréfasjóðsins.
    Verðbréfasjóði er heimilt að binda eignir sínar í innlánum eða auðseljanlegum eignum sem ekki eru hluti af fjárfestingarstefnu vegna lausafjárstýringar eða með hagsmuni hlutdeildarskírteinishafa fyrir augum.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um fjárfestingarheimildir verðbréfasjóða og um afmörkun fjárfestingarstefnu verðbréfasjóða og upplýsingagjöf til viðskiptavina í tengslum við fjárfestingar.

65. gr.

Yfirtaka eigna og hrávörur.

    Verðbréfasjóði er heimilt án takmarkana að yfirtaka eignir til að tryggja fullnustu kröfu. Eignirnar skulu seldar jafnskjótt og það er talið hagkvæmt og eigi síðar en innan níu mánaða frá yfirtöku eignanna. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að veita lengri frest sé það í þágu hagsmuna hlutdeildarskírteinishafa.
    Verðbréfasjóði er óheimilt að fjárfesta í hrávörum eða heimildarskírteinum fyrir þeim.

66. gr.

Áhættustýring og önnur skilyrði vegna afleiðuviðskipta.

    Fjárfesti verðbréfasjóður í afleiðum utan skipulegra markaða skal rekstrarfélagið hafa yfir að ráða óháðu og áreiðanlegu ferli til að verðmeta þær afleiður.
    Rekstrarfélag skal reglubundið skila Fjármálaeftirlitinu upplýsingum á því formi sem Fjármálaeftirlitið ákveður þar sem fram koma tegundir afleiðna sem fjárfest hefur verið í, undirliggjandi áhætta þeirra, magntakmarkanir og þær aðferðir sem valdar hafa verið til að meta áhættu sem leiðir af afleiðuviðskiptunum í tengslum við hvern verðbréfasjóð sem það rekur. Fjármálaeftirlitið skal gera upplýsingarnar aðgengilegar ESMA og Evrópska kerfisáhætturáðinu komi fram beiðni þar um vegna eftirlits með kerfisáhættu.
    Verðbréfasjóði er heimilt að beita fjárfestingaraðferðum sem snúa að framseljanlegum verðbréfum og peningamarkaðsgerningum í þeim tilgangi að ná fram skilvirkri stýringu eigna sjóðsins. Feli fjárfestingaraðferðin í sér afleiðu skulu önnur ákvæði laga þessara sem snúa að notkun afleiðna gilda um afleiðuna. Fjárfestingaraðferðir samkvæmt þessari málsgrein skulu ávallt vera í samræmi við fjárfestingarstefnu og markmið verðbréfasjóðsins.
    Verðbréfasjóður skal tryggja að heildaráhætta afleiðuviðskipta sjóðsins sé ekki umfram innra virði sjóðsins. Til grundvallar slíku mati skal taka mið af verðmæti undirliggjandi eigna, mótaðilaáhættu, ytri aðstæðum á fjármálamörkuðum og þeim tíma sem það tekur að fullnusta, selja, gera upp eða loka viðkomandi afleiðu.
    Verðbréfasjóði er heimilt, í samræmi við fjárfestingarstefnu sína, að fjárfesta í afleiðum innan þeirra takmarkana sem kveðið er á um í 67. gr. gegn því að hann tryggi að áhætta vegna undirliggjandi eigna fari ekki samanlagt yfir þær takmarkanir sem kveðið er á um í 67. gr. Þegar framseljanleg verðbréf eða peningamarkaðsgerningar fela í sér afleiðu, skal tekið mið af afleiðunni þegar kröfur samkvæmt þessari grein eru uppfylltar.
    Ráðherra setur reglugerð um áhættustýringu verðbréfasjóða, svo sem um mat rekstrarfélags á virði afleiðna, um efni og verklag við tilkynningarskyldu til Fjármálaeftirlitsins á tegundum afleiðna, undirliggjandi áhættu, magnbundnum takmörkum og aðferðum sem hafa verið valdar til að meta áhættu sem tengist viðskiptum með afleiður og um heildaráhættu verðbréfasjóðs vegna afleiðna, og einnig um fjárfestingaraðferðir sem heimilt er að nota.

67. gr.

Hámark fjárfestingar í framseljanlegum verðbréfum, peningamarkaðsgerningum, innlánum og afleiðum.

    Verðbréfasjóði er óheimilt að fjárfesta meira en:
     a.      10% af eignum í framseljanlegum verðbréfum og peningamarkaðsgerningum útgefnum af sama aðila eða
     b.      20% af eignum í innlánum sömu lánastofnunar.
    Mótaðilaáhætta vegna afleiðna utan skipulegra markaða má ekki vera umfram:
     a.      10% af eignum þegar mótaðili er lánastofnun skv. 4. tölul. 2. mgr. 64. gr. sem lýtur eftirliti sem Fjármálaeftirlitið metur gilt, eða
     b.      5% af eignum þegar mótaðili er annar en lánastofnun skv. a-lið, en lýtur þó eftirliti sem Fjármálaeftirlitið metur gilt.
    Fjárfesti verðbréfasjóður meira en 5% í framseljanlegum verðbréfum eða peningamarkaðsgerningum útgefnum af sama aðila skal samtala slíkra fjárfestinga ekki vera umfram 40% af eignum. Við útreikning samtölu skal ekki litið til innlána hjá lánastofnun eða afleiðna utan skipulegra markaða þegar mótaðili er lánastofnun sem lýtur varfærniseftirliti.
    Þá skal samtala eftirfarandi fjárfestinga við sama aðila ekki vera umfram 20% af eignum sjóðsins:
     a.      framseljanlegra verðbréfa og peningamarkaðsgerninga,
     b.      innlána og
     c.      áhættu vegna afleiðna utan skipulegra markaða.
    Þrátt fyrir a-lið 1. mgr. og 4. mgr. er verðbréfasjóði heimilt að fjárfesta allt að 35% af eignum í framseljanlegum verðbréfum og peningamarkaðsgerningum sem eitt eða fleiri ríki innan EES eða sveitarfélög aðildarríkja, alþjóðlegar stofnanir, sem eitt eða fleiri þessara ríkja eru aðilar að, eða ríki utan EES gefa út eða ábyrgjast. Ekki skal tekið tillit til fjárfestinga samkvæmt þessari málsgrein þegar reiknuð er samtala fjárfestinga skv. 3. mgr.
    Þrátt fyrir a-lið 1. mgr. og 4. mgr. er verðbréfasjóði heimilt að fjárfesta allt að 25% af eignum í skuldabréfum samkvæmt lögum um sértryggð skuldabréf og samsvarandi skuldabréfum útgefnum í ríki innan EES. Fjárfesti verðbréfasjóður meira en 5% í sértryggðum skuldabréfum sama aðila skal samtala slíkra fjárfestinga ekki vera umfram 80% af eignum. Ekki skal tekið tillit til fjárfestinga samkvæmt þessari málsgrein þegar reiknuð er samtala fjárfestinga skv. 3. mgr.
    Óheimilt er að leggja saman takmarkanir skv. 1.–6. mgr. Samtala fjárfestinga í framseljanlegum verðbréfum og peningamarkaðsgerningum útgefnum af sama aðila, innlánum þess aðila og afleiðum þar sem sá aðili er mótaðili skal ekki vera umfram 35% af eignum.
    Aðilar sem teljast til sömu samstæðu í skilningi laga um ársreikninga skulu teljast einn aðili við útreikning samkvæmt þessari grein.
    Þrátt fyrir a-lið 1. mgr. er verðbréfasjóði heimilt að fjárfesta í framseljanlegum verðbréfum og peningamarkaðsgerningum fyrir allt að 20% innan sömu samstæðu.
    Þær takmarkanir sem settar eru á fjárfestingarheimildir verðbréfasjóða samkvæmt lögum þessum gilda ekki þegar verðbréfasjóður nýtir sér áskriftarréttindi sem tengd eru framseljanlegum fjármálagerningum eða peningamarkaðsgerningum sem eru hluti eigna verðbréfasjóðsins.

68. gr.
Vísitölusjóðir.

    Þrátt fyrir ákvæði 67. og 73. gr. er verðbréfasjóði heimilt að fjárfesta allt að 20% af eign sjóðsins í hlutabréfum eða skuldabréfum sama útgefanda ef markmið fjárfestingarstefnu samkvæmt reglum sjóðsins er að endurspegla tiltekna hlutabréfa- eða skuldabréfavísitölu. Vísitalan skal hafa fullnægjandi áhættudreifingu, vera birt opinberlega og endurspegla nægjanlega viðkomandi markað.
    Fjármálaeftirlitið getur hækkað heimild skv. 1. mgr. í 35% ef vægi eins útgefanda í vísitölunni er meira en 20%. Fjárfesting yfir 20% er aðeins leyfð í hlutabréfum eða skuldabréfum eins útgefanda.

69. gr.

Peningamarkaðssjóðir.

    Fjárfestingarheimildir peningamarkaðssjóða takmarkast af 67. gr.
    Peningamarkaðssjóði er eingöngu heimilt að fjárfesta í peningamarkaðsgerningum eins og þeir eru skilgreindir í lögum þessum, afleiðum sem tengjast þeim gerningum og innlánum, sbr. 4. tölul. 2. mgr. 64. gr.

70. gr.

Traust verðbréf.

    Fjármálaeftirlitið getur heimilað verðbréfasjóði að fjárfesta fyrir allt að 100% af eignum sínum í framseljanlegum verðbréfum og peningamarkaðsgerningum skv. 5. mgr. 67. gr. telji Fjármálaeftirlitið það samrýmanlegt hagsmunum eigenda hlutdeildarskírteina.
    Fjárfestingar verðbréfasjóðs skv. 1. mgr. skulu dreifast á a.m.k. sex mismunandi verðbréfaútgáfur og má fjárfesting í einni og sömu verðbréfaútgáfu ekki nema hærri fjárhæð en sem svarar til 30% af eignum verðbréfasjóðs.
    Í útboðslýsingu og öðru markaðsefni skulu koma skýrt fram þau ríki, sveitarstjórnir eða alþjóðastofnanir sem gefa út eða ábyrgjast verðbréf eða peningamarkaðsgerninga sem sjóðurinn hyggst fjárfesta í skv. 1. mgr.

71. gr.

Fjárfestingar í hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu.

    Verðbréfasjóði er heimilt að fjárfesta í hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða eða annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu skv. 3. tölul. 2. mgr. 64. gr. Þó skal verðbréfasjóður ekki fjárfesta fyrir meira en 20% af eignum sínum í hlutdeildarskírteinum einstakra verðbréfasjóða eða annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu.
    Heildarfjárfesting verðbréfasjóðs í hlutdeildarskírteinum annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu en verðbréfasjóða má ekki fara yfir 30% af eignum verðbréfasjóðs.
    Ef verðbréfasjóður fjárfestir í hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða eða annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu, sem stjórnað er beint eða óbeint af sama rekstrarfélagi, eða öðru félagi sem rekstrarfélagið tengist í gegnum sameiginlegan rekstur eða stjórnendur, eða með umtalsverðri beinni eða óbeinni eignarhlutdeild, er rekstrarfélaginu ekki heimilt að taka þóknun fyrir áskrift eða innlausn fyrir fjárfestingu í sjóðunum.

72. gr.

Takmarkanir á eignasafni.

    Verðbréfasjóði er óheimilt að eignast meira en:
     a.      10% af hlutabréfum án atkvæðisréttar í einstöku hlutafélagi,
     b.      10% af skuldaskjölum einstakra útgefenda verðbréfa,
     c.      25% af hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóðs og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu, eða
     d.      10% af peningamarkaðsgerningum einstakra útgefenda.
    Heimilt er að víkja frá þeim hámörkum sem mælt er fyrir um í a–d-lið 1. mgr. á þeim tíma sem gerninganna er aflað ef ekki er unnt á þeim tíma að reikna heildarfjárhæð skuldabréfa eða peningamarkaðsgerninga eða hreina fjárhæð útgefinna verðbréfa.
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja reglur um að 1. mgr. taki ekki til framseljanlegra verðbréfa eða peningamarkaðsgerninga sem ríki innan EES eða sveitarfélög aðildarríkja eða ríki utan EES gefa út eða ábyrgjast eða alþjóðastofnanir sem eitt eða fleiri ríki EES eru aðilar að gefa út.

73. gr.

Lán og ábyrgðir.

    Verðbréfasjóði eða vörsluaðila fyrir hönd verðbréfasjóðs er óheimilt að veita lán eða ganga í ábyrgð fyrir aðra, sbr. þó heimildir skv. 64. og 66. gr. Þó er verðbréfasjóði heimilt að fjárfesta í framseljanlegum verðbréfum og öðrum fjármálagerningum skv. 3. og 5.–7. tölul. 2. mgr. 64. gr. án þess að fjárfestingin sé að fullu greidd.
    Verðbréfasjóði er óheimilt að taka önnur lán en skammtímalán. Slík lán mega ekki nema meira en sem svarar 10% af eignum sjóðsins eða einstakra deilda innan hans. Þó er verðbréfasjóði heimilt að eignast erlendan gjaldeyri með skiptasamningum.

74. gr.

Skortsala.

    Verðbréfasjóði er óheimilt að selja fjármálagerninga sem ekki eru í eigu hans á þeim tíma sem sala þeirra fer fram.

75. gr.

Útlánaáhætta vegna verðbréfunar.

    Verðbréfasjóðum er eingöngu heimilt að taka á sig útlánaáhættu vegna verðbréfunar samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki ef útgefandinn hefur greint rekstrarfélagi sjóðsins sérstaklega frá því að hann muni ávallt halda eftir umtalsverðri, hreinni, fjárhagslegri hlutdeild sem skal ekki vera minni en 5%. Gildir ákvæði þetta um nýja verðbréfun og um þegar útgefna verðbréfun þar sem nýrri undirliggjandi áhættu er bætt við eða skipt út.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um kröfur sem útgefandi þarf að uppfylla til að rekstrarfélag hafi heimild til að fjárfesta í skuldabréfavafningum eða sambærilegum fjármálagerningum samkvæmt ákvæði þessu, og um þær eigindlegu kröfur sem rekstrarfélög verðbréfasjóða sem fjárfesta samkvæmt ákvæði þessu þurfa að uppfylla.

76. gr.

Ráðstafanir til úrbóta.

    Fari fjárfesting verðbréfasjóðs fram úr leyfilegum mörkum samkvæmt lögum þessum skal Fjármálaeftirlitinu án tafar tilkynnt um það og skulu þegar gerðar ráðstafanir til úrbóta og lögmæltu hámarki í síðasta lagi náð innan þriggja mánaða. Fjármálaeftirlitið getur þó í einstökum tilvikum heimilað lengri frest enda sé það augljóslega í þágu eigenda hlutdeildarskírteina.
    Nýlega stofnaður verðbréfasjóður skal ná lögmæltu hámarki í síðasta lagi sex mánuðum frá veitingu staðfestingar sjóðsins.

X. KAFLI

Samruni verðbréfasjóða.

77. gr.

Almennt.

    Samruni verðbréfasjóða eða einstakra deilda verðbréfasjóða, séu þeir deildaskiptir, er heimill með þeim hætti sem kveðið er á um í 18. tölul. 1. mgr. 3. gr. að uppfylltum þeim skilyrðum sem kveðið er á um í kafla þessum.
    Í þessum kafla nær hugtakið verðbréfasjóður einnig yfir einstakar deildir verðbréfasjóða.
    Innlendir samrunar eru aðeins heimilir að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins.
    Millilandasamrunar eru aðeins heimilir að fengnu samþykki lögbærs yfirvalds samrunasjóðs og skal samruni vera í samræmi við lög og reglur heimaríkis samrunasjóðs.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um samruna verðbréfasjóða samkvæmt þessum kafla.

78. gr.

Umsókn um heimild til innlends samruna.

    Verðbréfasjóðir þar sem innlendur samruni er fyrirhugaður skulu senda Fjármálaeftirlitinu eftirfarandi upplýsingar með umsókn um heimild til samruna:
     a.      sameiginlega samrunaáætlun samþykkta af samrunasjóði og yfirtökusjóði,
     b.      yfirlýsingar vörslufyrirtækja bæði samrunasjóðs og yfirtökusjóðs, sem staðfesta að þær upplýsingar sem veittar eru í sameiginlegri samrunaáætlun, sbr. a-, f- og g-lið 1. mgr. 80. gr., standist kröfur laga þessara og reglur sjóðsins, og
     c.      þær upplýsingar um fyrirhugaðan samruna sem áætlað er að veita hlutdeildarskírteinishöfum bæði samrunasjóðs og yfirtökusjóðs.
    Ef Fjármálaeftirlitið telur upplýsingar með umsókn skv. 1. mgr. ekki fullnægjandi skal það óska eftir nánari upplýsingum innan 10 virkra daga frá móttöku þeirra.
    Fjármálaeftirlitið skal meta möguleg áhrif fyrirhugaðs samruna á eigendur hlutdeildarskírteina samrunasjóðs og yfirtökusjóðs og meta hvort eigendum hlutdeildarskírteina hafi verið veittar fullnægjandi upplýsingar.
    Fjármálaeftirlitið skal veita heimild til innlends samruna ef öll skilyrði þessarar greinar og 80.–82. gr. eru uppfyllt.
    Fjármálaeftirlitið skal tilkynna samrunasjóði um hvort heimild sé veitt fyrir samruna innan 20 virkra daga frá móttöku allra upplýsinga með umsókn skv. 1. mgr.

79. gr.

Umsókn um heimild til millilandasamruna.

