Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1804, 151. löggjafarþing 716. mál: grunnskólar og framhaldsskólar (fagráð eineltismála).
Lög nr. 102 25. júní 2021.

Lög um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, og lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008 (fagráð eineltismála).


I. KAFLI
Breyting á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008.

1. gr.

     2. málsl. 4. mgr. 30. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

     Á eftir 30. gr. laganna kemur ný grein, 30. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Fagráð eineltismála.
     Ráðherra skipar fagráð eineltismála sem starfar á grunn- og framhaldsskólastigi. Fagráðið skal skipað þremur aðalmönnum og þremur varamönnum sem hafa þekkingu, menntun og reynslu sem nýtist við ráðgjöf og úrlausn mála. Ráðherra er heimilt að fela Menntamálastofnun eða öðrum aðilum að annast umsýslu fagráðsins.
     Hlutverk fagráðs eineltismála er að:
  1. vera stuðningsaðili við skólasamfélagið, sem m.a. getur falist í almennri ráðgjöf, leiðbeiningum eða upplýsingagjöf,
  2. ná ásættanlegri úrlausn í eineltismálum og gefa út ráðgefandi álit þar að lútandi á grundvelli þeirra gagna og upplýsinga sem ráðinu berast um hvert og eitt mál.

     Fagráði eineltismála er heimil vinnsla persónuupplýsinga, þar á meðal viðkvæmra persónuupplýsinga skv. b-lið 3. tölul. 3. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, að því marki sem slík vinnsla telst nauðsynleg vegna starfsemi og hlutverks fagráðsins samkvæmt lögum þessum og reglum settum með stoð í þeim. Um vinnslu persónuupplýsinga samkvæmt lögum þessum fer eftir lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Fagráði eineltismála ber að upplýsa málsaðila skriflega um fyrirhugaða upplýsingaöflun samkvæmt ákvæði þessu í samræmi við 2. mgr. 17. gr. sömu laga, sbr. 14. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679.
     Um aðgang að gögnum hjá fagráði eineltismála fer eftir ákvæðum stjórnsýslulaga og upplýsingalaga. Fagráðið getur þó með rökstuddri ákvörðun takmarkað aðgang aðila að tilteknum gögnum ef það telur þau geta skaðað hagsmuni barns eða samband þess við aðra. Fagráðið getur einnig ákveðið að aðilar og lögmenn þeirra geti kynnt sér skjöl og önnur gögn án þess að þau eða ljósrit af þeim séu afhent.
     Ráðherra setur reglur um starfsemi fagráðs eineltismála. Þar skal m.a. fjallað um hlutverk fagráðsins, starfshætti, hvernig málum er vísað til fagráðsins, meðferð upplýsinga og gagna, skipunartíma og þóknun. Haft skal samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga um þann hluta sem snýr að grunnskólum.

II. KAFLI
Breyting á lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008.

3. gr.

     2. málsl. 6. mgr. 33. gr. b laganna fellur brott.

4. gr.

     Á eftir 33. gr. b laganna kemur ný grein, 33. gr. c, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Fagráð eineltismála.
     Ráðherra skipar fagráð eineltismála sem starfar á grunn- og framhaldsskólastigi. Fagráðið skal skipað þremur aðalmönnum og þremur varamönnum sem hafa þekkingu, menntun og reynslu sem nýtist við ráðgjöf og úrlausn mála. Ráðherra er heimilt að fela Menntamálastofnun eða öðrum aðilum að annast umsýslu fagráðsins.
     Hlutverk fagráðs eineltismála er að:
  1. vera stuðningsaðili við skólasamfélagið, sem m.a. getur falist í almennri ráðgjöf, leiðbeiningum eða upplýsingagjöf,
  2. ná ásættanlegri úrlausn í eineltismálum og gefa út ráðgefandi álit þar að lútandi á grundvelli þeirra gagna og upplýsinga sem ráðinu berast um hvert og eitt mál.

     Fagráði eineltismála er heimil vinnsla persónuupplýsinga, þar á meðal viðkvæmra persónuupplýsinga skv. b-lið 3. tölul. 3. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, að því marki sem slík vinnsla telst nauðsynleg vegna starfsemi og hlutverks fagráðsins samkvæmt lögum þessum og reglum settum með stoð í þeim. Um vinnslu persónuupplýsinga samkvæmt lögum þessum fer eftir lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Fagráði eineltismála ber að upplýsa málsaðila skriflega um fyrirhugaða upplýsingaöflun samkvæmt ákvæði þessu í samræmi við 2. mgr. 17. gr. sömu laga, sbr. 14. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679.
     Um aðgang að gögnum hjá fagráði eineltismála fer eftir ákvæðum stjórnsýslulaga og upplýsingalaga. Fagráðið getur þó með rökstuddri ákvörðun takmarkað aðgang aðila að tilteknum gögnum ef það telur þau geta skaðað hagsmuni barns eða samband þess við aðra. Fagráðið getur einnig ákveðið að aðilar og lögmenn þeirra geti kynnt sér skjöl og önnur gögn án þess að þau eða ljósrit af þeim séu afhent.
     Ráðherra setur reglur um starfsemi fagráðs eineltismála. Þar skal m.a. fjallað um hlutverk fagráðsins, starfshætti, hvernig málum er vísað til fagráðsins, meðferð upplýsinga og gagna, skipunartíma og þóknun.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 12. júní 2021.