Ferill 690. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
Lögum breytingu á lögum um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017 (tímabundnir gestaflutningar og fargjaldaálag).


________
1. gr.

    Við 3. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Tímabundnir gestaflutningar í farþegaflutningum: Óreglulegir farþegaflutningar á vegum innan lands gegn gjaldi sem flytjandi, sem hefur staðfestu í ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, starfrækir í öðru aðildarríki á grundvelli bandalagsleyfis í allt að tíu samfellda daga í hverjum almanaksmánuði.

2. gr.

    Á eftir 11. gr. laganna kemur ný grein, 11. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Tímabundnir gestaflutningar í farþegaflutningum.

    Flytjanda sem hefur staðfestu í ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið er heimilt að starfrækja tímabundna gestaflutninga í farþegaflutningum hér á landi enda sé flytjandi handhafi bandalagsleyfis sem útgefið er í staðfesturíki. Flytjandi skal tilgreina í akstursskrá sem geymd er í ökutæki það tímabil innan almanaksmánaðar sem hann hyggst stunda tímabundna gestaflutninga á. Ef aksturstímabil nær yfir mánaðamót eða ef því lýkur við mánaðamót skulu hið minnsta tveir virkir dagar líða frá lokum aksturstímabils þar til flytjandi hefur akstur á nýju tímabili. Afrit af akstursskrá skal afhent tollgæslu til varðveislu.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða nánar á um skilyrði fyrir framkvæmd tímabundinna gestaflutninga í farþegaflutningum hér á landi, þar á meðal um innihald akstursskrár og önnur skjöl og gögn sem geymd skulu í ökutæki sem notað er til umræddra flutninga.

3. gr.

    Við 1. mgr. 22. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Um endurskoðun fargjaldaálags fer eftir ákvæðum 30. gr. a.

4. gr.

    Við 1. mgr. 29. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá er lögreglu heimilt að fyrirskipa kyrrsetningu ökutækis sem notað er við tímabundna gestaflutninga fari flutningur fram utan tímabils sem tilgreint er í akstursskrá eða ef flutningur er ekki í samræmi við 11. gr. a að öðru leyti.

5. gr.

    Á eftir 6. tölul. 1. mgr. 30. gr. laganna kemur nýr töluliður, svohljóðandi: 11. gr. a um tímabundna gestaflutninga í farþegaflutningum.

6. gr.

    Á eftir 30. gr. laganna kemur ný grein, 30. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Fargjaldaálag.

    Farþega í almenningssamgöngum ber að framvísa farmiða eða sýna á annan hátt fram á greiðslu rétts fargjalds óski starfsmaður á vegum flytjanda eftir því. Farþega ber einnig að framvísa skilríkjum eða gera grein fyrir sér á annan fullnægjandi hátt óski starfsmaður á vegum flytjanda eftir því til að kanna hvort rétt fargjald hafi verið greitt eða vegna innheimtu fargjaldaálags, sbr. 2. mgr.
    Geti farþegi í almenningssamgöngum ekki sýnt fram á greiðslu rétts fargjalds þegar eftir því er leitað er flytjanda heimilt að krefja hann um fargjaldaálag. Fargjaldaálag getur numið allt að 30.000 kr. hverju sinni en fjárhæð þess skal taka hlutfallslegt mið af því fargjaldi sem farþega hefði borið að greiða. Sé fargjaldaálag greitt innan 14 daga er heimilt að lækka það um 50%. Gera má fjárnám til tryggingar greiðslu fargjaldaálags án undangengins dóms eða sáttar.
    Nánari ákvæði um hvernig fargjaldaálag er lagt á, fjárhæð þess og innheimtu skulu koma fram í sérstökum reglum flytjanda sem staðfestar eru af ráðherra og birtar í B-deild Stjórnartíðinda. Fargjaldaálag rennur til flytjanda.
    Telji farþegi að ákvörðun um að krefja hann um fargjaldaálag hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik getur hann óskað eftir því að flytjandi taki hana til endurskoðunar. Ósk um endurskoðun skal berast flytjanda innan þriggja mánaða frá því að farþegi var krafinn um gjaldið og skal ákvörðun flytjanda liggja fyrir innan þriggja mánaða frá því að ósk um endurskoðun berst. Ákvörðun flytjanda má kæra til Samgöngustofu og gilda málsmeðferðarreglur VII. kafla stjórnsýslulaga um slíkar kærur. Úrskurðir Samgöngustofu samkvæmt þessari grein eru endanlegir á stjórnsýslustigi.
    Reglur um fargjaldaálag skulu vera farþegum sýnilegar um leið og stigið er upp í farartæki og kynntar sérstaklega í öllum samgöngumiðstöðvum, á vef flytjanda og á biðstöðvum þar sem því verður við komið.
    Flytjanda er heimil nauðsynleg vinnsla persónuupplýsinga vegna álagningar og innheimtu fargjaldaálags samkvæmt þessari grein að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og reglum settum á grundvelli þeirra.

7. gr.

    Við 1. málsl. 33. gr. laganna bætist: sbr. þó 4. mgr. 30. gr. a.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi._____________Samþykkt á Alþingi 13. júní 2021.