    Verðbréfasjóðir þar sem millilandasamruni er fyrirhugaður skulu í þeim tilvikum þegar samrunasjóður er með staðfestu og staðfestingu á Íslandi en yfirtökusjóður er með staðfestu og staðfestingu í öðru ríki EES senda Fjármálaeftirlitinu eftirfarandi upplýsingar með umsókn um heimild til samruna:
     a.      sameiginlega samrunaáætlun samþykkta af samrunasjóði og yfirtökusjóði,
     b.      uppfærða útgáfu af útboðslýsingu og lykilupplýsingum yfirtökusjóðs,
     c.      yfirlýsingar vörslufyrirtækja, bæði samrunasjóðs og yfirtökusjóðs, sem staðfesta að þær upplýsingar sem veittar eru í sameiginlegri samrunaáætlun, sbr. a-, f- og g-lið 1. mgr. 80. gr., standist kröfur laga þessara og reglna sjóðsins, og
     d.      þær upplýsingar um fyrirhugaðan samruna sem áætlað er að veita hlutdeildarskírteinishöfum bæði samrunasjóðs og yfirtökusjóðs.
    Ef Fjármálaeftirlitið telur upplýsingar með umsókn skv. 1. mgr. ekki fullnægjandi skal það óska eftir nánari upplýsingum innan 10 virkra daga frá móttöku þeirra.
    Upplýsingar skv. 1. mgr. skulu veittar á opinberu tungumáli eða einu af opinberum tungumálum heimaríkja bæði samruna- og yfirtökusjóða eða á tungumáli sem lögbær yfirvöld hafa samþykkt. Sé umsókn fullnægjandi skal Fjármálaeftirlitið án tafar senda afrit af upplýsingum skv. 1. mgr. til lögbærs yfirvalds heimaríkis yfirtökusjóðs.
    Fjármálaeftirlitið skal meta möguleg áhrif fyrirhugaðs samruna á eigendur hlutdeildarskírteina samrunasjóðs og yfirtökusjóðs og meta hvort eigendum hlutdeildarskírteina hafi verið veittar fullnægjandi upplýsingar, bæði í tilfellum skv. 1. mgr. og þegar Fjármálaeftirlitinu berst afrit af upplýsingum frá lögbæru yfirvaldi heimaríkis samrunasjóðs vegna millilandasamruna þegar yfirtökusjóður er á Íslandi. Telji Fjármálaeftirlitið það nauðsynlegt er því heimilt að krefjast þess skriflega að upplýsingar sem veita skal eigendum hlutdeildarskírteina innlends samrunasjóðs séu útskýrðar nánar.
    Í þeim tilvikum þegar yfirtökusjóður er með staðfestu og staðfestingu á Íslandi er Fjármálaeftirlitinu heimilt að krefjast þess skriflega, eigi síðar en 15 virkum dögum eftir viðtöku upplýsinga skv. 1. mgr. frá lögbærum yfirvöldum heimaríkis samrunasjóðs, að innlendur yfirtökusjóður breyti upplýsingum sem veita skal eigendum hlutdeildarskírteina. Í slíkum tilvikum skal Fjármálaeftirlitið senda tilkynningu til lögbærs yfirvalds heimaríkis samrunasjóðs um að upplýsingarnar séu ekki fullnægjandi. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna lögbæru yfirvaldi heimaríkis samrunasjóðs hvort það telji leiðréttar upplýsingar sem veita á hlutdeildarskírteinishöfum vera fullnægjandi innan 20 virkra daga frá því að þær berast.
    Fjármálaeftirlitið skal veita heimild til millilandasamruna að eftirfarandi skilyrðum uppfylltum:
     a.      öll skilyrði þessarar greinar og 80.–82. gr. séu uppfyllt,
     b.      yfirtökusjóður hafi tilkynnt um markaðssetningu í þeim ríkjum þar sem samrunasjóðurinn hefur staðfestu eða hefur tilkynnt markaðssetningu í, og
     c.      lögbær yfirvöld í heimaríkjum samrunasjóðs og yfirtökusjóðs telji upplýsingar til hlutdeildarskírteinishafa fullnægjandi eða tilkynning frá lögbæru yfirvaldi heimaríkis yfirtökusjóðs skv. 5. mgr. hefur ekki borist Fjármálaeftirlitinu.
    Fjármálaeftirlitið skal tilkynna innlendum samrunasjóði um hvort heimild sé veitt fyrir samruna innan 20 virkra daga frá móttöku allra upplýsinga með umsókn skv. 1. mgr. Fjármálaeftirlitið skal einnig tilkynna lögbæru yfirvaldi í heimaríki yfirtökusjóðsins um ákvörðun sína um veitingu eða synjun heimildar til samruna.

80. gr.

Samrunaáætlun samrunasjóðs og yfirtökusjóðs.

    Samrunasjóður og yfirtökusjóður skulu gera sameiginlega samrunaáætlun sem inniheldur upplýsingar um:
     a.      þá verðbréfasjóði sem um ræðir og hvers konar samruni er fyrirhugaður,
     b.      rökstuðning fyrir og ástæður að baki fyrirhuguðum samruna,
     c.      möguleg áhrif fyrirhugaðs samruna á eigendur hlutdeildarskírteina bæði samrunasjóðs og yfirtökusjóðs,
     d.      viðmiðanir sem samþykkt er að nota við mat á eignum og, eftir atvikum, skuldbindingar á þeim degi sem skiptihlutfall er reiknað skv. 86. gr.,
     e.      aðferð við útreikning á skiptihlutfalli,
     f.      dagsetningu sem fyrirhugað er að samruninn taki gildi,
     g.      þær reglur sem eiga við um yfirfærslu eigna og skipti á hlutum, og
     h.      í tilfelli samruna skv. b- og c-lið 18. tölul. 1. mgr. 3. gr., reglur hins nýstofnaða yfirtökusjóðs.
    Samrunasjóði og yfirtökusjóði er heimilt að tilgreina frekari upplýsingar í samrunaáætlun skv. 1. mgr.
    Fjármálaeftirlitinu er ekki heimilt að krefjast þess að frekari upplýsingar en tilgreindar eru í 1. mgr. komi fram í samrunaáætlun.

81. gr.

Staðfesting vörsluaðila.

    Vörsluaðilar samrunasjóðs og yfirtökusjóðs skulu tryggja samræmi einstakra atriða sem sett eru fram í a-, f- og g-lið 1. mgr. 80. gr. við kröfur laga þessara og sjóðsreglur viðkomandi verðbréfasjóða.

82. gr.

Viðmiðanir við mat á eignum.

    Óháðum löggiltum endurskoðanda eða vörsluaðila skal falið að staðfesta:
     a.      viðmiðanir sem samþykkt er að nota við mat á eignum og, eftir atvikum, skuldbindingar á þeim degi sem skiptihlutfall er reiknað,
     b.      ef við á, greiðslu í handbæru fé á hvert hlutdeildarskírteini, og
     c.      aðferð við útreikning á skiptihlutfalli og skiptihlutfallið eins og það er ákvarðað skv. 86. gr.
    Löggiltur endurskoðandi samrunasjóðs eða löggiltur endurskoðandi yfirtökusjóðs skal teljast óháður endurskoðandi í skilningi 1. mgr.
    Afrit af skýrslum óháðs endurskoðanda eða vörslufyrirtækis, eftir því sem við á, skulu gerð aðgengileg án endurgjalds eigendum hlutdeildarskírteina, bæði samrunasjóðs og yfirtökusjóðs, og viðkomandi lögbærum yfirvöldum þeirra, komi fram beiðni þar um.

83. gr.

Upplýsingar til hlutdeildarskírteinishafa.

    Eftir að Fjármálaeftirlitið hefur heimilað fyrirhugaðan samruna skulu verðbréfasjóðir sem hyggjast renna saman afhenda hlutdeildarskírteinishöfum samrunasjóðs og yfirtökusjóðs nákvæmar og fullnægjandi upplýsingar um fyrirhugaðan samruna. Upplýsingarnar skulu gera hlutdeildarskírteinishöfum kleift að gera sér grein fyrir áhrifum fyrirhugaðs samruna á fjárfestingu þeirra og að nýta sér réttindi sín samkvæmt ákvæðum þessa kafla. Upplýsingarnar skulu veittar eigi síðar en 30 dögum áður en innlausnarskyldu eða, ef við á, rétti hlutdeildarskírteinishafa til að skipta hlutdeildarskírteinum sínum endurgjaldslaust lýkur, sbr. 84. gr.
    Upplýsingar skal veita um eftirfarandi:
     1.      Ástæður og aðdraganda fyrirhugaðs samruna.
     2.      Þau áhrif sem álitið er að samruninn muni hafa á hlutdeildarskírteinishafa, m.a. breytingar á fjárfestingarstefnu, kostnað, væntan árangur, reglubundnar skýrslur, mögulega verri afkomu og, ef við á, viðvörun til fjárfesta um að skattaleg meðferð geti breyst vegna fyrirhugaðs samruna.
     3.      Réttindi hlutdeildarskírteinishafa vegna fyrirhugaðs samruna, svo sem rétt til viðbótarupplýsinga og rétt til afrits af skýrslu óháðs endurskoðanda eða vörsluaðila að framkominni beiðni þar um, rétt hlutdeildarskírteinishafa til innlausnar og, ef við á, rétt þeirra til að skipta hlutdeildarskírteinum sínum endurgjaldslaust og innan hvaða tímamarka þeir geti nýtt þau réttindi sín.
     4.      Atriði sem varða málsmeðferð og áætlaðan gildistökudag samrunans.
     5.      Lykilupplýsingar yfirtökusjóðs.
    Hafi samrunasjóður eða yfirtökusjóður verið tilkynntur til markaðssetningar yfir landamæri skulu upplýsingar skv. 2. mgr. vera á opinberu tungumáli eða einu opinberra tungumála gistiríkis sjóðsins, eða á tungumáli sem lögbær yfirvöld í því landi hafa samþykkt.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um innihald, uppsetningu og aðferð við veitingu upplýsinga til hlutdeildarskírteinishafa.

84. gr.

Réttindi hlutdeildarskírteinishafa .

    Hlutdeildarskírteini samrunasjóðs og yfirtökusjóðs skulu innleyst að kröfu eigenda samkvæmt reglum verðbréfasjóðanna án annars gjalds en þess sem verðbréfasjóðurinn heldur eftir til að standa undir kostnaði við sölu eigna. Ef við á skal eigendum hlutdeildarskírteina heimilt að óska eftir því að skipta hlutdeildarskírteinum sínum í hlutdeildarskírteini í öðrum verðbréfasjóði með sambærilega fjárfestingarstefnu sem er stjórnað af sama rekstrarfélagi eða félagi sem rekstrarfélagið er tengt í gegnum sameiginlega stjórnun eða beint eða óbeint eignarhald.
    Innlausnarskyldan og rétturinn til að skipta hlutdeildarskírteinum í hlutdeildarskírteini í öðrum verðbréfasjóði tekur gildi þegar hlutdeildarskírteinishafar hafa fengið fullnægjandi upplýsingar um samrunann og gildir þar til fimm virkum dögum fyrir viðmiðunardag við útreikning á skiptihlutfalli samrunans.

85. gr.

Kostnaður við samruna.

    Kostnaður vegna samruna, svo sem lögfræðiþjónusta, ráðgjöf eða stjórnsýslukostnaður, skal ekki falla á samrunasjóðinn, yfirtökusjóðinn eða hlutdeildarskírteinishafa þeirra sjóða nema í þeim tilfellum sem rekstrarfélag hefur ekki verið tilnefnt.

86. gr.

Gildistaka samruna.

    Samruni tekur gildi á þeim degi sem tilgreindur er í tilkynningu samrunasjóðs til eigenda hlutdeildarskírteina skv. 83. gr. Útreikningur á skiptihlutfalli hlutdeildarskírteina samrunasjóða yfir í hlutdeildarskírteini yfirtökusjóðs og, ef við á, ákvörðun um viðeigandi verðmæti hreinnar eignar vegna greiðslu í handbæru fé, skal eiga sér stað á sama tíma.
    Ef yfirtökusjóður er með staðfestu hér á landi skal 1. mgr. gilda, en ef yfirtökusjóður er með staðfestu í öðru ríki innan EES þá gilda lög þess ríkis.
    Samrunasjóður og yfirtökusjóður skulu birta tilkynningu um fyrirhugaðan samruna og gildistöku hans opinberlega eigi síðar en 30 dögum áður en innlausnarskyldu skv. 84. gr. lýkur. Þá skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um gildistöku samrunans og lögbærum yfirvöldum í heimaríki samrunasjóðs og yfirtökusjóðs, ef og eftir því sem við á.
    Samruni sem hefur tekið gildi skv. 1. mgr. verður ekki lýstur ógildur.

87. gr.

Áhrif samruna.

    Samruni verðbréfasjóða skv. a- og b-lið 18. tölul. 1. mgr. 3. gr. skal hafa eftirfarandi áhrif:
     a.      allar eignir og skuldir samrunasjóðs flytjast í yfirtökusjóð eða, eftir atvikum, til vörslufyrirtækis yfirtökusjóðsins,
     b.      eigendur hlutdeildarskírteina í samrunasjóði verða eigendur að hlutdeildarskírteinum í yfirtökusjóði og eiga, eftir atvikum, rétt á greiðslu í handbæru fé sem ekki er meira en 10% af verðmæti hreinnar eignar hlutdeildarskírteina þeirra í samrunasjóðnum og
     c.      samrunasjóðir hætta að vera til daginn sem samruninn öðlast gildi.
    Samruni skv. c-lið 18. tölul. 1. mgr. 3. gr. skal hafa eftirfarandi áhrif:
     a.      hreinar eignir samrunasjóðsins flytjast í yfirtökusjóðinn eða, eftir atvikum, í vörslufyrirtæki yfirtökusjóðsins,
     b.      eigendur hlutdeildarskírteina í samrunasjóðnum verða eigendur hlutdeildarskírteina í viðtökusjóðnum, og
     c.      samrunasjóðurinn heldur áfram að vera til þar til gengið hefur verið frá skuldum.
    Rekstrarfélag yfirtökusjóðs skal staðfesta skriflega við vörsluaðila yfirtökusjóðsins þegar yfirfærslu eigna og skulda, þar sem við á, er lokið. Hafi yfirtökusjóður ekki tilnefnt rekstrarfélag skal sjóðurinn sjálfur veita vörsluaðila skriflega staðfestingu um yfirfærslu eigna og skulda.

88. gr.

Ráðstafanir til úrbóta vegna fjárfestingarheimilda.

    Fari fjárfesting yfirtökusjóðs fram úr leyfilegum mörkum skv. 67., 68., 70. eða 71. gr. vegna samruna verðbréfasjóða skal Fjármálaeftirlitinu án tafar tilkynnt um það og þegar gerðar ráðstafanir til úrbóta. Skal lögmæltu hámarki náð í síðasta lagi innan sex mánaða.

XI. KAFLI

Höfuðsjóðir og fylgisjóðir.

89. gr.

Almennt.

    Fylgisjóður er verðbréfasjóður eða einstakar deildir verðbréfasjóðs, sé hann deildaskiptur, sem hefur fengið heimild Fjármálaeftirlits til að fjárfesta a.m.k. 85% eigna sinna í hlutdeildarskírteinum annars verðbréfasjóðs, höfuðsjóðs eða einstakra deilda hans, sé hann deildaskiptur, þrátt fyrir 1. mgr. 71. gr.
    Fylgisjóði er heimilt að fjárfesta allt að 15% af eignum sínum í eftirfarandi:
     a.      innlánum eða auðseljanlegum eignum, sbr. 3. mgr. 64. gr., og/eða
     b.      afleiðum vegna áhættuvarna í samræmi við 5. og 6. tölul. 2. mgr. 64. gr. og 66. gr.
    Höfuðsjóður er verðbréfasjóður, eða einstakar deildir verðbréfasjóðs, sé hann deildaskiptur, sem uppfyllir eftirfarandi skilyrði:
     a.      hefur a.m.k. einn fylgisjóð í hópi eigenda hlutdeildarskírteina,
     b.      er ekki sjálfur fylgisjóður, og
     c.      er ekki eigandi hlutdeildarskírteina fylgisjóðs.
    Ef a.m.k. tveir fylgisjóðir eiga hlutdeildarskírteini í höfuðsjóði hefur höfuðsjóðurinn val um hvort hann aflar fjármagns frá öðrum fjárfestum þrátt fyrir 1. málsl. 25. tölul. 1. mgr. 3. gr. og b-lið 2. gr.
    Ef höfuðsjóður aflar ekki fjármagns meðal almennings í öðru aðildarríki en því sem hann er stofnsettur í, en hefur aðeins einn eða fleiri fylgisjóði í því aðildarríki, er höfuðsjóðurinn undanþeginn XII. kafla og 1. tölul. 1. mgr. 108. gr.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um skipan höfuðsjóða og fylgisjóða samkvæmt þessum kafla.

90. gr.

Umsókn fylgisjóðs til fjárfestingar í höfuðsjóði.

    Fylgisjóði er einungis heimilt að fjárfesta í höfuðsjóði að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitið skal heimila fjárfestingu fylgisjóðs í höfuðsjóði ef fylgisjóður, vörslufyrirtæki fylgisjóðs, endurskoðandi fylgisjóðs og höfuðsjóður uppfylla skilyrði laga sem um þau gilda.
    Fylgisjóður skal leggja fram til Fjármálaeftirlitsins:
     1.      Reglur fylgisjóðs og höfuðsjóðs.
     2.      Útboðslýsingu og lykilupplýsingar fylgisjóðs og höfuðsjóðs.
     3.      Samkomulag á milli fylgisjóðs og höfuðsjóðs eða, ef við á, samkomulag um innri reglur.
     4.      Upplýsingar til hlutdeildarskírteinishafa fylgisjóðs.
     5.      Samning milli vörslufyrirtækja fylgisjóðs og höfuðsjóðs um upplýsingaskipti ef fylgisjóður og höfuðsjóður hafa ekki sama vörslufyrirtæki.
     6.      Samning milli endurskoðenda fylgisjóðs og höfuðsjóðs um upplýsingaskipti ef fylgisjóður og höfuðsjóður hafa ekki sama endurskoðanda.
    Fjármálaeftirlitið skal tilkynna fylgisjóði hvort umsókn um fjárfestingar í höfuðsjóði sé samþykkt eigi síðar en 15 virkum dögum eftir móttöku fullnægjandi gagna samkvæmt þessari grein.
    Ef höfuðsjóður er með staðfestu og staðfestingu í öðru ríki innan EES skal fylgisjóður leggja fram yfirlýsingu lögbærs yfirvalds höfuðsjóðsins um að hann hafi staðfestingu sem verðbréfasjóður eða deild verðbréfasjóðs í því ríki og uppfylli skilyrði 3. mgr. 89. gr.

91. gr.

Almennt um samkomulag milli höfuðsjóðs og fylgisjóðs.

    Höfuðsjóður skal veita fylgisjóði öll gögn og upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að fylgisjóðurinn geti uppfyllt skilyrði laga og reglna sem gilda um starfsemi sjóðsins. Fylgisjóður skal gera samkomulag við höfuðsjóð þess efnis.
    Fylgisjóður skal ekki fjárfesta umfram það hámark sem kemur fram í 71. gr. í hlutdeildarskírteinum höfuðsjóðs fyrr en samkomulag skv. 1. mgr. hefur tekið gildi. Samkomulagið skal, samkvæmt beiðni og án endurgjalds, gert aðgengilegt öllum eigendum hlutdeildarskírteina.
    Ef höfuðsjóður og fylgisjóður eru innan sama rekstrarfélags mega innri viðskiptareglur, sem tryggja að farið sé að skilyrðum þessa ákvæðis, koma í stað samkomulags skv. 1. mgr.
    Höfuðsjóður og fylgisjóður skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að samræma tímasetningu útreikninga á verðmæti hreinnar eignar og birtingar upplýsinga þar um til að koma í veg fyrir að hægt sé að sjá fyrir verðbreytingar hlutdeildarskírteina þeirra á mörkuðum og koma í veg fyrir tækifæri til högnunar.
    Ef höfuðsjóður frestar tímabundið endurkaupum, innlausn eða áskrift á hlutdeildarskírteinum sínum, hvort sem það er að eigin frumkvæði eða að ósk Fjármálaeftirlitsins, er hverjum fylgisjóði hans heimilt að fresta endurkaupum, innlausn eða áskrift á hlutdeildarskírteinum sínum innan sama tímabils og höfuðsjóður, þrátt fyrir skilyrði 2.–3. mgr. 61. gr.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um innihald samkomulags og innri viðskiptareglna og þær viðeigandi ráðstafanir til að samræma tímasetningu útreikninga og birtingu upplýsinga þar um.

