Ferill 551. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1840  —  551. mál.
Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Þór Gunnarssyni um heimilisuppbót og sérstaka uppbót almannatrygginga og aldurstakmörk námsmanna.

    


     1.      Hversu margir einstaklingar, sem fá greiðslur almannatrygginga vegna örorku, missa árlega heimilisuppbót eða sérstaka uppbót, sbr. 8. gr. og 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, vegna ungmenna á framfæri þeirra sem hafa ekki lokið framhaldsskólanámi og eru áfram í virku námi en uppfylla ekki lengur aldursskilyrði 1. málsl. 2. mgr. 7. gr. reglugerðar um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri, nr. 1200/2018?
    Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um félagslega aðstoð er heimilt að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem býr einn og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað, sbr. einnig 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 1200/2018, um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar teljast einstaklingar sem eru skráðir með sama lögheimili og eru eldri en 18 ára að jafnaði hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum hver við annan. Í 2. mgr. 7. gr. eru þó heimilaðar tvær undantekningar frá þeirri meginreglu, annars vegar þegar heimilismaður er á aldrinum 18–20 ára og í fullu námi, en þá skulu aðrir heimilismenn ekki teljast hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum við hann, og hins vegar skal einstaklingur sem er á aldrinum 20–25 ára og stundar nám fjarri lögheimili sínu ekki teljast hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum við aðra einstaklinga á skráðu lögheimili sínu og öfugt ef hann hefur sannarlega tímabundið aðsetur annars staðar.
    Tilgangur þeirrar undanþágu sem fram kemur í 2. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar er að leitast við að jafna tækifæri til náms en það var eitt af stefnumálum ríkisstjórnarinnar. Það er meginregla að framfærsluskylda foreldra með börnum fellur niður við 18 ára aldur og þegar þeim aldri er náð eiga þau sjálfstæðan rétt til framfærslu, eftir atvikum með aðstoð ríkis og sveitarfélaga. Markmiðið er að auðvelda ungmennum sem búa á heimili lífeyrisþega að ljúka framhaldsskólaprófi sem jafnan er ekki lánshæft, auk þess sem tryggt er að skráning ungmennis sem stundar nám fjarri heimili hjá foreldri hafi ekki áhrif á heimilisuppbót foreldris sem er lífeyrisþegi. Fyrir gildistöku reglugerðar nr. 1200/2018 voru ekki heimilaðar neinar undanþágur frá því skilyrði að lífeyrisþegar fengju því aðeins heimilisuppbót að þeir væru einir um heimilisrekstur, þ.e. að enginn fullorðinn byggi á sama heimili. Rétt er að taka fram að ekki er gerður greinarmunur á því hvort ungmennið sem deilir heimili með lífeyrisþega sé í framhaldsskólanámi eða háskólanámi.
    Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins hefur heimilisuppbót fallið niður hjá þremur til átta örorkulífeyrisþegum á ári síðastliðin fimm ár þegar ungmenni sem bjó hjá þeim varð 20 ára.
    Rétt er að benda á að aðrar ástæður kunna einnig að hafa leitt til þess heimilisuppbót fellur niður hjá örorkulífeyrisþegum, t.d. ef tekjur þeirra hafa hækkað eða þeir hefja sambúð með öðrum.
    Loks skal bent á að búseta barna eða ungmenna á heimili hefur ekki áhrif á sérstaka uppbót skv. 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð.

