Ferill 869. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1801  —  869. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á kosningalögum sem samþykkt voru á Alþingi 13. júní 2021 (nefnd um undirbúning framkvæmdar laganna).

Flm.: Birgir Ármannsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Halldóra Mogensen, Hanna Katrín Friðriksson, Oddný G. Harðardóttir, Willum Þór Þórsson.


1. gr.

    1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða III í lögunum fellur brott.

2. gr.

    Á eftir ákvæði til bráðabirgða III í lögunum kemur nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 143. gr. skal ráðherra skipa nefnd þriggja manna sem falið verði að vinna að undirbúningi framkvæmdar laganna. Forsætisnefnd Alþingis tilnefnir einn nefndarmann og skal hann vera formaður, Samband íslenskra sveitarfélaga einn og ráðherra einn án tilnefningar. Nefndin skal starfa þar til Alþingi hefur kosið fulltrúa í landskjörstjórn og ráðherra hefur skipað landskjörstjórn skv. 12. gr.

3. gr.

    Í stað orðanna „landskjörstjórn sem skipuð er samkvæmt ákvæði til bráðabirgða III“ í 1. málsl. ákvæðis til bráðabirgða IV í lögunum kemur: nefnd samkvæmt ákvæði til bráðabirgða IV.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða V í lögunum:
     a.      Í stað orðsins „Landskjörstjórn“ kemur: Nefnd samkvæmt ákvæði til bráðabirgða IV.
     b.      Í stað orðanna „skal landskjörstjórn samkvæmt ákvæði til bráðabirgða III“ kemur: skal nefnd samkvæmt ákvæði til bráðabirgða IV.

5. gr.

    Lög þessi taka þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til þær breytingar á nýsamþykktum kosningalögum að nefnd verði falið að vinna að undirbúningi framkvæmdar laganna en ekki nýskipaðri landskjörstjórn eins og kveðið er á um í hinum nýsamþykktu lögum. Betur fer á því að Alþingi kjósi nýja landskjörstjórn að afloknum alþingiskosningum.