92. gr.

Félagsslit, samruni eða skipting höfuðsjóðs.

    Ef höfuðsjóði er slitið skal einnig slíta fylgisjóði nema Fjármálaeftirlitið samþykki:
     a.      fjárfestingu sem nemur minnst 85% af eignum fylgisjóðs í hlutdeildarskírteinum annars höfuðsjóðs, eða
     b.      breytingu á reglum sjóðs eða stofnsamningi til þess að gera fylgisjóði kleift að breytast í verðbréfasjóð sem er ekki fylgisjóður.
    Félagsslit höfuðsjóðs skulu eiga sér stað í fyrsta lagi þremur mánuðum eftir að allir eigendur hlutdeildarskírteina og lögbær yfirvöld fylgisjóðs hafa verið upplýst um bindandi ákvörðun um félagsslit.
    Ef höfuðsjóður rennur saman við annan verðbréfasjóð, eða er skipt upp í tvo eða fleiri verðbréfasjóði, skal fylgisjóði slitið nema Fjármálaeftirlitið veiti fylgisjóði leyfi til að:
     a.      starfa áfram sem fylgisjóður höfuðsjóðsins eða annars verðbréfasjóðs sem verður til við samruna eða skiptingu höfuðsjóðsins,
     b.      fjárfesta a.m.k. 85% af eignum sínum í hlutdeildarskírteinum annars höfuðsjóðs sem ekki hefur orðið til við samrunann eða skiptinguna, eða
     c.      breyta reglum sjóðsins eða stofnsamningi til þess að breyta honum í verðbréfasjóð sem ekki er fylgisjóður.
    Enginn samruni eða skipting höfuðsjóðs skal öðlast gildi nema höfuðsjóður hafi afhent upplýsingar til allra eigenda hlutdeildarskírteina um fyrirhugaðan samruna skv. 83. gr. og lögbærra yfirvalda eigi síðar en 60 dögum fyrir áætlaðan gildistökudag samrunans.
    Hafi Fjármálaeftirlitið eða lögbær yfirvöld heimaríkis fylgisjóðsins ekki veitt samþykki skv. a-lið 3. mgr. skal höfuðsjóður gera fylgisjóði kleift að endurkaupa eða innleysa öll hlutdeildarskírteini í höfuðsjóðnum áður en samruni eða skipting höfuðsjóðsins tekur gildi.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nauðsynlegt samþykki í þeim tilvikum þegar til félagsslita, samruna eða skiptingar höfuðsjóðs kemur.

93. gr.

Samkomulag um upplýsingaskipti milli vörsluaðila.

    Ef höfuðsjóður og fylgisjóður hafa mismunandi vörsluaðila skulu sjóðirnir krefjast þess að vörsluaðilar beggja geri samkomulag um upplýsingaskipti til þess að tryggja að báðir vörsluaðilarnir uppfylli skyldur sínar, sbr. 90. gr.
    Fylgisjóður skal ekki fjárfesta í hlutdeildarskírteinum höfuðsjóðs fyrr en samkomulag skv. 1. mgr. hefur tekið gildi.
    Fylgisjóður eða, eftir atvikum, rekstrarfélag fylgisjóðs skal veita vörsluaðila fylgisjóðs þær upplýsingar um höfuðsjóð sem krafist er til þess að vörsluaðili fylgisjóðs geti uppfyllt skyldur sínar.
    Vörsluaðili höfuðsjóðs skal án tafar upplýsa lögbær yfirvöld höfuðsjóðs og fylgisjóð, eða þar sem við á rekstrarfélag og vörsluaðila fylgisjóðs, um hvers konar frávik frá réttri framkvæmd sem vörsluaðili verður var við við framkvæmd starfa sinna sem geta haft neikvæð áhrif á fylgisjóð.
    Vörsluaðilar höfuðsjóðs og fylgisjóðs skulu ekki taldir vera brotlegir við aðrar reglur í samningi eða lögum og reglum sem takmarka upplýsingaskipti eða varða upplýsingaöryggi að því gefnu að farið hafi verið að ákvæðum laga þessara.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um efnisatriði samkomulags um upplýsingaskipti vörsluaðila og ráðstafanir og tegundir frávika frá réttri framkvæmd.

94. gr.

Samkomulag um upplýsingaskipti milli endurskoðenda.

    Ef höfuðsjóður og fylgisjóður hafa mismunandi endurskoðendur skulu þeir komast að samkomulagi um upplýsingaskipti til að tryggja að báðir geti uppfyllt skyldur sínar. Í samkomulaginu um upplýsingaskipti skal m.a. fjallað um hvernig og hvenær skal uppfylla fyrirkomulag 2. mgr., þar á meðal hvenær og hvernig endurskoðandi höfuðsjóðs skal taka saman skýrslu og leggja fyrir endurskoðanda fylgisjóðs.
    Í endurskoðunarskýrslu skal endurskoðandi fylgisjóðs taka mið af endurskoðunarskýrslu höfuðsjóðsins. Ef sjóðirnir hafa mismunandi uppgjörsár skal endurskoðandi höfuðsjóðsins taka saman sérstaka skýrslu á lokadegi uppgjörsárs fylgisjóðsins. Endurskoðandi fylgisjóðsins skal greina frá frávikum sem fram koma í skýrslu endurskoðanda höfuðsjóðsins og áhrifum þeirra frávika á fylgisjóðinn.
    Fylgisjóður skal ekki fjárfesta í hlutdeildarskírteinum höfuðsjóðs fyrr en samkomulag skv. 1. mgr. hefur tekið gildi.
    Endurskoðendur höfuðsjóðs og fylgisjóðs skulu ekki taldir vera brotlegir við aðrar reglur í samningi eða lögum og reglum sem takmarka upplýsingaskipti eða varða upplýsingaöryggi að því gefnu að farið hafi verið að ákvæðum laga þessara.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um efnisatriði samkomulags um upplýsingaskipti endurskoðenda.

95. gr.

Útboðslýsing fylgisjóðs og önnur upplýsingagjöf.

    Útboðslýsing fylgisjóðs skal innihalda eftirfarandi upplýsingar til viðbótar við þær upplýsingar sem kveðið er á um í VII. kafla:
     a.      yfirlýsingu um að fylgisjóðurinn fylgi ákveðnum höfuðsjóði og fjárfesti varanlega 85% eða meira af eigum sínum í honum,
     b.      fjárfestingarstefnu og fjárfestingarmarkmið, þar á meðal áhættustefnu, hvort árangur fylgisjóðs sé samsvarandi árangri höfuðsjóðs, hvar og hversu mikill munurinn er, og lýsingu á fjárfestingum, sbr. 89. gr.,
     c.      stutta lýsingu á höfuðsjóðnum, skipulagi, fjárfestingarmarkmiði og fjárfestingarstefnu, áhættustefnu og ábendingu um hvar útboðslýsingu höfuðsjóðsins er að finna,
     d.      yfirlit yfir samkomulag fylgisjóðs og höfuðsjóðs eða innri viðskiptareglur,
     e.      hvernig hlutdeildarskírteinishafar geta nálgast frekari upplýsingar um höfuðsjóðinn og samkomulag sjóðanna,
     f.      upplýsingar um allar þóknanir og endurgreiðslu kostnaðar sem fylgisjóður skal greiða vegna fjárfestinga í hlutdeildarskírteinum höfuðsjóðsins, auk upplýsinga um heildarupphæð kostnaðar fylgisjóðsins og höfuðsjóðsins, og
     g.      útskýringar á skattalegum afleiðingum sem fjárfesting í höfuðsjóði hefur fyrir fylgisjóð.
    Ársreikningur fylgisjóðs skal til viðbótar við þær upplýsingar sem kveðið er á um í VII. kafla innihalda yfirlýsingu um heildarkostnað fylgisjóðs og höfuðsjóðs.
    Í ársreikningi og hálfsársuppgjöri skal kveðið á um hvernig nálgast megi ársreikning og hálfsársuppgjör höfuðsjóðs.
    Til viðbótar við upplýsingar skv. 54. og 56. gr. skal fylgisjóður senda útboðslýsingu og lykilupplýsingar sjóðsins og allar breytingar á þeim, auk ársreiknings og hálfsársuppgjörs höfuðsjóðs, til lögbærra yfirvalda í heimaríki fylgisjóðs.
    Í markaðsefni fylgisjóðs skal koma fram að sjóðurinn fjárfesti varanlega 85% eða meira af eigum sínum í höfuðsjóði.
    Fylgisjóður skal afhenda fjárfestum samkvæmt beiðni og endurgjaldslaust pappírseintak útboðslýsingar, ársreiknings og hálfsársuppgjörs höfuðsjóðs.

96. gr.

Upplýsingagjöf fylgisjóðs til hlutdeildarskírteinishafa.

    Fylgisjóður skal veita eigendum hlutdeildarskírteina sinna eftirfarandi upplýsingar:
     a.      að Fjármálaeftirlitið hafi samþykkt fjárfestingu fylgisjóðsins í hlutdeildarskírteinum höfuðsjóðs,
     b.      lykilupplýsingar fyrir fjárfesta, í skilningi reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 583/2010, sbr. reglugerð 983/2013, um gildistöku reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar nr. 583/2010 um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/65/EB að því er varðar lykilupplýsingar fyrir fjárfesta og skilyrði sem skulu uppfyllt þegar lykilupplýsingar fyrir fjárfesta eða lýsingin er lögð fram á varanlegum miðli öðrum en pappír eða vefsetri, fyrir fylgisjóð og höfuðsjóð,
     c.      hvaða dag fylgisjóður ætlar að hefja fjárfestingu í höfuðsjóði eða, ef hann hefur þegar fjárfest í honum, þann dag sem fjárfesting sjóðsins fer yfir hámark skv. 1. mgr. 71. gr., og
     d.      yfirlýsingu þess efnis að eigendur hlutdeildarskírteina hafi heimild til að óska eftir endurkaupum eða innlausn hlutdeildarskírteina sinna innan 30 daga án nokkurs annars kostnaðar en þess sem verðbréfasjóður heldur eftir til að mæta kostnaði við eignalosun. Heimild skal taka gildi frá þeirri stundu sem fylgisjóður hefur lagt fram upplýsingar sem um getur í þessari málsgrein.
    Upplýsingar skv. 1. mgr. skulu lagðar fram eigi síðar en 30 dögum fyrir dagsetningu sem um getur í c-lið 1. mgr.
    Ef fylgisjóður hefur verið tilkynntur í samræmi við 100. gr. skulu upplýsingar sem um getur í 1. mgr. veittar á opinberu tungumáli, eða einu af opinberum tungumálum, viðkomandi gistiríkis fylgisjóðs, eða á tungumáli sem lögbær yfirvöld þess samþykkja. Fylgisjóður skal bera ábyrgð á þýðingunni. Sú þýðing skal endurspegla inntak frumritsins nákvæmlega.
    Fylgisjóður skal ekki fjárfesta í hlutdeildarskírteinum tiltekins höfuðsjóðs umfram hámark skv. 1. mgr. 71. gr. áður en 30 daga tímabilið, sem um getur í 2. mgr., er liðið.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um uppsetningu og aðferð vegna upplýsingagjafar til hlutdeildarskírteinishafa fylgisjóðs og aðferð við mat og endurskoðun framlags í þeim tilvikum þegar fylgisjóður færir allar eða hluta eigna sinna til höfuðsjóðs í skiptum fyrir hluti, sem og hlutverk vörsluaðila fylgisjóðs við slíka tilfærslu.

97. gr.

Skyldur fylgisjóða.

    Fylgisjóður skal hafa reglulegt eftirlit með starfsemi höfuðsjóðs. Við eftirlitið er fylgisjóði heimilt að nota upplýsingar frá höfuðsjóði og, þegar það á við, rekstrarfélagi, vörsluaðila og endurskoðanda hans, nema ástæða þyki til að efast um áreiðanleika upplýsinga.
    Ef fylgisjóður, rekstrarfélag hans eða einstaklingur, sem er annaðhvort fulltrúi fylgisjóðsins eða rekstrarfélags hans, tekur við umboðslaunum, þóknun eða öðrum peningalegum ávinningi í tengslum við fjárfestingu í hlutdeildarskírteinum höfuðsjóðs, skulu launin, þóknunin eða peningalegi ávinningurinn bætast við eignir fylgisjóðsins.

98. gr.

Skyldur höfuðsjóða.

    Höfuðsjóður skal samstundis tilkynna Fjármálaeftirlitinu ef fylgisjóður fjárfestir í hlutum hans. Ef höfuðsjóður hefur staðfestu á Íslandi en fylgisjóður í öðru aðildarríki skal Fjármálaeftirlitið tilkynna yfirvöldum í því aðildarríki um slíka fjárfestingu.
    Höfuðsjóður skal ekki innheimta gjöld vegna áskrifta eða innlausna fjárfestinga fylgisjóðs í höfuðsjóði eða deildum hans.
    Höfuðsjóður skal tryggja að allar upplýsingar sem krafist er samkvæmt lögum þessum eða sjóðsreglum séu aðgengilegar á réttum tíma fyrir fylgisjóð eða rekstrarfélag hans, Fjármálaeftirlitið, lögbært yfirvald fylgisjóðs, vörslufyrirtæki og endurskoðendur.

99. gr.

Tilkynningarskylda Fjármálaeftirlitsins.

    Ef höfuðsjóður og fylgisjóður hafa báðir staðfestu hérlendis skal Fjármálaeftirlitið samstundis tilkynna fylgisjóði um hverja þá ákvörðun, ráðstöfun eða athugun vegna vanefnda höfuðsjóðs, rekstrarfélags höfuðsjóðs, vörsluaðila eða endurskoðenda á skyldum sínum samkvæmt lögum þessum.
    Ef höfuðsjóður hefur staðfestu á Íslandi en fylgisjóður í öðru aðildarríki skal Fjármálaeftirlitið samstundis tilkynna lögbærum yfirvöldum fylgisjóðs um hverja þá ákvörðun, ráðstöfun eða athugun vegna vanefnda höfuðsjóðs, rekstrarfélags höfuðsjóðs, vörsluaðila eða endurskoðenda á skyldum sínum samkvæmt lögum þessum. Tilkynning til fylgisjóðs skal í slíkum tilfellum vera í höndum yfirvalda í heimaríki fylgisjóðs.

XII. KAFLI

Starfsemi yfir landamæri innan EES.

100. gr.

Markaðssetning íslenskra verðbréfasjóða í öðrum ríkjum innan EES.

    Hyggist rekstrarfélag markaðssetja hlutdeildarskírteini verðbréfasjóðs með staðfestu og staðfestingu á Íslandi eða einstakrar deildar hans, sé hann deildaskiptur, í öðrum ríkjum innan EES skal það tilkynna Fjármálaeftirlitinu um þá fyrirætlan. Í tilkynningunni skal vera lýsing á framkvæmd markaðssetningar hlutdeildarskírteina verðbréfasjóðsins í viðkomandi ríki, þar á meðal í tengslum við flokka hlutdeildarskírteina ef við á. Hyggist rekstrarfélag verðbréfasjóðsins sjá um markaðssetninguna skal það tekið fram í tilkynningunni.
    Tilkynningu skulu fylgja eftirfarandi gögn:
     1.      Reglur verðbréfasjóðsins.
     2.      Útboðslýsing og lykilupplýsingar.
     3.      Endurskoðaður ársreikningur næstliðins árs, sé hann fyrirliggjandi, og síðari hálfsársuppgjör.
    Gögn þessi skulu þýdd á opinbert tungumál gistiríkis eða á tungumál sem lögbær yfirvöld í gistiríki hafa samþykkt eða, í öðrum tilvikum en þegar um lykilupplýsingar er að ræða, á tungumál sem er hefðbundið að nota í alþjóðlegum viðskiptum. Þýðingar þessar eru á ábyrgð rekstrarfélagsins og skulu endurspegla innihald upplýsinganna eins og þær eru á frummálinu.
    Fjármálaeftirlitið skal staðfesta að framlögð gögn skv. 1. og 2. mgr. séu fullnægjandi.
    Reynist framlögð gögn skv. 1. og 2. mgr. fullnægjandi skal Fjármálaeftirlitið senda lögbærum eftirlitsaðila í því landi þar sem markaðssetning er fyrirhuguð gögnin eigi síðar en tíu virkum dögum eftir móttöku tilkynningar ásamt fullnægjandi gögnum, ásamt yfirlýsingu Fjármálaeftirlitsins um að verðbréfasjóðurinn uppfylli skilyrði fyrir markaðssetningu í gistiríkinu.
    Fjármálaeftirlitið skal án tafar tilkynna rekstrarfélaginu um sendingu gagna skv. 5. mgr. Rekstrarfélagi er heimilt að markaðssetja verðbréfasjóð í gistiríki frá dagsetningu þeirrar tilkynningar.
    Tilkynning skv. 1. mgr. og staðfesting Fjármálaeftirlitsins skv. 4. mgr. skulu vera á ensku nema Fjármálaeftirlitið og lögbært yfirvald í gistiríki samþykki annað.
    Rekstrarfélag skal tryggja að lögbært yfirvald í gistiríki hafi ávallt rafrænan aðgang að gögnum skv. 2. mgr. og þýðingum á þeim, ef við á. Rekstrarfélag skal tryggja að gögnin séu uppfærð og þýðingar á þeim. Rekstrarfélag skal tilkynna lögbærum yfirvöldum í gistiríki um allar breytingar á gögnunum til lögbærra yfirvalda í gistiríki, auk upplýsinga um hvar megi nálgast gögnin rafrænt.
    Verði breytingar á fyrirkomulagi markaðssetningar frá því sem áður hafði verið tilkynnt skv. 1. mgr. eða breytingar á flokki hlutdeildarskírteina sem markaðssett eru í gistiríki skal rekstrarfélag tilkynna breytinguna skriflega til lögbærs yfirvalds í gistiríki áður en breytingin verður framkvæmd.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd þessa ákvæðis, svo sem um aðgengi lögbærra yfirvalda í gistiríki að upplýsingum og gögnum samkvæmt ákvæði þessu og uppsetningu og innihald staðlaðrar tilkynningar til notkunar fyrir verðbréfasjóði vegna tilkynningar samkvæmt ákvæði þessu, þar á meðal hvaða skjöl þurfi að þýða á önnur tungumál. Jafnframt er ráðherra heimilt að setja reglugerð um uppsetningu og innihald staðfestingar Fjármálaeftirlits skv. 4. og 5. mgr., verklag við upplýsingaskipti og notkun rafrænna samskipta á milli lögbærra yfirvalda vegna tilkynningar samkvæmt ákvæði þessu.

