Ferill 897. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1880  —  897. mál.
Fyrirspurn


til fjármála- og efnahagsráðherra um undanþágur frá sköttum.

Frá Sigríði Á. Andersen.


     1.      Hve háum fjárhæðum námu undanþágur frá sköttum, þ.e. hvers kyns niðurfelling eða endurgreiðsla á vörugjöldum, olíugjaldi og kolefnisgjaldi að viðbættum virðisaukaskatti, vegna innflutnings á lífeldsneyti á borð við etanól og lífdísil á árinu 2020? Hvaða tegundir lífeldsneytis voru fluttar til landsins árið 2020? Hver er kostnaður ríkissjóðs við ívilnun á hvert tonn CO2 sem þessi aðgerð er talin draga úr losun á?
     2.      Hvað má gera ráð fyrir að muni á innkaupsverði rafbíla (hreinna rafbíla og tengitvinnbíla) á árinu 2020 og bíla af sömu/svipaðri stærð og gerð með sprengihreyfli? Hve háum fjárhæðum nema undanþágur frá sköttum, þ.e. hvers kyns niðurfelling eða endurgreiðsla á vörugjöldum, virðisaukaskatti og bifreiðagjöldum vegna rafbíla á árinu 2020 í samanburði við bíla af sömu/svipaðri stærð og gerð með sprengihreyfli? Hver er kostnaður ríkissjóðs við ívilnun á hvert tonn CO2 sem þessi aðgerð er talin draga úr losun á?
     3.      Liggur fyrir mat á því hvort lítill bensínbíll sem ber veruleg opinber gjöld (vörugjöld, virðisaukaskatt og bifreiðagjöld) hafi meiri eða minni losun CO2 í för með sér frá upphafi framleiðslu til enda notkunar en stór rafbíll sem ber nær engin slík gjöld?
     4.      Hver er kostnaður við samdrátt í losun (kr./tonn CO2) með framangreindum aðgerðum í samanburði við þær leiðir til bindingar og samdráttar í losun CO2 sem íslensk félög á borð við Kolvið og Votlendissjóð bjóða?


Skriflegt svar óskast.