     2.      Hversu háar heildarupphæðir árlega er um að ræða að falli niður hjá Tryggingastofnun ríkisins vegna þessa?
    Ekki liggja fyrir upplýsingar um það hversu margir framhaldsskólanemar yfir 20 ára aldri búa á heimilum öryrkja sem hefðu hugsanlega fengið heimilisuppbót hefðu þeir ekki verið taldir njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra eins og kveðið er á um í reglugerð nr. 1200/2018.
    Leitast var við að nálgast þessar upplýsingar með því að skoða hversu mörg ungmenni á aldrinum 20–25 ára sem áður höfðu fengið barnalífeyri væru skráð á sama lögheimili og foreldri sem er örorkulífeyrisþegi og hafði áður fengið heimilisuppbót.
    Í marsmánuði 2021 voru 13 ungmenni á aldrinum 20–25 ára skráð með sama lögheimili og foreldri sem er örorkulífeyrisþegi. Væru þessi ungmenni öll í námi, undanþága reglugerðar um framfærsluuppbót næði til þeirra og foreldri uppfyllti að öðru leyti skilyrði til þess að fá greidda framfærsluuppbót má áætla að árlegur viðbótarkostnaður TR vegna heimilisuppbótar til foreldra gæti numið allt að 8.415.888 kr.
    Rétt er að taka fram að ekki liggja fyrir neinar upplýsingar um það hversu mörg ungmenni myndu búa áfram hjá foreldrum sínum í stað þess að flytja burt af heimilinu væri þessum reglum breytt.

     3.      Hefur ráðuneytið upplýsingar um stöðu þessara ungmenna innan námskerfisins?
    Innan Velferðarvaktarinnar hefur verið rætt og bent á að ungmenni af tekjulágum heimilum geti flosnað upp úr námi í kjölfar þess að uppbæturnar falla niður. Velferðarvaktin lætur nú, í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið, vinna skýrslu um brotthvarf og námstafir á framhaldsskólastigi. Verkefnið snýst um greiningu gagna frá Hagstofu Íslands og mennta- og menningarmálaráðuneytinu er varða brotthvarf og námstafir á framhaldsskólastigi þar sem horft verður til félagslegs og efnahagslegs bakgrunns nemenda ásamt námsárangri á grunnskólastigi með það fyrir augum að kortleggja þætti sem spá fyrir um brotthvarf og námstafir. Áætlað er að skýrslan verði tilbúin á næstu vikum.

     4.      Hafa komið upp vísbendingar að þessi ungmenni flosni upp úr námi vegna erfiðleika fjölskyldna þeirra við að styðja þau í kjölfar þess að uppbæturnar falla niður?
    Ráðuneytinu hafa að undanförnu borist erindi þar sem bent er á að auka mætti frekar jafnræði til náms með því að víkka út þær undanþágur í reglugerð um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri sem lýst er hér að framan og gera með því foreldrum sem búa við lítil efni fært að styðja börn sín til náms. Í þeim erindum hefur verið bent á að reglurnar um heimilisuppbót séu til þess fallnar að skerða möguleika ungmenna fatlaðra foreldra sem njóta heimilisuppbótar til þess að afla sér háskólamenntunar.

     5.      Hefur ráðuneytið verið í samstarfi við menntamálayfirvöld vegna þessara ungmenna?
    Já, sú skýrsla sem vísað er til í svari við 3. tölul. fyrirspurnarinnar er unnin í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið.

     6.      Telur ráðherra rétt að endurskoða lög og reglugerðir með það fyrir augum að tryggja stuðning við þessar fjölskyldur og einstaklinga þannig að þau njóti áfram stuðnings þar til ungmennin ljúka námi í framhaldsskóla?
    Þær breytingar sem voru gerðar með reglugerð nr. 1200/2018 og lýst er hér að framan miðuðu að því að ungmenni nytu áfram stuðnings þar til þau hefðu lokið framhaldsskólanámi en miðað var við 20 ára aldur. Í kjölfar erinda sem hafa borist að undanförnu varðandi stöðu ungmenna sem búa á heimili með öryrkja sem hefur fengið heimilisuppbót hefur ráðherra undirritað breytingu á reglugerðinni þess efnis að þeir örorkulífeyrisþegar sem halda heimili með ungmenni á aldrinum 18–25 ára sem er í fullu námi geti fengið greidda heimilisuppbót áfram gegn því að framvísa vottorði um skólavist ungmennis.