101. gr.

Aðstaða og upplýsingar til fjárfesta í gistiríki.

    Rekstrarfélag sem markaðssetur verðbréfasjóð með staðfestu og staðfestingu hér á landi í öðru ríki innan EES skal tryggja eigendum hlutdeildarskírteina, í því ríki þar sem sjóðurinn er markaðssettur, aðgang að þeim upplýsingum sem rekstrarfélaginu er skylt að veita skv. VI. kafla og að aðstaða sé fyrir hendi til innlausna eða endurkaupa hlutdeildarskírteina eða annarra greiðslna til hlutdeildarskírteinishafa.


102. gr.

Upplýsingagjöf verðbréfasjóða sem markaðssettir eru í öðrum ríkjum innan EES til fjárfesta .

    Rekstrarfélag sem markaðssetur íslenskan verðbréfasjóð eða einstaka deild hans, sé hann deildaskiptur, í öðru ríki innan EES skal veita fjárfestum í gistiríki gögn og upplýsingar skv. VII. kafla.
    Upplýsingagjöf skv. 1. mgr. skal uppfylla eftirfarandi skilyrði:
     a.      upplýsingarnar skulu veittar fjárfestum í gistiríki eins og mælt er fyrir um í lögum og reglum gistiríkisins,
     b.      lykilupplýsingar skulu þýddar á opinbert tungumál eða eitt af opinberum tungumálum gistiríkisins eða á tungumál sem lögbært yfirvald í gistiríkinu samþykkir,
     c.      aðrar upplýsingar en lykilupplýsingar skulu þýddar á opinbert tungumál eða eitt af opinberum tungumálum gistiríkisins, tungumál sem lögbær eftirlitsaðili í gistiríkinu samþykkir eða á tungumál sem tíðkast að nota í alþjóðlegum viðskiptum, og
     d.      rekstrarfélag ber ábyrgð á þýðingum skv. b- og c-lið og að þær gefi rétta mynd af innihaldi upplýsinganna eins og þær eru á frummálinu.
    Ákvæði þetta gildir einnig um breytingar sem gerðar eru á upplýsingum eða gögnum.
    Um tíðni birtingar upplýsinga um kaup- og sölugengi hlutdeildarskírteina verðbréfasjóðs sem markaðssettur er í öðru ríki innan EES, endurkaup eða innlausn gilda ákvæði laga þessara.


103. gr.

Markaðssetning hér á landi á verðbréfasjóðum með staðfestu og staðfestingu í öðru ríki innan EES .

    Verðbréfasjóði eða einstakri deild hans, sé hann deildaskiptur, með staðfestu og staðfestingu í öðru ríki innan EES er heimilt að markaðssetja hlutdeildarskírteini sín hér á landi eftir að Fjármálaeftirlitið hefur staðfest móttöku tilkynningar um markaðssetningu frá lögbærum eftirlitsaðila heimaríkis verðbréfasjóðsins. Tilkynningin skal vera í samræmi við tilkynningu skv. 100. gr.
    1. mgr. gildir einnig um starfsemi svissneskra og færeyskra sjóða um sameiginlega fjárfestingu, enda séu sömu kröfur gerðar til þeirra og til verðbréfasjóða með staðfestu í ríki innan EES og gerður hafi verið samstarfssamningur á milli Seðlabanka Íslands og lögbærra svissneskra eða færeyskra yfirvalda.
    Fjármálaeftirlitið skal birta upplýsingar um lög og reglur sem gilda um markaðssetningu verðbréfasjóða hér á landi sem eru með staðfestu og staðfestingu í öðru ríki innan EES á vef sínum. Upplýsingarnar skulu vera settar skýrt fram á ensku og uppfærðar eftir þörfum.
    Í starfsemi sinni hér á landi er erlendum verðbréfasjóði heimilt að vísa til rekstrarforms síns á sama hátt og hann gerir í heimaríki sjóðsins. Ef heitið er villandi eða felur í sér hættu á ruglingi er Fjármálaeftirlitinu þó heimilt að krefjast þess að nafn verðbréfasjóðs verði auðkennt sérstaklega til skýringar.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um umfang upplýsinga, sem Fjármálaeftirlitinu ber að birta á vef, um gildandi rétt varðandi markaðssetningu verðbréfasjóða með staðfestu og staðfestingu í öðru ríki innan EES hér á landi.

104. gr.

Upplýsingagjöf verðbréfasjóða með staðfestu og staðfestingu innan EES til fjárfesta hér á landi.

    Verðbréfasjóður eða einstök deild hans, sé hann deildaskiptur, með staðfestu og staðfestingu í öðru ríki innan EES, sem markaðssetur hlutdeildarskírteini sín hér á landi í samræmi við ákvæði þessa kafla, skal veita sömu upplýsingar og gögn til fjárfesta sem verðbréfasjóðnum er skylt að veita í heimaríki verðbréfasjóðsins.
    Upplýsingagjöf skv. 1. mgr. skal uppfylla eftirfarandi skilyrði:
     a.      upplýsingarnar skulu veittar fjárfestum eins og kveðið er á um í VII. kafla,
     b.      lykilupplýsingar skulu þýddar á íslensku,
     c.      upplýsingar skv. 1. mgr., aðrar en lykilupplýsingar, skulu þýddar á íslensku eða ensku, og
     d.      verðbréfasjóður, eða rekstrarfélag hans ef við á, ber ábyrgð á þýðingum skv. b- og c-lið og að þær gefi rétta mynd af innihaldi upplýsinganna eins og þær eru á frummálinu.
    Ákvæði þetta gildir einnig um breytingar sem gerðar eru á upplýsingum eða gögnum.
    Um tíðni birtingar upplýsinga um kaup- og sölugengi hlutdeildarskírteina verðbréfasjóðs sem markaðssettur er hér á landi, endurkaup eða innlausn gilda lög og reglur í heimaríki verðbréfasjóðs.

105. gr.

Starfsemi rekstrarfélags með staðfestu hér á landi í öðrum ríkjum innan EES.

    Rekstrarfélag með staðfestu hér á landi sem hyggst reka verðbréfasjóð eða veita þjónustu skv. 3. mgr. 5. gr. í öðru ríki innan EES, án stofnunar útibús, skal tilkynna það Fjármálaeftirlitinu. Í tilkynningunni skal koma fram:
     a.      í hvaða ríki innan EES rekstrarfélag hyggst reka verðbréfasjóð eða veita þjónustu skv. 3. mgr. 5. gr., og
     b.      starfsáætlun þar sem fram kemur sú þjónusta sem rekstrarfélag hyggst veita og hvaða verðbréfasjóði það hyggst reka, ef við á; áætluninni skulu fylgja þeir áhættustýringarferlar sem félagið hefur sett sér auk lýsingar á því hvernig félagið hyggst uppfylla skilyrði 5. mgr. 15. gr.
    Rekstrarfélag sem hyggst reka verðbréfasjóð eða veita þjónustu skv. 3. mgr. 5. gr. í öðru ríki innan EES með stofnun útibús skal tilkynna það Fjármálaeftirlitinu. Í tilkynningunni skal koma fram:
     a.      í hvaða ríki innan EES rekstrarfélag hyggst stofna útibú,
     b.      starfsáætlun þar sem fram kemur sú þjónusta sem rekstrarfélag hyggst veita og hvaða verðbréfasjóði það hyggst reka, ef við á; áætluninni skulu fylgja þeir áhættustýringarferlar sem félagið hefur sett sér auk lýsingar á því hvernig félagið hyggst uppfylla skilyrði 5. mgr. 15. gr.,
     c.      stjórnskipulag útibúsins,
     d.      heimilisfang í gistiríki rekstrarfélags þar sem nálgast má gögn, og
     e.      nöfn stjórnenda útibúsins ásamt upplýsingum um símanúmer, tölvupóstfang og póstfang á skrifstofu viðkomandi.
    Fjármálaeftirlitið skal innan 30 daga frá móttöku fullnægjandi tilkynningar skv. 1. mgr. og 60 daga frá móttöku fullnægjandi tilkynningar skv. 2. mgr. framsenda tilkynninguna til lögbærs yfirvalds í gistiríki rekstrarfélags. Fjármálaeftirlitið skal láta fylgja með staðfestingu þess efnis að viðkomandi rekstrarfélag hafi starfsleyfi, auk lýsingar á umfangi starfsleyfis rekstrarfélagsins og upplýsinga um takmarkanir á tegundum verðbréfasjóða sem rekstrarfélaginu er heimilt að reka. Tilkynning rekstrarfélags skal eingöngu framsend ef rekstrarfélag uppfyllir skilyrði laga þessara og stjórnvaldsfyrirmæla settra með stoð í þeim. Synji Fjármálaeftirlitið rekstrarfélagi um áframsendingu tilkynningar til lögbærs yfirvalds í gistiríki rekstrarfélags samkvæmt þessari málsgrein skal ákvörðunin þar um rökstudd innan tveggja mánaða frá móttöku allra gagna.
    Ásamt framsendingu tilkynningar skv. 3. mgr. skal Fjármálaeftirlitið upplýsa lögbært yfirvald í gistiríki um réttindi fjárfesta samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.
    Fjármálaeftirlitið skal án tafar tilkynna rekstrarfélagi þegar framsending tilkynningar rekstrarfélags hefur átt sér stað. Rekstrarfélagi er heimilt að veita fyrirhugaða þjónustu skv. 1. mgr. frá og með þeirri dagsetningu sem því berst tilkynning frá Fjármálaeftirlitinu. Rekstrarfélagi er heimilt að veita fyrirhugaða þjónustu skv. 2. mgr. frá og með tilkynningu þess efnis frá lögbæru yfirvaldi í gistiríki, en í síðasta lagi tveimur mánuðum frá sendingu Fjármálaeftirlitsins á tilkynningu skv. 3. mgr.
    Tilkynningar skv. 1. og 2. mgr. skulu vera á ensku nema Fjármálaeftirlitið og lögbært yfirvald í gistiríki samþykki annað.
    Verði breytingar á upplýsingum skv. b-lið 1. mgr. eða b–e-lið 2. mgr. skal rekstrarfélag tilkynna þær skriflega til Fjármálaeftirlitsins og lögbærs yfirvalds í gistiríki með að lágmarki 30 daga fyrirvara.
    Fjármálaeftirlitið skal upplýsa lögbært yfirvald í gistiríki rekstrarfélags um breytingar á upplýsingum sem framsendar hafa verið skv. 3. mgr.
    Óski lögbært yfirvald í gistiríki rekstrarfélags sem rekur verðbréfasjóð með staðfestu í gistiríki lögbæra yfirvaldsins eftir nánari upplýsingum skv. 3. mgr. skal Fjármálaeftirlitið veita slíkar upplýsingar innan 10 daga.

106. gr.

Starfsemi rekstrarfélags hér á landi sem er með staðfestu í öðru ríki innan EES.

    Rekstrarfélagi með staðfestu í öðru ríki innan EES er heimilt, frá þeim degi sem Fjármálaeftirlitinu berst framsend frá lögbæru yfirvaldi í heimaríki rekstrarfélags tilkynning rekstrarfélags um fyrirhugaða starfsemi án stofnunar útibús, auk meðfylgjandi staðfestingar um viðeigandi starfsleyfi frá lögbæru yfirvaldi í heimaríki rekstrarfélags, að:
     a.      reka verðbréfasjóð með staðfestu hér á landi ef rekstrarfélag hefur heimild til að reka sambærilega verðbréfasjóði í heimaríki sínu, og
     b.      veita þjónustu skv. 3. mgr. 5. gr. ef rekstraraðili hefur heimild til að veita sambærilega þjónustu í heimaríki sínu.
    Rekstrarfélagi með staðfestu í öðru ríki innan EES er heimilt, að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins, þó í síðasta lagi tveimur mánuðum frá þeim degi sem Fjármálaeftirlitinu berst framsend tilkynning rekstrarfélags um fyrirhugaða starfsemi með stofnun útibús, auk meðfylgjandi staðfestingar um viðeigandi starfsleyfi frá lögbæru yfirvaldi í heimaríki rekstrarfélags, að:
     a.      reka verðbréfasjóð með staðfestu hér á landi ef rekstrarfélag hefur heimild til að reka sambærilega verðbréfasjóði í heimaríki sínu, og
     b.      veita þjónustu skv. 3. mgr. 5. gr. ef rekstraraðili hefur heimild til að veita sambærilega þjónustu í heimaríki sínu.
    Rekstrarfélag sem hyggst hefja starfsemi hérlendis með eða án útibús skal fara eftir ákvæðum 1. mgr. 15. gr. Fjármálaeftirlitið fer með eftirlit með því að starfsemi útibús sé í samræmi við 1. mgr. 15. gr.
    Áður en útibú rekstrarfélags hefur starfsemi og innan tveggja mánaða frá því að tilkynning um fyrirhugaða starfsemi skv. 2. mgr. berst Fjármálaeftirlitinu skal það undirbúa eftirlit með rekstrarfélaginu sem fellur undir ábyrgð þess.

107. gr.

Rekstur verðbréfasjóðs með staðfestingu hér á landi af hálfu rekstrarfélags sem hefur starfsleyfi og staðfestu í öðru ríki innan EES.

    Rekstrarfélag með staðfestu í öðru ríki innan EES, sem sækir um staðfestingu verðbréfasjóðs með staðfestu hér á landi, skal til viðbótar upplýsingum skv. 27. og 32. gr. senda Fjármálaeftirlitinu eftirfarandi upplýsingar:
     a.      skriflegan samning við vörsluaðila verðbréfasjóðsins og
     b.      upplýsingar um útvistun verkefna skv. 5. gr.
Reki rekstrarfélagið þegar sams konar verðbréfasjóð á Íslandi er heimilt að vísa til þeirra gagna sem þegar hafa verið afhent Fjármálaeftirlitinu vegna þeirra sjóða.
    Fjármálaeftirlitinu er eingöngu heimilt að hafna staðfestingu verðbréfasjóðs í rekstri rekstrarfélags með staðfestu í öðru ríki innan EES ef:
     a.      skilyrði IV.–V. kafla og VII.–X. kafla eru ekki uppfyllt,
     b.      rekstrarfélagið er ekki með starfsheimildir í heimaríki sínu til rekstrar slíkra verðbréfasjóða, eða
     c.      rekstrarfélagið veitir ekki upplýsingar skv. 1. mgr.
    Áður en Fjármálaeftirlitið hafnar staðfestingu skv. 2. mgr. skal Fjármálaeftirlitið ráðfæra sig við lögbært yfirvald í heimaríki rekstrarfélagsins.
    Rekstrarfélagi með staðfestu í öðru ríki innan EES, sem rekur verðbréfasjóð með staðfestu hér á landi, ber að fara eftir IV.–V. kafla og VII.–X. kafla.
    Rekstrarfélag skal starfa í samræmi við útboðslýsingu og reglur verðbréfasjóðsins. Útboðslýsing og reglur verðbréfasjóðsins skulu vera í samræmi við kröfur laga þessara.
    Rekstrarfélag skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um allar efnislegar breytingar á upplýsingum skv. 1. mgr.

XIII. KAFLI

Eftirlit, viðurlög og samstarf lögbærra yfirvalda.

A. Eftirlit.

108. gr.

Eftirlit.

    Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með:
     1.      Að starfsemi verðbréfasjóða með staðfestingu hér á landi sé í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og reglur sjóðsins.
     2.      Að starfsemi verðbréfasjóða með staðfestu og staðfestingu í öðru ríki innan EES sem markaðssettir eru hér á landi sé í samræmi við 103. gr. eða lög og stjórnvaldsfyrirmæli sem gilda hér á landi umfram það sem segir í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/65/EB um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum að því er varðar verðbréfasjóði (UCITS).
     3.      Að starfsemi rekstrarfélaga með starfsleyfi hér á landi, verðbréfasjóða í rekstri þeirra og vörsluaðila sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli.
     4.      Markaðssetningu rekstrarfélaga með starfsleyfi í öðru ríki innan EES á verðbréfasjóðum hér á landi.
     5.      Að rekstrarfélag með starfsleyfi í öðru ríki innan EES sem rekur eða markaðssetur verðbréfasjóð hér á landi með stofnun útibús fari að 15. og 18. gr.
    Eftirlitsstofnun EFTA annast eftirlit með lögum þessum, eftir því sem við á, í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, og samning milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.
    Um framkvæmd eftirlits fer samkvæmt lögum þessum, lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og lögum um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að eiga samstarf við önnur stjórnvöld hér á landi og fela sérfróðum aðilum að sinna tilteknum verkefnum til þess að tryggja framfylgd laga þessara og stjórnvaldsfyrirmæla settra með stoð í þeim.

109. gr.

Almennar eftirlitsheimildir Fjármálaeftirlitsins.

