Ferill 824. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1835  —  824. mál.
Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um niðurstöður barnaþings.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig hefur verið brugðist við niðurstöðum barnaþings sem afhentar voru ríkisstjórninni 8. maí 2020? Hvaða aðgerðum hefur verið hrint í framkvæmd og hverjum ekki?

    Í samræmi við breytingar sem gerðar voru árið 2019 á lögum um umboðsmann barna, nr. 83/1994, var barnaþing haldið í fyrsta skipti árið 2019. Samkvæmt ákvæðum 6. gr. a í lögunum skal slíkt þing haldið annað hvert ár Niðurstöðum þingsins sem haldið var árið 2019 var komið á framfæri við ráðherra af hálfu umboðsmanns barna í maí 2020.
    Embætti umboðsmanns barna er ætlað að halda þing um málefni barna og skal þar farið yfir stöðu og þróun í málefnum barna á helstu sviðum samfélagsins. Hugmyndin er að á þinginu gefist tækifæri fyrir samræðu á milli barna og valdhafa og er þannig gert ráð fyrir að það feli í sér samráð við ríkisvaldið að því er varðar mál sem snerta hagsmuni barna. Þannig er barnaþing vettvangur fyrir börn til að láta í ljós sjónarmið um málefni sem þeim finnst skipta máli. Umboðsmaður barna fylgir tillögum og hugmyndum þingsins eftir við stjórnvöld.
    Á þinginu 2019 komu fram hugmyndir og sjónarmið sem snerta fjölmörg svið þjóðfélagsins, t.a.m. um plastnotkun, hjólastíga, móttöku flóttafólks og áherslur í skattamálum. Líkt og fram kemur í niðurstöðum barnaþings 2019, sem birtar eru á vef umboðsmanns barna, stendur til að gera sérstaklega grein fyrir því á næsta barnaþingi, sem haldið verður í nóvember 2021, með hvaða hætti sjónarmið frá barnaþingi 2019 hafa haft áhrif á stefnumótun stjórnvalda. Upplýsingaöflun sú sem fyrirspurnin kallar á stendur yfir og ekki er unnt að svara henni efnislega á Alþingi á yfirstandandi löggjafarþingi.