Ferill 736. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1851  —  736. mál.
Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Guðmundi Andra Thorssyni um stofnun þjóðaróperu.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur nefnd sem skipuð var af ráðherra 17. nóvember 2020 og falið að kanna og vinna tillögur um stofnun þjóðaróperu á Íslandi komist að niðurstöðu? Ef svo er, hverjar voru tillögurnar og hyggst ráðherra hrinda þeim í framkvæmd?

    Þann 17. nóvember 2020 skipaði ráðherra nefnd til að kanna og vinna tillögur um stofnun þjóðaróperu á Íslandi. Ekki náðist einróma niðurstaða í vinnu nefndarinnar og því skilaði hún tveimur greinargerðum. Fulltrúar ráðuneyta í nefndinni tóku ekki afstöðu til tillagnanna. Skýrslan Þjóðarópera: Uppspretta nýsköpunar úr jarðvegi hefðar hefur að geyma tillögur meiri hluta og minni hluta, auk ályktana sem nefndinni bárust.
    Tillaga meirihlutans er að lagt verði fram frumvarp til breytingar á lögum um sviðslistir og stofnun þjóðaróperu lögfest í þeim tilgangi að gera að veruleika nýjan starfsvettvang fyrir söngvara og hljómlistarmenn, tónskáld og textasmiði, og annað listafólk sem sinna kann óperulistinni sem alltof lengi hefur verið hornreka í íslensku menningarlífi.
    Í starfi nefndarinnar komu fram hugmyndir um samstarf sviðslista- og tónlistarstofnana ríkisins á ýmsum sviðum, svo sem með sameiginlegu búningasafni, sameiginlegum rekstri saumastofa og smíðaverkstæða, rekstri á geymslum, skipulögðu fræðslustarfi fyrir grunnskólabörn, samstarfi í markaðsstarfi, sameiningu launafulltrúa og gjaldkera, samstarfi í framleiðslu verkefna og sýningarferðum og þjónustu vegna þeirra.
    Innan mennta- og menningarmálaráðuneytis er nú unnið að mati á umfangi og að kostnaðargreina tillögur um þjóðaróperu. Ráðgert er að áform um mögulegar breytingar á sviðslistalögum og afrakstur þeirrar greiningarvinnu geti legið fyrir í árslok 2021.