    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að grípa til eftirfarandi ráðstafana til þess að tryggja að farið sé að lögum þessum:
     1.      Krefjast aðgangs að, afhendingar á eða afrits af hvers konar upplýsingum og gögnum á því formi sem það telur nauðsynlegt til að sinna eftirliti sínu.
     2.      Krefja einstaklinga og lögaðila um allar upplýsingar og gögn á því formi sem það telur nauðsynlegt til að sinna eftirliti sínu og, ef þörf krefur, kalla einstaklinga til skýrslugjafar í því skyni.
     3.      Framkvæma vettvangsathuganir og vettvangsrannsóknir.
    Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum samkvæmt þessari grein. Þetta gildir þó ekki um upplýsingar sem lögmaður öðlast við athugun á lagalegri stöðu skjólstæðings í tengslum við dómsmál, þ.m.t. þegar hann veitir ráðgjöf um hvort höfða eigi mál eða hvernig komast megi hjá málshöfðun, eða upplýsingar sem hann öðlast fyrir, á meðan eða eftir lok dómsmáls, ef upplýsingarnar hafa bein tengsl við málið.
    Liggi fyrir rökstuddur grunur um að brotið hafi verið gegn lögum þessum, reglugerðum eða reglum sem settar eru samkvæmt þeim er Fjármálaeftirlitinu heimilt, að uppfylltum ákvæðum laga um meðferð sakamála, eftir því sem við getur átt, að:
     1.      Krefjast kyrrsetningar eigna og haldlagningar muna.
     2.      Krefjast þess fyrir dómi að fá aðgang að fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum um símtöl eða önnur fjarskipti við tiltekinn síma eða fjarskiptatæki í vörslu fjarskiptafyrirtækja þegar slíkar upplýsingar geta haft þýðingu við rannsókn á brotum á lögum þessum. Fjarskiptafyrirtæki er skylt að afhenda Fjármálaeftirlitinu upplýsingar skv. 1. málsl. án úrskurðar dómara ef samþykki umráðamanns og eiginlegs notanda síma eða fjarskiptatækis liggur fyrir.
     3.      Krefjast þess að fá aðgang að fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum um símtöl eða önnur fjarskipti við tiltekinn síma eða fjarskiptatæki í vörslu verðbréfasjóðs, rekstrarfélags, vörsluaðila eða annarra aðila sem falla undir lög þessi.
    Um lok kyrrsetningar fer almennt skv. 3. mgr. 88. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Kyrrsetning fellur einnig niður ef athugun Fjármálaeftirlitsins lýkur án þess að stjórnsýsluviðurlögum sé beitt eða mál kært til lögreglu. Gerðarþoli á þá heimtingu á að felldar verði úr gildi þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið til tryggingar kyrrsetningunni. Kyrrsetning fellur á sama hátt niður ef gerðarþoli innir af hendi þær greiðslur sem kyrrsetning á að tryggja.
    Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að aðili láti af háttsemi sem er andstæð ákvæðum laga þessara.
    Fjármálaeftirlitið getur krafist tímabundins banns við því að tiltekin starfsemi sé stunduð. Jafnframt getur Fjármálaeftirlitið birt opinberlega nöfn aðila sem taldir eru markaðssetja vöru samkvæmt lögum þessum án tilskilinna heimilda.
    Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að útgáfu, endursölu eða innlausn hlutdeildarskírteina verði frestað til þess að gæta hagsmuna hlutdeildarskírteinishafa eða almennings.
    Þegar við á skal Fjármálaeftirlitið upplýsa lögbært yfirvald í gistiríki verðbréfasjóðs rekstrarfélags um þær ráðstafanir sem gripið hefur verið til samkvæmt ákvæði þessu. Áður en kemur til afturköllunar starfsleyfis rekstrarfélags skal Fjármálaeftirlitið, ef við á, hafa samráð við lögbær yfirvöld í heimaríki verðbréfasjóðs.
    Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um afturköllun staðfestingar verðbréfasjóðs, frestun útgáfu, endursölu eða innlausna hlutdeildarskírteina eða aðrar íþyngjandi ráðstafanir gagnvart verðbréfasjóði skal Fjármálaeftirlitið tilkynna án tafar til lögbærra yfirvalda í gistiríki verðbréfasjóðsins, þar sem við á, og ef rekstrarfélag sjóðsins er með staðfestu í öðru ríki innan EES til lögbærra yfirvalda í heimaríki rekstrarfélags verðbréfasjóðsins.
    Berist Fjármálaeftirlitinu tilkynning frá lögbæru yfirvaldi gistiríkis um að rekstrarfélag með staðfestu hér á landi neiti að veita upplýsingar eða sinni ekki úrbótakröfum skal Fjármálaeftirlitið grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að tryggja að viðkomandi rekstrarfélag veiti upplýsingarnar eða verði við kröfu um umbætur. Ef nauðsynlegt er skal eftirlitið óska eftir upplýsingum frá lögbærum yfirvöldum í ríkjum utan EES. Fjármálaeftirlitið skal upplýsa lögbært yfirvald gistiríkis um til hvaða ráðstafana er gripið. Íþyngjandi ráðstafanir sem Fjármálaeftirlitið grípur til skulu tilkynntar viðkomandi rekstrarfélagi og rökstuddar með fullnægjandi hætti.
    Berist Fjármálaeftirlitinu sem lögbæru yfirvaldi í heimaríki verðbréfasjóðs upplýsingar frá lögbæru yfirvaldi í heimaríki rekstrarfélags um áform um afturköllun starfsleyfis rekstrarfélags skal Fjármálaeftirlitið grípa til nauðsynlegra ráðstafana til verndar hagsmunum fjárfesta í viðkomandi verðbréfasjóði og heilbrigðri starfsemi fjármálamarkaða hér á landi, til að mynda með banni við starfsemi rekstrarfélagsins hér á landi.

110. gr.

Eftirlit með rekstrarfélagi sem starfar hér á landi en er með staðfestu í öðru ríki innan EES.

    Rekstrarfélag með staðfestu í öðru ríki innan EES sem veitir þjónustu hér á landi í gegnum útibú eða án stofnunar útibús skal veita Fjármálaeftirlitinu þær upplýsingar sem eftirlitið telur nauðsynlegar til að sinna eftirlitshlutverki sínu.
    Fjármálaeftirlitið getur vegna hagskýrslugerðar krafist þess að þau rekstrarfélög sem hafa útibú hér á landi sendi reglubundið skýrslu um starfsemi sína hér á landi.
    Telji Fjármálaeftirlitið að rekstrarfélag sem er með útibú eða veitir þjónustu hér á landi fari ekki að lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum sem undir eftirlit þess heyra skal Fjármálaeftirlitið krefjast úrbóta og upplýsa lögbært yfirvald heimaríkis rekstrarfélags.
    Ef rekstrarfélag neitar að veita Fjármálaeftirlitinu upplýsingar skv. 1. mgr. eða að fara að úrbótakröfum Fjármálaeftirlitsins skv. 3. mgr. skal lögbært yfirvald í heimaríki rekstrarfélags upplýst.
    Veiti rekstrarfélag ekki upplýsingar skv. 1. mgr. eða fer enn ekki að lögum og stjórnvaldsfyrirmælum þrátt fyrir úrbótakröfur Fjármálaeftirlitsins og ráðstafanir lögbærs yfirvalds í heimaríki í kjölfar tilkynningar skv. 4. mgr. eða hafi ráðstafanir lögbærs yfirvalds í heimaríki rekstrarfélags reynst ófullnægjandi getur Fjármálaeftirlitið gripið til viðeigandi ráðstafana gagnvart rekstrarfélaginu til að koma í veg fyrir eða refsa fyrir brot og, að því marki sem nauðsynlegt er, koma í veg fyrir að rekstrarfélag stofni til frekari viðskipta á Íslandi eða láti af rekstri viðkomandi verðbréfasjóðs. Fjármálaeftirlitið skal fyrir fram tilkynna lögbæru yfirvaldi heimaríkis rekstrarfélags um slíkar ráðstafanir og Eftirlitsstofnun EFTA og ESMA tafarlaust. Íþyngjandi ráðstafanir sem Fjármálaeftirlitið grípur til, svo sem álagning stjórnsýslusekta, skulu tilkynntar viðkomandi rekstrarfélagi og rökstuddar á fullnægjandi hátt. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að vísa máli til Eftirlitsstofnunar EFTA telji eftirlitið að lögbært yfirvald í heimaríki rekstrarfélags hafi ekki aðhafst á fullnægjandi hátt. Eftirlitsstofnun EFTA getur gripið til ráðstafana í samræmi við 19. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1095/2010, sbr. lög um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.
    Ef starfsemi rekstrarfélags skv. 1. mgr. ógnar hagsmunum fjárfesta verðbréfasjóðs eða annarra sem rekstrarfélag veitir þjónustu getur Fjármálaeftirlitið, áður en gripið er til ráðstafana samkvæmt ákvæði þessu, gripið til allra nauðsynlegra varúðarráðstafana gagnvart rekstrarfélagi til að vernda þá hagsmuni.

111. gr.

Eftirlit með verðbréfasjóði sem er markaðssettur hér á landi en með staðfestu og staðfestingu í öðru ríki innan EES.

    Hafi Fjármálaeftirlitið gilda ástæðu til að ætla að verðbréfasjóður sem er markaðssettur á Íslandi en með staðfestu og staðfestingu í öðru ríki innan EES uppfylli ekki þær skyldur sem kveðið er á um í lögum þessum eða stjórnvaldsfyrirmælum settum með stoð í þeim, en Fjármálaeftirlitið hefur ekki valdheimildir til að taka á slíkum brotum, skal eftirlitið upplýsa lögbært yfirvald í heimaríki verðbréfasjóðsins um þá afstöðu sína.
    Ef verðbréfasjóður heldur áfram háttsemi sem sýnilega getur skaðað hagsmuni fjárfesta, þrátt fyrir ráðstafanir lögbærs yfirvalds í heimaríki verðbréfasjóðs eða vegna þess að þær ráðstafanir hafa reynst ófullnægjandi eða vegna þess að lögbæra yfirvaldið aðhefst ekki innan sanngjarns tímafrests, getur Fjármálaeftirlitið gripið til viðeigandi ráðstafana gagnvart verðbréfasjóðnum til verndar fjárfestum, þar á meðal komið í veg fyrir að verðbréfasjóðurinn geti stundað frekari markaðssetningu hlutdeildarskírteina sinna hér á landi. Fjármálaeftirlitið skal fyrir fram tilkynna lögbæru yfirvaldi heimaríkis verðbréfasjóðs um slíkar ráðstafanir og Eftirlitsstofnun EFTA og ESMA tafarlaust. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að vísa málinu til Eftirlitsstofnunar EFTA sem getur gripið til ráðstafana í samræmi við 19. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1095/2010, sbr. lög um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.

112. gr.

Tilkynningar starfsmanna um brot í starfsemi.

    Rekstrarfélög og vörsluaðilar skulu hafa ferla til þess að taka við og fylgja eftir tilkynningum starfsmanna um brot, möguleg brot og tilraunir til brota á lögum þessum og stjórnvaldsfyrirmælum sem á þeim byggjast. Ferlarnir skulu vera aðskildir frá öðrum ferlum innan fyrirtækisins.
    Einstaklingur sem tekur við tilkynningum skv. 1. mgr. og sér um vinnslu þeirra skal búa við sjálfstæði í störfum sínum. Tryggt skal að hann hafi nægilegt vald, fjárveitingar og heimildir til að afla gagna og upplýsinga sem honum eru nauðsynlegar til að hann geti sinnt skyldum sínum.
    Vinnsla og meðferð persónuupplýsinga skal vera í samræmi við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
    Seðlabanka Íslands er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd 1. og 2. mgr., þ.m.t. um viðtöku og vinnslu tilkynninga.

113. gr.

Vernd starfsmanns vegna tilkynningar um brot í starfsemi.

    Þeir sem falið hefur verið að taka við tilkynningum skv. 112. gr. og sjá um vinnslu þeirra eru bundnir þagnarskyldu um persónugreinanlegar upplýsingar sem koma fram í tilkynningunum. Þagnarskyldan gildir gagnvart öðrum starfsmönnum fyrirtækisins og einnig utanaðkomandi aðilum. Þó er heimilt að miðla upplýsingum sem lúta þagnarskyldu til Fjármálaeftirlitsins og til lögreglu.
    Tilkynning starfsmanns um brot í starfsemi telst ekki brot á þagnarskyldu. Rekstrarfélag og vörsluaðili skal vernda starfsmann sem í góðri trú hefur tilkynnt um brot skv. 112. gr. gegn því að hann sæti skaðabótaskyldu eða misrétti sem rekja má til tilkynningar hans. Sama gildir um tilkynningar til Fjármálaeftirlitsins skv. 13. gr. a laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998.
    Ef rekstrarfélag eða vörsluaðili brýtur gegn skyldu sinni skv. 2. mgr. skal það greiða starfsmanni skaðabætur samkvæmt almennum reglum. Þetta tekur bæði til beins fjártjóns og miska.
    Skyldur og réttindi samkvæmt þessari grein eru ófrávíkjanleg og óheimilt er að takmarka þau í ráðningarsamningi á milli starfsmanns og fyrirtækis.

B. Úrbætur, viðurlög og opinber birting niðurstaðna.
114. gr.

Úrbótakrafa vegna brots.

    Komi í ljós að ákvæðum laga þessara eða stjórnvaldsfyrirmæla settra með stoð í þeim sé ekki fylgt skal Fjármálaeftirlitið krefjast þess að úr sé bætt innan hæfilegs frests.


115. gr.

Stjórnvaldssektir.

    Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann lögaðila eða einstakling sem brýtur gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara og reglna settra á grundvelli þeirra:
     1.      2. mgr. 4. gr. um tilkynningarskyldu til Fjármálaeftirlitsins um skort á skilyrðum fyrir starfsleyfi.
     2.      3. mgr. 4. gr. um einkarétt á heitinu rekstrarfélag verðbréfasjóða.
     3.      1. mgr. 5. gr. um starfsemi utan starfsheimilda.
     4.      5. mgr. 5. gr. um nýtingu á sameiginlegum atkvæðisrétti.
     5.      6. mgr. 5. gr. um fjárfestingu fyrir hönd viðskiptavinar án fyrir fram samþykkis.
     6.      1. mgr. 6. gr. um upplýsingar með umsókn um starfsleyfi.
     7.      2. mgr. 6. gr. um tilkynningarskyldu til Fjármálaeftirlitsins um breyttar upplýsingar.
     8.      8. gr. um takmörkun á starfsemi rekstrarfélags.
     9.      2. mgr. 11. gr. um hæfi sjóðstjóra.
     10.      3. mgr. 11. gr. um tilkynningarskyldu til Fjármálaeftirlitsins um skipan og breytingar stjórnenda rekstrarfélags.
     11.      13. gr. um virkan eignarhlut.
     12.      15. gr. um almenn skilyrði um skipulagskröfur rekstrarfélaga.
     13.      16. gr. um þagnarskyldu.
     14.      17. gr. um starfskjarastefnu, kaupaukakerfi og starfslokasamninga.
     15.      18. gr. um hagsmunaárekstra.
     16.      19. gr. um áhættustýringu.
     17.      20. gr. um lausafjárstýringu.
     18.      21. gr. um verðmat.
     19.      22. gr. um útvistun á starfsemi rekstrarfélags.
     20.      23. gr. um keðjuútvistun.
     21.      2. mgr. 25. gr. um breytingu á rekstrarfélagi eða vörsluaðila.
     22.      1. mgr. 26. gr. um markaðssetningu verðbréfasjóðs eða UCITS-sjóðs án staðfestingar viðkomandi lögbærs yfirvalds.
     23.      1. mgr. 32. gr. vegna grófra eða ítrekaðra brota á reglum verðbréfasjóðs.
     24.      4. mgr. 32. gr. um tilkynningarskyldu til eigenda hlutdeildarskírteina um breytingar á reglum verðbréfasjóðs.
     25.      38. gr. um tilkynningarskyldu til fyrirtækjaskrár.
     26.      41. gr. um skrá yfir hlutdeildarskírteinishafa.
     27.      42. gr. um staðgreiðslu hlutdeildarskírteina.
     28.      43. gr. um skipan vörsluaðila.
     29.      45. gr. um hlutverk vörsluaðila með tilliti til sjóðstreymis verðbréfasjóðs.
     30.      46. gr. um hlutverk vörsluaðila með tilliti til eigna verðbréfasjóðs.
     31.      47. gr. um hlutverk vörsluaðila með tilliti til ráðstafana vegna eigna verðbréfasjóðs.
     32.      48. gr. um heimildir vörsluaðila til hagnýtingar á eignum í vörslu.
     33.      49. gr. um útvistun verkefna vörsluaðila verðbréfasjóðs.
     34.      50. gr. um hátternisreglur vörsluaðila.
     35.      54. gr. um ársreikninga.
     36.      56. gr. um upplýsingagjöf til fjárfesta.
     37.      57. gr. um markaðsefni til fjárfesta og aðra kynningarstarfsemi.
     38.      58. gr. um upplýsingar í útboðslýsingu.
     39.      59. gr. um lykilupplýsingar.
     40.      64. gr. um fjárfestingarheimildir verðbréfasjóða.
     41.      2. mgr. 65. gr. um bann við fjárfestingu í hrávörum eða heimildarskírteinum fyrir þeim.
     42.      66. gr. um áhættustýringu og önnur skilyrði afleiðuviðskipta verðbréfasjóða.
     43.      67. gr. um hámark fjárfestingar verðbréfasjóða í framseljanlegum verðbréfum, peningamarkaðsgerningum, innlánum og afleiðum.
     44.      68. gr. um vísitölusjóði.
     45.      69. gr. um peningamarkaðssjóði.
     46.      70. gr. um traust verðbréf.
     47.      71. gr. um fjárfestingar í hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu.
     48.      72. gr. um takmarkanir á eignasafni.
     49.      73. gr. um lán og ábyrgðir.
     50.      74. gr. um skortsölu.
     51.      75. gr. um útlánaáhættu vegna verðbréfunar.
     52.      1. mgr. 76. gr. um tilkynningarskyldu til Fjármálaeftirlitsins og ráðstafanir til úrbóta.
     53.      83. gr. um upplýsingar til hlutdeildarskírteinishafa.
     54.      1. og 2. mgr. 89. gr. um fjárfestingarheimildir fylgisjóðs.
     55.      95. gr. um útboðslýsingu fylgisjóðs og aðra upplýsingagjöf.
     56.      96. gr. um upplýsingagjöf fylgisjóðs til hlutdeildarskírteinishafa.
     57.      100. gr. um markaðssetningu íslenskra verðbréfasjóða í öðrum ríkjum innan EES.
     58.      102. gr. um upplýsingagjöf verðbréfasjóða sem markaðssettir eru í öðrum ríkjum innan EES til fjárfesta.
     59.      103. gr. um markaðssetningu hér á landi á verðbréfasjóðum með staðfestu og staðfestingu í öðru ríki innan EES.
     60.      104. gr. um u pplýsingagjöf verðbréfasjóða með staðfestu og staðfestingu innan EES til fjárfesta hér á landi.
     61.      105. gr. um skilyrði þess að rekstrarfélag með staðfestu hér á landi sé heimilt að veita þjónustu í öðrum ríkjum innan EES.
     62.      106. gr. um starfsemi rekstrarfélags hér á landi sem hefur starfsleyfi og staðfestu í öðru ríki innan EES.
     63.      1. mgr. 112. gr. um skyldu til að hafa ferla sem uppfylla skilyrði ákvæðisins.
     64.      1. mgr. 113. gr. um þagnarskyldu vegna tilkynningar um brot í starfsemi.
     65.      121. gr. um sátt.
    Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 100 þús. kr. til 800. millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 500 þús. kr. til 800 millj. kr. eða allt að 10% af heildarveltu samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi lögaðilans eða 10% af síðasta samþykkta samstæðureikningi ef lögaðili er hluti af samstæðu.
    Þrátt fyrir 2. mgr. er heimilt að ákvarða einstaklingi eða lögaðila, sem brýtur gegn lögum þessum eða stjórnvaldsfyrirmælum settum á grundvelli þeirra, stjórnvaldssekt allt að tvöfaldri þeirri fjárhæð sem nemur fjárhagslegum ávinningi af broti.
    Ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins um stjórnvaldssektir eru aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.

116. gr.

Afturköllun starfsleyfis eða staðfestingar.

    Fjármálaeftirlitið getur afturkallað, tímabundið eða varanlega, starfsleyfi rekstrarfélags, staðfestingu verðbréfasjóðs eða heimild vörsluaðila vegna grófra eða ítrekaðra brota á lögum þessum.

117. gr.

Bann við stjórnunarstörfum.

    Brjóti einstaklingur gegn ákvæðum laga þessara getur Fjármálaeftirlitið bannað honum tímabundið eða varanlega, séu brot hans gróf og ítrekuð, að sitja í stjórn eða gegna stjórnunarstörfum hjá rekstrarfélagi.


