Ferill 804. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Nr. 30/151.

Þingskjal 1799  —  804. mál.


Þingsályktun

um rannsókn á aðbúnaði og meðferð fullorðins fatlaðs fólks með þroskahömlun og fullorðinna með geðrænan vanda.


    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að skipa þriggja manna nefnd. Í nefndinni skuli eiga sæti fulltrúi frá forsætisráðuneyti, reyndur sérfræðingur sem hafi þekkingu á framkvæmd og framsetningu rannsókna og fulltrúi sem Landssamtökin Geðhjálp og Landssamtökin Þroskahjálp tilnefni sameiginlega. Nefndin framkvæmi úttekt þar sem safnað verði ítarlegum upplýsingum um starfsemi vistheimila fyrir fullorðið fatlað fólk með þroskahömlun og fullorðna með geðrænan vanda. Sérstök áhersla verði lögð á aðbúnað og meðferð vistmanna á nýliðnum árum allt til dagsins í dag. Nefndin greini kosti og galla við tvær rannsóknarleiðir, annars vegar rannsókn stjórnsýslunefndar á vegum Stjórnarráðsins og hins vegar rannsókn rannsóknarnefndar í samræmi við lög um rannsóknarnefndir, nr. 68/2011.
    Nefndin skili niðurstöðum sínum til forsætisráðherra eigi síðar en 1. desember 2021 þar sem fram komi tillögur um umfang formlegrar rannsóknar á aðbúnaði og meðferð framangreindra hópa á vistheimilum, um tímabilið sem slík rannsókn næði til og um rannsóknarspurningar.
    Forsætisráðherra flytji Alþingi skýrslu um niðurstöður nefndarinnar og geri tillögu um fyrirkomulag rannsóknar sem hefjast skuli vorið 2022.

Samþykkt á Alþingi 12. júní 2021.