118. gr.

Ákvörðun stjórnsýsluviðurlaga.

    Við ákvörðun stjórnsýsluviðurlaga samkvæmt þessum kafla, þar á meðal um fjárhæð stjórnvaldssekta, skal tekið tillit til allra atvika sem máli skipta, þ.m.t. eftirfarandi, eftir því sem við á:
     a.      alvarleika brots og hvað brotið hefur staðið lengi,
     b.      ábyrgðar hins brotlega,
     c.      fjárhagsstöðu hins brotlega, sér í lagi með hliðsjón af ársveltu lögaðila eða árstekjum og eignum einstaklings,
     d.      ávinnings hins brotlega af broti eða taps sem hann forðar með broti, þess tjóns sem brotið veldur þriðja aðila og, ef við á, hvers konar mögulegra kerfislegra áhrifa, að því marki sem unnt er að ákvarða það,
     e.      samstarfsvilja hins brotlega,
     f.      fyrri brota hins brotlega, og
     g.      ráðstafana sem hinn brotlegi grípur til eftir brotið til að koma í veg fyrir að brotið verði endurtekið.

119. gr.
Opinber birting stjórnsýsluviðurlaga og annarra ráðstafana vegna brota.

    Fjármálaeftirlitið skal án tafar birta á vef sínum sérhverja niðurstöðu um beitingu stjórnsýsluviðurlaga og annarra ráðstafana vegna brota á ákvæðum laganna, í kjölfar tilkynningar til hins brotlega um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Niðurstaða sem er birt skal að lágmarki innihalda upplýsingar um tegund og eðli brots og nafn hins brotlega.
    Telji Fjármálaeftirlitið að opinber birting á nafni hins brotlega, annarra lögaðila eða einstaklinga sem kemur fram í niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins samræmist ekki meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar eða að birting geti stofnað stöðugleika fjármálamarkaða í hættu eða skaðað yfirstandandi rannsókn getur Fjármálaeftirlitið:
     a.      frestað birtingu niðurstöðunnar þar til ástæður fyrir að birta hana ekki eru ekki lengur til staðar, eða
     b.      birt niðurstöðu án þess að nafngreina hinn brotlega eða aðra lögaðila eða einstaklinga sem koma fram í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.
    Fjármálaeftirlitið getur ákveðið að birta ekki niðurstöðu ef eftirlitið telur að birting skv. 2. mgr. geti stofnað stöðugleika fjármálamarkaða í hættu, skaðað yfirstandandi rannsókn eða ef hún samræmist ekki meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.
    Í tilviki nafnlausrar birtingar niðurstöðu skv. b-lið 2. mgr. er Fjármálaeftirlitinu heimilt að birta nafn viðkomandi þegar ástæður fyrir nafnleynd eiga ekki lengur við.
    Fjármálaeftirlitið skal birta upplýsingar á vef sínum ef höfðað er mál fyrir dómstólum til ógildingar á ákvörðun þess um beitingu viðurlaga vegna brota. Fjármálaeftirlitið skal enn fremur birta upplýsingar um lyktir málsins á hverju dómstigi. Afturkalli Fjármálaeftirlitið ákvörðun sína um beitingu viðurlaga skal stofnunin upplýsa um það á vef sínum.
    Niðurstöður um beitingu stjórnsýsluviðurlaga vegna brota á ákvæðum laganna skulu birtar á vef Fjármálaeftirlitsins í að lágmarki fimm ár. Persónuupplýsingar sem koma fram í niðurstöðunum skulu ekki birtar lengur en málefnalegar ástæður kalla á í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
    Fjármálaeftirlitið skal birta á vef sínum þá stefnu sem eftirlitið fylgir við framkvæmd birtingar samkvæmt þessari grein.

120. gr.
Tilkynningar Fjármálaeftirlitsins til ESMA.

    Fjármálaeftirlitið skal tilkynna ESMA:
     a.      um öll veitt starfsleyfi skv. 4. gr.,
     b.      árlega um eftirlitsaðgerðir og viðurlög sem beitt hefur verið vegna brota á ákvæðum laga þessara,
     c.      um ákvarðanir um viðurlög eða eftirlitsaðgerðir vegna brota á lögum þessum eða stjórnvaldsfyrirmælum sem á þeim byggjast, sbr. 119. gr., en tilkynningin skal fara fram samtímis birtingu skv. 119. gr.,
     d.      um öll stjórnsýsluviðurlög sem beitt er en ekki birtar upplýsingar um í samræmi við 119. gr., þ.m.t. upplýsingar um málsmeðferð dómstóla hvað slíkar ákvarðanir varðar og niðurstöðu slíkra dómsmála, sem og um þau refsiviðurlög sem lögð eru á,
     e.      um flokka skuldabréfa og heimila útgefendur skuldabréfa, sbr. 5. mgr. 67. gr., auk upplýsinga um tryggingar sem settar eru, og
     f.      um fjölda og tegundir tilvika þar sem synjað er um heimild til að stofna útibú skv. 105. gr., til að reka verðbréfasjóð hér á landi þar sem rekstrarfélagið er með staðfestu í öðru ríki innan EES, sbr. 107. gr., og um allar ráðstafanir sem gripið er til skv. 5. mgr. 110. gr.
    Fjármálaeftirlitið skal einnig senda tilkynningar skv. e- og f-lið 1. mgr. til Eftirlitsstofnunar EFTA.

121. gr.
Sátt.

    Hafi aðili gerst brotlegur við ákvæði laga þessara eða ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins á grundvelli þeirra er Fjármálaeftirlitinu heimilt að ljúka málinu með sátt með samþykki málsaðila enda sé ekki um að ræða meiri háttar brot sem refsiviðurlög liggja við. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni.

122. gr.
Saknæmi.

    Stjórnsýsluviðurlögum samkvæmt þessum kafla verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.


123. gr.
Réttur grunaðs manns.

    Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssekta eða kæru til lögreglu hefur einstaklingur, sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot, rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Fjármálaeftirlitið skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.

124. gr.
Frestur til að leggja á stjórnsýsluviðurlög.

    Heimild Fjármálaeftirlitsins til að leggja á stjórnsýsluviðurlög samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
    Frestur skv. 1. mgr. rofnar þegar Fjármálaeftirlitið tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.

125. gr.
Refsing við broti.

    Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn eftirfarandi ákvæðum laga þessara og stjórnvaldsfyrirmæla sem sett eru á grundvelli þeirra:
     1.      1. mgr. 5. gr. um starfsemi utan starfsheimilda.
     2.      21. gr. um verðmat.
     3.      2. mgr. 26. gr. um markaðssetningu verðbréfasjóðs eða UCITS-sjóðs án staðfestingar viðkomandi lögbærs yfirvalds.
     4.      43. gr. um skipan vörsluaðila.
     5.      45.–47. gr. um hlutverk vörsluaðila.
     6.      54. gr. um ársreikninga.
     7.      56.–59. gr. um upplýsingagjöf til fjárfesta.
     8.      64.–76. gr. um fjárfestingarheimildir verðbréfasjóða.
     9.      89. gr. um fjárfestingarheimildir fylgisjóðs.
     10.      96. gr. um upplýsingagjöf fylgisjóðs til hlutdeildarskírteinishafa.
    Brot gegn lögum þessum er varða sektum eða fangelsi varða refsingu hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.
    Heimilt er að gera upptækan með dómi beinan eða óbeinan hagnað sem hlotist hefur af broti gegn ákvæðum laga þessara er varða sektum eða fangelsi.
    Tilraun til brots eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.
    Gera má lögaðila sekt fyrir brot á lögum þessum og reglum settum á grundvelli þeirra óháð því hvort sök verði sönnuð á tiltekinn fyrirsvarsmann lögaðilans, starfsmann hans eða annan aðila sem starfar á hans vegum. Hafi fyrirsvarsmaður lögaðilans, starfsmaður hans eða annar á hans vegum með saknæmum hætti brotið gegn lögum þessum eða reglum settum á grundvelli þeirra í starfsemi lögaðilans má gera honum refsingu, auk þess að gera lögaðilanum sekt.

126. gr.
Kæra til lögreglu.

    Brot gegn lögum þessum sæta aðeins rannsókn lögreglu að undangenginni kæru Fjármálaeftirlitsins.
    Varði meint brot á lögum þessum bæði stjórnsýsluviðurlögum og refsingu metur Fjármálaeftirlitið hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá stofnuninni. Ef brot er meiri háttar ber Fjármálaeftirlitinu að vísa því til lögreglu. Brot telst meiri háttar ef það lýtur að verulegum fjárhæðum, ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins. Jafnframt getur Fjármálaeftirlitið á hvaða stigi rannsóknar sem er vísað máli vegna brota á lögum þessum til rannsóknar lögreglu. Gæta skal samræmis við úrlausn sambærilegra mála.
    Með kæru Fjármálaeftirlitsins skulu fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot er studdur við. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, gilda ekki um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að kæra mál til lögreglu.
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 2. mgr. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að taka þátt í aðgerðum lögreglu sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í 2. mgr.
    Lögreglu og ákæruvaldi er heimilt að láta Fjármálaeftirlitinu í té upplýsingar og gögn sem þau hafa aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 2. mgr., bæði til eigin nota eða fyrir önnur lögbær yfirvöld og Eftirlitsstofnun EFTA til að geta uppfyllt skuldbindingar um samstarf þessara stjórnvalda. Lögreglu er heimilt að taka þátt í aðgerðum Fjármálaeftirlitsins sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í 2. mgr.
    Telji ákærandi að ekki séu efni til málshöfðunar vegna meintrar refsiverðrar háttsemi sem jafnframt varðar stjórnsýsluviðurlögum getur hann sent eða endursent málið til Fjármálaeftirlitsins til meðferðar og ákvörðunar.

C. Samstarf lögbærra yfirvalda innan EES.

127. gr.

Samstarf við lögbær yfirvöld innan EES.

    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að leita aðstoðar og samstarfs við lögbær yfirvöld annarra ríkja innan EES ef nauðsynlegt er til þess að Fjármálaeftirlitinu sé unnt að sinna skyldum sínum við framkvæmd eftirlits. Fjármálaeftirlitinu er einnig heimilt að leita samstarfs við lögbær yfirvöld til að auðvelda innheimtu stjórnvaldssekta á grundvelli laga þessara.
    Fjármálaeftirlitið skal eiga samstarf við lögbær yfirvöld annarra ríkja innan EES og við Eftirlitsstofnun EFTA og ESMA sé það nauðsynlegt til þess að allar framangreindar stofnanir geti sinnt skyldum sínum við framkvæmd eftirlits. Við beitingu heimilda samkvæmt hluta þessa kafla skal Fjármálaeftirlitið leitast við að eiga náið samstarf við önnur lögbær yfirvöld til að tryggja að heimildirnar skili þeim árangri sem stefnt er að með lögum þessum.
    Fjármálaeftirlitinu ber að afhenda upplýsingar og gögn án tafar til lögbærra yfirvalda annarra ríkja innan EES, Eftirlitsstofnunar EFTA og ESMA sem nauðsynlegar eru fyrir þær stofnanir til að sinna skyldum sínum samkvæmt ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/65/EB.
    Þar sem rekstrarfélag starfar í fleiri en einu ríki innan EES skulu lögbær yfirvöld allra viðkomandi ríkja eiga í nánu samstarfi. Að fram kominni beiðni þar um skulu þau sjá hvert öðru fyrir öllum þeim upplýsingum sem varða rekstur og eignarhald rekstrarfélags sem eru líklegar til að einfalda eftirlit þeirra með viðkomandi rekstrarfélagi. Sérstaklega skal Fjármálaeftirlitið þegar um er að ræða rekstrarfélag með starfsleyfi hér á landi eiga samstarf til að tryggja að lögbær yfirvöld í gistiríki geti safnað upplýsingum vegna eftirlits þess með því rekstrarfélagi.
    Þegar rekstrarfélag er með starfsleyfi hér á landi skal Fjármálaeftirlitið án tafar tilkynna lögbærum yfirvöldum í heimaríki verðbréfasjóðs verði Fjármálaeftirlitið vart við vandkvæði hjá rekstrarfélaginu sem geta haft veigamikil áhrif á getu þess til að sinna skyldum sínum að því er varðar verðbréfasjóðinn eða hvers konar brot gegn II. og III. kafla.
    Þegar verðbréfasjóður er með staðfestingu og staðfestu hér á landi og Fjármálaeftirlitið hefur orðið vart við vandkvæði hjá sjóðnum, sem gætu haft veigamikil áhrif á getu rekstrarfélags sjóðsins til að sinna skyldum sínum eða uppfylla kröfur tilskipunarinnar, sem falla undir ábyrgðarsvið Fjármálaeftirlitsins, skal eftirlitið án tafar tilkynna lögbærum yfirvöldum í heimaríki rekstrarfélags þar um.
    Lögbæru yfirvaldi heimaríkis rekstrarfélags sem veitir þjónustu hér á landi í gegnum útibú er heimilt, að undangenginni tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins, að framkvæma, sjálft eða umboðsmaður af þess hálfu, vettvangsathugun til að sannreyna þær upplýsingar sem veittar eru skv. 4.–6. mgr. Hefur þessi heimild ekki áhrif á rétt Fjármálaeftirlitsins til að framkvæma vettvangsathuganir hjá útibúum rekstrarfélaga hér á landi sem hafa staðfestu í öðru ríki innan EES vegna eftirlits samkvæmt lögum þessum.
    Hafi Fjármálaeftirlitið gilda ástæðu til að ætla að rekstrarfélag sem ekki fellur undir eftirlit þess hafi sýnt af sér háttsemi sem fer gegn ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/65/EB í öðru ríki EES skal það tilkynna lögbærum yfirvöldum í viðkomandi ríki þar um. Taki Fjármálaeftirlitið við slíkri tilkynningu vegna rekstrarfélags með staðfestu hér á landi skal það grípa til viðeigandi aðgerða og tilkynna því lögbæra yfirvaldi annars ríkis innan EES sem sendi tilkynninguna um niðurstöður aðgerða og, eftir því sem unnt er, um mikilvæga þætti í framvindu málsins.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um upplýsingaskipti milli lögbærra yfirvalda og milli Fjármálaeftirlitsins og ESMA.

128. gr.
Samstarf við eftirlit.

    Fjármálaeftirlitið skal, berist beiðni um aðstoð við vettvangsathugun eða rannsókn frá lögbæru yfirvaldi í öðru ríki innan EES:
     a.      framkvæma vettvangsathugun eða rannsókn,
     b.      heimila viðkomandi lögbæru yfirvaldi að framkvæma vettvangsathugun eða rannsókn eða
     c.      heimila endurskoðendum eða öðrum sérfræðingum að framkvæma vettvangsathugun eða rannsókn.
    Framkvæmi Fjármálaeftirlitið vettvangsathugun eða rannsókn hér á landi, sbr. a-lið 1. mgr., getur viðkomandi lögbært yfirvald óskað eftir þátttöku starfsmanna þess í þeim aðgerðum. Fjármálaeftirlitið hefur eftir sem áður yfirumsjón með og ber ábyrgð á aðgerðunum. Framkvæmi viðkomandi lögbært yfirvald aðgerðir skv. b-lið 1. mgr. getur Fjármálaeftirlitið óskað eftir þátttöku starfsmanna þess í aðgerðunum.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um ferla við samstarf lögbærra yfirvalda um vettvangsathuganir eða rannsóknir.

129. gr.
Upplýsingaskipti innan EES og þagnarskylda.

    Upplýsingagjöf rekstrarfélaga með staðfestu hér á landi og Fjármálaeftirlitsins til lögbærra yfirvalda innan EES, ESMA og Eftirlitsstofnunar EFTA á grundvelli laga þessara fer eftir ákvæðum laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði og laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    Upplýsingaskipti á milli Fjármálaeftirlits, evrópskra eftirlitsstofnana, Eftirlitsstofnunar EFTA og lögbærra yfirvalda í öðrum ríkjum innan EES skulu háð þagnarskyldu.
    Fjármálaeftirlitinu ber við upplýsingaskipti að fylgja lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem gilda um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
    Taki Fjármálaeftirlitið á móti upplýsingum sem háðar eru þagnarskyldu samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/65/EB um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum að því er varðar verðbréfasjóði (UCITS) er einungis heimilt að nýta þær í eftirfarandi tilgangi:
     a.      að kanna hvort starfsskilyrði verðbréfasjóðs eða aðila sem tekur þátt í starfseminni séu uppfyllt og til að einfalda eftirlit með starfsháttum, stjórnarháttum, bókhaldsferlum og innra eftirliti,
     b.      við álagningu stjórnvaldssekta,
     c.      vegna stjórnsýslukæru á ákvörðun lögbærs yfirvalds, og
     d.      vegna meðferðar máls samkvæmt lögum þessum eða reglum settum með stoð í þeim fyrir dómstólum.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um upplýsingaskipti milli lögbærra yfirvalda og milli Fjármálaeftirlitsins og ESMA.

130. gr.

Synjun beiðni um upplýsingaskipti eða samstarf.

    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að hafna beiðni um upplýsingar eða beiðni um samstarf við rannsókn skv. 127. gr. í eftirfarandi tilvikum:
     a.      sending viðeigandi upplýsinga gæti haft skaðleg áhrif á öryggi landsins, einkum aðgerðir gegn hryðjuverkum og öðrum alvarlegum afbrotum,
     b.      það að verða við beiðninni er líklegt til að hafa skaðleg áhrif á rannsókn Fjármálaeftirlitsins, fullnustuaðgerðir eða rannsókn sakamáls,
     c.      beiðni varðar sömu háttsemi og sömu aðila í máli sem þegar er til meðferðar hjá íslenskum dómstólum, eða
     d.      beiðni varðar sömu háttsemi og sömu aðila í máli þar sem endanleg niðurstaða liggur fyrir hjá íslenskum dómstólum.
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að hafna beiðni um aðstoð við eftirlit skv. 128. gr. eða upplýsingaskipti skv. 129. gr. ef:
     1.      rannsókn, vettvangsathugun eða upplýsingagjöf gætu haft neikvæð áhrif á fullveldi, öryggi eða allsherjarreglu,
     2.      beiðni varðar sömu háttsemi og sömu aðila í máli sem þegar er til meðferðar hjá íslenskum dómstólum, eða
     3.      beiðni varðar sömu háttsemi og sömu aðila í máli þar sem endanleg niðurstaða liggur fyrir hjá íslenskum dómstólum.
    Fjármálaeftirlitið skal tilkynna lögbæra yfirvaldinu sem beiðnin barst frá um höfnun á grundvelli 2. mgr. ásamt upplýsingum um ástæður hennar.

131. gr.
Úrlausn ágreinings á milli lögbærra yfirvalda innan EES.

    Fjármálaeftirlitið getur vísað máli til Eftirlitsstofnunar EFTA, sem varðar beiðni um upplýsingaskipti, vettvangsathugun, rannsókn eða þátttöku starfsmanna Fjármálaeftirlitsins í aðgerð annars lögbærs yfirvalds skv. 127.–129. gr., þegar beiðni hefur verið hafnað eða ekki hefur verið gripið til aðgerða innan eðlilegra tímamarka.
    Um málsmeðferðina, sem getur leitt til bindandi ákvörðunar gagnvart Fjármálaeftirlitinu, fer skv. 19. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1095/2010, sbr. lög um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.
    Vísi lögbært yfirvald annars ríkis innan EES ágreiningi við Fjármálaeftirlitið til Eftirlitsstofnunar EFTA, eða eftir atvikum til ESMA, vegna aðgerða Fjármálaeftirlitsins á grundvelli laga þessara skal úrlausn Eftirlitsstofnunar EFTA í slíku máli vera bindandi fyrir Fjármálaeftirlitið.

XIV. KAFLI

Önnur ákvæði.

132. gr.

Úrskurðaraðilar.

    Rekstrarfélag skal hafa aðgengilegar upplýsingar um úrskurðar- og réttarúrræði ef ágreiningur rís milli þess og neytenda, m.a. um málskot til úrskurðaraðila samkvæmt lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendamála.

133. gr.
Aðfararhæfi.

    Ákvarðanir Eftirlitsstofnunar EFTA samkvæmt lögum þessum eru aðfararhæfar, sem og dómar og úrskurðir EFTA-dómstólsins.

134. gr.
Stjórnvaldsfyrirmæli.

    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara, þar á meðal um:
     1.      Merkingu hugtaka samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. gr.
     2.      Almenn skilyrði fyrir starfsemi rekstrarfélags, þar á meðal um viðmið fyrir eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, um meðferð kvartana, rafræna gagnavinnslu, bókhaldsaðferðir, eftirlit stjórnar, framkvæmdastjóra og eftirlitsaðila, regluvörslu, innri endurskoðun, hagsmunaárekstra, skráningu viðskipta, skráningu áskrifta og innlausna, meðferð skráðra upplýsinga og um áreiðanleikakannanir vegna fjárfestinga og við val á mótaðilum og aðalmiðlurum, sbr. 15. gr.
     3.      Stefnu um hagsmunaárekstra, tegundir hagsmunaárekstra, aðgerðir rekstrarfélaga verðbréfasjóða og tiltækar ráðstafanir rekstrarfélaga verðbréfasjóða við að greina, koma í veg fyrir, stýra, vakta og birta upplýsingar um hagsmunaárekstra, sbr. 18. gr.
     4.      Áhættustýringu verðbréfasjóða, svo sem um eftirlitskerfi með áhættustýringu sem rekstrarfélög verðbréfasjóða skulu nota í tengslum við þá áhættuþætti sem sjóðir sem þeir stýra verða eða gætu orðið fyrir, sbr. 19. gr.
     5.      Lausafjárstýringu, sbr. 20. gr.
     6.      Viðmið fyrir verðmatsferla, sbr. 21. gr.
     7.      Skilyrði sem þarf að uppfylla varðandi útvistun, þar á meðal um hlutlægar ástæður fyrir útvistun, þekkingu, reynslu og getu útvistunaraðila, útvistun áhættu- eða eignastýringar sjóðs, skilvirkt eftirlit, hagsmunaárekstra og keðjuútvistun, og enn fremur um hvenær útvistun telst vera það víðtæk að rekstrarfélag telst ekki lengur stýra verðbréfasjóði, sbr. 22. gr.
     8.      Framkvæmd 2. mgr. 26. gr., svo sem um umsókn rekstrarfélags með staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan EES um staðfestingu verðbréfasjóðs hér á landi.
     9.      Samning á milli rekstrarfélags og vörsluaðila, sbr. 43. gr.
     10.      Hlutverk vörsluaðila og skilyrði fyrir framkvæmd verkefna vörsluaðila, m.a. um tegundir fjármálagerninga sem skulu vera í vörslu, sbr. 45.–47. gr.
     11.      Útvistun verkefna vörsluaðila, m.a. um aðgreiningu eigna, sbr. 49. gr.
     12.      Óhæði vörsluaðila, sbr. 50. gr.
     13.      Ábyrgð vörsluaðila, svo sem skilyrði og aðstæður þar sem litið er á fjármálagerninga í vörslu glataða og þær aðstæður sem geta talist til utanaðkomandi aðstæðna sem ekki er hægt með sanngirni að ætlast til að vörsluaðili hafi haft stjórn á, sbr. 51. gr.
     14.      Skilyrði sem þarf að uppfylla þegar lykilupplýsingar eru veittar á varanlegum miðli öðrum en pappír, eða á vef sem ekki telst vera varanlegur miðill, sbr. 56. gr.
     15.      Útboðslýsingar, m.a. um hvaða upplýsingar skuli birta í útboðslýsingum verðbréfasjóða, sbr. 58. gr.
     16.      Framkvæmd 59. gr., svo sem um inntak og framsetningu lykilupplýsinga.
     17.      Útreikning á virði hlutdeildarskírteina verðbréfasjóða og kostnað við kaup og sölu þeirra, sbr. 62. gr.
     18.      Fjárfestingarheimildir verðbréfasjóða og um afmörkun fjárfestingarstefnu verðbréfasjóða og upplýsingagjöf til viðskiptavina í tengslum við fjárfestingar, sbr. 64. gr.
     19.      Áhættustýringu verðbréfasjóða, svo sem um mat rekstrarfélags á virði afleiðna, um efni og verklag við tilkynningarskyldu til Fjármálaeftirlitsins á tegundum afleiðna, undirliggjandi áhættu, magnbundnum takmörkum og aðferðum sem hafa verið valdar til að meta áhættu sem tengist viðskiptum með afleiður og um heildaráhættu verðbréfasjóðs vegna afleiðna, og einnig um fjárfestingaraðferðir sem heimilt er að nota, sbr. 66. gr.
     20.      Kröfur sem útgefandi þarf að uppfylla til að rekstrarfélag hafi heimild til að fjárfesta í skuldabréfavafningum eða sambærilegum fjármálagerningum skv. 75. gr. og einnig um þær eigindlegu kröfur sem rekstrarfélög verðbréfasjóða sem fjárfesta skv. 75. gr. þurfa að uppfylla.
     21.      Samruna verðbréfasjóða, sbr. X. kafla.
     22.      Innihald, uppsetningu og aðferð við veitingu upplýsinga til hlutdeildarskírteinishafa, sbr. 83. gr.
     23.      Skipan höfuðsjóða og fylgisjóða, sbr. XI. kafla.
     24.      Innihald samkomulags og innri viðskiptareglna og þær viðeigandi ráðstafanir til að samræma tímasetningu útreikninga og birtingu upplýsinga þar um, sbr. 91. gr.
     25.      Nauðsynlegt samþykki í þeim tilvikum þegar til félagsslita, samruna eða skiptingar höfuðsjóðs kemur, sbr. 92. gr.
     26.      Efnisatriði samkomulags um upplýsingaskipti vörsluaðila og ráðstafanir og tegundir frávika frá réttri framkvæmd, sbr. 93. gr.
     27.      Efnisatriði samkomulags um upplýsingaskipti endurskoðenda, sbr. 94. gr.
     28.      Uppsetningu og aðferð vegna upplýsingagjafar til hlutdeildarskírteinishafa fylgisjóðs og aðferð við mat og endurskoðun framlags í þeim tilvikum þegar fylgisjóður færir allar eða hluta eigna sinna til höfuðsjóðs í skiptum fyrir hluti, sem og hlutverk vörsluaðila fylgisjóðs við slíka tilfærslu, sbr. 96. gr.
     29.      Framkvæmd 100. gr., svo sem um aðgengi lögbærra yfirvalda í gistiríki að upplýsingum og gögnum samkvæmt ákvæðinu og uppsetningu og innihald staðlaðrar tilkynningar til notkunar fyrir verðbréfasjóði vegna tilkynningar samkvæmt ákvæðinu, þar á meðal hvaða skjöl þurfi að þýða á önnur tungumál; einnig um uppsetningu og innihald staðfestingar Fjármálaeftirlits skv. 4. og 5. mgr. 100. gr., verklag við upplýsingaskipti og notkun rafrænna samskipta á milli lögbærra yfirvalda vegna tilkynningar skv. 100. gr.
     30.      Umfang upplýsinga, sem Fjármálaeftirlitinu ber að birta á vef, um gildandi rétt varðandi markaðssetningu verðbréfasjóða með staðfestu og staðfestingu í öðru ríki innan EES hér á landi, sbr. 103. gr.
     31.      Upplýsingaskipti milli lögbærra yfirvalda og milli Fjármálaeftirlitsins og ESMA, sbr. 127. gr.
     32.      Ferla við samstarf lögbærra yfirvalda um vettvangsathuganir eða rannsóknir, sbr. 128. gr.
     33.      Upplýsingaskipti milli lögbærra yfirvalda og milli Fjármálaeftirlitsins og ESMA, sbr. 129. gr.
    Seðlabanka Íslands er heimilt að setja reglur um:
     1.      Upplýsingar sem veita skal í umsókn um starfsleyfi rekstrarfélags, sbr. 6. gr.
     2.      Nánari kröfur vegna virkra eignarhluta, þ.m.t. kröfur til þeirra sem fara með virkan eignarhlut, og hindranir sem geta staðið í vegi fyrir skilvirku eftirliti, sbr. 7. gr.
     3.      Skilyrði varðandi náin tengsl, sbr. 6.–7. tölul. 1. mgr. 7. gr.
     4.      Eyðublöð, form og málsmeðferðir fyrir tilkynningar eða upplýsingagjöf, sbr. 6. og 7. tölul. 1. mgr. 7. gr.
     5.      Upplýsingar vegna tilkynningar um ákvörðun um starfsleyfi, sbr. 9. gr.
     6.      Hæfisskilyrði stjórnarmanna og framkvæmdastjóra, þar á meðal um hvað felst í fullnægjandi þekkingu, hæfni og reynslu, góðu orðspori og fjárhagslegu sjálfstæði, og um hvernig staðið skuli að hæfismati, sbr. 1. mgr. 11. gr.
     7.      Eyðublöð, form og málsmeðferðir fyrir samráð milli viðkomandi lögbærra yfirvalda í tengslum við öflun virkra eignarhluta, sbr. 13. gr.
     8.      Hvað teljast eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir rekstrarfélaga samkvæmt lögum þessum. Í reglunum skal m.a. kveðið á um almenn samskipti rekstrarfélaga við fjárfesta, upplýsingagjöf til fjárfesta og meðhöndlun kvartana, sbr. 15. gr.
     9.      Starfskjarastefnu og kaupaukakerfi, sbr. 17. gr.
     10.      Upplýsingar sem skulu koma fram í umsókn um staðfestingu verðbréfasjóðs, sbr. 27. gr.
     11.      Innihald og uppsetningu ársreikninga og árshlutareikninga rekstrarfélaga og verðbréfasjóða, sbr. 54. gr.
     12.      Skilyrði frestunar innlausna hlutdeildarskírteina í verðbréfasjóði, sbr. 61. gr.
     13.      Skilyrði lántöku verðbréfasjóðs eða vörsluaðila fyrir hönd sjóðs, sbr. 73. gr.
     14.      Upplýsingar sem skal tilkynna og staðlað sniðmát og verklag við sendingu upplýsinga, sbr. 105. gr.
     15.      Upplýsingar sem veita skal lögbærum yfirvöldum við umsókn um leyfi til að reka verðbréfasjóði með staðfestu í öðru ríki innan EES og um eyðublöð, form og málsmeðferð vegna afhendingar upplýsinga, sbr. 107. gr.
     16.      Ferla og sniðmát fyrir sendingu upplýsinga til ESMA, sbr. 120. gr.
     17.      Lok mála vegna brota gegn lögum þessum með sátt, sbr. 121. gr.

135. gr.
Innleiðing.

    Með lögum þessum eru eftirfarandi tilskipanir innleiddar:
     1.      Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2007/16/EB frá 19. mars 2007 um framkvæmd tilskipunar ráðsins 85/611/EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (UCITS) að því er varðar útskýringu á tilteknum skilgreiningum, eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 114/2007 sem birt var 21. febrúar 2008.
     2.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/65/EB frá 13. júlí 2009 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum að því er varðar verðbréfasjóði (UCITS), eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 120/2010 sem birt var 3. mars 2011.
     3.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/14/ESB frá 21. maí 2013 um breytingu á tilskipun 2003/41/EB um starfsemi og eftirlit með stofnunum sem sjá um starfstengdan lífeyri, tilskipun 2009/65/EB um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um verðbréfasjóði (UCITS) og tilskipun nr. 2011/61/ESB um rekstraraðila sérhæfðra sjóða að því er varðar oftraust á lánshæfismöt, eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 20/2018 sem birt var 12. desember 2019.
     4.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/91/ESB frá 23. júlí 2014 um breytingu á tilskipun 2009/65/EB um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um verðbréfasjóði (UCITS) að því er varðar störf vörsluaðila, starfskjarastefnu og viðurlög, eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 20/2018 sem birt var 12. desember 2019.
     5.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/78/ESB frá 24. nóvember 2010 um breytingu á tilskipunum 98/26/EB, 2002/87/EB, 2003/6/EB, 2003/41/EB, 2003/71/EB, 2004/39/ EB, 2004/109/EB, 2005/60/EB, 2006/48/EB, 2006/49/EB og 2009/65/EB að því er varðar valdsvið Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópska bankaeftirlitsstofnunin), Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin) og Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin), eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2018 sem birt var 15. október 2020.

136. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. september 2021. Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um verðbréfasjóði, nr. 128/2011.
    Félög sem við gildistöku laga þessara hafa starfsleyfi og starfsheimildir sem rekstrarfélög verðbréfasjóða á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki skulu teljast hafa starfsleyfi og sambærilegar starfsheimildir sem rekstrarfélög verðbréfasjóða á grundvelli þessara laga.
    Þrátt fyrir 1. mgr. skulu rekstrarfélag verðbréfasjóða og vörsluaðilar sjóðanna uppfylla kröfur 2. mgr. 15. gr. um stjórnarmenn eigi síðar en 1. júní 2022.

137. gr.

Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, nr. 45/2020:
                  a.      Í stað orðsins „Fjárfestingarsjóður“ í 8. tölul. 1. mgr. 3. gr., 2. og 3. mgr. 80. gr., 2. tölul. 3. mgr. 82. gr., 1. mgr. 85. gr., 1. tölul. 4. mgr. 86. gr., 4. mgr. 92. gr., 1. málsl. 3. mgr. 95. gr. og 41. tölul. 1. mgr. 101. gr. laganna kemur: sérhæfður sjóður fyrir almenna fjárfesta.
                  b.      Í stað orðanna „Sérhæfður sjóður“ í 16. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna kemur: Sjóður um sameiginlega fjárfestingu.
                  c.      Í stað orðsins „fjárfestingarsjóðs“ í 30. tölul. 1. mgr. 3. gr., 1. málsl. og 3. tölul. 3. mgr. og 1. málsl. 5. mgr. 82. gr., 1. og 2. mgr. 85. gr., 1. og 2. málsl. 1. mgr. og 3. tölul. 4. mgr. 86. gr., 3. málsl. 1. mgr. 87. gr., 1. mgr. og 1. málsl. 2. mgr. 88. gr., 1. málsl. og 3. málsl. 5. tölul. 89. gr., 2. málsl. 4. tölul. 1. mgr. og 2. og 3. málsl. 6. mgr. 93. gr., 1. mgr. 96. gr. og 42., 45. og 47.–50. tölul. 1. mgr. 101. gr. laganna kemur: sérhæfðs sjóðs fyrir almenna fjárfesta.
                  d.      Í stað orðsins „fjárfestingarsjóð“ í 30. tölul. 1. mgr. 3. gr., 78. gr., 3. málsl. 5. mgr. 82. gr. og 1. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 86. gr. laganna kemur: sérhæfðan sjóð fyrir almenna fjárfesta.
                  e.      Á eftir 4. mgr. 7. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                     Skráður rekstraraðili skv. 1. mgr. skal upplýsa Fjármálaeftirlitið án tafar um nýjan sjóð í rekstri hans.
                  f.      Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
                a.    B-liður 1. tölul. 2. mgr. orðast svo: Þjónusta vegna fyrirspurna viðskiptavina.
                b.    Í stað orðanna „sérhæfðra sjóða“ í 7. mgr. kemur: sjóða um sameiginlega fjárfestingu.
                  g.      Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
                a.    Við 1. mgr. bætast þrír nýir töluliðir, svohljóðandi:
                    7.    samþykktir félags,
                    8.    staðfesting endurskoðanda á innborgun hlutafjár,
                    9.    upplýsingar um náin tengsl milli rekstraraðila og annarra aðila, sbr. 22. tölul. 1. mgr. 3. gr.
                b.    Orðin „með starfsleyfi samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki“ í 3. mgr. falla brott.
                  h.      Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
                a.    Á eftir tilvísuninni „1.–4. tölul.“ í 2. mgr. kemur: og 6.–9. tölul.
                b.    Í stað tilvísunarinnar „5. tölul.“ í 3. mgr. kemur: 5. og 6. tölul.
                  i.      Á eftir orðinu „Stofnframlag“ í 1. og 2. mgr. 15. gr. laganna kemur: og eiginfjárgrunnur.
                  j.      Á eftir 1. mgr. 19. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                     Meiri hluti stjórnarmanna rekstraraðila sem reka sérhæfðan sjóð fyrir almenna fjárfesta skv. X. kafla skal vera óháður móðurfélagi og vörsluaðila sjóðanna. Stjórnarmaður rekstraraðila sem rekur sérhæfðan sjóð fyrir almenna fjárfesta skv. X. kafla má ekki vera stjórnarmaður eða lykilstarfsmaður móðurfélags rekstraraðilans eða í stjórn eða starfsmaður vörsluaðila sjóðanna. Stjórnarmaður vörsluaðila sérhæfðra sjóða fyrir almenna fjárfesta skv. X. kafla má ekki vera stjórnarmaður eða starfsmaður rekstraraðila sjóðanna.
                  k.      Í stað orðsins „verðbréfaviðskipti“ í 1. málsl. 1. mgr. 24. gr. laganna kemur: fjármálafyrirtæki.
                  l.      Við 7. mgr. 29. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra er einnig heimilt að setja reglugerð um hvenær útvistun telst vera það víðtæk að rekstraraðili teljist ekki lengur stýra sérhæfðum sjóði.
                  m.      4. mgr. 30. gr. laganna fellur brott.
                  n.      Eftirfarandi breytingar verða á 33. gr. laganna:
                a.    Í stað 2. málsl. 2. tölul. 1. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Verðbréfafyrirtæki skal lúta eiginfjárkröfum samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, þar á meðal vegna rekstraráhættu. Skal eiginfjárgrunnur þess að lágmarki nema fjárhæð stofnframlags skv. 2. mgr. 14. gr. a laga um fjármálafyrirtæki.
                b.    Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                         Þrátt fyrir 2. tölul. 1. mgr. skulu verðbréfafyrirtæki, sem óska þess að gerast vörsluaðilar sérhæfðra sjóða fyrir almenna fjárfesta, sbr. X. kafla, uppfylla skilyrði sem vörsluaðili verðbréfasjóða samkvæmt lögum um verðbréfasjóði.
                  o.      Í stað orðsins „fjárfestingarsjóði“ í 2. mgr. 45. gr., 1. málsl. 81. gr., 2. mgr. 84. gr., 6. mgr. 86. gr., 2. málsl. og 2. málsl. 3. tölul. 89. gr., 90. gr., 1. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 91. gr., 1. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 92. gr., 1. málsl. og 5. tölul. 1. mgr. og 1. málsl. 6. mgr. 93. gr., 94. gr. og 1. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 95. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: sérhæfðan sjóð fyrir almenna fjárfesta; og í stað sama orðs í 1. málsl. og fyrirsögn 83. gr. laganna kemur: sérhæfða sjóði fyrir almenna fjárfesta.
                  p.      Á eftir 45. gr. laganna kemur ný grein, 45. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Upplýsinga- og tilkynningarskylda endurskoðanda.

                     Endurskoðanda er skylt að veita Fjármálaeftirlitinu upplýsingar um framkvæmd og niðurstöður endurskoðunar sé þess óskað.
                     Endurskoðanda er skylt að gera Fjármálaeftirlitinu tafarlaust viðvart fái hann vitneskju í starfi sínu fyrir rekstraraðila sérhæfðra sjóða eða aðila sem er í nánum tengslum við hann um atriði eða ákvarðanir sem:
                a.    fela í sér veruleg brot á löggjöf eða reglum sem gilda um starfsemi rekstraraðilans eða hvers konar brot sem koma til skoðunar á grundvelli 18. gr.,
                b.    kunna að hafa áhrif á áframhaldandi starfsemi rekstraraðilans, þ.m.t. atriði sem hafa verulega þýðingu fyrir fjárhagsstöðu hans,
                c.    leitt geta til þess að endurskoðandi mundi synja um áritun eða gera fyrirvara við ársreikning rekstraraðilans eða sérhæfðra sjóða í rekstri hans.
                     Endurskoðandi skal gera stjórn rekstraraðila viðvart um tilkynningu skv. 2. mgr. nema rík ástæða sé til þess að gera það ekki.
                     Upplýsingar sem endurskoðandi veitir Fjármálaeftirlitinu samkvæmt ákvæðum þessarar greinar teljast ekki brot á lögbundinni eða samningsbundinni þagnarskyldu endurskoðanda.
                  q.      Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 64. gr. laganna:
                a.    Í stað tilvísunarinnar „skv. 1. mgr.“ kemur: skv. 1. og 2. mgr.
                b.    Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Fjármálaeftirlitið getur afturkallað heimild til markaðssetningar skv. 2. mgr. uppfylli rekstraraðili ekki lengur skilyrðin fyrir heimildinni til markaðssetningar.
                  r.      Í stað orðsins „fjárfestingarsjóða“ í 3. og 4. tölul. 1. mgr. 65. gr., 79. gr., 4. mgr. 80. gr., 3. og 4. mgr. 86. gr., 1. málsl. 1. mgr. og 1. málsl. 2. mgr. 87. gr., 2. tölul. 89. gr., 40. og 44. tölul. 1. mgr. 101. gr., 9. tölul. 106. gr. og 3. og 4. tölul. 1. mgr. og 10. tölul. 2. mgr. 117. gr. laganna kemur: sérhæfðra sjóða fyrir almenna fjárfesta.
                  s.      Við 70. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Rekstraraðili ber ábyrgð á rekstri hlutdeildarsjóða og sjóðsdeilda og kemur fram fyrir þeirra hönd.
                  t.      Við 79. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                     Allir sem eiga hlutdeild að sérhæfðum sjóði fyrir almenna fjárfesta eða einstakri deild hans eiga sama rétt til tekna og eigna sjóðsins, eða viðkomandi deildar, í hlutfalli við hlutdeild sína og eru hlutdeildarskírteinin staðfesting á tilkalli til eignarhlutdeildar.
                  u.      Í stað orðsins „fjárfestingarsjóðum“ í 1. og 2. mgr. 80. gr., 2. mgr. 84. gr., 2. tölul. 89. gr. og 8. tölul. 106. gr. laganna kemur: sérhæfðum sjóðum fyrir almenna fjárfesta.
                  v.      Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 82. gr. laganna:
                a.    Í stað orðsins „fjárfestingarsjóðurinn“ í 3. tölul. kemur: sérhæfði sjóðurinn fyrir almenna fjárfesta.
                b.    Í stað 4. og 5. tölul. kemur einn nýr töluliður, svohljóðandi: hafi staðfesting fengist á grundvelli rangra upplýsinga eða á annan óeðlilegan hátt.
                  w.      Í stað orðsins „fjárfestingarsjóðir“ í 1. málsl. 1. mgr. 84. gr., 2. tölul. 89. gr. og 3. mgr. 92. gr. laganna kemur: sérhæfðir sjóðir fyrir almenna fjárfesta.
                  x.      Á eftir 88. gr. laganna kemur ný grein, 88. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Þóknun.

                     Ef sérhæfður sjóður fyrir almenna fjárfesta fjárfestir í hlutdeildarskírteinum sjóða um sameiginlega fjárfestingu, sem stjórnað er beint eða með umboði af sama rekstraraðila, eða öðru félagi sem rekstraraðili tengist í gegnum sameiginlegan rekstur eða stjórnendur, eða með umtalsverðri beinni eða óbeinni eignarhlutdeild, er rekstraraðilanum ekki heimilt að taka þóknun fyrir áskrift eða innlausn fyrir fjárfestingu í sjóðunum.
                  y.      Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 89. gr. laganna:
                a.    Í stað orðsins „fjárfestingarsjóðsins“ í 2. tölul. kemur: sérhæfða sjóðsins fyrir almenna fjárfesta.
                b.    Við 1. málsl. 4. tölul. bætist: eða hafa verið skráðar eða teknar til viðskipta á skipulegum markaði í ríki utan EES eða ganga kaupum og sölum á öðrum markaði í ríki utan EES sem er opinn almenningi, starfar reglulega, lýtur opinberu eftirliti og er viðurkenndur með þeim hætti sem Fjármálaeftirlitið metur gildan.
                c.    Í stað orðsins „fjárfestingarsjóðnum“ í 2. málsl. 4. tölul. og 2. málsl. 5. tölul. kemur: sérhæfða sjóðnum fyrir almenna fjárfesta.
                  z.      Fyrirsögn X. kafla laganna verður: Sérhæfðir sjóðir fyrir almenna fjárfesta.
                  aa.      1. mgr. 95. gr. laganna orðast svo:
                     Sérhæfðum sjóði fyrir almenna fjárfesta er óheimilt að veita lán eða ganga í ábyrgð fyrir aðra, sbr. þó 89. og 92. gr. Þó er heimilt að beita fjárfestingaraðferðum sem snúa að framseljanlegum verðbréfum og peningamarkaðsgerningum í þeim tilgangi að ná fram skilvirkri stýringu eigna sjóðsins. Feli fjárfestingaraðferðin í sér afleiðu skulu önnur ákvæði laga þessara sem snúa að notkun afleiðna gilda um afleiðuna. Fjárfestingaraðferðir skv. 2. og 3. málsl. skulu ávallt vera í samræmi við fjárfestingarstefnu og markmið sjóðsins.
                  bb.      Í stað „1. og 2. mgr. 19. gr.“ í 3. tölul. 1. mgr. 97. gr. laganna kemur: 1. og 3. mgr. 19. gr.
                  cc.      Í stað tilvísunarinnar „2. mgr.“ í 5. mgr. 98. gr. laganna kemur: 3. mgr.
                  dd.      Á eftir 100. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 100. gr. a og 100. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
                a.    (100. gr. a.)

Tilkynningar starfsmanna um brot í starfsemi.

                         Rekstraraðili og vörsluaðilar skulu hafa ferla til þess að taka við og fylgja eftir tilkynningum starfsmanna um brot, möguleg brot og tilraunir til brota á lögum þessum og stjórnvaldsfyrirmælum sem á þeim byggjast. Ferlarnir skulu vera aðskildir frá öðrum ferlum innan fyrirtækisins.
                         Einstaklingur sem tekur við tilkynningum skv. 1. mgr. og sér um vinnslu þeirra skal búa við sjálfstæði í störfum sínum. Tryggt skal að hann hafi nægilegt vald, fjárveitingar og heimildir til að afla gagna og upplýsinga sem honum eru nauðsynlegar til að hann geti sinnt skyldum sínum.
                         Vinnsla og meðferð persónuupplýsinga skal vera í samræmi við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
                         Seðlabanka Íslands er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd 1. og 2. mgr., þ.m.t. um viðtöku og vinnslu tilkynninga.
                b.    (100 gr. b.)

Vernd starfsmanns vegna tilkynningar um brot í starfsemi.

                         Þeir sem falið hefur verið að taka við tilkynningum skv. 100. gr. a og sjá um vinnslu þeirra eru bundnir þagnarskyldu um persónugreinanlegar upplýsingar sem koma fram í tilkynningunum. Þagnarskyldan gildir gagnvart öðrum starfsmönnum fyrirtækisins og einnig utanaðkomandi aðilum. Þó er heimilt að miðla upplýsingum sem lúta þagnarskyldu til Fjármálaeftirlitsins og til lögreglu.
                         Tilkynning starfsmanns um brot í starfsemi telst ekki brot á þagnarskyldu. Rekstraraðili og vörsluaðili skal vernda starfsmann sem í góðri trú hefur tilkynnt um brot skv. 100. gr. a gegn því að hann sæti skaðabótaskyldu eða misrétti sem rekja má til tilkynningar hans. Sama gildir um tilkynningar til Fjármálaeftirlitsins skv. 13. gr. a laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998.
                         Ef rekstraraðili eða vörsluaðili brýtur gegn skyldu sinni skv. 2. mgr. skal það greiða starfsmanni skaðabætur samkvæmt almennum reglum. Þetta tekur bæði til beins fjártjóns og miska.
                         Skyldur og réttindi samkvæmt þessari grein eru ófrávíkjanleg og óheimilt er að takmarka þau í ráðningarsamningi á milli starfsmanns og fyrirtækis.
                  ee.      Eftirfarandi breytingar verða á 101. gr. laganna:
                a.    Í stað „4.–6. mgr.“ í 3. tölul. 1. mgr. kemur: 4.–7. mgr.
                b.    Við 1. mgr. bætast þrír nýir töluliðir, svohljóðandi:
                    53.    67. gr. vegna grófra eða ítrekaðra brota á reglum sérhæfðra sjóða fyrir almenna fjárfesta.
                    54.    1. mgr. 100. gr. a um skyldu til að hafa ferla sem uppfylla skilyrði ákvæðisins.
                    55.    1. mgr. 100. gr. b um þagnarskyldu vegna tilkynningar um brot í starfsemi.
                c.    Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                         Þrátt fyrir 3. mgr. er heimilt að ákvarða einstaklingi eða lögaðila, sem brýtur gegn lögum þessum eða stjórnvaldsfyrirmælum settum á grundvelli þeirra, stjórnvaldssekt allt að tvöfaldri þeirri fjárhæð sem nemur fjárhagslegum ávinningi af broti.
                  ff.      Við 1. mgr. 111. gr. laganna bætist: og laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
                  gg.      Eftirfarandi breytingar verða á 114. gr. laganna:
                a.    Í stað orðanna „úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki“ í 1. mgr. kemur: úrskurðaraðila samkvæmt lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendamála.
                b.    2. mgr. fellur brott.
                c.    Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Úrskurðaraðilar.
                  hh.      Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 117. gr. laganna:
                a.    Í stað orðsins „fjármálafyrirtækja“ í 1. málsl. 2. tölul. kemur: rekstraraðila sérhæfðra sjóða.
                b.    Við bætast tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
                    11.    Hæfisskilyrði stjórnarmanna og framkvæmdastjóra, þar á meðal um hvað felst í fullnægjandi þekkingu, hæfni og reynslu, góðu orðspori og fjárhagslegu sjálfstæði, og um hvernig staðið skuli að hæfismati, sbr. 1. mgr. 14. gr.
                    12.    Starfskjarastefnu og kaupaukakerfi, sbr. 21. gr.
                  ii.      Við lögin bætast þrjú ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                a.    (IV.)
                         Hafi vörsluaðili sem uppfyllir ekki kröfur 33. gr. verið tilnefndur fyrir 1. júní 2021 skal rekstraraðili sérhæfðs sjóðs fyrir hönd sérhæfðs sjóðs tilnefna nýjan vörsluaðila eigi síðar en 31. desember 2021.
                b.    (V.)
                         Rekstraraðili sérhæfðra sjóða sem rekur sérhæfða sjóði fyrir almenna fjárfesta og vörsluaðili sjóðanna skulu uppfylla kröfur 2. mgr. 19. gr. um stjórnarmenn eigi síðar en 1. júní 2022.
                c.    (VI.)
                         Rekstraraðili sérhæfðra sjóða, sem rekur sjóð sem fengið hefur staðfestingu Fjármálaeftirlitsins á því að sjóðurinn lúti fjárfestingarheimildum og reglum X. kafla um fjárfestingarsjóði, skal eigi síðar en 1. janúar 2023 hafa uppfyllt ákvæði laga þessara um breytta hugtakanotkun og vísa til viðkomandi sjóðs þar sem við á sem sérhæfðs sjóðs fyrir almenna fjárfesta í stað fjárfestingarsjóðs.
     2.      Lög um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002:
                  a.      Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 1. gr. a laganna:
                a.    Í stað orðanna „verðbréfafyrirtæki eða rekstrarfélag verðbréfasjóða“ í 1. tölul. kemur: eða verðbréfafyrirtæki.
                b.    Á eftir orðunum „rekstraraðilar sérhæfðra sjóða“ í 17. tölul. kemur: rekstrarfélög verðbréfasjóða.
                  b.      7. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna fellur brott.
                  c.      7. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna fellur brott.
                  d.      Í stað orðanna „„verðbréfafyrirtæki“ og „rekstrarfélag verðbréfasjóðs““ í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur: og „verðbréfafyrirtæki“.
                  e.      Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. a laganna:
                a.    Í stað orðanna „staðbundins fyrirtækis og rekstrarfélags verðbréfasjóða“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: og staðbundins fyrirtækis.
                b.    6. mgr. fellur brott.
                c.    Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Stofnframlag verðbréfafyrirtækja og staðbundinna fyrirtækja.
                  f.      27. gr. laganna fellur brott, ásamt fyrirsögn.
                  g.      Orðin „og rekstrarfélög verðbréfasjóða“ í 4. mgr. 30. gr. laganna falla brott.
                  h.      Eftirfarandi breytingar verða á 84. gr. d laganna:
                a.    Orðin „og rekstrarfélags verðbréfasjóða“ í 1. og 3. málsl. falla brott.
                b.    Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Lágmarkskröfur hæfs fjármagns verðbréfafyrirtækis sem ber takmarkaðar starfsskyldur.
                  i.      1. málsl. 3. mgr. 84. gr. e laganna orðast svo: Áhættugrunnur verðbréfafyrirtækis sem ekki hefur starfsheimildir skv. c- og f-lið 1. tölul. 1. mgr. 25. gr. og verðbréfafyrirtækis sem ber takmarkaðar starfsskyldur og hefur starfsheimildir skv. b- og d-lið 1. tölul. 1. mgr. 25. gr. skal reiknaður sem sú fjárhæð sem hærri er samkvæmt eftirfarandi tveimur stafliðum.
                  j.      Í stað orðanna „eða rekstrarfélag verðbréfasjóða skv. 5., 6. eða 7. tölul.“ í 4. mgr. 86. gr. d laganna kemur: skv. 5. tölul.
                  k.      Í stað orðanna „eða rekstrarfélag verðbréfasjóða skv. 5., 6. eða 7. tölul.“ í 2. mgr. 86. gr. e laganna kemur: skv. 5. tölul.
                  l.      11. tölul. 1. mgr. 110. gr. laganna fellur brott.
     3.      Lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998: Á eftir orðinu „verðbréfasjóða“ í 7. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna kemur: sérhæfðra sjóða fyrir almenna fjárfesta.
     4.      Lög um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum, nr. 61/2017:
                  a.      Í stað orðanna „6. mgr. 14. gr. a laga um fjármálafyrirtæki“ í 2. málsl. 16. tölul. 2. gr. laganna kemur: 12. gr. laga um verðbréfasjóði.
                  b.      Í stað orðanna „6. mgr. 14. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002“ í 2. málsl. 3. mgr. 2. gr. I. kafla viðauka við lögin kemur: 12. gr. laga um verðbréfasjóði.
     5.      Lög um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga, nr. 7/2020: Orðin „fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði“ í 6. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna falla brott.
     6.      Lög um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991: Í stað tilvísunarinnar „7. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002“ í 9. tölul. 11. gr. laganna kemur: 1. mgr. 4. gr. laga um verðbréfasjóði.
     7.      Lög um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020: Á eftir orðunum „rekstraraðilar sérhæfðra sjóða“ í 16. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna kemur: rekstrarfélög verðbréfasjóða.
     8.      Lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018: Á eftir orðunum „rekstraraðilar sérhæfðra sjóða samkvæmt lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða“ í a-lið 1. mgr. 2. gr. laganna kemur: rekstrarfélög verðbréfasjóða samkvæmt lögum um verðbréfasjóði.
     9.      Lög um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu, nr. 20/2021: Í stað „44. gr.“ í 2. mgr. 27. gr. laganna kemur: 103. gr.
     10.      Lög um lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta: Á eftir 1. mgr. 18. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Þrátt fyrir 1. mgr. skulu rekstrarfélög verðbréfasjóða og rekstraraðilar sérhæfðra sjóða fyrir almenna fjárfesta skv. X. kafla laga nr. 45/2020 og aðilar sem veita ráðgjöf um eða selja hluti og/eða hlutdeildarskírteini verðbréfasjóðs eða sérhæfðs sjóðs fyrir almenna fjárfesta skv. X. kafla laga nr. 45/2020 vera undanþegin gildissviði laganna til 31. desember 2021.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

    Rekstrarfélag verðbréfasjóða skal uppfæra reglur verðbréfasjóða og upplýsingar og gögn sjóðanna skv. VII. kafla án tafar og eigi síðar en 1. janúar 2022.

II.

    Hafi vörsluaðili sem uppfyllir ekki kröfur 44. gr. verið tilnefndur fyrir gildistöku laga þessara skal rekstrarfélag fyrir hönd verðbréfasjóðs tilnefna nýjan vörsluaðila eigi síðar en 31. desember 2021.